Við heyrum sagt frá fjarlægum og frumstæðum þjóðum, þar sem öll samskipti eru bundin í ófrávíkjanlegar reglur. Ætli við höfum ekki flest búist við því að slíkur agi hyrfi í samfélagi verkaskiptingar og viðskipta? Það var því mjög óvænt núna í haust, að svo virtist sem tugþúsundir íslenskra heimila ætluðu að láta stjórnendur tveggja sjónvarpsstöðvar ráða því, hvenær neytt er kvöldverðar, en þannig mátti skilja viðbrögð fólks og gremju, þegar stöðvarnar ákváðu að færa fréttatíma sína í haust.

Á mörgum mátti heyra að með nýjum fréttatíma hyrfi eina stundin sem heimilisfólk ætti saman út af fyrir sig. Eftir kvöldmat tæki sjónvarpið völdin, en fyrir kvöldmat væri heimilislíf mjög á hlaupum og þá væru líka merkilegir sjónvarpsþættir, ef marka má þá sem fjalla um sjónvarsdagskrá í dagblöðum.

Með tilkomu sjónvarps á heimilum varð lítið næði til að sinna gestum. Þess vegna hætti fólk yfirleitt að líta inn til kunningja að kvöldlagi til að setja húsráðendur ekki í þann vanda að velja á milli þess að horfa á sjónvarp eða sinna gestum. Fáir þykjast vera skemmtilegri gestir en sjónvarpið eða fræða meira og til lítils er að fara í heimsókn til þess eins að sjá sama efni og sjá má á skjánum heima hjá sér. Alltaf býðst eitthvað nýtt á skjánum og truflar samvistir, því áhugaefnin eru misjöfn.

Sjónvarpsfréttirnar hafa af einhverjum ástæðum haldið almennri athygli, þótt þær séu oft rýrar, fréttatíminn fylltur með efni sem ekki er á döfinni og sjaldan myndefni, sem bætir nokkru við nýjustu fréttir, sem áður eru komnar í útvarpinu. Sjónvarpið hefur helst yfirburði yfir útvarp í fréttum af eldgosum.

Gremjan sem kom fram vegna nýs fréttatíma sýndi, að almenningur virtist ekki geta hugsað sér að láta sjónvarpsfréttirnar víkja fyrir sameiginlegri kvöldmáltíð í sæmilegu næði. Raunar var farið að  tíðkast, að börn væru látin matast fyrir framan sjónvarp til að hafa þau stillt.

Kvöldverðurinn er víða orðinn aðalmáltíðin í stað hádegisverðar, á ábyrgð húsmóður, en sums staðar með aðstoð eiginmanns og barna. Með ríkulegri kvöldmáltíð staðfestist sú tilfinning, að gott heimili undir stjórn húsmóður fullnægi grundvallarþörfum fólks, líkamlegum og andlegum. Á vinnustöðum, þar sem boðið hefur verið upp á heitan mat í hádeginu, hafa konur og góðir eiginmenn, sem ekki hafa þörf fyrir tvær heitar máltíðir á dag, komist í nokkurn vanda, og orðið ofan á hjá mörgum að sleppa hádegismat eða eta aðeins léttmeti, en það er ekki án fórnar. Hugsun þess sem er vannærður fram eftir degi verður sljó, menn verða úrillir, slysahætta í vinnu eykst og hætt er við að menn fitni úr hófi við að nærast mikið að kvöldi.

Á hádegi er matarlystin oft orðin góð og viðurkennt er á þessum heilsufæðistímum, að manninum er hollast að taka til sín aðalnæringuna fyrri hluta dags. Þeir sem það gera hafa fæstir gott af ríkulegri næringu að kvöldi. Nú, þegar kvöldmatartíminn er hvort sem er kominn í hers hendur, ættu þeir, sem eiga kost, að mega njóta almennilegs hádegisverðar með góðri samvisku og láta sér nægja léttmeti á kvöldin og búa sig þannig undir nóttina eins og hollast er.

Yfirráð sjónvarpsins yfir heimilunum hafa rýrt mjög áhrif kvenna. Önnur heimilisstörf en undirbúningur kvöldmáltíðar eru vitaskuld mörg hver mikilvæg, en það er ekki eins augljóst, og utan heimilis eru konur undantekningarlítið undirmenn. Vissulega eru verkefni þeirra, þótt undirmenn séu, oft fullt eins vandasöm og verkefni karla, en það hefur ekki verið metið að verðleikum.

Miklar breytingar hafa orðið á stöðu stéttanna undanfarna áratugi. Ætli nokkur þjóðfélagsstétt hafi verið niðurlægð eins rækilega og húsmæður? Þær hafa löngum verið látnar laga sig að störfum sem unnin eru utan heimilis. Langt er síðan farið var að ákveða skólatíma án tillits til máltíða heimilanna, þótt þær væru þá fastákveðnar og handa öllum að minnsta kosti þrisvar á dag. Heimilin eru á kvöldin eins og notaleg sýningarherbergi og húsmæður bera fram veitingar.

Völd sjónvarpsins yfir hugum fólks og samskiptum eru daglegt gremjuefni á heimilunum. Á að sleppa úr dagskránni eða sitja sem fastast? Get ég boðið nokkuð betra en sjónvarpið? Gremst hinum ekki ef ég læt í ljós ósk um að loka eða gremst hinum ef ég vil horfa á og ekki sinna öðru fólki? Hússtjórn þar sem stjórnandi verður stöðugt að haga, seglum eftir vindum sjónvarpsins er lýjandi. Sú hvíld, sem fólk finnur í utanlandsferðum, ekki síst húsmæður, er trúleg mikið því að þakka að fólk losnar úr fjötrum fjölmiðla á heimilunum og getur átt ótrufluð samskipti við sína nánustu og samlanda yfirleitt.

Lesbók Morgunblaðsins 24. janúar 1987: 3