Morgunblaðið birtir öðru hverju nöfn fólks erlendis, sem vill eignast pennavini hér á landi, og fylgir nafn með póstáritun og síðan nafn landsins á ensku. Í því kemur fram algengur misskilningur um það, fyrir hvern póstáritunin er. Póstfangið er vitaskuld fyrir starfsfólk póstsins í landi viðtakanda, en nafn landsins er fyrir starfsfólk póstsins í landi sendanda. Þess vegna stendur á bréfi til Íslands frá Frakklandi Islande, enda heitir landið svo á frönsku, Island á bréfi frá Danmörku og Iceland á bréfi frá Kanada, en aldrei Ísland.

Það er líklegt, að þeir, sem senda blaðinu ósk um að komast á pennavinalista þess, semji hana flestir á ensku, og þá er eðlilegt, að þeir skrifi nafn lands síns á ensku, en þessu ætti blaðið að breyta í íslenskt nafn og bréfritarinn sömuleiðis, þegar hann sendir bréf frá Íslandi.

Það er eðlilegt í bréfi íslenskrar stofnunar að nefna hana á sama máli og bréfið er samið á. Það nafn á samt ekki við á póstáritun hennar. Hún er fyrir starfsfólk póstsins, og það á ekki að þurfa að kunna nöfn íslenskra stofnana á hinum ýmsu tungumálum.

Væri ekki ráð að setja ábendingar um þetta í símaskrána?

Morgunblaðinu (Velvakandi) 19. febrúar 1991