Ég vil vekja athygli lesenda Freys á nýjum skoðunum um hollustu feitmetis sem Ólafur Sigurðsson matvælafræðingur hefur kynnt undanfarin misseri í blaðagreinum. Þær virðast hafa farið fram hjá ýmsum sem ættu að láta sig málið varða. Ólafur hefur rakið mál úr vísindaritum, eins og blaðamaður frekar en matvælafræðingur.

Í stuttu máli er afstaðan þessi hjá þeim sem eru í fararbroddi í þessum vísindum að fiskifita hafi heppileg áhrif á blóðrásina, búfjárfita sé meinlaus, en ýmis jurtafeiti sé varasöm, sumar tegundir hennar sem hráefni, en auk þess geti matreiðsla spillt þeim.

Sumir svara því til þegar ég vek athygli á þessu, að þeir hafi yfirleitt litið svo á að kenningar um skaðsemi einstakra fitutegunda hafi mótast af hagsmunum þeirra sem veiti fé til rannsóknanna. Ég skal ekki bera á móti því að slíkt kunni að hafa ráðið áliti einhverra, en athugum líka hvernig þessu afstöðubreyting gerðist.

Ólafur starfaði um skeið hjá Sigmundi Guðbjarnasyni prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands. Þar var verið að rannsaka lýsi með tilliti til blóðrásar. Rannsóknir Sigmundar voru vitaskuld í tengslum við framverði slíkra rannsókna vestan hafs. Með rannsókn á fiskifitu skerptist skilningur manna á hinum ýmsum fitusýrum sem mynda fituna eins og hún kemur fyrir á skepnunni eða á matborði. Skal ég ekki fara lengra út í þá sálma, enda ekki fær um það.

Ólafur starfaði í nokkur ár í matvæladeild Iðntæknistofnunar. Hann virðist hafa stundað þessi blaðaskrif ótilkvaddur sem alþýðufræðari, en er nú farinn til starfa við fiskeldi á Hjaltlandi.

Í þessu sambandi vil ég rekja frásögn norska dagblaðsins Nationen af rannsóknum á áhrif neyslu fitu í lambakjöti á kólesteról í blóði, með yfirskriftinni:

„Fitusýra í kindakjöti dregur úr kólesteróli“

Neytið kindakjöts með góðri samvisku. Þannig hlýtur að mega álykta eftir að breskir vísindamenn hafa fullyrt að mettaða fitusýran sterínsýra, sem mikið er af  í kindakjöti, dragi úr kólesteróli í blóði. Jan I. Pedersen prófessor við Næringarrannsóknarstofnunina tjáir Nationen að það sé nýlega uppgötvað að sterínsýra dragi úr kólesteróli. – Áður héldu menn að því væri öfugt farið, segi hann. – Því má þó síst gleyma að í kindakjöti eins og öðru dökku kjöti eru aðrar fitusýrur sem auka kólesteról í blóði. Með öðrum orðum sagt tekst því ekki að draga úr kólesteróli með því að auka kindakjötsneyslu. Hins vegar er engin ástæða til að hvetja fólk til að neyta minna af kindakjöti, eins og við gerum t.d. varðandi nautakjöt, segir Pedersen prófessor.

Getið er um uppgötvun bretanna í tímarítinu New England Journal of Medicin. 14 manns voru rannsakaðir með því að setja sterínsýru í stað palmitínsýru í fæðið með þeim árangri að kólesterólið í blóði minnkaði um 20 af hundraði á þremur vikum.

Þetta er stórmerkilegt. En við skulum ekki fullyrða hvað þetta varðar næringu fólks fyrr en fleiri rannsóknir hafa sýnt sama árangur segir starfsnautur Pedersens, Kristian Drevon prófessor við Neyslurannsóknadeild við Nationen.

Hann leggur áherslu á að ekki verði sagt að kindakjöt sé ,,hollara’’ en annað kjöt, þótt í því sé meira af sterínsýru, þar sem hlutfall hennar miðað við aðrar mettaðar fitusýrur sé ekki yfirgnæfandi.

Eðlilegt er að spyrja að fenginni uppgötvun breta: Hvernig vegnar íslendingum sem neyta sexfalt meira kindakjöts en við norðmenn? Hvernig er tíðni dauðsfalla og hjarta- og æðasjúkdóma þar í hlutfalli við önnur ríki Norðurlanda?

Nation var tjáð á skrifstofu landlæknis á Íslandi að í því efni væru íslendingar líkt staddir og norðmenn og svíar. Þar vilja menn ekki álykta neitt um neysluna af þessu. Það mál er yfirleitt svo flókið að ekkert verði sagt um sjúkdóma- og dánartíðni með tilliti til kindakjötsneyslu.

Jan I. Pedersen prófessor tekur undir þetta. – Hins vegar virðast íslendingar sanna það að mikil neysla kindakjöts eykur ekki dánartíðni vegna hjarta- og æðarsjúkdóma. Auk þess verða íslendingar miklu eldri en norðmenn. Þeir verða raunar þjóða elstir.

Að lokum hefur blaðið það eftir Pedersen að nú sé rannsakað af kappi hvernig hinar ýmsu fitusýrur móti fituefni í blóði. Sterínsýra sé aðeins ein af um 50 fitusýrum sem myndi fituna.

Dómsvaldið og Jón Hreggviðsson voru lengi í vafa um það hvort hann hefði drepið  mann. Svo fór að lokum að hann var sýknaður. Eitthvað líkt virðist vera að gerast með búfjárfituna. Vegna hagsmuna þjóðarinnar af fisksölu er ekki síður mikilvægt að fiskifita er að komast í mikið álit. Samt er starfandi öflugur félagsskapur á Íslandi sem telur fiskneyslu lífshættulega, nefnilega Náttúrulækningafélag Íslands, og nýtur viðurkenningar heilbrigðisyfirvalda með fjárveitingum.

Frey 85 (1989): 649, 651