Í ritgerðinni segir frá samvinnu nágranna um búskap, og er þar aðallega byggt á athugunum úr viðtölum við húsráðendur í 6 sveitum á Íslandi sumarið 1963, 52 bændur og 39 húsfreyjur. Með ritgerðinni er leitast við að gefa hugmynd um, hversu umfangsmikil slík samvinna var og í hvaða myndum og kanna almenn tæknileg og hagræn skilyrði fyrir samvinnu nágranna.

 I. Málið kynnt og afmarkað

1. Hugtakið samvinna nágranna afmarkað

Eins og að líkum lætur hefur samvinna nágranna við búskap ekki verið rædd kerfisbundið í íslenskum ritum. Það er dálítið teygjanlegt, hvað kalla skal samvinnu við búskap og hvað samvinnu um vinnslu landbúnaðarafurða og viðskipti. Á fyrri tíð var heyjum breytt í mjólk og mjólkinni í smjör, skyr og osta heima á bæjunum. Fyrri áfanginn í þessari framleiðslu fer nú fram á sveitabæjum og er kallaður mjólkurframleiðsla. Þess vegna þykir eðlilegt að kalla það samvinnu við búskap, þegar bændur taka sig saman og reka samvinnufjós, en þar er um að ræða samvinnu um að vinna mjólk úr heyjum. Hinn áfangi framleiðslunnar, þegar smjör er unnið úr mjólk, fer nú að mestu fram á mjólkurbúum, og þá þykir óeðlilegt að tala um það sem samvinnu nágranna við búskap.

Í þessari ritgerð verður það talin samvinna nágranna við búskap, þegar tveir eða fleiri nágrannar vinna saman að verkefnum, sem lúta að búskap, og þátttakendur hafa jafnan rétt til ákvarðana eða þeir hafa falið einhverjum manni ákvarðanirnar á lýðræðislegan hátt. Það verður þó því aðeins kallað samvinna nágranna, að verkin séu unnin á jörðunum eða af fólki, sem á heima á bæjunum.

2. Fyrri rannsóknir á samvinnu nágranna við búskap

Rannsóknir á samvinnu nágranna við búskap hafa á Norðurlöndum snúist helst um vélvæðingu og samvinnufjós. Engin dæmi virðast hins vegar vera um, að samvinna nágranna hafi verið rannsökuð í öllum þeim myndum, sem fyrir kunna að koma. Af lestri heimilda um þetta mál virðist óhætt að segja, að áhugi manna á samvinnu nágranna við búskap hafi verið nokkur víða um Evrópu það sem af er þessari öld. Tilgangur manna með slíkri samvinnu hefur verið talinn af ýmsum toga spunninn. Fyrst má nefna þörf fyrir að spara fjármagn og það, að búin væru of lítil til að geta hagnýtt sér afkastamikla tækni án samvinnu. Sumir hafa með samvinnunni viljað komast hjá því, að skipan býlanna þyrfti að breytast til þess að taka mætti upp nýja tækni við búskap, en öðrum hefur þvert á móti gengið það til, að samvinna nágranna gæti verið fyrsta skrefið í átt til breyttrar býlaskipunar. Enn aðrir hafa lagt áherslu á það, að samvinna nágranna væri manninum holl, og loks má nefna þá, sem hafa stefnt að því með samvinnu að auðvelda fólki, einkum þeim, sem hirða skepnur, að taka sér frí frá störfum.[1]

Nú verður rakið nokkuð af því, sem birt hefur verið um samvinnu nágranna við búskap á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Norðmaðurinn Berger hefur gert grein fyrir því, hversu almennar vélastöðvar, sem fengið hafa ríkisstyrk, hafa verið í Noregi síðan 1948 og fram yfir 1960, en vélastöðvar eiga að reka vélar líkt og ræktunarsambönd hér á landi eða verktakar. Þær eru ýmist í eigu bænda í félagi eða einstaklinga. Fyrstu árin eftir stríð höfðu vélastöðvarnar með höndum ýmis verk, sem vinna þarf árlega á hverjum bæ, en síðar varð svið stöðvanna að mestu verk, sem eru lítið háð því, hvenær þau eru unnin. Árið 1961 voru vélstöðvar í Noregi á þriðja þúsund.[2]

