Það gerðist hér nýlega, að maður nokkur, sem hafði verið að heiman nokkra daga, hringdi heim. Sonur hans 11 ára tók símann. Faðirinn spurði: „Hvað segirðu?" og drengur svaraði „allt ágætt" og dró seiminn. Síðar kom fram í samtali þeirra, að hann hafði handleggsbrotnað, en hann fylgdi siðvenju og sagði „allt ágætt".

íslendingar bera sig vel og gera lítið úr vanlíðan annarra. „Honum líður vel eftir atvikum," er sagt, þegar atvik eru þannig, að manninum hlýtur að líða illa. Ég spurði eitt sinn um fólk mér kunnugt. „Þeim líður vel eftir ástæðum," var mér sagt. Ég forvitnaðist um ástæður fólksins og þá kom í ljós, að þær voru slæmar.

Íslendingar töldust hamingjusamari en aðrar þjóðir samkvæmt nýlegri könnun á lífsviðhorfum. Raunar var aðeins kannað, hvernig fólk lét af sér. Svörin voru í stíl við orðtak ömmu minnar: „og það er þó alltaf búningsbót að bera sig karlmannlega," en svo kvað Kristján Fjallaskáld. (Ekki entist honum búningsbótin lengi, hann lést 26 ára gamall.)

Í Hávamálum er hollræðið „glaður og reifur skuli gumna hver, uns sinn bíður bana", og enn kvað Þórir jökull á banastund

„skafl beygjattu, skalli,
þótt skúr á þig falli".

í þessu efni er því allt við það sama með þjóðina frá upphafi. Fyrsti íslenski forsætisráðherrann felldi hið hressilega viðhorf í stuðla:

„Ég vildi það yrði nú ærlegt regn
og íslenskur stormur á Kaldadal." Og enn kvað hann:
„og — alltaf má fá annað skip
og annað föruneyti".

Ég hef ekki þurft að horfa á eftir neinum mér nákomnum í sjóinn, en ég hef oft hugsað, þegar ég heyri framangreint sungið, hvernig samtíðarmönnum skáldsins var innanbrjósts að heyra slíkt, sem þúsundum saman höfðu misst son, föður, bróður og eiginmann í sjóinn. Hefur heyrst um sjómann, sem neitaði að fara í róður, þótt hann sæi, að það væri flan? í nútímanum fá mannalætin mynd í ávarpsorðunum „ertu ekki hress?" Sumir útvarpsþulir og þáttastjórnendur eru syngjandi hressir, en aðrir tala stillilega og í sama tón, nema þegar þeir segja sorglegar fréttir; þeir heyrast samt.

Víst er ánægjulegast að hitta fólk, sem ber sig vel og er glaðvært, ef slík framkoma er eðlileg, en ekki tilgerð samkvæmt tísku. En sorgin á líka sinn tíma. Það er illa gert að hasta á þann, sem grætur, barn eða fullorðinn, eins og oft má heyra. Víðtækar rannsóknir, sem breski sálfræðingurinn Eysenck kynnti í fyrrahaust í erindi í Krabbameinsfélaginu í Reykjavík, benda eindregið til þess, að þeir lifi helst af krabbamein, sem bæla ekki niður angist sína, þegar slíkt mein kemur í ljós. Kona nokkur fékk illkynjað mein, og kvartaði og bar sig illa. Að því var fundið við hana. Konan lifir enn. I eftirmælum dagblaðanna er dauðastríði krabbameinssjúklinga furðu oft lýst svo, að „aldrei heyrðist æðruorð frá honum" eða „hún kvartaði aldrei". Slík viðbrögð þykja lofsverð, en kunna sem sagt að bera dauðann í sér. Víst þurfa fullorðnir oft að harka af sér, en börn, sem ekki fá að gráta af þörf (þau gráta aðeins af þörf) gráta inn í sig og munu aldrei þola mikið fullorðin, þótt þau kunni að temja sér að bera sig mannalega.

Hvað er að vera forn í skapi? Er það að bera sig vel samkvæmt Hávamálum, þótt innra blæði? Er það líka að vera „hress" í nútímastíl?

Lesbók Morgunblaðsins 14. mars 1987: 3