Eftirmáli eftirmæla Gests Eggertssonar, sem birtust í Morgunblaðinu 30. maí 2015

 

Útförin

Útfarardagurinn 29. apríl var fagur. Kirkjan á Bakka er snotur, frá 1843, og varð því sóknarkirkja Rannveigar á Steinsstöðum. Jónas sonur hennar fór síðast frá Íslandi 1842. Kirkjan er hæfilega stór fyrir útför, eins og best gerist; þær systur sorg og gleði, vegna vinarhugar, ásamt gestunum fylltu guðshúsið.

Hér kemur að því, sem við Gestur ræddum aldrei. Gestur var nefnilega í skáldskapnum, ekki í skáldunum, benti mér reyndar einu sinni út um eldhúsgluggann á foss ofan við húsið: þarna er Gljúfrabúi. Eftir jarðsetninguna skyggndist ég um eftir leiðum vitorðsmanna haustið 1946, þegar hluta af jarðneskum leifum Jónasar Hallgrímssonar var komið fyrir á laun í grafreitnum. Ég rifjaði síðar upp fyrir mér ritaða frásögn sonar prestsins, sem við þetta var riðinn, af þeim feginleik, sem aldrei brást, þegar vitorðsmennirnir hittust, en ekki mátti afhjúpa, eins og hann, sr. Ágúst Sigurðsson, segir í Degi-Tímanum 1997, og sé þá enn ívið snemmt að lýsa. Nú fyrst skil ég leynd sr. Ágústs. Faðir hans, embættismaður, varð brotlegur gegn stjórnvaldi, ásamt nokkrum dalbúum. Greinaflokki í blaðinu fylgja myndir af þeim. Syninum þótti því ívið snemmt að lýsa frekar, en ekki mátti dragast að setja milli lína, þar sem þegar árið 1996, ef til vill fyrr, var farið að halla undan fyrir honum. Með þessum brögðum dalbúa og prests var haldið eftir á Bakka því, sem norðlensk skáld, náttúrufræðingar og allur almenningur nyrðra höfðu óskað opinberlega eftir.

abcd.is 6. júlí 2015