Annar Norðmaður, Sølverud að nafni, rannsakaði starfsemi nokkurra lítilla vélastöðva í Noregi á árunum upp úr 1960. Geta stöðvanna til að greiða laun var lítil, eftirspurn eftir vinnu þeirra hafði dregist saman, og stöðvarnar áttu erfitt með að keppa við bændur, sem unnu fyrir nágranna sína og áttu hægara með að vinna verkin á réttum tíma.[3]

Langvatn og Skjeseth, báðir norskir, reiknuðu út í félagi á sínum tíma, hvaða ávinningur væri að því fyrir tvo bændur að eiga dráttarvél saman. Ef ræktað land jarðarinnar var meira en 16 hektarar, borgaði sig best fyrir þá að eiga sinn hvorn traktorinn. Ef bændurnir áttu dráttarhest, varð sérlega mikill ávinningur að vera tveir um traktor á jörðum með 12-14 hektara ræktaðs lands. Þeir rannsökuðu, hvaða hagnað 5 bændur, sem bjuggu í hverfi, hefðu af því að auka með sér vélasamvinnu. Það reyndist óverulegt, og var því um kennt, að jarðirnar voru nokkuð stórar (með milli 9 og 18 hektara ræktaðs lands) og því, að bændurnir höfðu þegar með sér nokkra samvinnu. Þeir bentu á, að öll samvinna verður óhægari, þegar vinna þarf sama verkið á sama tíma á öllum bæjunum, ef árangurinn á ekki að verða misjafn, og að svo vilji verða um mörg verk.[4]

Síðan um 1960 hefur talsvert verið ritað um vélahringa í norsk búnaðarblöð og þeir breiðst nokkuð út. Bændur, sem skipa með sér vélahring, koma sér upp sameiginlegum vélakosti úr notuðum vélum sínum og nýjum vélum, skipuleggja nýtingu þeirra og skipta með sér verkum, til að mynda þannig, að einn þeirra sér um hirðingu, viðgerðir og viðhald vélanna, annar heldur reikninga, greiðir út fé, jafnar kostnaði og heimtir inn fé, sá þriðji er verkstjóri við votheysgerð og skipar fyrir, hvenær unnið skuli hjá hverjum og einum, sá fjórði er verkstjóri við kornyrkju, en sá fimmti við kartöflurækt, ef svo ber undir. Algengt var, að 5-6 bændur voru í vélahring, en þeir geta verið bæði fleiri og færri. Eftir því sem best verður séð, voru það frekar bændur á stærri jörðum en hitt, sem skipuðu sér í vélahringa. Svo virðist sem samvinna um sláttutætara væri eins konar þungamiðja þessara hringa. Hið forna félag, Hið konunglega félag til eflingar Noregs, hefur einkum unnið að útbreiðslu vélahringa og aukinni samvinnu nágranna yfirleitt.[5]

Norðmennirnir Knapskog og Wiersholm hafa birt ritgerð um rannsóknir sínar á vélahringum, en árið 1966 voru 270 slíkir hringir starfandi í Noregi.[6] Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að þeir bændur högnuðust mest á aukinni vélasamvinnu, sem gátu losað sig við eitthvað af fólki eða aukið framleiðslu sína að marki. Við samanburð á búum, sem voru í vélahring og öðrum búum, kom fram, að tekjur hinna fyrrgreindu höfðu aukist meira frá því, að vélahringirnir hófu starf. Munurinn minnkaði, þegar vextir af fjármagni í búinu höfðu verið dregnir frá tekjum, en hélst vélahringunum í vil. Það var ekki rannsakað, hvort vinna heimilisfólksins hafði þróast ólíkt hjá bændum í vélahringum og öðrum bændum. Það kom í ljós, að meira var um yngri bændur í vélahringunum, og var gefið í skyn, að það gæti í sjálfu sér verið nokkur ástæða til að vænta meiri tekjuaukningar í vélahringunum en í samanburðarhópnum. Vélakostnaður hafði aukist meira hjá bændum í vélahringunum en hjá samanburðarbændum, þó að við öðru hafði verið búist. Mismunarreikningur (gerður eftir línulegri forskrift) sýndi oftast hagstæða útkomu vegna hugsaðrar þátttöku í vélahring, en þó ekki verulega.[7]

