Jón Steingrímsson, eldklerkur, lýsir í ævisögu sinni stakri ógestrisni, sem þeir bræður mættu, þegar þeir fóru suður Kjöll og fluttu búferlum úr Skagafirði. Sunnlendingar voru á varðbergi gagnvart framandi fólki, enda bláfátækir og þjakaðir af harðindum og drepsóttum. Sú gestrisni, sem einkennt hefur þjóðina, eins lengi og elstu menn muna, var samkvæmt þessuekki til um miðja 18. öld.

Sá finnur það best, sem er með öðrum þjóðum eða sinnir erlendum gestum, að gestrisni og rausnarlund er samgróin þjóðinni. Ég sá um nokkra leiðangra útlendinga í sumar leið. Þeim þótti landið fagurt og frítt, byggingar myndarlegar og þrifnaður til prýði, móttökur rausnarlegar í mat og öll kynning veitt frjálslega af alúð og afgreiðslufólk í verslunum greiðvikið og áhugasamt. Þegar ég fann hrifningu fólksins, óskaði ég þess með sjálfum mér, að við íslendingar mættum koma eins fram við samlanda okkar, svo sem í bílaumferðinni. Auðvitað er þetta m.a. því að þakka, að  þjóðin býr við góð efni og ekki mikla gestanauð. Það þykir enn nokkurt átak að ferðast til Íslands og dýrt og gestakomur sérhópa ekki tíðar, svo að nokkur tilbreyting þykir og lærdómur að taka á móti þeim.

Norðmenn hafa fengið marga gesti langt að komna á allra síðustu árum og þeir eru komnir til að vera. Þetta er sumt langhrakið fólk, en aðrir koma í skjóli þess og hafa sæmileg efni og starfsmenntun. Í sumum skólum í Ósló eru börn af framandi þjóðum í meirihluta í yngri deildum. Mörgum er nóg boðið, trúlega ekki síst þeim Norðmönnum, sem búa við skarðan hlut og telja eftir það, sem gert er fyrir gestina. Þeir mæta því vaxandi andúð. Við sveitarstjórnarkosningarnar í haust kepptust stjórnmálaflokkarnir um að setja innflytjendur í örugg sæti, en fjöldi kjósenda svaraði því með því að strika þá út, svo að þeir féllu. Í verkamannahverfum í Ósló var óvenju lítil kjörsókn. Virtist Verkamannaflokkurinn hafa misst þannig mörg atkvæði, en flokkurinn hefur beitt sér fyrir því að greiða götu útlendinga.

Allmargir Albanar, flóttamenn frá Júgóslavíu, eru nú í Ósló. Þykir sumum í Ósló sem verið sé að flytja til Noregs þau vandræði, sem oft verða þegar ólíkar þjóðir búa saman, eins og sannist í Júgóslavíu og væri nær, að norsk stjórnvöld ynnu að því við júgóslavnesk stjórnvöld að tryggja hag Albana í heimahéruðum þeirra. Kunningi minn ræddi við Albana, sem þvær gólf á stofnun hans. Albananum var mjög uppsigað við Belgrad-stjórn, en hann kvaðst gera sér grein fyrir því að ekki væru fleiri gólf í Osló handa Albönum að þvo. Flóttamennirnir hafa sem sagt í heild óhag af því, að fleiri komi á eftir. Enginn þeirra leyfir sér þó að setja það fram opinberlega vegna félaga sinna, sem kunna að vera að vinna að því að fá heimild fyrir landvist venslafólks.

Fréttamenn í Noregi brýna þjóðina mjög til að gera vel við gestina og fordæma þá, sem leyfa sér að láta í ljósi, að þeim þyki nóg komið, og telja það lýsa fyrirlitningu á framandi þjóðum. Í fréttum í haust var sagt frá þeirri uppgötvun heilbrigðisyfirvalda, að þeim börnum hefði fjölgað mjög undanfarið, sem ekki væri komið með til mænusóttarbólusetningar. Mest bæri á þessu í borgunum og sérstaklega í vissum hverfum í Osló. Væri hlutfall óbólusettra orðið svo hátt, að hætta væri á farsótt. Almenningur þóttist vita, að þetta ætti við innflytjendahverfin, en enginn fréttamaður kom sér til að spyrja yfirvöld um það. Yfir þeim sem það gerði hefði vofað að verða ásakaður um andúð á fólkinu fyrir það eitt að vekja máls á grun og fá hann staðfestan.

Ég hef oft komið til Óslóar. Borgarbúar taka ókunnugum fálega, t.d. þeim sem þarf að knýja dyra að kvöldi dags til að spyrja til vegar. Fólk utan af landi hefur sumt fundið fyrir andúð borgarbúa vegna málfars og framkomu og jafnvel orðið fyrir aðkasti fyrir, og þeir sem hafa sest að í borginni hafa flestir reynt að afmá sérkenni sín til að þóknast borgarbúum. Er ekki nema von, að nú þyki sumum skjóta skökku við, hversu mjög er komið til móts við fólk, sem er meira framandi en norskir þegnar af Mæri og Hálogalandi.

Þegar ég kynntist þessum málum í nokkurra daga viðdvöl í Ósló í haust, fannst mér siðavendni Brands Ibsen komin upp í leiðtogum Norðmanna (fréttamönnum og stjórnmálamönnum). Og biskupar landsins bættust í hópinn einn daginn með brýningu til þjóðarinnar um að greiða götu innflytjenda, en minntust ekki á það sem ágreiningurinn er um, hversu langt eigi að ganga í því að opna landið útlendingum.

Ekki get ég fundið að því, að fréttamenn og biskupar og forystulið stjórnmálaflokká hvetji þjóð sína til að sýna bágstöddum bróðurþel, en til þess eru ýmis ráð. Það ráð sem Norðmenn hafa tekið nú síðustu árin að taka við fjölda flóttamanna, hefur snúist upp í andhverfu sína. Hugur almennings fylgir ekki máli forystumanna þjóðarinnar, heldur snýst gegn þeim, sem áttu að njóta, svo að þeir hljóta að finna að þeir eru óvelkomnir gestir. Því eru takmörk sett, hvað fólk á til mikla tillitssemi við framandi fólk, og fram hjá því hefur ekki tekist að ganga í Noregi þrátt fyrir dynjandi áróður. Íslendingar hafa réttilega miðað hjálparstarf sitt að mestu við að hjálpa bágstöddum til sjálfshjálpar í umhverfi sem er þeim sem minnst framandi.

Lesbók Morgunblaðsins 16. janúar 1988: 3