Enn klifa ég um póstáritanir.

Almenningur vill ekki skilja reglur um póstáritanir eins og höfundur þeirra, póstmálastjórnin, ætlast til, og afbakast þannig staðarlýsingar. Sorglegt dæmi um þetta er í „tabula gratulatoria“ í nýlegu afmælisriti málvinar Velvakanda, Halldórs Kristjánssonar frá Kirkjubóli.  Sýnilega hafa þá ýmsir sem þar eiga nafn sitt ekki skráð heimilisfang sitt heldur póstfang til þess að greiða fyrir, að ritið bærist þeim, en útgefandi, sem færði nöfnin í stafrófsröð, ekki haft rænu á að greina þar á milli.  Útkoman varð sú, svo að dæmi séu tekin, að systkini Halldórs tvö, sem búa heima á Kirkjubóli, eru sögð vera á Flateyri, kirkjustaðurinn Mýrar í Dýrafirði á Þingeyri, sögustaðurinn Kaldaðarnes í Flóa á Selfossi, og svo mætti lengi telja.

Eins og kunnugt er, er regla póstmálastjórnar að skrá heiti póststöðvar í nefnifalli, með þeim rökum að hún sé fyrsti viðtakandi, þótt það standi neðst.  Þetta sættir fjöldinn sig ekki við, heldur skráir póststöðina iðulega í staðarfalli án póstnúmers.  Þá lítur svo út sem heimili viðtakanda sé á sama stað og póststöðin.

Símanúmerið er einkenni símans og símhafinn heldur óbrengluðu heimilisfangi.  Póstnúmerið er hið eiginlega einkenni póststöðvarinnar.  Í Vesturheimi er póstur áritaður í samræmi við það.  Ég hef fyrir framan mig áritun opinberrar stofnunar í Kanada.  Þar stendur í næstneðstu línu Hull, Quebec og í neðstu línu er einkenni póststöðvarinnar K1A 0H3.  Það er póstþjónustunnar að vita hvar K1A 0H3 er niður komin, en skrifstofan, sem bréfið á að fá, er greinilega í Hull, Quebec.  Líkt er það í áritunum í Bandaríkjunum, að þar kemur neðst í árituninni nafn ríkisins og fyrir aftan það tala, og það er vitaskuld talan sem póstþjónustuna varðar fyrst um.  Með því að taka þetta til fyrirmyndar má samræma málskilning almennings og þarfir póstþjónustunnar.

Meðan póstmálastjórn er að átta sig á málinu, getur hver og einn gert sjálfur eins og Kanadamenn í kynningu á eigin póstfangi og í áritunum á póst, sem hann sendir, að setja tölu póststöðvarinnar eina í neðstu línu, með heimilisfang óbrenglað ofan við í staðarfalli á heimili og byggðarlagi.  Tryggara er að setja einkennisstafi landsins (IS fyrir Ísland) fyrir framan tölu póststöðvarinnar.

Birtist í dálki Velvakanda í Morgunblaðinu  20. mars 1991