Er hægt að kenna fólki að rabba saman? Ég sá auglýst námskeið í samræðum og heimspeki fyrir unglinga. Ungur Íslendingur sem verið hefur með ólíkum þjóðum segir mér að Íslendingar kunni ekki að ræða saman. Hér tali hver fyrir sig án þess að hirða um að tengja mál sitt við það sem á undan er komið. Lítið kveður að því að menn snúi sér að þeim sem best má vita og spyrji hann um málið, áður en dómur er lagður á það og ályktað. Ég heyrði bóndakonu lýsa nýju hlutverki sínu þegar hún fór að bjóða greiða og gistingu á bæ sínum. Hún var spurð hvort gestir vildu ekki fræðast um sveitina og búskapinn. „Ekki Íslendingar,“ sagði hún, „þeir vita miklu meira um búskap en ég,“ og þyrftu einskis að spyrja.
Nú eru Íslendingar í raun ávarpsgóðir og fúsir að svara þegar eftir er leitað af gestum og gangandi. Hvað skyldi valda þessari samræðuómenningu? Kona alin upp í þéttbýli, búsett í sveit, kvað uppeldi ekki verra neitt mál í sveitinni, það væri bara að koma börnunum út fyrir dyr. Hvað gerir þá fólk í þéttbýli sem hefur ekki sömu aðstöðu til að losna undan börnunum með því að senda þau út fyrir dyr? Á matmálstímum ræður útvarpið dagskrá heimilanna vegna þeirrar venju að snæða á fréttatímum. Þá verður hvorki hlustað né rætt saman í næði.
Utan fréttatíma útvarps spillir sjónvarp því andrúmslofti sem góðar samræður eru háðar, með óskiptri athygli.
Líklega var gamla samræðuformið fólgið í dæmisögum, þar sem kjarni málsins kom iðulega fram í vísu eða málshætti, en áheyrandi varð að álykta sjálfur. Menn urðu að skilja fyrr en skall í tönnunum, og svöruðu með annarri dæmisögu. Allmikið af samræðum og einræðum í vinnuhléum virðist vera fólgið í því að láta í ljósi gremju með fyrirlitningartali um stjórnmálamenn og tíðarfarið og málefni sveitafólks, en það virðist nú orðið gegna sama hlutverki og þeir kynþættir og aðflutt fólk með öðrum þjóðum sem litið er niður á. Varla getur samræðunámskeið fyrir unglinga undir stjórn heimspekinga komið í stað alls þessa.
Ung hjón alin upp hér syðra tóku sig upp og hófu búskap fjarri átthögunum. Bóndi gerðist fljótt forystumaður í málum bænda á landsvísu og átti mörg erindi til Reykjavíkur vegna þeirra. Hann kvaðst helst fara í bíó þegar hann ætti laust kvöld í borginni, því að engin hvíld væri í að heimsækja venslafólkið sem vildi helst jagast við hann um landbúnaðarmálin. Hann kvaðst ætla við fyrsta tækifæri í sólalandaferð og sitja þar með glas við borð undir sólhlíf og kynna sig sem pípulagningamann úr Reykjavík. - Þetta er ekki skárra úti á landi. Þar fá ráðamenn ekki stundlegan frið í almennum samkvæmum fyrir mönnum sem vilja reka erindi sín við þá eða bara jagast í þeim.
Fermingarsystkini á miðjum aldri úr kaupstað einum komu saman í átthögunum nokkra daga í sumar með mökum sínum. Ein konan, bóndakona, kvaðst hafa getað sannað manni sínum að engir kynnu betur að skemmta sér en fólk í þeim bæ. Flest voru þau burtflutt, en þær aðeins tvær búandi í sveit. Henni líkaði illa hvernig fólkið kom fram við bónda hennar með því að jagast lengi við hann um landbúnaðarmálin. Ég gat ekki skilið að slíkt fólk kynni að skemmta sér og kvaðst vorkenna bónda hennar að lenda í þessu. Hún kvað hann raunar hafa tekið öllu vel og að lokum boðið fólkinu heim til þeirra við tækifæri til að kynna sér málin. Þetta var yfirburðamaður að greind og góðlyndi, en mér varð hugsað til þess hvernig væri fyrir meðalmann að lenda í slíku samkvæmi.
Hvað skyldi annars mega kenna fólki í þessum efnum? Hér dugar ekki að hafa samræðunámskeið fyrir fáeina unglinga. Í skólunum þarf að ríkja sú siðmenning í afstöðu til náungans, þ. á m. afstöðu kennara til nemenda sem felst í því að þeir séu frekar leiðbeinendur en kennarar, og til rökfærslu og þekkingar, sem birtist í skemmtilegum samræðum, þar sem menn spyrja og fræðast, rökræða og álykta. Er hægt að tengja saman í slíkum samræðum frásagnarstíl Íslendinga með frásögnum, dæmisögum og óbeinum ályktunum, og rökföst skoðanaskipti, eins og háskólamenn vilja temja sér? Slík kennsla er fánýt, ef börn njóta ekki athygli heima hjá sér vegna útvarps og sjónvarps. Hún getur ekki heldur eytt gremju sem býr um sig með fólki og það tjáir óbeint með ósanngjörnum dómum um menn og málefni.
Eitt einkenni þess einræðnastíls sem hér ríkir er hvað lítið er um rökræður í dagblöðum. Það er helst að menn skjótist á í forystugreinum. Það kemur varla fyrir að grein sem veigur er í birtist í tilefni af nýbirtri grein. Svo virðist sem slík athugasemd þurfti að bíða birtingar eins og annað efni, svo að tilefnið kann að vera fyrnt þegar athugasemdin birtist. Varla kemur fyrir að sérfræðingar takist á í skrifum á þann hátt sem almenningur megi af læra. Greinarhöfundum hættir til að skrifa eins og þeir séu einir í heiminum og takmarka lítt mál sitt. Það minnir á samræðuform á vinnustöðum og heimilum, þar sem hver talar upp í annan, eins og útvarpssending sem heldur áfram án þess að stjórnandi sendingar láti sig varða hvort nokkur hlusti.
Lesbók Morgunblaðsins 7. október 1989: 3