Maður einn lagði það til í dagblaði í fyrravetur, að sumardagurinn fyrsti yrði færður fram til föstudags í fyrri hluta maímánaðar, enda væri oft lítið sumarlegt um sumarmál, en með því að hafa hann á föstudegi raskaðist vinna minna.
Enginn andmælti þessu í blaðinu. Einn bréfritari tók undir það og taldi þetta sjálfsagt mál. Þó hefur engu verið breytt.
Þrátt fyrir nafnið getur dagurinn vitaskuld ekki orðið eiginlegur sumardagur, ekki frekar en að fyrsti dagur ársins gæti orðið venjulegur dagur hins nýja árs. Báðir eru þeir dagar fyrirheita og vona.
Ekki veit ég, hvernig hið forna tímatal var ákveðið, með tvískiptingu ársins í vetur og sumar, þar sem almanakssumarið spannar yfir vor, sumar og haust í veðurfari. Hugsum okkur, að maður fengi það verkefni að skipta árinu í tvær árstíðir, vetur og sumar, og velja dagana, sem teljast skilja á milli. Hugsum okkur, að hann teldi rétt að fara eftir hitastigi og láta þann hluta ársins, sem er hlýrri en meðalhiti ársins, teljast sumar, en hinn hlutann vetur. Samkvæmt hitamælingum í Reykjavík 1951-80 yrðu skilin 28. apríl og 19. október. Þá yrðu sumardagarnir heldur færri en vetrardagarnir. Nú hafði maðurinn einnig fyrirmæli um að hafa árstíðirnar jafnlangar. Það fengist með því að hafa 4-5 daga undir meðalhita ársins sumarmegin vor og haust, en þá yrðu skilin 23. apríl og 23. október. Sumardaginn fyrsta bar einmitt upp á 23. apríl í ár, en fyrsta vetrardag upp á 24. október. Verða önnur skil betur valin? Af þessu mætti ætla, að árstíðaskipti fornaldar hefðu verið fundin með nákvæmum veðurathugunum.
Ef sumardagurinn fyrsti yrði færður fram undir miðjan maí og hafður á föstudegi, fengju margir þrjá samfellda frídaga skömmu fyrir næstu þrjá samfelldu frídaga, hvítasunnuna (bæri það ekki líka upp á lögboðna kosningahelgi í maí?). Þá mundi útilega freista margra, sem horfðu til himins út um glugga, en gáðu ekki að gróðurleysi og næturkuldum.
Íslendingar eru svo mikið sumarfólk, að þeir hafa sumartíma allt árið. Þannig fær fólk bjartara síðdegi vor og haust og meira myrkur á morgnana í skammdeginu. Börn lenda því í myrkri á leið í skóla mörgum vikum lengur en áður var, þegar klukka fylgdi sól að vetrinum. Víða bæta menn um betur í maí og júní, trúlega að ráði kvenna, og breyta vinnutíma og byrja fyrr til að geta notið lengur sólskins að loknum önnum dagsins. Þeir, sem stjórna landinu og höfuðborginni, opna skrifstofur sínar klukkan 8, en þá er sólarklukka 6.35 (höfuðborgarsólin er nefnilega í hádegisstað fyrst kl. 13.25). Mér þykir ósennilegt, að annars staðar sé farið svo snemma að stjórna, nema ef vera kynni í löndum, þar sem lokað er um miðjan daginn vegna hita. Óhugsandi er, að nokkurs staðar sé hætt að stjórna landi og höfuðborg eins snemma og hér er gert að sumrinu eða þegar sólarklukka er 14.35.
Áður en sími og útvarp tengdu heimilin saman, gat hvert heimili haft eigin klukku, án þess að tímasetning misskildist til vandræða. Ýmsir höfðu klukkuna á undan sól, einni, hálfri annarri eða tveimur stundum (mest fjórum stundum, svo ég viti), eða á undan símaklukku, eins og sagt var, og hófu þá t.d. vinnu kl. 9 eða 10, þegar símaklukka var 8. Dagurinn þótti nýtast betur með slíkri blekkingu, enda kallað búmannsklukka. Ég hef kynnst fólki, sem ólst upp við hana og þótti munaður að fá þannig að liggja fram eftir, en fara þó ekki seinna á fætur en annað fólk, jafnvel fyrr. Nú býr öll þjóðin við búmannsklukku árið um kring og heldur, að hún leyfi sér að sofa lengur fram eftir en aðrar þjóðir.
Lesbók Morgunblaðsins 16. maí 1987