Á Spáni er tímaskekkja. Henni var komið á fyrir þremur aldarfjórðungum, þegar spánverjar voru orðnir bandamenn þjóðverja. Spánverjar flýttu klukkunni um eina stund, og klukkan varð eins í Madrid og Berlín. Nú kemur til greina að hafa klukkuna á Spáni betur í samræmi við sólargang. SÍBS-blaðið í febrúar á þessu ári var allt helgað því, að klukkan hér á landi yrði höfð í samræmi við sólargang að vetrinum. Á forsíðu blaðsins stendur SKAMMDEGISÞUNGLYNDI með mynd af þungbúnum manni. Blaðið hefst svo á grein framkvæmdastjóra SÍBS, Guðmundar Löve. Hann heldur því fram, að með því að slaka á togstreitu líkamsklukkunnar og íslensku klukkunnar að vetrinum mundi líðan þjóðarinnar bætast og útgjöld sparast til heilbrigðismála. Þegar þessi heimatilbúna áþján sækir enn að nú í vetrarbyrjun, leyfi ég mér að rifja upp úr málflutningi blaðsins. Þórgunnur Ársælsdóttir, geðlæknir, segir frá rannsókn hér á landi, sem leiddi í ljós, að 11,3% þjóðarinnar ætti við skammdegisþunglyndi eða skammdegisdrunga að búa, í orðum mætti segja tugir þúsunda landsmanna.

Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur á Landspítalanum, segir frá lífsklukkunni, innri móðurklukku líkamans, sem er afmarkaður klasi af taugafrumum í undirstúku heilans. Ef gangur lífsklukkunar hliðrast, þegar misræmi verður milli hennar og ytri klukku (staðartíma), seinkar eða flýtir það líkamsferlum, sem eru háðir lífsklukkunni og meginvirknin lendir á röngum tíma sólarhringsins. Hún nefnir seinkaðar dægursveiflur, fólk fer seinna að sofa, og það leiðir af sér svefnskort, sem leiðir til dagsyfju með skertum afköstum, lengri viðbragðstíma og minni einbeitingu, árvekni og athygli. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur, bendir á, að með því að stilla klukkuna, eins og nú er, sé raunverulegt hádegi klukkan hálftvö, og því fara flestir í raun og veru á fætur um miðja nótt til þess að mæta í vinnu eða skóla. Þannig þröngvi ytri aðstæður innri líkamsklukkunni í rangan takt, og það sé ekki gott. Andrés Magnússon, geðlæknir, segir það töluvert álag á líkamsklukkuna að hafa klukku, sem gengur einni og hálfri stund of snemma, eins og er hér við Faxaflóa. Þá er viðtal við manninn á forsíðunni, Sigurð Ragnarsson, veðurfræðing, um skammdegisþunglyndi hans. Þar lýsir hann því, hvernig slíkt þunglyndi bitnar á öðrum, „…þegar maður byrjar að pirrast út í allt og alla. Það byrjar vægt og bitnar fyrst á heimilinu, maður fer að sussa óþarflega mikið á krakkana og tuða við konuna … Á vinnustaðnum er maður svo að láta smávægilega hluti fara í taugarnar á sér sem gerðu það ekki áður. … þarna er skammdegisþunglyndið ekki aðeins farið að hafa áhrif á mann sjálfan heldur manns nánasta umhverfi, fólkið sem manni þykir vænst um.“ Lýsing Sigurðar bendir til þess, að fjöldi þeirra, sem búa við þetta skammdegisböl, sé nokkrum sinnum áðurnefndir tugir þúsunda. Það er merkilegt, að rækilegur málflutningur, eins og birtist í SÍBS-blaðinu í fyrravetur, skuli ekki hafa hreyft við mönnum til að lina böl þessa fjölda, sem þar að auki hvílir fjárhagslega á heilbrigðiskerfinu, með þeirri einföldu aðgerð að færa staðartíma nær sólargangi. Spánverjar komust í takt við þjóðverja með því að skekkja tíma sinn. Íslenskt atvinnulíf þarf að vera í takt við atvinnulíf í öðrum löndum, vestan hafs og austan. Guðmundur Löve tekur það upp í lok forystugreinar sinnar í SÍBS-blaðinu, að tölvupóstur hafi „tekið yfir bróðurpartinn af öllum viðskiptasamböndum við útlönd og óþarfi að hafa áhyggjur af slíkum sjónarmiðum, sem eitt sinn voru uppi.“

Morgunblaðinu 4. nóvember 2013