Svíinn Lönnemark lýsir því í ritgerð, hvernig sameiginleg vélvæðing í Svíþjóð hefur skipt um verksvið, ef svo má að orði komast, hefur verksvið hennar farið eftir efnahag og tækni á hverjum tíma. Þannig var það ekki nema um stutt skeið, að bændur nýttu dráttarvélar sameiginlega.[8]

Svokallaðir vélabankar, sem eiga uppruna sinn í Vestur-Þýskalandi á 6. áratug aldarinnar, er félagsskapur bænda um vélamiðlun, en eigendur vélanna fylgja vélunum, þegar þær eru lánaðar á aðra bæi. Geiersberger sá, er átti hugmyndina að þessu skipulagi og barðist fyrir því, ætlaði því að tryggja grundvöll smábýla.[9]

Þegar árið 1960 er bent á það í þýskri tímaritsgrein, að það eru helst bændur á stærri búum, þar sem fólkshald er, sem notfæra sér þessa miðlun, og svo menn, sem hafa búskap að aukagetu.[10] Í dönsku tímariti fjórum árum seinna er sagt frá því, að þá taki þátt í vélamiðluninni 40-50.000 vestur-þýskir bændur, en þeir búi á samtals einni milljón hektara ræktaðs lands. (Þetta gerir 3-4% af öllum búum í Vestur-Þýskalandi). Meðalbú, sem tóku þátt í vélamiðluninni, hafði rúmlega 20 hektara af ræktuðu landi[11] en meðalstærð ræktaðs lands á öllum búum í landinu, sem höfðu minnst 2 hektara, var 11 hektarar árið 1960. Stærri búin færðu sér því vélamiðlunina miklu meira í nyt en smáu búin.

Í Póllandi hefur samvinna um vélvæðingu verið skipulögð í svokölluðum búskaparhringum, sem ráða yfir dráttarvélum og öðrum tækjum. Vélanotkun í hringunum hefur verið styrkt úr ríkissjóði, en ekki vélakaup einstaklinga. Tilgangurinn með hringunum var ekki aðeins sá að hafa bein áhrif á búskap, heldur sá að gera bændur móttækilegri fyrir víðtækari samyrkjubúskap, þegar til lengdar léti.[12] Þar hefur sameiginleg vélvæðing því verið hugsuð sem áfangi á þeirri leið að gjörbreyta býlaskipan. Í Vestur-Evrópu er hins vegar venjulegra, að menn hugsi sér, að sameiginleg vélvæðing geti dregið úr þörfinni fyrir breytta býlaskipan.

Í skýrslu frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna segir, að sameiginleg vélvæðing í ýmsum myndum sé algeng um alla Evrópu. Þar er bent á, að félagsformið breytist stöðugt með breyttum framleiðsluskilyrðum, og að jafnóðum og menn hætta að vinna saman að sumum verkefnum, skjóti samvinna um önnur verkefni upp kollinum, svo að segja megi, að þess háttar samvinna í landbúnaði haldi stöðugt gildi sínu.[13]

Önnur hlið þessa máls, samvinna nágranna við búskap, er samvinnufjós. Þeim hefur verið veitt talsverð athygli á Norðurlöndum, þó að þau hafi alltaf verið jafnsjaldséð og hvítir hrafnar. Efnahagsstofnun landbúnaðarins í Noregi hefur gefið út um þau fáeinar skýrslur.[14] Í Svíþjóð hefur Konunglega landbúnaðarstjórnin gert nokkrar áætlanir um samvinnufjós að áeggjan bænda.[15] Allstór rannsóknarskýrsla hefur líka komið út þar í landi um þetta mál.[16] Í Danmörku voru fáein samvinnufjós sett á stofn upp úr 1950, og fáein voru fyrirhuguð upp úr 1960.

