Neyðin kennir naktri konu að spinna, og nú hafa bændakonur vakið athygli á því, að mjólkurglas á dag til viðbótar gæti komið sölumálunum í lag. Ekki þykir víst, að fullorðið fólk hafi gott af að drekka meir fullfeita mjólk, en öðru máli gegnir um mysu og fituskerta mjólk og skyr. Skyr er nú merkilega sjaldan á borðum á sveitaheimilum og mysa sést þar aldrei, en selst orðið talsvert í Reykjavík.

Læknar hafa ekki varað við, að börn drekki mjólk með eðlilegri fitu. Því er furðulegt að sjá á matborðum sveitaheimila fituskerta mjólk handa börnum, að ég tali ekki um uppleyst rotvarnarefni. Óttinn við mjólkurfitu hefur sums staðar gengið svo langt, að börn líða af fituskorti. Um það hef ég lesið ábendingar í sænskum blöðum. Ég minnist þess, þegar ég var ungur maður hjá Jörundi í Kaldaðarnesi, þar sem var margt barna og unglinga, að hann hélt mjólk að börnum. ,, Hún slær á lystina,’’ sagði hann. Hins vegar slær drykkja uppleystra rotvarnarefna eða ávaxtasafa ekki á lystina, enda dæmi þess, að börn, sem fá slíkar veigar í stað mjólkur, fitni úr hófi, því að þau sækja því meira í lítt saðsaman fitandi mat.

Mjög hefur sá siður breiðst um landið að hafa ekki spónamat með átmatnum, eins og áður var. Ég minntist á þetta á sveitaheimili einu, þar sem ég var gestkomandi. Yngri kona á bænum svaraði því til, að konur nenntu ekki að fást við það, heldur létu átmatinn nægja. Þá rann upp fyrir mér, að þessi nýi siður drægi verulega úr mjólkurneyslu. Spónarmaturinn var oft úr mjólk. Ég nefni sem dæmi hrísgrjónagraut, makkarónumjólk, eggjamjólk, kókósúpu, kringlumjólk og skyrsúpu. Mjólk í slíkri mynd fer betur í maga með fiski eða kjöti en kalt mjólkurglas. Að morgni fer fátt betur í maga en skyrhræringur.

Frey 82 (1986) 394