Þeir eru til, sem telja það kost við samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES), að þar verði ákveðnar reglur í atvinnumálum, sem taka af Alþingi ráðin. Ég les í norsku lögfræðiriti, að með EES-aðild sé um að ræða að láta 60.000 blaðsíður af ES-efni taka gildi (rúmir 4 hillumetrar af Stjórnartíðindum eru 60.000 síður). Það yrði allnokkur fyrirhöfn fyrir Alþingi að fylgjast með því efni öllu og laga sig að breytingum á því, þótt það missti forræðið í málunum.

Talað er um, að Ísland geti leyft sér ýmis frávik, ef sérstaklega stendur á. Það yrði í verkahring eftirlitsstofnana ES (og EES) að taka í taumana, ef Ísland væri talið fara út fyrir mörkin. Við því er að búast, að hvorttveggja geti orðið fyrirhafnarsamt fyrir Alþingi og stjórnvöld. Fyrst yrði það margháttað álitamál, hvað hentaði íslendingum og hvað þeim væri óhætt að gera, án þess að önnur EES-ríki teldu sig hafa ástæðu til að bregðast við, og síðan yrði það úrlausnarefni sendimanna Íslands að verja gerðir íslendinga og gera íslendingum grein fyrir endimörkum þess leyfilega.

Samningar um sjávarútvegsmál tengdir EES-málinu og framkvæmd þeirra eru nýtt mál, sem ekki minnka byrðar Alþingis og stjórnvalda. Nú í upphafi er um smávægilega hagsmuni að ræða fyrir ES (EB). Þegar þess er gætt, hlýtur eitthvað meira að vaka fyrir mönnum báðum megin borðsins að tengja þau EES-málinu vegna þeirrar fyrirhafnar, sem það veldur.

Það er í mörg horn að líta að gæta hagsmuna Íslands. Þá varðar miklu að einbeita sér að því, sem mestu varðar. Sem dæmi um það er forganga Íslands um alþjóðlegan sáttmála um hafrétt. Þar eiga talsmenn Íslands mikilvægt verk óunnið, þar sem hafréttarsáttmálinn hefur ekki tekið gildi, þótt 10 ár séu liðin síðan ráðstefna Sameinuðu þjóðanna samþykkti hann. Til þess vantar á tilskilda tölu ríkja, sem hafa staðfest hann. Ísland er eina EFTA- og ES-ríkið, sem hefur staðfest sáttmálann. Hagnýting hvala er annað mál, þar sem andstæðingar hvalveiða eru áhrifamiklir í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Vestur-Evrópu með mikilvæga trúnaðarmenn hér á landi. Þeir stjórnast af tilfinningum, og þá er aldrei að vita hvað verður ofan á hjá stjórnvöldum.

Það hefur verið grundvallarregla íslendinga gagnvart öðrum ríkjum þar til í EES-samningunum að blanda ekki saman nýtingu auðlinda hafsins, viðskiptum og afskiptum af stjórnarfari. Það er hætta á því, að samningamönnum Íslands, hversu snjallir sem þeir kunna að vera, verði á mistök þegar um flókin mál er að ræða við samningamenn stórþjóða. Mistök í samningum eru ekki alltaf augljós, og kann stundum svo að fara, að allir, sem til þekkja, telji hentast að láta þau ekki spyrjast. Til að rökstyðja mál mitt rifja ég upp dæmi um slík mistök, sem lengi var leynt, en höfðu langvarandi afleiðingar, og má vera, að þeirra gæti enn. Hér er um að ræða, hvernig tekið var í lög ákvæði um útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir árið 1960.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var mynduð haustið 1959, var óútkljáð ákvæði um útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Tveir ráðherrar, Gylfi Þ. Gíslason úr Alþýðuflokki og Ólafur Thors úr Sjálfstæðisflokki, tóku að sér að ná samkomulagi um málið við fulltrúa bænda, Einar Ólafsson og Jón Sigurðsson, flokksbræður Ólafs. Tókst það. Þar var þetta ákvæði:

Óheimilt er að bæta upp söluverð landbúnaðarvara á erlendum markaði með því að hækka söluverð þeirra innan lands. Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

