Markmið Lýðræðissetursins er að kynna raðval og sjóðval um víða veröld. Það gerist með útgáfu bókarinnar Lýðræði með raðvali og sjóðvali á ýmsum tungumálum. Þannig er málinu beint til alls almennings. Það gerist einnig með því að venja menn við að gera ráð fyrir raðvali og sjóðvali, þegar mál eru hugsuð út og lögð fyrir til afgreiðslu. Það varðar ekki síst þá, sem eru í áhrifastöðu, alþingismenn og ráðamenn innanlands og á alþjóðavettvangi. Meðan raðval og sjóðval eru lítt þekktar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og menn kjósa að nota þær, þarf að sýna fram á, að ástæða sé til þess. Þegar fram í sækir og þær verða þekktar, ætti það að snúast við, svo að frekar verður ástæða til að útskýra, ef þær eru ekki viðhafðar.