[...] Einn sérfræðinganna vakti athygli mína á því, að með þessari aðferð væru minni líkur á, að atkvæði ónýttist en með venjulegri meirihlutakosningu, sem áður var viðhöfð, og því síður ástæða til að tala sig saman til að sameinast um að kjósa einhvern. Þetta á enn frekar við um samþykktaraðferðina en þetta þrönga afbrigði af henni. Þá leiðir einnig af samþykktaraðferðinni, að örðugra verður að tala sig saman til að sameinast um að kjósa einhverja sérstaka. Þá þarf nefnilega ekki aðeins að sameinast um að krossa við einhvern ákveðinn, heldur líka að sameinast um að láta vera að krossa við aðra.

Í vissum skilningi er samþykktaraðferðin á milli venjulegrar meirihlutakosningar og raðvals. Kjósandi getur tjáð sig nánar en við venjulega kosningu, en ekki eins nákvæmlega og við raðval. Hver sem aðferðin er, getur verið ástæða til að íhuga, hvort ráðlegt sé að fylgja sannfæringunni eða greiða atkvæði til að ná sem bestum árangri. Við venjulega kosningu er varað við að kasta atkvæði á þann, sem er vonlaust, að nái kosningu, og mælt með því að kjósa heldur annan, sem meiri líkur eru á, að sigri þann þriðja, sem sístur þykir. Sá, sem hefur matið A,B,C, kýs B. Með samþykktaraðferðinni gæti kjósandi krossað líka við annan, þótt honum þyki hann miklu lakari, ef sennilegt er, að krossinn gæti fellt þann þriðja, sem honum þykir sýnu lakastur. Sá, sem hefur matið A,B,C, krossar þá við A og B. Með því að kjósa þannig, getur kjósandi valdið því, að B nái kjöri með einu atkvæði yfir A. — Eins getur farið með raðvali.

Í þessu sambandi má athuga áróðursrök fyrir kosningu forseta Íslands árið 1980. Vigdís Finnbogadóttir var kosin með 33,8% atkvæða, en Guðlaugur Þorvaldsson fékk 32,3%, Albert Guðmundsson 19,8% og Pétur Thorsteinsson 14,1%. Fólk hafði verið varað við að kjósa vonlausa frambjóðendur. Könnun skömmu fyrir kjördag sýndi minnst fylgi við Albert og Pétur, en engu að síður kaus þriðjungur kjósenda þá.

Það hlýtur að vera háð kringumstæðum, hversu raunhæft er að ná árangri með því að kjósa gegn sannfæringu sinni. Það hlýtur að vera erfiðara að hafa fyrirfram vissu um stöðu frambjóðenda við samþykktarkosningu en við venjulega kosningu, þar sem þá er líklegt, að frambjóðendur verði fleiri, og enn minni verður vissan við raðval, þar sem raðir kjósenda geta orðið æði breytilegar. [...]

<< Til baka