Þótt þetta séu skýr ákvæði, héldu ráðherrarnir sig hafa samið um, að ríkissjóður bætti ofan á útflutningsverðið 10% af skráðu verði, þannig að framleiðendur fengju 95% af skráðu verði, ef útflutningsverð væri 85% af því. Þegar Ólafur áttaði sig á því, að efni samkomulagsins var annað, varð af nokkur hvellur, og skammaði hann Einar fyrir, en hann þóttist ekki þurfa að afsaka það að hafa samið vel fyrir bændur. Ingólfur Jónsson landbúnaðarráðherra kvaðst geta farið (úr ríkisstjórninni) ef bregða ætti gerðu samkomulagi, og var þá málið fellt niður. Þegar þetta gerðist, vantaði ekki mikið á, að innanlandsverð fengist fyrir útfluttar afurðir. Það breytti því ekki miklu um útgjöld ríkissjóðs, eins og á stóð, hvor aðferðin var notuð til að reikna verðbætur.[1]

Þau liðlega 11 ár, sem þeir Ingólfur og Gylfi sátu saman í ríkisstjórn, áttu þeir í nokkru orðaskaki um þessi mál, án þess að nokkuð haggaðist, en höfðu samt báðir gagn af. Með því skapaði Gylfi flokki sínum sérstöðu í ríkisstjórninni, og hún hélst, meðan ekkert breyttist, en gagnrýni Gylfa varð Ingólfi til álitsauka, þar sem honum kom best, á Suðurlandi, og víðar. Oft hló Ingólfur á skrifstofu sinni að upptökum málsins. Þarna átti hann sögu, sem hann gat notað, ef Gylfi vildi fylgja ræðum sínum eftir með aðgerðum. Best nýttist sagan Ingólfi geymd, en ekki gleymd, enda lét Ingólfur hlátur sinn ekki ná eyrum margra. Þeir Einar og Jón, flokksfélagar hans, fóru líka vel með söguna, svo vel, að samstarfsmönnum þeirra í bændaforystunni úr Framsóknarflokknum var ókunnugt um hana aldarfjórðungi síðar.

Þessi mistök hljóta að hafa verið sem fleinn í holdi Gylfa. Vitaskuld átti Ólafur hlut í þeim, en hann hlýtur að hafa talið óhætt að fallast á það, sem Gylfi féllst á, og varla hefðu fulltrúar neytenda bent á mann, sem þeir treystu betur. Látið hefur verið af því, hversu traust samstarf hafi orðið með þeim Ólafi og Gylfa, þegar þeir loks náðu saman. Sameiginleg ábyrgð á mistökum gerir samstarf einlægara en ella.

Eftirgreint atvik er dæmi um þá aðstöðu, sem Gylfi hafði komist í með þessu atviki, í málum landbúnaðarins á þessum árum. Svo bar við, að Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins þurftu að leggja mál fyrir ríkisstjórnina. Þeir þrír, sem fremstir voru þar, allir Framsóknarflokksmenn (Sveinn Tryggvason, Sæmundur Friðriksson og Gunnar Guðbjartsson), voru fjarverandi. Það kom því á Einar Ólafsson að leggja málið fyrir fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Hann fór fyrst á fund Magnúsar Jónssonar fjármálaráðherra og gerði honum grein fyrir málinu. Magnús kvaðst vilja kynna þetta í ríkisstjórninni, en það yrði að bíða þess að Gylfi kæmi til landsins. Einari gramdist, að Gylfi tefði þannig fyrir, en hafði engin orð um það. Hann gerði svo Ingólfi grein fyrir málinu. Hann kvaðst vilja taka málið upp í ríkisstjórninni, en það yrði að bíða þess, að Gylfi kæmi, hann væri erlendis. Þá gramdist Einari við félaga sinn og spurði hvers konar aumingjar þeir væru að geta ekkert nema Gylfi væri hjá. Ingólfur svaraði, að málið væri ekki eins vaxið og honum gæti virst. Ef hann tæki málið upp að Gylfa fjarstöddum, kæmi það á Emil Jónsson að svara, og hann mundi bara segja nei, og þar stöðvaðist málið. Gylfi mundi hins vegar þjóta upp til andmæla og halda langa ræðu, en fallast síðan á málið.

Af þessu dreg ég þá ályktun, að jafnvel fulltrúa Íslands, sem menn treysta öðrum betur, geta orðið á mistök, mistök, sem kunna að binda hagsmuni Íslands á þann hátt, sem almenningur fær seint eða aldrei að vita. Þess vegna er hyggilegast fyrir íslendinga að gefa ekki stórveldum austan hafs og vestan tækifæri til að tengja saman nýtingu auðlinda hafsins, viðskiptahagsmuni og stjórnarfar. Slík tenging hlýst af EES-aðild.

Hjáríki V.2, 1992, 2012


Sjá nánar greinina „Úr sögu útflutningsbóta landbúnaðarins“ í Tímanum 21. júní 1991.