Sveitin austan Hrútafjarðar, Staðarhreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, er einhver besta sauðfjársveit landsins. Í sumar fór ég með Norðurleið norður í land, og þá var stansað í Staðarskála í hádeginu og ferðafólkinu gafst færi á að snæða þar í skálanum. Á matseðlinum var ekki að finna á boðstólum nokkra tægju af sauðkind, þó að vel væri leitað. Ég er ekki nógu kunnugur á veitingastöðum til þess að fullyrða, að frammistaða sölumanna bænda sé alls staðar jafnafleit, - ég reyni helst að setjast upp á fólk og láta bjóða mér í mat, þegar ég er á ferð, þykir það skemmtilegra, ódýrara og fróðlegra, en tímafrekara.

Mér er sem sagt spurn, hvað gera sölumenn bænda til þess að sjá til þess, að íslenskar afurðir haldi velli, þó að ný matreiðslutækni sé tekin upp? Hvað er gert í húsmæðraskólum sveitanna? Halda kennarar þeirra tryggð við íslenskar afurðir og vinna að því að gera notkun þeirra fjölbreyttari eða taka þeir undir þann hatursáróður gegn innlendum afurðum, sem magnast hefur nú í haust, þegar bændur fengu kauphækkun tveimur mánuðum á eftir öðrum landsmönnum? Forstöðumenn sölufélaga bænda athuga vonandi sinn gang í þessum málum.

Á fáum árum hefur viðhorf manna til matvælaframleiðslu í heiminum breyst mikið vegna mikillar mengunar, sem menn hafa áttað sig á, að er hættuleg öllu lífi. Það er því líklegt, að íslenska þjóðin og mannkynið allt þurfi fyrr en varir á allri framleiðslugetu íslensks landbúnaðar að halda. Þetta nýja viðhorf breytir ekki því, að sem stendur og trúlega allra næstu árin á íslenskur landbúnaður í vök að verjast að halda hlut sínum í neyslu landsmanna á matvælum. Þar er vafalaust margs að gæta, sem ég þekki ekki til, en ég nota tilefnið til að minna á hlut veitingastaða og húsmæðraskóla í þessu efni.

Frey 66 (1970) 471.