Erindi Sveinbjörns Björnssonar við kynningu á Lýðræði með raðvali og sjóðvali í ágúst 2003, endursagt og stytt.

Í undirbúningi að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er hver virkjunarkostur metinn með tilliti til fjölmargra óskyldra atriða. Í vinnu við 1. áfanga hefur verkefnisstjórnin lagt faglegt mat í hendur fjögurra faghópa, sem skipaðir eru sérfræðingum á viðkomandi fagsviði. Faghópur I fjallar um náttúrufar og minjar, hópur II um útivist og hlunnindi, hópur III um hagræn áhrif á ferðaþjónustu, byggð og atvinnu og hópur IV um virkjunarkostina sjálfa, stofnkostnað, hagnað og arðsemi. Verkefnisstjórnin ætlar síðan að vega niðurstöður þessara faghópa saman og raða virkjunum í forgangsröð.

Það er ekki augljóst, hvernig á að meta þau atriði, sem hér eru til umfjöllunar, og enn síður, hvernig unnt verður að raða virkjunarkostum með tilliti til svo óskyldra viðmiða. Sum atriði er hægt að meta í peningum og bera saman á slíkum mælikvarða. Önnur atriði eru huglæg verðmæti, sem ekki er venja að meta til fjár, svo sem gildi ósnortinnar náttúru, sjaldgæfar lífverur eða fegurð landslags.

Þegar velja átti aðferðir fyrir faghópana og verkefnisstjórnina, var leitað til kunnáttumanna á ýmsum sviðum: í aðferðum aðgerðagreiningar, ákvörðunarfræði, próffræði og valfræði. Meðal þeirra aðferða, sem þeir lögðu til, að prófaðar yrðu, var sjóðval með þeim hætti, sem Björn Stefánsson hefur þróað. Aðferðin mundi þó fremur henta verkefnisstjórn en faghópum, þar sem hún byggist á atkvæðagreiðslu einstaklinga. Í faghópum þyrfti að byggja á skilgreindum viðföngum og einkunnagjöf samkvæmt viðurkenndum viðmiðum, eftir því sem þau væri að finna í peningum, lögum, alþjóðasamningum og samþykktum. Þessar aðferðir yrðu að vera gagnsæjar og rekjanlegar og í svo föstum skorðum, að ólíklegt væri, að aðrir matsmenn, sem beittu sömu aðferðum, kæmust að mjög frábrugðinni niðurstöðu.

Til þessa hefur verkefnisstjórnin ekki gengið lengra í að vega saman niðurstöður faghópanna en að skilgreina vísitölur umhverfisáhrifa, núvirts heildarhagnaðar yfir 50 ára rekstrartíma og arðsemi stofnkostnaðar. Með þessum vísitölum er kominn aðgengilegur grunnur til samanburðar, sem nýta mætti til að raða virkjunarkostum í forgangsröð til að mæta óskum um tiltekna orku vegna áforma um stóriðju á einhverju landsvæði, til að meta hvort ráðlegt væri að fresta virkjun, meðan aðrir kostir eru nýttir, til að velja í milli mismunandi hugmynda um tilhögun virkjunar á einhverju svæði eða til að friða einhverja virkjunarstaði vegna náttúruverðmæta, sem þar er að finna. Við þessar ákvarðanir kæmi sjóðval vel til greina. Þar nýttust þeir kostir sjóðvals að vega saman andstæð sjónarmið og hagsmuni og hemja öfga í afgreiðslu mála.

Með þessi atriði í huga var gerð tilraun með sjóðval við forgangsröðun virkjana og friðunar meðal 8 starfsmanna Orkustofnunar, sem þekktu vel til virkjunarsvæðanna vegna starfa sinna. Reynsla, sem fékkst við þessa tilraun, nýttist Birni í kafla um stjórn á nýtingu auðlinda í ritinu, sem hér er kynnt. Sú reynsla lofaði einnig góðu um, að sjóðval mundi henta vel til ákvarðana, sem menn vilja taka á grundvelli þess frummats, sem rammaáætlun mun skila.

Reynsla, sem fékkst við þessa tilraun, nýttist Birni í kafla um stjórn á nýtingu auðlinda í ritinu, sem hér er kynnt (sjá greinina Rammaáætlun um jarðvarma– og vatnsvirkjanir).