Morgunblaðið greinir frá því, að Flugleiðir óttist, að umrædd breyting klukkunnar hér á landi verði til vandræða fyrir félagið, þar sem það eigi ekki kost á öðrum lendingartímum á stórum flugstöðvum vegna þrengsla, og var London nefnt. Hér er eitthvað málum blandið. Flugleiðir hljóta að geta haft brottför frá Íslandi á sama tíma og nú er miðað við sólargang.

Ef klukkunni verður breytt, en brottför höfð á sama tíma miðað við sól, verður brottför, sem nú er kl. 7:30, en það er sex klukkustundum áður en sól er í hádegisstað á Suðurnesjum (kl. 13:30), kl. 6:30, sex klukkustundum áður en sól yrði í hádegisstað á Suðurnesjum (kl. 12:30). Áætlaður lendingartími á flugstöðvunum í London yrði óbreyttur, þar sem þetta er ekki breyting miðað við klukkuna í London. Breta varðar ekki hvað brottfarartíminn kallast á Íslandi, þegar komutíminn er óbreyttur.

Morgunblaðinu (Velvakandi), 26. febrúar 2019