I.
Rit Gísla Gunnarssonar um verslunarskipulag hér á landi á 17. og 18. öld, sem gefið var út á ensku í Lundi árið 1983, vakti þegar nokkra forvitni og umtal, og höfðu þó fáir lesið. Eins og flestum leist mér ekki á að lesa rit um málefni dana og íslendinga samið á ensku undir leiðsögn svía í Lundi. Tvennt þótti mér merkilegast af því, sem ég heyrði og sá (m.a. í viðskiptakálfi Morgunblaðsins 28. janúar sl.). Annað var það, að skökk verðhlutföll, sem stjórnvöld ákváðu, hefðu bætt hlut landbúnaðar á kostnað sjávarútvegs. Þótti mér ekki ótrúlegt, að svo hefði getað farið í óþjálu verðlagskerfi, hvort sem að því hefði verið stefnt eða ekki. Hitt var það, sem mér þótti ekki trúlegt, að íslenskir ráðamenn þjóðarinnar hefðu vitandi vits haldið sjávarútvegi niðri.
Þegar rit Gísla kom út á íslensku í vetur (Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslunin og íslenskt samfélag 1602-1787), gátum við, sem ekki felldum okkur við enskan búning ritsins, svalað forvitni okkar. Var það spennandi lestur. Ég greini hér í stuttu máli frá því, hvernig það stóðst, sem mér hafði verið sagt og að framan segir.
Ritdómari einn orðaði túlkun Gísla á afstöðu ráðamanna svo, að „... íhaldssöm innlend valdastétt hafi af ótta við röskun á valdastöðu sinni sett þróun sjávarútvegsins þröngar skorður,..." og má taka undir þau orð. Skúli Magnússon landfógeti stóð einn í hópi ráðamanna með tillögur sínar um nýsköpun atvinnuhátta og myndun kaupstaða.
Gleymd ritgerð
Að dómi Gísla var fyrirliði hinnar íslensku valdastéttar á síðari hluta 18. aldar, Ólafur Stefánsson amtmaður, síðar stiftamtmaður. Ég var ekki mikið lesinn í sögu 18. aldar og sagði við kunningja minn, sagnfræðing, að loknum lestri, að mér hefði komið það á óvart, að maður, sem sat góðar jarðir hér við Faxaflóa, eins og ég hélt, að Ólafur hefði gert, hefði ekki viljað hafa sem mestan arð af sjávarútvegi. Sagnfræðingurinn sagðist raunar halda annað, því Ólafur hefði verið fyrsti íslendingurinn, sem stofnaði útgerðarfélag, og minnti hann, að Ólafur Oddsson, nú menntaskólakennari, hefði samið ritgerð um það í Háskólanum. Í Háskólabókasafni fannst kandídatsritgerð frá 1970 eftir Ólaf Oddsson með heitinu: „Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti."
Fyrst er frá því að segja, að Ólafur Stefánsson gerðist árið 1754 bókhaldari iðnaðarstofnananna, nýkominn frá námi í Höfn. Þetta var fyrirtækið, sem m.a. reisti húsin við Aðalstræti og lagði þar með hornstein að Reykjavíkurborg. Í stjórn fyrirtækisins voru þá Skúli Magnússon landfógeti, Magnús Gíslason amtmaður, síðar tengdafaðir Ólafs, og Bjarni Halldórsson sýslumaður, sem hafði kostað Ólaf til náms að foreldrum hans látnum, auk fjórða manns. Ólafur varð amtmaður 1766 og stiftamtmaður 1790. Hann stundaði búskap, m.a. á Innra-Hólmi á Akranesi, og átti útræði á Skipaskaga.
Með leyfi Ólafs Oddssonar rek ég hér tilraunir Ólafs Stefánssonar og viðhorf til samanburðar við kynningu Gísla Gunnarssonar á honum sem foringja þeirrar íhaldssömu valdastéttar, sem beitti sér gegn þróun sjávarútvegs og myndun kaupstaða.
1. Iðnrekstur
Ritgerð Ólafs Oddssonar fjallar einkum um „... ullarverksmiðju Ólafs, sútunar- og skósmíðaverkstæði hans og þilskip það, er hann og Thodal stiftamtmaður gerðu út um nokkra hríð .. . Framlag Ólafs Stefánssonar í þessum efnum var viðleitni til þess að koma á fót nokkrum iðnrekstri, færa þær iðngreinar inn í landið og láta reka slíkar stofnanir sem einkafyrirtæki, en þó með velvilja stjórnvalda og verslunar."
