Tvennt varð mér sérstaklega hugstætt eftir lestur bókarinnar Sigurður Þórarinsson—Mynd af manni, eftir Sigrúnu Helgadóttur. Annað er efni úr dagbókum Sigurðar, þar sem hann lýsir kynnum sínum af alþýðu manna á fjórða áratug síðustur aldar í tengslum við þátttöku hans í Vatnajökulsleiðangrinum mikla, en lærimeistari hans í Stokkhólmi stóð fyrir. Sigurður var hneigður fyrir söng. Honum finnst mikið til sönghneigðar landsmanna koma. Hann telur í dagbókinni, að söngurinn hafi verið ráð þjóðarinnar til að þrauka á þungum árum. Hvað sem skoðunum hans líður, mundu orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Kiljunni um daginn, að þjóðin væri nú stúmm, vera rétt. Merkilegt, og mundi eiga við fleiri þjóðir. Hvað segja sálfræðingar?

      Hitt, sem mér varð hugstætt eftir lesturinn, er hlutskipti þeirra, sem mótuðu hver fyrir sig sína fræðigrein á fyrri hluta síðustu aldar. Greinarnar fengu smám saman sína stofnun, og þá hætti viðgangur fræðigreinarinna að vera háður einum manni. Það má lesa í ritinu, hvernig Sigurður ofreyndi sig. Hann þjáðist oft af magaveiki og nýrnaveiki og var stundum ekki fær um að ganga að verki, en álagið var mikið, eldgosin kölluðu á ferðalög og útilegur, jafnvel í lífshættu, og áreitið hlífðarlaust, því að fréttamenn og félög ferða, náttúru og jökla vildu hafa Sigurð sem mest. Heimilishaldið hlýtur að hafa verið sem í hers höndum, trúlega undir meira álagi en hjá nokkrum stjórnmálamanni í forystu. Aldur þeirra systkina frá Teigi kann að vera til marks um álagið. Sigurður varð 71 árs, en hin systkinin fimm, sem náðu fullorðins aldri, urðu að meðaltali 91 árs. Var söngurinn, sem Sigurður efndi til og efldi, hvar sem hann fór, ráð hans til að þrauka?

Útúrdúr

Sigurður var meðal þeirra, sem unnu að því að efla almennan söng, hann mikið með því að kynna sönglög frá Svíþjóð með eigin glettnisfullum vísum. Halldór Ólafsson, rennismiður, varð ungur Sigurði til hægri handar í ferðum hans, í aldarfjórðung. Hann var fyrir söng og fór að halda saman vísum Sigurðar, en Sigurður hirti lítt um það sjálfur. Aldarþriðjungi eftir fráfall Sigurðar kom Halldór í fylgd með Páli Einarssyni, jarðfræðingi, að Hólum á Rangárvöllum, Páll til að fylgjast með Heklu, en Halldór notaði tækifærið til að safna kveðskap Sigurðar. Þar komu í leitirnar tvö kvæði, ólík glettnisfullum kveðskap Sigurðar, sem þjóðin þekkti, nefnilega hjartanleg, frá 1948, Man ég nótt í maí, og frá 1951, Þú stóðst í hlaði. Sigurður var lengi tíður gestur í Hólum í erindum vegna Heklu, hafði gítarinn með og söng með fólkinu á bænum, og Haraldur bóndi sagði sögur. (Síðustu orð af hendi Sigurðar í ritinu eru falleg jólakveðja til Haralds 1982). Börnin á bænum lærðu kvæðin, en voru beðin fyrir þau. Fyrra lagið er rússneskt þjóðlag. Páll, jarðfræðiprófessor, en líka tónlistarmaður, skrifaði upp seinna lagið og sendi til Svíþjóðar. Þar fannst upprunalega lagið, með textanum Vid färjestaden. (Ég fann það á youtube). Páli þótti fólkið í Hólum hafa varðveitt lagið vel. Með birtingu í bókinni er leyndinni létt af kvæðunum.

      Mynd er í fyrra bindi af þremur ungum mönnum í Vatnajökulsleiðangrinum 1936 á hestbaki á hlaði á Höfn, en við hest Sigurðar stendur nafngreind stúlka, nýorðin 18 ára, með úlnliðinn á taum hestsins. Sigrún, höfundur ritsins, fann myndina í albúmi fjölskyldunnar í Hoffelli í Hornafirði árið 2017. Fyrra kvæðið endar á hendingunum:
      Lífs um Leggjabrjót
      léttir hún enn mín spor.
Í síðara kvæðinu, Þú stóðst á hlaði, segir „stóru löndin heilluðu hal” og „dagar liðu og urðu ár unz öll voru rofin heit” og endar á hendingunum:
      Og hvar sem legg ég land undir fót 
      þau fylgja mér, augun blá.
Stúlkan, sem fékk hjartanlegu kvæðin, lést á Höfn árið 1993, fimm barna móðir. Dóttir söngstjórans á Höfn, sem ég hitti oft við kaffiborðið í Breiðholtslaug á laugardagsmorgnum, sagði mér, þegar ég spurði hana um stúlkuna, að hún hefði verið söngglaðasti kórfélaginn.

      Sigurður lést snemma á árinu 1983. Banameinið tengdist ekki maga og nýrum, sem böguðu hann um árabil, svo hann neyddist stundum til að leggjast á sjúkrahús. Í febrúarbyrjun reyndist hann hafa kransæðastíflu. Þegar tveir félagar hans vitjuðu hans síðast, sagðist hann sem betur fer ekki fara úr heiladauða, hann væri með drep í hjarta.

Má vera, eftir á að hyggja, að það, sem segir hér að framan, sé ekki útúrdúr, heldur dæmi um það, sem megi verða hlutskipti þess, sem er mikið gefið og telur sig verða að fórna miklu, og kann að reynast varða lífið, jafnvel líf og dauða. Þegar Sigurður var þátttakandi í rannsóknarleiðangrinum á Vatnajökli, hafði hann frá blautu barnsbeini þótt fremstur fyrir atgervi, og þannig var hann einnig metinn af leiðangursstjóranum, Ahlmann prófessor; þar var maður hinna stóru landa.

Morgunblaðinu 29. apríl 2023