Nýlega mátti lesa það í sænskum blöðum að læknar hefðu komist að því, að ýmsir foreldrar hefðu farið út í öfgar í ótta sínum við feitan mat og vannært börn sín með því að gefa þeim undanrennu eða magra mjólk í stað heilmjólkur. Börn þyrftu fitu til að standa undir örum vexti og til þess væri mjólkurfita kjörin.

   Það bar til í ferð minni frá Svíþjóð nú í haust að ég lenti í hollenskri vél frá Gautaborg til Oslóar vegna bilunar SAS-vélar. Þar var ekið vagni með drykkjarföngum eftir ganginum og farþegum boðið, þar á meðal var drykkur sem ég minnist ekki að hafa séð framborinn áður í flugvél, nefnilega mjólk (heilmjólk stóð á lítrafernunni). Það er ekki einu sinni svo að maður fái mjólk í kaffi í Flugleiðavélum.

   Í Osló tók við Flugleiðavél. Þar var borin fram köld lúða og rækja, lystugur matur, og svo vond skinka sem ég át, enda ekki matvandur og hafði dagana áður gist grænmetisætur. Sessunautur minn hafði hins vegar ekki lyst á skinkunni, en minntist þess að hafa einhvern tíma fengið lambakjöt í flugferð og óskaði þess að það væri oftar. Það var framreitt sem gúllas í heitri sósu. Það ætti að vera Flugleiðum í hag að bjóða íslenskan mat og kynna þannig landið útlendingum sem með þeim ferðast.

Frey 79: (1983) 924