Þær ráðagerðir, sem menn hafa haft um að koma upp samvinnufjósum síðan um 1960, hafa ekki, svo að kunnugt sé, leitt til framkvæmda. Sum fjósanna, sem sett voru á stofn fyrir þann tíma, hafa verið lögð niður aftur.[17] Það hefur ráðið nokkru um það, að samvinnufjós hafa ekki breiðst út á Norðurlöndum, að verðlag á mjólk hefur verið svo lágt, að yfirleitt hefur ekki borgað sig að koma upp nýjum fjósum. Líklegast var talið, að ávinningur yrði að þeim á jörðum, þar sem annað hvort var vinnuafl, sem mátti losa sig við, eða fjós léleg og að falli komin. Talið var, að bændur, sem höfðu lítinn arð af kúm sínum, högnuðust fremur af að láta annast þær í samvinnufjósi en lagnir kúahirðar. Eins var slíkt búskaparlag talið henta akuryrkjubændum, sem ekki höfðu búfé á fóðrum, en þurftu að hafa gras með í sáðskiptum til að bæta akrana og gátu þá losnað við heyið í samvinnufjósið. – Sameiginleg selför á kúm er ekki eins víðtækt fyrirkomulag og samvinnufjós árið um kring. Slík samvinna hefur breiðst nokkuð út í Noregi og eins samvinna bænda um sumarbeit og mjaltir kúa, þó að ekki sé farið til selja.[18]

Mun meira hefur farið fyrir ráðagerðum um stór samvinnufjós í búnaðarblöðum en frásögnum af gengi þeirra og falli. Engar opinberar skýrslur eru gerðar reglulega um tölu þeirra og stærð. Veldur þetta því, að örðugt er að fylgjast með útbreiðslu þeirra og viðgangi.

3. Efninu markaður bás

Í rannsókn þeirri, sem hér segir frá, var fyrst athugað, hvers konar samvinnu nágrannar áttu sín á milli og við hvaða skilyrði. Var þá gert ráð fyrir því, að það væri tvennt, sem menn ætluðu sér helst með slíkri samvinnu: að ráða sameiginlega yfir stærra landi, svo að nota mætti afkastameiri vélar og vinnubrögð á hagkvæman hátt, og að auðvelda mönnum afleysingar, einkum þeim, sem hirða búfé. Þegar skráð hefur verið og greint, hversu víðtækt og í hvaða myndum samvinna nágranna er, verða þessi atriði tekin fyrir í ritgerðinni: Sambandið milli tækni og samvinnu nágranna; hvaða áhrif afréttaralmenningar hafa á fjárfjöldann; skilyrði fyrir samvinnufjós; orlof og afleysingar og hvað menn meta eða setja helst fyrir sig við búskap.

Sams konar vinnuskilyrði og menn sækjast eftir með samvinnu við nágranna er að finna á búum, þar sem tveir eða fleiri bændur stunda búskap í víðtækri samvinnu. Þar sem bændurnir búa þá oft í sama húsi eða hús þeirra standa við sama bæjarhlaðið og þeir eru í sömu fjölskyldu, er hæpið að kalla þá nágranna, en þetta samrekstrarform er náskylt samvinnu nágranna í tilgangi sínum í verki og í þeim skilyrðum, sem starfað er við. Þetta rekstrarform hefur verið rannsakað sérstaklega, og hafa niðurstöður þeirrar rannsóknar verið birtar á norsku.[19] Þar eru annars vegar kannaðar kringumstæður á samrekstrarbúum og hins vegar við hvaða skilyrði stofnað er til þeirra.

