Þegar ég settist við að horfa á leiki Íslands í Rússlandi í sumar, þekkti ég lítið til íslensku liðsmannanna. Þeir voru merktir föðurnafni á bakið, en í lýsingu leiksins voru þeir alltaf nefndir eiginnafni. Það var ruglandi fyrir nýjan áhorfanda. Mér vitanlega verða engar aðrar þjóðir fyrir þessu, að liðsmennirnir séu ekki merktir aðalnafni sínu. Þegar minnst hefur verið á þetta á netinu, reynist einhver vís til að benda á, að FIFA, Aþjóða knattspyrnusamtökin, hafi ákveðið, að liðsmenn skuli merktir eftirnafni. Málið er, að hjá flestum öðrum er eftirnafnið um leið aðalnafnið, en svo er ekki hér.
Aðalnafnið er það nafn, sem til dæmis var fært upp fremst í prentuðu íslensku símaskránni og öðrum símaskrám. Það ætti ekki að vera flókið að koma FIFA í skilning um hugtakið aðalnafn og fá þá svo til að setja það í samþykktir sínar um búninga liðsmanna.
Menn tala um að virða fjölmenningu. Það ætti ekki að vera mikið mál að sýna það í verki í þessu máli.
Morgunblaðinu (Velvakandi), 29. ágúst 2018