Prófkjör eru ofarlega á baugi. Mikið er hugsað um, hvernig eigi að vinna úr kjörseðlum. Hér verður annað athugað, það, sem snýr að kjósandanum. Eins og kunnugt er, raðar hann þeim, sem koma til greina, í fyrsta sæti, annað sæti og svo framvegis. Þó að hann hafi skýra hugmynd um kosti þeirra, sem vilja skipa listann og raði samkvæmt því, er eins víst, ef sá, sem hann hafði efst, reynist fá hraklega útreið, að hann telji, að hann hefði átt að setja einhvern annan í annað eða þriðja sæti.


Með raðvali tjá menn sig öðru vísi. Setjum sem svo, að aðeins sé um að ræða að raða í tvö sæti. Tveir hafa lýst áhuga á 1. sæti, A og B, og þrír í annað sæti, C, D og E. Þarna er um að ræða listana A,C, A,D, A,E, B,C, B,D og B,E, alls 6 gerðir. lista Kjósandi nokkur kýs helst listann A,D, þar næst B,D og svo A,E. Hann tjáir sig ekki sérstaklega um hinar þrjár listagerðirnar, þær eru fyrir honum síðri og jafnar. Með stigagjöf raðvals fær fyrsti listi hans, A,D, 5 stig; hann hefur nefnilega lýst hann betri en 5 listagerðir. Annar listi hans fær 4 stig, þriðji listi hans 3 stig, en listagerðirnar, sem hann gerði jafnar, fá hver um sig 1 stig, hann hefur til dæmis lýst listann A,C jafnan listunum B,C og B,E. Það er eins og tvisvar jafntefli fyrir A,C, sem hvort fyrir sig gefur hálft stig. Gerðir lista verða fljótt æði margar, ef fleiri bjóða sig fram og raða á í fleiri sæti en tvö. Það verður að takmarka einhvern veginn. Hversu margar sem gerðirnar verða, gilda rök raðvals og aðferðin við útreikning stiga. 
Í Lýðræði með raðvali og sjóðvali er ekki fjallað um slíkt prófkjör, en aðferð, sem er lík, raðval stjórnar. Við það er mönnum ekki raðað, heldur settar fram tillögur um heilar stjórnir, kallaðar gengi, og þeim raðað og gert upp á venjulegan raðvalshátt. Í prófkjöri er hins vegar raðað röðum (listum). Fyrir kjósandann breytir það engu. Kjósandinn fer að, eins og almenningi gafst kostur á í raðvali þjóðarblóms á vegum stjórnarráðsins og raðvali stæðis fyrir Gjábakkaveg á vegum Landverndar.

Morgunblaðinu, 18. október 2012: 29