Samrekstrarbúin eru rekin af mönnum, sem ætla má að fyrra bragði, að séu jafnréttháir. Önnur bú, sem að vinna tveir eða fleiri menn, eru bú, þar sem bóndi heldur fólk eða nýtur aðstoðar vandamanna. Skilyrði fyrir rekstri slíkra búa eru á ýmsan hátt lík skilyrðum fyrir rekstri samrekstrarbúa. Í framhaldi af rannsókn á samrekstrarbúum á Íslandi var því rannsakað við hvaða skilyrði tví- og fleirmenningsbú halda velli. Var þá ekki hirt um, hvernig eignaraðild að búunum var háttað, heldur aðeins miðað við mannafla búsins. Ritgerð um þá rannsókn, þar sem að mestu var stuðst við sænsk gögn, hefur þegar verið birt á íslensku.[20]

Ritgerð sú, sem hér birtist, er því upphaf að meira verki. Er þar fyrst um að ræða könnun á samvinnu meðal jafnráðra nágranna, sem vilja bæta vinnuskilyrði sín með samstarfi. Síðan eru könnuð þau bú, sem rekin eru sameiginlega af bændum, sem ætla má, að séu jafnráðir, en á þeim búum næst að ýmsu leyti sami árangur og nágrannar leitast við að ná með samvinnu sín á milli. Loks eru könnuð þau bú (tví- og fleirmenningsbú), þar sem vinnuskilyrði eru verulega lík vinnuskilyrðum á samrekstrarbúum, þó að þar geti verið um að ræða aðeins einn bónda á búi. Þessi þrjú verkefni eru hluti af enn stærra viðfangsefni, sem er skipan búanna.

II. Samvinna nágranna á Íslandi

1. Búskapurinn á Íslandi

Það, sem helst einkenndi búskap á Íslandi á árunum upp úr 1960, þegar gagnasöfnun vegna ritgerðarinnar fór fram, var þetta: Mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt voru einu búgreinarnar, sem munaði verulega um. Fóðuröflunin var svo til eingöngu heyskapur, mest af túnum. Algengasta túnstærð á jörð var 5-15 hektarar. Sumarbeit og útbeit var drjúg, einkum fyrir sauðfé. Vinnumenn voru hverfandi fáir. Bændur stunduðu frekar lítið störf utan búa sinna. Mikill vélakostur var notaður við heyskap – víðast ein, en sums staðar tvær dráttarvélar á bæ. Á flestum jörðum var ríkulegt af hallalitlu landi auðræktuðu, og nýrækt kostaði lítið eftir því, sem gerist á Norðurlöndum. Bæjarleiðir voru langar, – í kringum einn kílómetri að meðaltali eftir loftlínu, en vegir voru heldur slæmir. Kjarnfóður var í dýrara lagi á þessum árum, þar sem flutningar og viðskipti með það voru kostnaðarsöm. Þetta verndaði innlenda fóðuröflun svo að um munaði, en hún var líka kostnaðarsöm.

Sveitahrepparnir voru fámennir. Algengt var, að í þeim væru 20-40 bæir, og oftast var ekkert þéttbýli í þeim. Í sýslufélögunum voru 5-18 hreppar. Samvinnufélög bænda sáu um svo til alla verslun og vinnslu á afurðum frá þeim, og þar keyptu þeir rekstrarvöru að mestu og það, sem þurfti til heimilisins. Afurðasölulöggjöfin tryggði framleiðendum nokkuð stöðugt verðlag miðað við annað verðlag í landinu, en almennt hafði verðlag hækkað í kringum 10% á ári að meðaltali tvo næstliðna áratugi. Verð landbúnaðarafurða var ákveðið með samningum milli fulltrúa bænda og kaupstaðafólks. Nýrækt, sem hafði numið hálfum til heilum hektara á jörð á ári í fullan áratug, var styrkt með fé úr ríkissjóði. Lán til jarðabóta og útihús voru veitt með fyrirgreiðslu ríkisins. Bændur höfðu árlega fest mikið fé í búskap sínum.

Fólkinu í landinu hafði fjölgað mjög ört eða sem svaraði tvöföldun mannfjöldans á um það bil 40 árum. Ör fólksfjölgun ásamt því, að tekjur manna höfðu vaxið stórlega, hafði í för með sér, að eftirspurn eftir hinum eggjahvítuauðugu afurðum landbúnaðarins hafði stóraukist.

