Hver kjósandi fær atkvæði til umráða. Þau eru lögð í reikning hans, í sjóð hans, jafnmörg vegna hvers máls, sem tekið er fyrir til afgreiðslu.
Hver kjósandi veðjar mismörgum atkvæðum í máli, mörgum í máli, sem hann telur mikilvægt, engu í máli, sem hann lætur sig engu varða.
Í hverju máli geta verið tvö eða fleiri afbrigði. Kjósandinn metur fyrst, hversu mörgum atkvæðum hann vill veðja til þess, að það afbrigði, sem hann telur best, verði kosið frekar en það, sem hann vill síst. Eins fer hann með hin afbrigðin.
Það afbrigði, sem flestum atkvæðum er veðjað á, sigrar.
Af þeim, sem stóðu að sigrinum, eru dregin jafnmörg atkvæði og andstæðingar þess afbrigðis veðjuðu. Mál, sem allir fagna, kostar því ekki neitt atkvæði.
Hér er tekið dæmi, þar sem mál er lagt fyrir og þátttakendur meta mikilvægi þess eftir því sem þeir vita eða búast við að komi á næstunni. Á þann hátt tengir sjóðval mál saman.
Tveir kostir eru í málinu, A og B. Veðjað er 20 atkvæðum á A og 10 á B. Draga skal 10 atkvæði af þeim, sem veðjuðu á A. Af atkvæðunum 20, sem A fékk, hafði Hallgerður veðjað 6. Af henni eru dregin 6x10/20=3 atkvæði. |
- Flest mál eru þannig vaxin að í þeim eru fleiri en tveir kostir. Það truflar ekki sjóðval að hafa fleiri en tvö afbrigði.
- Það er ekki svo, að þátttakandi skipti atkvæðum, sem hann á í sjóði, á milli afbrigða, hann greiðir aðeins fyrir atbeina að einu afbrigðinu, því sem fær flest atkvæði. Einungis eru dregin af þátttakanda atkvæði, ef hann stendur að niðurstöðu málsins.
- Í upphafi sjóðvals fær hver þátttakandi ákveðna tölu atkvæða. Síðan fær hann 1/4 þeirrar atkvæðatölu í sjóð sinn, þegar hverju máli lýkur.
Helga á 50 atkvæði í sjóði. Til afgreiðslu er mál með fjórum afbrigðum, A, B, C og D. Hún býður atkvæði með eftirfarandi hætti: A 0 atkvæði B 10 atkvæði C 40 atkvæði D 30 atkvæði Einungis eitt þessara afbrigða getur kostað Helgu atkvæði. D fékk flest atkvæði, 120. Nú þarf að reikna kostnað Helgu við niðurstöðuna. Það gerist best í tölvuforriti, en er reyndar ekki flókin stærðfræði, reikningsaðferðin er kynnt í grein III.A í bókinni Lýðræði með raðvali og sjóðvali. |
- Þátttakendur verða ábyrgir í afstöðu sinni á þann hátt, að hver og einn lýsir, hverju hann vill kosta til (í atkvæðum), til að einstök afbrigði málsins nái fram að ganga.
Þátttakandi, sem heldur, að óskaafbrigði hans fái lítinn stuðing, þarf ekki að láta það aftra sér frá því að bjóða flest atkvæði fyrir það. Hann getur nefnilega um leið boðið atkvæði á afbrigði, sem hann telur, að njóti almenns stuðnings, og unnið þannig að því, að eitthvert þeirra, sem hann telur viðunandi, verði samþykkt frekar en það, sem hann vill síst.
Þeir, sem halda sig lítinn minnihluta að höfðatölu í máli, sem ekki hefur verið flutt, geta látið á það reyna í sjóðvali, hvort áhugaleysi eða andstaða meirihlutans vegur minna í atkvæðum en eiginn áhugi og stuðningur.