Undanfarið hefur mikið verið fjallað í Morgunblaðinu um ráð til að forðast offitu. Þar sakna ég þess, sem kunningi minn, búfjárfræðingur, benti mér á fyrir alllöngu, að taka beri til greina, að það slær á lystina að éta fitu. Saðningartilfinningin kemur reyndar, áður en fitan kemur í magann, hún verður til, þegar fitan kemur í hálsinn (vélindað). Það getur hver reynt á sjálfum sér, hvort matarlystin verður ekki strax minni við að fá sér teskeið af rjóma í upphafi máltíðar. Því er gott ráð til að gæta hófs í hefðbundnu kaffisamsæti, þar sem á boðstólum eru rjómatertur ásamt sandköku og marmaraköku, að byrja á rjómatertu. Það dregur úr lystinni til að bæta á sig kolvetnunum í marmarakökunni og sandkökunni. Ef menn byrja á rjómalausu kökunum, kemur saðningin hins vegar seint. - Í þessu sambandi rifjast upp fyrir mér, þegar ég var að sumarlagi á bæ einum, þar sem var margt matlystugra barna og unglinga, að bóndinn sagði eldhússtúlkunum að gefa þeim mjólk að drekka, þegar þau báðu um eitthvað milli mála. Það slær á lystina, sagði hann. Mjólkin var beint úr fjósinu og rjóminn gat sest ofan á.

Hitaeiningar í grammi af fitu eru reyndar meira en helmingi fleiri en í grammi af kolvetnum, sem fást í brauði eða pasta. Því gæti sýnst réttast að halda sig við kolvetni til að hafa hóf á holdunum, en þá er ekki tekið með í dæmið, hvernig matarlystin minnkar við að fá fitu í hálsinn. Þetta á einnig við um búfé, sem er fóðrað til afurða og mikilvægt, að átlystin haldist sem best. Þannig eru svín ekki fóðruð á fitu, heldur kolvetni (mjöli).

Morgunblaðinu 16. nóvember 2000 (Bréf til blaðsins).