2. Gagnasöfnun

Til þess að fá hugmynd um það, hvernig samvinnu nágranna var háttað, var haft viðtal við 52 bændur (sjá viðbæti). 39 þeirra voru giftir. Bændurnir bjuggu í 6 hreppum, en hrepparnir voru með þessum einkennum, eins og staðan var árið 1962:

 1. Sá hreppur með mjólkursölu, þar sem votheysgerð á bónda var mest.
 2. Hreppur dreginn út meðal hreppa, þar sem engin mjólkursala var og óveruleg votheysgerð.
 3. Sá hreppur án mjólkursölu, þar sem votheysgerð á bónda var mest.
 4. Hreppur með miðlungstekjur á bónda í sýslu með miðlungstekjur á bónda.
 5. Sá hreppur, þar sem bændur höfðu hæstar tekjur á menn í þeirri sýslu, þar sem tekjur bænda voru hæstar að meðaltali.
 6. Sá hreppur, þar sem tekjur bænda voru lægstar að meðaltali í þeirri sýslu, þar sem tekjur bænda voru lægstar að meðaltali.

Í hverjum þessara hreppa var dregið út eitt bú og viðtal tekið við bændur þar og á næstu jörðum, alls 8-10 bændur í hverjum hreppi. Eins og sjá má, er hér um að ræða sérstakt úrval, þar sem ekki er reynt að fá fram þverskurð af öllum búum á Íslandi. Úrtakið átti að sjá fyrir gögnum, sem nota mætti til að lýsa samhengi milli fjarlægða innan sveitar, búskaparhátta, efnahags og samvinnu nágranna. Gögnin eru svo takmörkuð, að þau verða ekki notuð til að prófa fræðilegar tilgátur, þegar best gegnir einungis til að mynda þær. Niðurstöður úr viðtölunum verða raktar hér á eftir.

3. Samrekstrarbú

Sú samvinna, sem breytti mestu um hagi fólks á þeim jörðum, sem rannsókn fór fram á, var vafalaust, þegar feðgar, fósturfeðgar eða bræður höfðu ruglað reitunum saman svo rækilega, að réttast var að líta á bú þeirra sem eitt og kalla samrekstrarbú. Í úrtakinu voru 9 samrekstrarbú með tveimur bændum hvert og eitt bú með þremur bændum eða alls 21 samrekstrarbóndi á 10 samrekstrarbúum. 15 bændanna voru giftir. Samreksturinn var ekki alls staðar jafnvíðtækur. 15 bændanna (á 7 búum) unnu öll bústörf í samvinnu, en hinir 6 öll verk nema búfjárhirðingu. Samrekstrarbú má þá skilgreina með þessari lýsingu sem þau bú, þar sem tveir eða fleiri bændur hafa hið minnsta alla útivinnu nema búfjárhirðingu sameiginlega. – Til viðbótar við samrekstrarbúin 10 var eitt dæmi um nána samvinnu. Þar var um að ræða þrjá bændur, sem bjuggu hver á sinni jörð, tveir þeirra raunar hvor í sínu samrekstrarbúi með föður sínum og fósturföður. Þeir heyjuðu saman, leystu hver annan af við fjárhirðingu og ráku saman skurðgröfu, sem tveir þeirra unnu með.

Kostnaði var skipt í hlutfalli við búfjártölu hvers og eins, heyfeng eða túnstærð. Á þeim fjórum búum, sem bræður ráku, áttu þeir jafnmargt búfé hver. Sama var oftast uppi á teningnum, þegar feðgar ráku bú saman. Þó bar á því, að bústofninn færðist smátt og smátt í hendur sonanna, eftir því sem feður þeirra urðu lélegri til vinnu og synirnir þurftu meira sér og sínum til framfæris. Þegar giftir bændur stóðu að búi, hélt hver heimili fyrir sig, en skiptingin milli heimilanna var misjafnlega víðtæk. Ógiftir samrekstrarbændur voru í heimili með öðru fólki á bænum.