2. Nytsemi kaupstaða
Nefnd, sem tók út mál landsins 1770—71, svokölluð Íslandsnefnd, átti fund með helstu embættismönnum landsins, þeirra á meðal Ólafi Stefánssyni, og var hann meðmæltur hugmyndum nefndarinnar um að koma á fót iðnfyrirtækjum, en ullarverksmiðja hans hafði þá þegar starfað í nokkur ár. Nefndin taldi, að kaupstaðir væru
„. . . raunveruleg forsenda þess, að iðngreinar þær, er menn töldu nauðsynlegt að færa inn í landið, gætu þrifist. Menn í þessum efnum gætu ekki unnið fyrir sér annars staðar."
Síðar lét Ólafur í eigin riti í ljós það álit, að æskilegt væri, að kaupmenn hæfu í kaupstöðunum margvíslegan iðnrekstur í samstarfi við landsmenn.
3. Fyrsti útgerðarstjóri eigin þilskips
Árið 1773 keyptu þeir Thodal stiftamtmaður og Ólafur Stefánsson, þá búsettur í Sviðholti á Álftanesi, þilskip til útgerðar. Hafði Ólafur „... meiri afskipti af rekstrinum, er til kastanna kom, enda hafði Ólafur um margt miklu betri aðstöðu til þeirra hluta. Hann hafði verið bókhaldari Innréttinganna mestan hluta þess tíma, er þilskipaútgerð var rekin á þeirra vegum. Hann rak og sjálfur umfangsmikla bátaútgerð og fiskverkun, en Thodal var ekki við slík mál riðinn."
Þeir félagar töpuðu stórfé á útgerðinni, og var ýmsu kennt um. Þótt svo hefði farið, missti Ólafur ekki trú á þilskipaútgerð. Laust upp úr aldamótunum 1800 hóf Bjarni Sivertsen kaupmaður í Hafnarfirði þilskipaútgerð og skipasmíðar. Kveður Ólafur Oddsson Ólaf stiftamtmann hafa stutt mjög Bjarna í kaupmennsku og öðrum framkvæmdum.
Tveir menn með sama nafni
Í frásögn Gísla Gunnarssonar af forystu Ólafs Stefánssonar í andófi innlendrar valdastéttar gegn nýsköpunarstefnu stjórnvalda undir forystu Skúla Magnússonar er hvergi sagt frá nýsköpunartilraunum Ólafs né skoðun hans á nytsemi kaupstaða. Mætti ætla, að hér væri um tvo menn að ræða með sama nafni. Sviðsetning Gísla á hinni íhaldssömu valdastétt með Ólaf Stefánsson í aðalhlutverki styðst ekki við heimildir sögunnar.
Í áðurnefndum viðskiptakálfi Morgunblaðsins segir frá því, að Verslunarráðið hyggi á útgáfu Verslunarsögu Íslands 1774— 1807 eftir Sigfús H. Andrésson. Verslunarráð styrkti einnig að sögn Gísla útgáfu á riti hans. Er stuðningur ráðsins við sagnfræði lofsverður, og birting rits Gísla var gerð að ráði viðurkenndra sagnfræðinga. Ritgerð Ólafs Oddssonar var ekki frekar en aðrar kandídatsritgerðir samin til birtingar. Úr því sem komið er ætti birting á henni að ganga fyrir öðru á þessu sviði, til samanburðar við sviðsetningu Gísla.
Upphafið í Víðidalstungu
Á 17. og 18. öld voru flestir bændur leiguliðar og greiddu landeigendum landskuld. Eru af því miklir útreikningar í riti Gísla. Þar sakna ég skilnings á því, að það hlaut að vera landeigendum í hag, að leiguliðar þeirra hefðu góða afkomu, m.a. af sjósókn og háu fiskverði, til að þeir mættu standa í skilum með landskuldina. Bóndi einn í Víðidal í Húnaþingi setti fyrstur fram tillögu með rökstuðningi um þilskipaútgerð íslendinga. Vildi hann, að stofnaður yrði kaupstaður og gerð út þaðan a.m.k. fimm þilskip. Þetta var Páll Vídalín í Víðidalstungu í ritinu Guði, konunginum, föðurlandinu árið 1699, en tengdasonur hans, Bjarni Halldórsson sýslumaður Húnvetninga, kostaði Ólaf Stefánsson til náms, eins og áður sagði. Ekki held ég því samt fram, að þangað hafi Ólafur sótt áhuga sinn á nýsköpun í sjávarútvegi.
