Um póstnúmer
Margir kunna illa þeim sið að hafa nafn póststöðvar í utanáskrift í nefnifalli. Dæmi:
Jón Jónsson
Lambhaga
Grímsnesi
801 SELFOSS
Rök póst- og símamálastofnunnar fyrir því að hafa nafn póststöðvar í nefnifalli eru þau, að líta beri á póststöðina sem fyrsta viðtakanda. Ég fellst á það, en þá væri rökrétt, að póststöðin væri í efstu línu. Það mun þó ekki þykja heppilegt. Kunningi minn spáði því, að þessi siður að rita nafn póststöðvar í stað héraðs mundi leiða til þess, að fólk færi til dæmis að segja, að Brautartunga í Lundarreykjadal væri í Borgarnesi þar sem utanáskrift þangað er
Brautartungu
Lundarreykjardal
311 BORGARNES
Fáum dögum síðar rættist sú spá, þegar ég hlustaði á útvarpsþátt, þar sem sagt var frá því, að Brynjólfur Gíslason, Stafholti, Borgarnesi, hefði unnið verðlaun í getraun. Utanáskrift til hans hefur sennilega fylgt úrlausninni í getrauninni, en hún er nefnilega
Brynjólfur Gíslason
Stafholti
311 BORGARNES
Auðvelt er að skilja hvert hagræði póstfólki er að póstnúmerum. Hins vegar verður ekki séð, að þörf sé að auðkenna póststöðina með öðru en númeri. Menn ná símasambandi með númerinu einu og rata á hús í götu, þótt það hafi ekkert nafn, heldur aðeins númer. Þess vegna mætti hafa utanáskrift í fullu samræmi við málvenju og eðlilega kynningu og með fyllsta tilliti til þarfa póstfólks, þannig
Jón Jónsson
Lambhaga
Grímsnesi
Árnessýslu
801
Stundum bera fleiri póststöðvar eða útibú sama nafn. Nú þegar eru 16 póstnúmer tengd nafni Reykjavíkur. Það sýnir, að númerið eitt skiptir máli, en það sem á eftir stendur er til leiðbeiningar, ef númerið er skakkt. Í árituninni hér að ofan væri slíkrar leiðbeiningar að leitar í því sem stendur fyrir ofan númerið.
Þegar póstfang er kynnt í bréfi, blaði eða tímariti, er ekki haft aukið línubil fyrir ofan nafn póststöðvar og þá eru kommur oft látnar sýna línuskipti í línunni. Þá væri skýrara að setja P fyrir framan póstnúmerið, líkt og farið er að setja símatákn fyrir framan símanúmerið í bréfhaus. Dæmi um slíka kynningu á utanáskrift væri:
Sigurður Sigurðsson, Brekkustíg 47, Reykjavík, P-101.
Þá færi best, að P-ið fylgdi í sjálfri árituninni, þannig:
Sigurður Sigurðsson
Brekkustíg 47
Reykjavík
P-101
íslendingar mættu vel verða brautryðjendur í þessu efni í heiminum og láta póstnúmerið standa eitt og síðast og dálítið fyrir sig. Það væri hagkvæmast, yrði hvatning til fólks um að nota póstnúmer og mundi um leið koma í veg fyrir aulalega kynningu á stöðum og styðja þá málvenju að kynna dvalarstað með þágufalli.
Morgunblaðinu 28. ágúst 1985.