Í því hefti, sem Samvinnan helgaði samvinnuhreyfingunni á liðnu vori, var enginn höfunda úr hópi trúnaðarmanna þeirra samvinnufélaga, sem helst er talið koma til greina, að verði lögð niður og sameinuð stærri félögum. Sjónarmið þess fólks í þessum samvinnufélögum, sem er andvígt samruna við stærri félög, eru ekki skýrð í heftinu af því sjálfu.

 

Ég var ókunnugur þessum málum í vor, þegar ég las Samvinnuna, en kynntist einu samrunamáli í sumar í Fnjóskadal á leið austur á land og enn betur á leið að austan í haust, en þá hitti ég í Lokastaðarétt formann og tvo aðra stjórnarmenn Kaupfélags Svalbarðseyrar, og síðar hitti ég kaupfélagsstjórann að máli. Ég vil nú lýsa samrunamálinu á Svalbarðseyri, fyrst starfsemi félagsins, síðan viðhorfi stjórnar Sambands íslenskra samvinnufélaga til félagsins, viðhorfi stjórnar félagsins og að lokum túlkun minni á viðskiptum stjórnar Sambandsins og kaupfélagsins. Hugmyndin er að greinin geti varpað nokkru ljósi á samrunahreyfinguna almennt.

Kaupfélag Svalbarðseyrar nær yfir Svalbarðsstrandarhrepp, Grýtubakkahrepp, Hálshrepp, suðurhluta Ljósavatnshrepps, Bárðdælahrepp og Reykdælahrepp vestan Fljótsheiðar. Félagsmenn eru rúm þrjú hundruð. Félagið hefur aðalverslun sína á Svalbarðseyri, en rekur útibú á Lómatjörn, við Fnjóskárbrú og hjá Fosshóli. Á Svalbarðseyri rekur félagið sláturhús og hefur kartöflugeymslu. Þeir félagsmenn, sem hafa mjólkursölu, senda mjólk sína í mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri og í mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga á Húsavík og eru um leið félagsmenn þessara kaupfélaga. Þeir mjólkurbílar, sem fara til Akureyrar, koma við á verslunarstöðum Kaupfélags Svalbarðseyrar á heimleið og taka varning þar, en sumt taka þeir á Akureyri. Verslunarsvæðin renna svo saman, að Kaupfélag Eyfirðinga hefur útibú og sláturhús á Grenivík yst í Grýtubakkahreppi. Verslunarhúsin á Svalbarðseyri og á Fosshóli eru ný að kalla. Sláturhúsið er frá 1958, en frystihús sláturhússins er eldra. Á Svalbarðseyri bjuggu í fyrravetur 66 manns, sem byggja afkomu sína nær einvörðungu á vinnu við kaupfélagið. Rekstur félagsins hefur gengið vel þar til árið 1967, en þá var nokkur halli. Ég spurðist ekki fyrir um, hvort hallinn væri hlutfallslega meiri en hjá öðrum kaupfélögum.

Í mars síðastliðnum fékk formaður stjórnar Kaupfélags Svalbarðseyrar bréf frá Helga Bergs fyrir hönd stjórnar Sambandsins, þar sem bent var á, að viðskipti við kaupfélagið hefðu ekki aukist undanfarið að sama skapi og veltan hjá nágrannafélögunum á Akureyri og á Húsavík. Því var haldið fram í bréfinu, að við því væri að búast, að Kaupfélag Svalbarðseyrar lenti í rekstrarörðugleikum vegna nýrra verslunarhátta, og því mælti stjórn Sambandsins með því, að Kaupfélag Svalbarðseyrar sameinaðist Kaupfélagi Eyfirðinga. Stjórn kaupfélagsins svaraði stjórn Sambandsins í maí og var einhuga í því að vísa tilmælum um að leggja félagið niður á bug.

