Koma Bandaríkjahers til Íslands 1951 var studd af öllum alþingismönnum Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þar á meðal fimm, sem greiddu atkvæði á þingi gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949 eða sátu hjá. Borið var við ófriðarástandi, en þá stóð stríð í Kóreu. Ekki er vefengt, að sú skoðun hafi verið meðal þingmanna. Engu að síður hafa tveir alþingismenn, sem samþykktu komu hersins og lengst lifðu, lýst því, að efnahagsástæður hafi ráðið komu hersins, þannig skilið vel að merkja, að hvað sem hafi liðið mati á ófriðarhættu hafi verið einhugur meðal þingmanna áðurnefndra flokka að teknu tilliti til efnahagsástæðna.

Efnahagsástandið var afleitt 1951. Þá voru horfur slæmar, enda rýrnuðu viðskiptakjör landsins (það er hundraðshluti vísitölu útflutningsverðmætis af vísitölu innflutningsverðmætis) úr 100 í 80 á árunum 1950 til 1952. Það má rökstyðja, að sá, sem mestu réð um mat á efnahagsástæðum, Eysteinn Jónsson (fjármálaráðherra 1950-1958), hafi hugsað komu hersins sem vítamínsprautu, líkt og hersetan var eftir 1940, en vítamínsprauta er annað en varanleg vítamíninntaka. Í ævisögu hans, þriggja binda verki, sem samþingsmaður hans og samflokksmaður úr sama kjördæmi, Vilhjálmur Hjálmarsson (kjörinn alþingismaður 1949-1956, 1959 og 1967-1979), skráði eftir honum, er ekki orð um áhrif komu hersins 1951 á efnahag landsins. Efnahagurinn batnaði fljótt af ýmsum ástæðum.

Ýmsir úr flokkunum þremur fóru fljótt að orða undirbúning að brottför hersins. Samband ungra sjálfstæðismanna ályktaði þannig á þingi sínu 1955, og Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur höfðu það í stefnuskrá fyrir alþingiskosningar 1956.

Björn S. Stefánsson: Spjall í Reykjavíkurakademíunni (Öndvegisfóður) 11. september 2014