Viðauki eftirmæla Gests Eggertssonar, sem birtust í Morgunblaðinu 30. maí 2015

Eftir atburðinn á Steinsstöðum 27. apríl 1996 var Gestur í varðhaldi á Akureyri, í einangrun, fékk hvorki að hlusta á útvarp né sjá blöð, en bækur voru þar til aflestrar. Honum fannst bókavalið ekki merkilegt.

Þá gerist það, að inn til hans kemur Pétur Pétursson, settur héraðslæknir. Gestur hugsaði: Það er geðrannsóknin. Pétur víkur talinu að vísnagerð Gests, sem svarar, að hann geri aldrei vísu. Þá veit Pétur betur. Þannig var, að Gestur sendi daglega bréf úr varðhaldinu til unga fólksins á Steinsstöðum til að leiðbeina við bústörfin. Þar hafði flotið með vísa, en bréfin ljósrituð og Pétur séð þau. Pétur spyr Gest um ljóðalestur og skáld hans. Gestur kvaðst hafa varast að nefna Jónas, þar sem hann bjó á Steinsstöðum og var í geðrannsókn, og nefnir Davíð. Kanntu eitthvað eftir hann, spyr Pétur. Ég hugsa, að ég kunni hann allan, svaraði Gestur.—Menn mega vita, að heimsókn Péturs var brot á reglum, varðhaldsfanga mátti ekki vitja án réttargæslumanns.

Haustið 1997 var ég dvalargestur í Davíðshúsi á Akureyri, í lítilli íbúð á jarðhæð, sem Akureyrarbær léði aðkomumönnum á sviði fræða og lista. Þá hringir síminn. Hjalti Haraldsson í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal segir Karlakór Dalvíkur ætla að flytja Úr útsæ rísa Íslands fjöll, og halda menn, að ljóðið sé eftir Davíð Stefánsson, en finna því ekki stað. Ekki gat ég svarað. Þá dettur mér í hug Svavar Aðalsteinsson frá Flögu í Hörgárdal. Hann var með okkur Gesti á Hólum og fór þá gjarna með ljóð upp úr sér og var nýlega kominn aftur í átthagana austan af Seyðisfirði og var í Skjaldarvík. Ég hringdi í hann. Hann svaraði, að þetta væri eftir Einar Benediktsson. Ég lét Hjalta strax vita, en fer síðan niður í Amtsbókasafn og leita í ljóðmælum Einars og finn ljóðið ekki. Þá kemur upp í hugann það, sem Gestur hafði sagt Pétri lækni, að hann kynni allan Davíð. Nú vill svo til, að þetta er upp úr kl. 6 á föstudagskvöldi, en ég vissi, að símatími fanga var milli 6 og 7 á föstudögum. Ég hringi því í Litla-Hraun og spyr eftir Gesti og ber upp spurninguna um Úr útsæ rísa Íslands fjöll. Hann svarar að bragði: Þetta er eftir Davíð, úr Háskólaljóðum 1961, annar kafli. Ljóð Davíðs voru í gestaíbúðinni. Ég fletti upp í þeim og fann staðinn. Upphafshending annars kafla var vitaskuld ekki í atriðaskrá. Til þess að svarfdælir lifðu ekki í villu, hringdi ég snarlega í Hjalta og lét hann vita, lét þess samt ekki getið, að þetta væri samkvæmt upplýsingum á Litla-Hrauni.

abcd.is 14. júlí 2015