Drög að orkufrekri iðju

Ætla mætti, að þegar hafi nóg verið ritað um ráðagerðir um rafstöðvar í Þjórsá og víðar á Suðurlandi á árunum fyrir ’ófriðinn mikla‘ og fram til 1927. Samt bætir minningabók Sturlu Friðrikssonar náttúrufræðings, Náttúrubarn (Háskólaútgáfan), þar við mikilvægu efni.

Sturla hefur þar gögn föður síns og Sturlu föðurbróður, Sturlubræðra, að styðjast við. Þeir bræður voru öflugastir þeirra, sem undirbjuggu af ráðdeild nýtingu Þjórsár til áburðarframleiðslu, með fyrstu rafstöðina við Urriðafoss ásamt verksmiðju. Þá gátu menn ekki leitt rafmagn langar leiðir. Drög að virkjun Þjórsár voru komin svo langt, að viðir í bryggju í Skerjafirði voru komnir á staðinn, skammt frá Nauthólsvík. Þaðan átti að vera járnbraut austur að Þjórsá til að flytja áburðinn frá Urriðafossi. Höfn í Skerjafirði var ekki í samkeppni við höfn í Reykjavík, hún hafði nefnilega sama hlutverk og höfn í Straumsvík fyrir álverið þar. Bryggjuviðirnir, sem voru geymdir í skúr í Skerjafirði, voru, þegar ekki varð af neinu við Þjórsá, notaðir í þakbita og gluggakarma Sturluhalla á Laufásvegi og jafnvel í borðstofuhúsgögn, í stóla, borð og skápa þar, eðalviður, sérstaklega vaxborinn og feitur.

Í sambandi við kaup Sturlubræðra á virkjunarréttindum í Þjórsá og víðar á Suðurlandi segir Sturla frá Gullfossmálinu, sem Sigríður í Brattholti varð fræg af. Sturlubræður höfðu eignast leiguréttindi á Gullfossi. Þeir undirbjuggu aldrei virkjun þar og hættu að gjalda leiguna 1928 og misstu þannig réttindin.

Minningabók Sturlu, sem endar, þegar hann er 24 ára, geymir margt um þjóðlífið, þótt hann haldi sig við ævi sína og sinnar ættar. Ættmenn föður hans, Jón háyfirdómari, synir hans og dætur, og ættmenn móður, afkomendur Guðnýjar skáldkonu, sem kenndi sig við Klömbur, fá þar veigamikla kafla. Frásagnir af athöfnum Sturlubræðra lýsa ráðsettum frumkvöðlum í Reykjavík. Síðan kemur að bernsku og æsku Sturlu. Hann lýsir glögglega leikjum barna, sem nú eru að mestu horfnir. Síðan segir frá dvöl á Laxfossi í Borgarfirði, þar sem foreldrar hans héldu til á sumrin. Því er lýst hvernig stangveiði íslendinga hófst þar og Sturla varð veiðimaður. Hann menntar sig þar sjálfur sem barn til að verða náttúrufræðingur. Hann lýsir gróðri og dýralífi á Laxfossi og í grennd. Það er nokkuð rækileg heimild um náttúrufar við búskaparlag í kringum 1930.

Heimilishögum þessa efnafólks, sem foreldrar hans voru, er lýst og ýmsu heimilisfólki. Líf þess er gott, en hófsamt, fiskur yfirleitt á borðum virka daga, en hann keyptu þeir Sturlubræður á daglegri göngu um bæinn. Lýsingin á Friðrik Jónssyni kaupmanni er glögg. Friðrik var orðinn roskinn, þegar hann gekk í hjónaband og eignaðist börnin, Sturlu og Sigþrúði. Sturla var sextán ára, þegar faðir hans féll frá. Sögu Sturlu lýkur, þegar hann að loknu almennu háskólanámi tekur að sér að sinna eignum Sturlubræðra, en systir hans hafði gifst til Svíþjóðar.

Þetta átti upphaflega ekki að verða ritdómur, heldur aðeins ritfregn til að vekja athygli á frásögnum af atburðum, sem teljast til Íslandssögunnar. Fjögurra síðna efnisyfirlit segir, að efnið er margháttað, og það auðveldar efnisleit.

Morgunblaðinu 19. nóvember 2014: 20