Ofangreind spurning var lögð fyrir mig í haust í útvarpsþætti um bændastéttina, sem kynntur var með einkunnarorðunum: Treyst á landið. Ég hef tvær ástæður til að biðja Frey um að birta svar mitt, annars vegar þá, að ég geri ráð fyrir því, að marga lesendur Freys fýsi að sjá svar mitt svart á hvítu, en hin ástæðan er sú, að síðasta setningin féll niður í flutningi, en hún var endanlegt svar mitt og mikilvægasta athugasemd mín og gekk að nokkru leyti gegn því, sem ég hafði látið heyra frá mér fyrr í svarinu. Svar mitt var svohljóðandi: „Þegar svona er spurt, geri ég ráð fyrir, að ýmislegt kunni að vaka fyrir spyrjandanum. Það, sem kemur fyrst í hugann, er fyrirkomulag búrekstrarins um stærð og mannafla. Ég hef trú á því, að öruggust svör fáist um það efni með því að skoða þá reynslu, sem menn hafa haft hér á landi af mismunandi stærð búa, að því er mannafla snertir. Einyrkjabúskapur er ríkjandi fyrirkomulag í sveitum landsins. Þó hafa menn í öllum héruðum fyrir sér bú með öðru sniði. Reynslan af þeim búum er á allra vitorði. Sum eru opinber bú, þannig að starfsmenn eru óháðir afrakstri búsins. Þau bú eru yfirleitt rekin í öðrum tilgangi en almennur búrekstur, svo sem til búfræðirannsókna og tilrauna, þannig að árangurinn af þeim verður ekki mældur á sama hátt og á almennum búum.

Örfá bú í einkaeign eru rekin með fullgildu, aðkeyptu vinnuafli. Þegar farið er að skoða þau, jafnvel þó að það sé ekki gert alveg ofan í kjölinn, kemur oftast í ljós, að kringumstæður eru býsna sérstakar. Í sveitum landsins er eins og kunnugt er margt af ráðsettu fólki, þó að ekki verði allir, sem nærri sveitabúskap koma, kenndir við ráðdeild. Þetta ráðsetta fólk hefur undanfarna áratugi verið að endurskipuleggja búskapinn í sveitunum. Það hefur haft tækifæri til að fylgjast með árangri á búum í sínu héraði og jafnvel um allt land, búum, sem sum hafa verið rekin með aðkeyptu vinnuafli og verið stór að sama skapi. Þegar bændur hafa íhugað að umskapa jarðir sínar, hafa þeir þurft að ráða við sig, hvort þeir hefðu hag af því að auka svo húsakost og bústofn, að verkefni væri fyrir aðkeypt vinnuafl. Þeim hefur farið sífækkandi, sem hafa talið reynslu sína og annarra vera tilefni til slíks.

Þessi þróun hefur ekki orðið fyrir það, að sveitafólk þekki ekki og kannist ekki fyrir sjálfum sér og öðrum annmarka einyrkjabúskapar. Þeir eru viðurkenndir, einkum þó það, hvað einyrki án aðstoðar skylduliðs er bundinn við skepnuhirðingu. Einnig gera menn sér vel ljóst, að hagur er að hafa með sér samtök um notkun ýmissa stórvirkra tækja. Víða í sveitum hafa menn reynslu af slíkum samtökum um vélahald, annað hvort í búnaðarfélögum hreppanna eða nokkrir nágrannar og vandamenn hafa tekið höndum saman.

Víðtækasta reynslu af viðleitni til að eyða annmörkum einyrkjabúskapar hafa menn þó á félagsbúum. Hér á landi eru nú rekin nokkur hundruð slík bú, sum á hendi tveggja eða fleiri hjóna, á öðrum eru aðeins ein hjón og með þeim í samlagi vandabundið fólk, en víða standa að búi ógift systkini. Ég kannaði skipulag félagsbúa, árangur af þeim og forsendur þeirra fyrir um það bil áratug og birti niðurstöður af rannsókninni í Árbók landbúnaðarins. Ég hef trúa á því, að þær eigi enn við að mestu, og vísa áhugafólki um þessi mál á greinar mínar í Árbókinni.

Félagsbúin eru eins konar samyrkjubú. Þeir, sem á þeim starfa, eiga þau og skipta arðinum á milli sín. Þau eru yfirleitt tvöfalt eða þrefalt stærri en einyrkjabú. Þó skiluðu þau eigendum sínum ekki meiru í peningum en einyrkjum. Ekki varð heldur merkjanlegt, að vélar nýttust betur á félagsbúum en á einyrkjabúum. Niðurstöður rannsóknarinnar styðja ekki hugmyndir að stækkun búa, sem felst í því, að tveir eða fleiri bændur taki höndum saman um allan búrekstur sinn, skili meiri tekjum en áframhaldandi einyrkjabúskapur, þar sem einyrkjarnir hagnýta sér að vísu nokkuð samtök um vélahald.

Hitt er óhætt að fullyrða, að margir sækja annan styrk í félagsbúin. Þeir, sem á þeim eru, þola ýmis áföll betur, og ég vil ætla, lifa ríkara lífi en einyrkjar með fámennt skyldulið. Ég hygg líka, að víða muni um fólkið á félagsbúunum við hvers konar þegnskaparstörf í sveitunum. Ég vil að minnsta kosti trúa því, þó að sums staðar hafi verið fullyrt við mig, að þau skæru sig ekki úr að því leyti, og ég sjái, að furðu margir af þeim sem mikið kveður að í félagsmálum sveitanna, eru einyrkjar, sem að vísu njóta síns skylduliðs.

Hvar og af hverjum er sótt í félagsbúrekstur, þessa íslensku gerð samyrkju­búanna? Öll félagsbúin, sem hér störfuðu fyrir 10 árum, voru á hendi náinna skyldmenna, feðga, bræðra, tengdafeðga, systkina, mága, nema eitt. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo, að félagsbúskapur reyni svo á samheldni, að vandalaust fólk treysti sér ekki til að reyna hann eða endist ekki við hann. Oftast var raunar um það að ræða, að verið var að færa bú á milli kynslóða, — sonur eða tengdasonur var smám saman að taka við jörð af eldri bónda, og meðan báðir voru í fullu fjöri, bjuggu þeir þannig, að tvö heimili gátu haft framfæri af búinu. Mörg dæmi eru um, að sambýli af þessu tagi hafi leyst upp, án þess að þau dæmi hafi verið könnuð skipulega.

Annað kom í ljós, nefnilega að mest var um félagsbú í héruðum, þar sem viðgangur búskapar og byggðar hafði verið mestur og þar af leiðandi hafði verið mest ásókn í jarðnæði. Þá er svo þröngt um, að menn komast ekki í bú nema bætt sé við bónda á einhverri jörðinni og húsakosti hans vegna. Ef breyta ætti búskap landsmanna yfirleitt í samyrkju. — þó ekki væri nema af íslensku gerðinni, — verður það ekki gert á hagkvæman hátt nema með því að auka stórlega útihúsakost í sveitum. Eins og nú stendur á með markað fyrir búfjárafurðir verður ekki séð, að slík aukning sé ráðleg.“

Feitletraða setningin féll niður í flutningi. Þar er einmitt um að ræða þann vægðarlausa veruleika, sem taka þarf tillit til í öllum ráðagerðum um skipulagsbreytingar í búskap og oft vill gleymast í umræðu.

Frey 71 (1975) 484-6