Enn er þess að geta um upphaf þilskipaútgerðar, að ungur maður að nafni Guðmundur Scheving var um tíma á skrifstofu Ólafs stiftamtmanns. Guðmundur eignaðist síðar hlut í þilskipi, sem bóndinn í Breiðholti gerði út frá 1801, þar til útgerðinni lauk árið 1813, þegar skipið fórst og Breiðholtsbóndinn með því. Þetta var fyrsta útgerð bónda á þilskipi við Faxaflóa. Guðmundur Scheving settist síðar að í Flatey á Breiðafirði og gerði þar út þilskip af myndarskap. Er skemmtilegt til þess að vita, hvernig upphaf þilskipaútgerðar í rúma öld tengist Ólafi Stefánssyni, þótt honum sé ekki eignað það allt.
Þetta gerðist á þeim tímum, þegar lög skylduðu til ársráðningar á vinnufólki. Var það kallað vistarband. Einhvernveginn hefur sá misskilningur orðið til, að ráðningarákvæði þetta hafi bannað öðrum en bændum uppi í sveit að ráða fólk til vinnu. Verður Gísli síst til að leiðrétta þann misskilning. Þegar á tímum algjörs vistarbands komst þilskipaútgerð á traustan grundvöll á Vesturlandi og Vestfjörðum í eigu efnabænda og kaupmanna.
Hér er ekki staður til að gagnrýna túlkun Gísla í einstökum atriðum, en það einkennir málflutning hans, að ýmist hagnýtir hann ekki eigin athuganir til ályktana eða hann ályktar án heimilda. Þykir mér leitt að standa góðkunningja minn að því, en ekki verður komist hjá því að taka slíkt til umræðu.
II
Það, sem kallað hefur verið einokunarverslun Dana á Íslandi, var það skipulag verslunar, að ríkisvaldið úthlutaði sérleyfi til verslunar með ákveðnum skilmálum um framboð á erlendum nauðsynjum og um verðlag á þeim og afurðum landsmanna. Eins og tekið var fram í upphafi, þótti mér ekki ótrúleg sú niðurstaða Gísla Gunnarssonar, að verðlagsákvæðin hefðu, borið saman við verðhlutföll erlendis, verið hagstæð landbúnaði og óhagstæð sjávarútvegi. Þetta hafði Jón Aðils bent á í riti sínu um verslunarstjórn Dana, og Lúðvík Kristjánsson hafði dregið það betur fram í Sögu 1971.
Verðlagsákvæði löguðust ekki jafnóðum að verðþróun viðskiptalandanna, heldur stóðu óbreytt um áratugi.
Útflutningsviðskipti
Gísli sýnir að málið var ekki svona einfalt. Á 18. öld áskildi ríkisstjórnin sér nefnilega við úthlutun verslunarleyfa sauðakjöt frá kaupmönnum á verði talsvert undir því, sem kaupmenn fengu á frjálsum markaði í Kaupmannahöfn, og var kjötið ætlað hernum og lækkaði það vígbúnaðarkostnað Dana, en takmarkaði auðvitaði tækifæri kaupmanna til að græða á kjötsólunni. — Af einhverjum ástæðum var fiskur (skreið og síðar saltfiskur) ekki tekinn af kaupmönnum handa hernum. Sérleyfisversluninni var því á þessum árum hagað þannig, að verðlagi á erlendri nauðsynjavöru var haldið niðri, en kaupmenn gátu grætt á sjávarafurðum. Sauðakjötið var að hluta tekið af kaupmönnum við lágu verði. Af þessu leiddi, að verslunarleyfi á fiskihöfnum voru eftirsóknarverðust.
Dæmið sem ekki var sett upp
Sérleyfiskaupmenn þóttust einnig bera skarðan hlut frá borði í prjónlesverslun, vegna þess að verð á prjónlesi til framleiðenda væri of hátt. Þótt sérleyfiskaupmenn mætu prjónlesið lítils, sáu aðrir sér hag í því að kaupa hér prjónles. Dæmi nefndi Gísli um, að Skagfirðingar fengu tvöfalt verð fyrir sokka, sem þeir seldu ólöglega í hollenskar skútur, miðað við það verð, sem sérleyfiskaupmenn greiddu samkvæmt verðlagsákvæðum. Annars staðar kemur fram, að hollenskt skip vopnað sex fallbyssum var tekið hér við land (það mun hafa strandað) nærri fullhlaðið prjónlesi frá Íslandi og Færeyjum. Hér var því ekki um það eitt að ræða, að hollenskir skútusjómenn keyptu á sig föt, sem þá vanhagaði um í bráð. Má geta sér til, hvernig það hefur bitnað á fjárræktarhéruðunum, að bændur og húsfreyjur þeirra höfðu ekki rétt til að koma afurðum sauðfjárins og tóvinnu heimilanna í verð eins og það fékkst best.