Í sumar kom Helgi Bergs framkvæmdastjóri Tæknideildar Sambandsins norður og hitti stjórnarmenn að máli hvern fyrir sig, en ekki sameiginlega, og taldi þá á að leggja félagið niður og láta Kaupfélag Eyfirðinga taka við. Honum varð ekki ágengt í þeirri ferð. Helgi Bergs og stjórn Sambandsins rökstyðja mál sitt með því, að með greiðari samgöngum beini fólk vörukaupum sínum meira til stærri staða, til Akureyrar og Húsavíkur, þar sem vöruúrvalið er meira, og þangað selji bændur mjólk sína. Í landsáætlun um byggingu sláturhúsa sé einnig gert ráð fyrir, að sláturhúsin á Svalbarðseyri, á Dalvík og á Grenivík verði lögð niður og öllu fé slátrað á Akureyri, og þar með sé lítið orðið eftir af Kaupfélagi Svalbarðseyrar.

Svör stjórnarmanna kaupfélagsins voru þau, að á Svalbarðseyri væru talsverðar byggingar, sem yrðu verðlitlar, ef starfsemi kaupfélagsins yrði lögð niður. Ekki væri auðvelt að koma auga á aðra starfsemi en verslun og slátrun, sem gæti nýtt húsakostinn og veitt því fólki atvinnu, sem er búsett á Svalbarðseyri og á þar íbúðir, og gæfi Svalbarðsstrandarhreppi tekjur í útsvörum og aðstöðugjaldi. Kaupfélag Svalbarðseyrar hefði stundum greitt afurðirnar hærra verði en Kaupfélag Eyfirðinga og önnur ár verið því aðhald um að halda uppi afurðaverði. Í Kaupfélagi Eyfirðinga væru framleiðendur í minnihluta, svo að hagsmunir þeirra gætu hvenær sem væri orðið bornir fyrir borð. Sumir töldu því vel koma til greina að stofna með eyfirskum bændum sjálfstæð framleiðendafélög óháð Kaupfélagi Eyfirðinga. Loks taldi stjórnin eðlilegt, að viðskipti ykjust hraðar á Akureyri og á Húsavík en á Svalbarðseyri, þar sem fólksfjölgun væri ekki á svæði Kaupfélags Svalbarðseyrar.

Erlingur Arnórsson á Þverá í Dalsmynni, formaður kaupfélagsstjórnar, kvaðst hafa sagt Helga, að hugurinn væri þannig í félagsmönnum, að þeir mundu ekki vilja leggja félagið niður nema að þeim væri þjarmað. Honum hefði skilist, að Sambandið mundi hætta að veita minni kaupfélögum jafngóða fyrirgreiðslu og hinum stærri, og jafnvel að heimamenn yrðu ekki spurðir, þegar örlög félagsins yrðu raunverulega ráðin. Þórhallur á Halldórsstöðum í Kinn, annar stjórnarmaður og bróðir Finns kaupfélagsstjóra á Húsavík, sagðist hafa viljað óska Helga Bergs frekar þess hlutskiptis að hjálpa kaupfélaginu að lifa en deyja. Jón Laxdal í Nesi í Höfðahverfi, þriðji stjórnarmaðurinn, kvaðst hafa sagt við Helga, þegar Helgi útlistaði fyrir honum, hvað stórreksturinn væri hagkvæmur: „Þú með þínar stærri heildir. Ef þær eru eins góðar og þú segir, þá koma þær af sjálfu sér.“ Um sláturhúsaáætlunina sögðu stjórnarmenn, að hún gerði ráð fyrir, að reist yrði eitt sláturhús í landinu á tveimur árum fram til 1998 og allt væri óráðið, hvenær röðin kæmi að Eyjafirði. Sláturhúsið á Svalbarðseyri hefði fengið útflutningsstimpil til Englands þar til í fyrra, en nú aðeins til annarra landa en Englands, enda hefði umgengni í frystihúsinu verið slæm, þegar eftirlitsmaður breta kom þar í fyrra. Frystihúsið er gamalt og þarf endurbóta við, og þyrfti félagið þar á fyrirgreiðslu Sambandsins að halda. Sjálft sláturhúsið væri að áliti dýralæknisins langbesta sláturhúsið við Eyjafjörð. Sem dæmi um í hverju áliti sláturhúsið væri, sagði formaður félagsins frá því, að yfirkjötmatsmaður hefði verið á Svalbarðseyri í haust að leita orsaka þess, að hausar væru svo miklu blóðminni og skrokkar fallegri þar en í Borgarnesi. – Þegar nýja verslunarhúsið var reist, var notað til þess eigið fé félagsins, og á það sína sök á því, að sjóðir félagsins eru ekki eins traustir og þeir hefðu verið, ef stofnlán hefðu fengist til byggingarinnar.

