Rannsóknarsviðið
Rannsóknarsviðið er aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu.
Helstu viðfangsefni: Að athuga, hvernig gefst kostur með raðvali og sjóðvali að tefla fram afbrigðum máls og fylgja málstað í samræmi við mat hvers og eins, borið saman við það, sem menn hafa átt að venjast, og þá hvernig málsmeðferð og forsendur félagsstarfs breytist með aðferðunum.
Sjóðval er mest spennandi, það er aðferð við lýðræði hliðstæð almennum gjaldmiðli í hagstjórn.
Staðan 2020
Það breytti miklu um skilninginn á því, hvernig beita má sjóðvali, þegar sett var fram, hvernig má viðhafa það í stórmálum. Því var fyrst lýst árið 2003 í Lýðræði með raðvali og sjóðvali. Nýrri ritsmíðar sýna æ skýrar, hvernig í hagnýtingu raðvals og sjóðvals eiga að geta birst vinnubrögð og andi, sem einkennir samfélag, sem er gott.
Málstofa á stjórnmálafræðistofnun Háskólans í Osló 12. nóvember 2019 um Raðval og sjóðval—Staðan í árslok 2018. Greinar og athugasemdir síðan 2003.
Höfundur beindi athyglinni að eftirfarandi efnum (tölur vísa til greina í bókinni):
1. Álit tjáð í atkvæðagreiðslu (26) ásamt athugun (7) og stuttri skýringu (27).
2. Náttúruvernd og stjórn auðlinda, nr. 1, 2, 3, 5, 6, 20.
3. Kosning, bæði í raðvali og sjóðvali, nr. 8, 10, 12, 17, 25.
4. Stofnsamþykktir, stjórnarskrá, nr. 9, 21.
Að því er varðar sjóðval var bent á, að málsmeðferð má enda með raðvali eða á hefðbundinn hátt, eftir því sem mönnum sýnist.
Með vísan til inngangsins (Staðan í árslok 2018) ályktar höfundur heldur eindregnar en áður, nefnilega að um sé að ræða, þegar báðar aðferðir eru hafðar í huga, stjórnarlíkan, sem fléttar betur saman markaðsbúskap og lýðræði en önnur líkön.
Hvernig mannlegt félag myndast og helst við
Raðval og sjóðval í því samhengi
Við einföldum málið með því að skipta samfélaginu í þrennt: það sem fer fram í markaði, það sem opinberir aðilar hafa veg og vanda af, og það sem gerist í nánum samböndum—meðal ættmenna og nágranna. Við beinum huganum að þeim, sem ekki geta unnið fyrir sér á fullorðins árum og tökum dæmi frá félagsskap fræðimanna, sem vinna á eigin spýtur, nefnilega Reykjavíkurakademíunni. Þeir hafa skrifstofuaðstöðu, þar sem hver og einn greiðir húsaleigu, og þeir njóta opinbers framlags, sem stendur undir stjórn og er fyrir vissum daglegum þörfum, m.a. kaffisopa á vinnustað. Fyrir um áratug sá kona nokkur um morgunkaffi kl. 10. Hún var ráðin fyrir milligöngu opinberrar stofnunar, sem hafði það hlutverk að útvega getulitlu fólki vinnu. Þessi kaffitími var daglegur viðburður, þar sem komu saman þeir, sem annars höfðu ef til vill ekki mikið hver með annan að gera. Ef hana vantaði, var fyrr tekið eftir því en þegar aðra vantaði. Hún sá af festu um reglu á kaffiborðinu. Þá varð breyting á. Hún varð sextug, og þá gilti ekki ráðningarfyrirkomulagið fyrir öryrkja, og svo var keypt kaffivél, sem hver og einn lét vinna eftir eigin smekk og þegar hentaði. Þannig dró úr daglegu samneyti, og ekki hefur tekist að bæta það. Eftir þetta kom kaffikonan öðru hverju með félaga sínum á gamla vinnustaðinn til að finna tæknifræðing akademíunnar; hann var innan handar við að finna á tónlist á Netinu—hún var nefnilega fyrir tónlist, eins og lá reyndar í ætt hennar, en svo hætti tæknifræðingurinn og fluttist í aðra heimsálfu. Þegar þessi saga var rifjuð upp á málstofu í akademíunni sem inngangur að efninu hvernig mannlegt félag helst við, kunnu menn frá því að segja, að þeir hefðu hitt þennan gamla vinnufélaga á förnum vegi og þóst finna, að henni liði eins og hún hefði verið yfirgefin. Umræðan komst ekki lengra en til að vorkenna henni, ekki orð um hvað gera mætti eða gera skyldi.