Kaupmenn vanræktu að koma á traustum samböndum við sölu afurða, enda voru verslunarleyfin tímabundin. Þegar Gísli Gunnarsson slær því föstu, að verðlagsákvæði sérleyfisverslunarinnar hafi fært arð frá sjávarútvegi til landbúnaðar, tekur hann þetta tvennt ekki til greina, upptöku kjöts í þágu hersins og bann við sölu á prjónlesi beint til Hollands.
Gjaldeyristekjur af líftryggingu
Rit Gísla er að stofni til um verslun og viðskiptaleiðir, en hann tengir verslunarmálin gerð þjóðfélagsins og viðhorfum til nýsköpunar. Þar sér hann fyrir sér rammasta íhald eða afturhald í valdastéttinni, sem óttaðist nýjungar, sem gætu raskað valdastöðu hennar. Dæmið um Ólaf Stefánsson sýnir, að túlkun Gísla er æði frjálsleg. Ekki verður séð, að menn hafi óttast arðsaman sjávarútveg, heldur vildu menn vissulega reyna nýja sjávarhætti. Menn óttuðust bjargarskort í fiskileysi hjá þeim, sem settust að við sjóinn á eigin vegum án búskapar, en útvegsbændur máttu ráða til sín eins margt fólk og þeim þóknaðist.
Ráðamenn óttuðust mest af öllu hungursneyð með þjóðinni. Landeigendur hefðu ekki fengið mikinn arð í landskuldum af hungruðum landsetum á jörðum sínum, og ekki er óhugsandi, að sumir hafi þá óttast „röskun á valdastöðu" sinni vegna byrði af þurfalingum og hungruðu fólki á flakki. Til að tryggja líf þjóðarinnar lögðu þeir áherslu á landbúnað sem undirstöðu, en ekki til útflutnings. Gísli Gunnarsson bendir á, að Skúli Magnússon hafi talið aukningu kjötútflutningsins þjóðinni til óþurftar. Það kemur ekki fram hjá Gísla af hverju, en málið var það, að Skúli taldi mat úr sveitinni hollari en innflutt korn, einkum til að efla líkamskrafta sjómanna, og vildi því, að þjóðin neytti eiginn matar í stað þess að flytja hann út og kaupa útlendan mat.
Kjötið, sem um var að ræða til útflutnings, hlýtur að hafa verið sauðakjöt. Lömb voru færð frá og urðu því rýr til frálags. Sauðir voru harðgerðir og björguðu sér oftast á vetrarbeit. Afurðir þeirra voru auk gærunnar kjöt og mör, nokkurn veginn jafnverðmætt. Sauðirnir bættu lengi við sig með aldrinum, svo að menn þurftu ekki að tapa á því að láta þá lifa vetrinum lengur.
Bændur gátu ekki eignast innstæðu í verslunum og peningaviðskipti vildu kaupmenn ekki. Ef mikill fiskur kom í hlut og var lagður inn hjá versluninni, urðu menn að taka út jafnmikið. Sauðaeign hafði í því efni þann kost, að menn gátu gengið á hana eftir þörfum heimilisins; sauðirnir voru því eins og innstæða, sem menn gátu tekið út af eftir ástæðum. Ærstofninn með afurðum, mjólk, skyri, smjöri, ull og gærum, var líftryggingin, sauðaeignin var gjaldeyrisreikningur þeirra tíma.
• •
Í dagblaðsgrein er ekki tækifæri til að fjalla um allan rökstuðning Gísla Gunnarssonar fyrir þeirri skoðun, að íhaldssöm innlend valdastétt hafi af ótta við röskun á valdastöðu sinni sett þróun sjávarútvegsins þröngar skorður. Ráðamenn landsins á 17. og 18. öld létu sér ýmislegt detta í hug til umbóta í sjávarháttum og reyndu sumt. Þeir voru ekki á móti arðbærari sjávarháttum. Hagkerfið var hins vegar svo vanþróað, að fáir gátu spreytt sig á tilraunum til nýsköpunar.
Peninga vantaði til að greiða fyrir viðskiptum. Með sölu jarða biskupsstóla og konungs við lok sérleyfisverslunarinnar fjölgaði þeim, sem gátu spreytt sig á nýmælum, m.a. fyrir það að menn gátu lagt fram veð í fasteign við kaup á skipi. Með almennri eign á jörðum í byrjun 19. aldar fór fyrst að muna um framtak einstaklinga til nýsköpunar.
Morgunblaðinu 23. apríl 1988