 

Athugasemdir mínar um verslunina

 1. Trúlega hefðu hvorki verslun né slátrun hafist á Svalbarðseyri, ef samgöngur á sjó og landi til Akureyrar og Akureyri sjálf hefðu verið eins og nú árið 1889, þegar Kaupfélag Svalbarðseyrar var stofnað. Þegar fyrir seinna stríð kom upp sú hugmynd á Akureyri að sameina félagið Kaupfélagi Eyfirðinga, en henni var vísað frá, enda töldu félagsmenn, að þeir næðu betri kjörum á Svalbarðseyri en á Akureyri.
 2. Verslunin á Svalbarðseyri er nú meiri en í nokkur hundruð verslunum á Íslandi. Eðlilegt er að gera ráð fyrir því, að flestar þessar verslanir væru ekki til, ef það fjármagn og vinnuafl, sem þær nota, nýttist nú betur í stærri verslunum. Ef sæmileg velta og stjórn er nauðsynleg og nægileg til að verslun gangi, er því grundvöllur undir verslun á Svalbarðseyri nú.
 3. Sameining Kaupfélags Svalbarðseyrar við Kaupfélags Eyfirðinga virðist tilgangslítil, nema ætlunin sé að leggja niður verslun og slátrun á Svalbarðseyri. Fasteignir á Svalbarðseyri eru þá tapaðar eignir miðað við kostnaðarverð, þar sem ekki er auðvelt að koma auga á annað, sem mætti nota þær til. (Mundi kaupmaður fara að versla í húsum kaupfélagsins?)
 4. Til þess að reikna út, hvort verslunin ber sig, þarf því við uppgjör reikninga að taka tillit til þess, að fasteignir félagsins eru verðlitlar, ef félagið hættir starfsemi. Vextir og fyrningar af fasteignum eru þá að mestu fastur kostnaður, sem minnkar lítið, ef reksturinn leggst niður.
 5. Hvar kemur atvinna og íbúðir fólksins á Svalbarðseyri inn í dæmið?
 6. Ef talið er víst, að verslun leggist niður á Svalbarðseyri fyrr eða síðar, er þó hagstætt að reka verslun þar nokkurn tíma eftir að reikningslegur halli er orðinn (leitt af 4. athugasemd).
 7. Ef stjórn Sambandsins hefur ákveðið að veita minni kaupfélögum og þar með Kaupfélagi Svalbarðseyrar lakari fyrirgreiðslu en stærri félögum, er ekkert sennilegra en að fari fyrir Kaupfélagi Svalbarðseyrar eins og stjórn Sambandsins spáði.
 8. Félagsmenn í Kaupfélagi Svalbarðseyrar vilja halda opinni fleiri en einni leið í verslunarmálum sínum.
 9. Þar sem margir félagsmenn leggja inn mjólk á Akureyri, eru þeir vel kunnugir félagsmálum og verslun á Akureyri og út með Eyjafirði að vestan. Þeir vita því sæmilega, að hverju þeir ganga við sameiningu.