Hvað getur mannlegt félag gert fyrir þá sem ekki eru sjálfbjarga af ýmsum ástæðum; í þessu dæmi vegna aldursmarka og nýrrar tækni? Hvert er annars samfélagið í hvert sinn? Í þetta sinn hafði verið sett í fyrirkomulag regla með aldursmörk, sem ætla má að hafi mótast af hugmynd um það, hvernig fólk sem er einhvern veginn takmarkað eldist. Reglan á ekki nákvæmlega við um hvern einstakan, en frávik frá henni kunna að verða metin misjafnt og því ekki vel tekið.
Hugsum okkur samfélag, í þessu dæmi hrepp (bæ, borg, byggð o.s.frv.), sem á sama hátt og ríkið er undir fyrirkomulaginu um hagi þeirra sem ekki eru fyllilega liðtækir, sem tæki í sjóðvali afstöðu til reglna og jafnvel til einstakra mála, svo sem að hreppurinn sæi um verkefni handa einstaklingum. Það gæti verið í okkar dæmi að fara á vissar félagslegar stofnanir og fræða heimilismenn (vistmenn) um tónlist á Youtube og hlekki á það efni. Menn mega hafa sína skoðun á því hvort það sé raunhæf ráðstöfun, en látum það liggja á milli hluta. Þeir sem láta sig málið varða geta verið kjörnir fulltrúar og þeir sem kusu þá, sbr. kafla III og IV í Lýðræði með raðvali og sjóðvali (2003) og Raðval og sjóðval (2019), í grein 11.—Um gildi raðvals og sjóðvals í þessu sambandi, sjá í síðarnefndu bókinni formálann og grein 26 (Álit tjáð í atdkvæðagreiðslu).
Það er kjarni málsins í opinberri skipan, að ákvæði séu hlutlæg, svo að hver einstök ákvörðun hljóti lögmæti á sama hátt. Í fyrirkomulaginu, sem þetta dæmi lýsir, býðst að fjalla um einstök mál, þar sem hver sem er getur tekið mál upp án þess að þurfa að hafa reglu að vísa til. Þegar málið er tekið upp og afgreitt, kann það að verða rökstutt og hugsanlega gagnrýnt, og þá kann að koma í ljós hversu vel það er rökstutt. Hinn endanlegi rökstuðningur verður, hvernig hver einstakur (óbreyttur þegn og fullltrúi) ráðstafar sjóðsatkvæðum í afgreiðslu málsins. Þá kemur nefnilega fram, hvernig hvert einstakt afbrigði er metið í atkvæðaboðum. Atkvæðaútgjöldin gefa málinu lögmæti.
Athuga ber, að í hverju einstöku sjóðvali er alltaf eitt afbrigðið að málinu sé hafnað.
Með þessu móti verður til vettvangur, þar sem fólk, sem ekki þarf að hafa nein samtök og ekki hefur neina fasta forystu, getur tekið mál fyrir formlega. Það skapar félagsanda í hreppnum, bænum, borginni, byggðinni o.s.frv., fyrst með því að tækifærið er til og síðan við afgreiðslu og framkvæmd málsins.