Þegar mál eru lögð fram eða tilnefnt og boðið fram
Atkvæðið við meirihlutakosningu eða um mál lýsir oft ekki vel því, sem kjósandinn hefði helst viljað tjá, eða það leiðir til annars en hann hafði ætlað sér. Eftir því sem tillögur í málinu verða fleiri eða tilnefningar og frambjóðendur, vita menn minna um það, hvernig menn geta náð árangri með atkvæði, sem ekki er samkvæmt sannfæringu. Raðval og sjóðval virðist breyta þessu. Það flækir nefnilega ekki atkvæðagreiðsluna við raðval og sjóðval að tilnefna enn einn mann eða bæta við enn einu afbrigði máls. Þess vegna er líklegt, að afbrigði máls eða tilnefningar og framboð verði fleiri við raðval en venjulegt er við meirihlutakosningu og þá verði síður tækifæri til að ná árangri með því að greiða atkvæði óheiðarlega. Það einkennir svo bæði raðval og sjóðval, að menn geta borið upp afbrigði, sem eru lík hvort öðru, án þess að spilla fyrir sér.
Við atkvæðagreiðslu
Fólk spyr, sem von er, þegar rætt er um nýjar aðferðir, hvort þá gefist ekki færi á að hafa hag af því að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni í málinu. Reynslan af raðvali er ekki mikil; fólk lýsir því varla yfir, að það hafi haft rangt við. Mér vitanlega hefur tvisvar verið fullyrt, að menn hefðu greitt atkvæði í ósamræmi við eigin sannfæringu. Við raðval í menntaskóla einum barst það, að hópur nemenda hefði beitt því bragði að raða afbrigðum gegn sannfæringu sinni. Svo reyndist ekki vera. Í sjö manna stjórn var raðval viðhaft fyrirvaralaust í máli með þremur afbrigðum. Afstaða manna var þekkt fyrir, og grunur var um, að einn þeirra hefði raðað gegn sannfæringu sinni með tilliti til þess, sem hann þóttist vita um afstöðu hinna. Auðvelt var að hafa yfirsýn, þegar þátttakendur voru svo fáir. Mergurinn málsins er samt, að með líklegri fjölgun afbrigða með raðvali og sjóðvali frá því, sem venjulegt hefur verið, verður örðugra að hafa yfirsýn og því erfiðara að ná árangri með brögðum.
Margvíslegar spurningar kunna að vakna um, hvort færi gefist til að hafa brögð í tafli við sjóðval. Mér er ekki kunnugt um, að slíkt hafi verið reynt eða hugsað til þess, en reynslan er vitaskuld ekki mikil. Fyrst um sinn verður sjóðval varla viðhaft nema sem skoðanakönnun. Þeir, sem meta niðurstöðu slíkrar könnunar, hljóta þá, sem endranær, að meta, hvernig hún hafi verið gerð og sérstaklega, hvort brögð kunni að hafa verið í tafli.