10. Það er ekki ósennilegt, að þeir, sem reka verslun á Akureyri, geri sér vonir um að hún yrði hagstæðari, ef fólk á svæði Kaupfélags Svalbarðseyrar gæti ekki lengur verslað á Svalbarðseyri, þar sem kaupfélagið hefði verið lagt niður. Það er líka sennilegt, að Kaupfélag Svalbarðseyrar gengi betur, ef menn á svæði þess gætu ekki af einhverjum ástæðum verslað á Akureyri eða á Húsavík. Þegar svona stendur á, er vandasamt að skipta landinu í verslunarsvæði. Skiptingin fer þá eftir því, hver hefur vald til að skipta.

11. Forystumenn Kaupfélags Svalbarðseyrar eru menn, sem vilja á beinan hátt hafa áhrif á mál sín og sinna sveitunga.

12. Ef sameiginleg innkaup og sameiginlegt bókhald kaupfélaganna við Eyjafjörð er talið munu lækka verslunarkostnað, er unnt að koma því á án samruna félaganna á Svalbarðseyri, Akureyri og Ólafsfirði. Sameiginleg innkaup kaupfélaganna á Íslandi eru gerð af Sambandinu án samruna félaganna. Kaupfélagið á Svalbarðs-eyri kaupir inn fyrir heimilin í Fnjóskadal, án þess að heimilunum sé slegið saman í eitt heimili. Aðalinntak samvinnuhreyfingarinnar er samstarf án samruna.

 

Athugasemdir um sláturhúsið

 1. Hinar nýju kröfur um sláturhús eru fyrst og fremst á þá lund, að skilyrði skuli vera til þess að rekja saman skrokk og innyfli. Ekki hefur verið gerð nein áætlun um sláturkostnað og flutningskostnað á kind við Eyjafjörð, ef öllu fé væri slátrað á Akureyri með „hröðum höndum“. Ekki hefur heldur verið gerð áætlun til saman-burðar á sláturkostnaði og flutningskostnaði, ef slátrað er áfram á Svalbarðseyri, Akureyri, Dalvík og Grenivík, þar sem innréttingu hefur verið breytt, þannig að unnt sé fyrir dýralækni að rekja saman skrokk og innyfli, ef skemmd finnst í öðru hvoru.
 2. Enginn vinnuhagræðingur hefur verið settur til að kanna, hvort unnt sé að breyta innréttingu í einstökum sláturhúsum við Eyjafjörð, þannig að eðlilegum kröfum dýralækna verði framfylgt.
 3. Heimamönnum, bæði fjáreigendum og forsjármönnum atvinnumála, hefur ekki verið gefinn kostur á því í sambandi við áætlun um að byggja upp og leggja niður sláturhús að láta koma fram, hvers virði atvinna við sláturhúsin er á hverjum stað.
 4. 30 ára áætlunin um sláturhús er því enn sem komið er leikur með tölur og landabréf, án þess að kannað hafi verið, hversu mikið megi nýta núverandi húsakost með breyttum innréttingum.
 5. Þegar ákveða á, hvort rétt er að starfrækja sláturhús á einum stað, þarf að taka tillit til húsakosts á staðnum, vegalengda og vinnuafls. Heimamenn, sem bera ábyrgð á eignum sinna félaga, taka á sig sláturkostnaðinn og þurfa vinnu fyrir sig og sína, eru einir færir um að taka ákvörðun um framtíð síns sláturhúss, þar sem tekið er tillit til alls, sem máli skiptir. Þeir geta þurft á leiðbeiningum að halda, áður en þeir taka ákvörðun.
 6. Af þessu leiðir, að það er óheppilegt, að nefnd manna (í Reykjavík eða hvar sem er), sem ekki ber ábyrgð á eignum einstakra sláturfélaga (samvinnufélaga), atvinnuskilyrðum á sláturstöðunum og eiga ekki kindur á hinum einstöku sláturstöðum, ráði því, hvar sláturhús skuli rekin og hafi vald til að mismuna félögum um fjárhagslega fyrirgreiðslu.

 

Þetta er ekki svo, af því að slík nefnd hljóti að hafa annarlega hagsmuni. Þetta er ekki svo, af því að slíkri nefnd hljóti að yfirsjást í áætlanagerð, rannsaki til dæmis ekki skilyrði til og kostnað við að endurbæta húsin og taki ekki tillit til atvinnuþarfa staðanna. Þetta er hins vegar svo, af því enginn viðráðanlegur tölulegur mælikvarði er til, sem getur vegið hvað á móti öðru: eignir, sláturkostað og atvinnu. Á Svalbarðseyri er það kaupfélagið, sem getur og verður að taka tillit til allra þriggja þáttanna. Á Dalvík og á Grenivík er enginn slíkur aðili.

 

Niðurlagsorð

 

Erfitt er fyrir almenning að taka afstöðu til samrunahreyfingarinnar nema hafa fyrir sér ákveðin dæmi, þar sem málavöxtum er lýst. Ég geri ráð fyrir því, að einhverjar upplýsingar kunni enn að vanta í Svalbarðseyrarmálið og vil því ekki draga aðrar ályktanir af þessu eina dæmi um skipulegan samdrátt fjármálavalds og atvinnu en þann spurningalista, sem hér fer á eftir. Ég dreg til að mynda ekki þá ályktun, að samruni kaupfélaga (og annarra verslana) og sláturhúsa hljóti alltaf að gerast á þann hátt, að hallað sé skipulega á hina smærri, bæði að því er varðar tæknilega aðstoð og fjárhagslega fyrirgreiðslu.

Af þessu eina dæmi virðist mér, að við getum lært að setja fram eftirfarandi spurningar, þegar samrunamál ber á góma (skýringardæmi eru öll úr þessari grein):

Hver hefur vald til að beita lánsfé til framkvæmda? Dæmi: Verslunarhús á Svalbarðseyri 1958 og endurbætur á frystihúsi nú.

Hvaða reglum fylgja lánveitendur? Er veikari aðilanum gefinn kostur á að starfa, meðan hann stendur í skilum? Hugsar lánveitandi um öryggi sitt, án þess að ganga í lið með nokkrum þeirra, sem samrunamálið varðar? Dæmi: Endurbætur á sláturhúsi og frystihúsi á Svalbarðseyri eða nýtt, stórt sláturhús á Akureyri á vegum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Á hvern hátt má mismuna kaupfélögum með fyrirgreiðslu, og hvernig er það gert í tilteknu dæmi? Samanber framangreinda getgátu formanns Kaupfélags Svalbarðseyrar.

Á hvern hátt hafa þeir, sem bera ábyrgð á atvinnumálum einstakra staða, áhrif á samrunamálið? Dæmi: Sláturhús á Svalbarðseyri og á Dalvík.

Í hvers þjónustu starfa viðkomandi sérfræðingar í hagræðingu og stjórnun? Er notuð sú stjórnunarfræði, sem hefur samdrátt valds í hendur hinna stóru að sjálfsögðu og óhjákvæmilegu markmiði, eða sú stjórnunarfræði, sem hefur samvinnu án samruna að leiðarljósi? Dæmi: Bókhaldstækni og innkaup kaupfélaganna við Eyjafjörð.

Vinna hagræðingar að því að spara vinnuafl fyrst og fremst; að því að spara heildarkostnað sem mest eða að því að spara kostnað sem mest, en um leið vinnu heimamanna sem minnst? Dæmi: Endurbætur á eldri sláturhúsum til að framfylgja heilbrigðiskröfum eða bygging nýrra og færri húsa.

Á meðan ofangreindum spurningum er ósvarað, verður ekki sagt um í tilteknu samrunamáli, hvort samruni er eða hefur verið æskilegur, hvorki hér á landi né erlendis.

 

Hlyni 11 1968; Tímanum 24. janúar 1969.