4. Samvinna og sameign

Samvinna nágranna á búunum 52 umfram það, sem sagt er um samrekstrarbúin, er skráð í töflu 1 og 2. Tafla 1 lýsir samstarfi og tafla 2 sameign.

Tafla 1. Samstarf nágranna annarra en samrekstrarbænda. 31 bóndi.1

 

nr Verkefni2 Fjöldi bænda sem vinnur verkið í samstarfi við einn eða fleiri nágranna3
1 Rúningur 19
2 Bólusetning á sauðfé 6
3 Sauðfjárböðun 29
4 Sauðfé vegið vegna fjárræktar 4
5 Slátrun 14
6 Afleysingar v. hirðingu búfjár 14
7 Fjárrekstur heim úr rétt 29
8 Fjárrekstur í sláturhús 10
9 Nautahald 10
10 Kartöflugeymsla 3
11 Steypuvinna 19
12 Flutningur á mjólk í veg fyrir mjólkurbí 7
13 Upptaka á kartöflum 3
14 Sláttur 8
15 Votheysgerð 14
16 Heyþurrkun 4
17 Hirðing á heyi 12
18 Viðgerðir á vélum 7

1 Samrekstrarbændur eru ekki teknir með í töflunni, svo að skýrari mynd fáist af samstarfi annarra nágranna. Ef þeir hefðu verið teknir með, hefði tala bænda við hvert verkefni hækkað um 21. Samskiptum samrekstrarbænda við nágranna þeirra virtist vera líkt háttað og samskiptum bændanna í töflunni við nágranna sína.

2 1.-8. verkefni eru við sauðfjárrækt, 5., 6., 9. og 12. við nautgriparækt, en 14.-17. verkefni eru við heyskap.

3 Um flest verkefni voru ekki nema 2-4 nágrannar. Undantekningar voru rúningur og fjárrekstur, nautahald og steypuvinna, en við þau verk unnu gjarnan saman fleiri nágrannar.

Tafla 2. Sameign á vélum og verkfærum meðal 52 bænda

 

nr. Verkfæri1 Tala bænda, sem áttu tækið einir Tala bænda, sem áttu tækið með öðrum Tala bænda, sem fengu tækið að láni (b+c) * 100/a+b+c
    (a) (b) (c)
1. Dráttarvél 344 202 37
2. Vörubíll 7   0
3. Jeppi 15 8 29
4. Sláttuvél 30 20 40
5. Múgavél 27 16 37
6. Mjaltavél 12 5 29
7. Rakstrarvél 9 4 31
8. Heyýta án vökvalyftu 17 6 26
9. Heyýta fest á lyftitæki 23 9 41
10. Heygreip 3 4 57
11. Vagn 24 19 45
12. Moksturstæki 17 14 45
13. Plógur 7 13 65
14. Herfi 8 9 59
15. Ávinnsluherfi 14 7 36
16. Tætari 1 11 92
17. Dreifari fyrir tilb. áburð 9 40 82
18. Dreifari fyrir búfjáráburð 1 11 92
19. Kartöfluupptökuvél 1 9 90
20. Niðursetningavél fyrir kartöflur   16 100
21. Heyblásari 9 2 25
22. Saxblásari   8 100
23. Hlanddæla 5 7 62
24. Hlanddreifari 3 1 40

1 Verkfæri, sem notuð voru við jarðvinnslu, kartöflurækt og dreifingu áburðar, voru gjarnan 3-8 um, en ekki nema 2-3 um heyskapartæki. – Verkfæri nr. 4-8 eru verkfæri, sem helst verður að nota á sama tíma á hverjum bæ í nágrenninu. Verkfæri nr. 11-24 eru verkfæri, sem nota má á ýmsum tímum, án þess að það hafi veruleg áhrif á árangurinn. Er þá miðað við venjulega þörf fyrir þau.

234+20 er stærra en tala bændanna, 52. Það stafar af því, að til var, að menn ættu eina dráttarvél einir og aðra í sameign.

Reiknað var fyrir hvert tæki, hversu margir þeirra bænda, sem áttu verkfærið eða fengu það að láni, áttu það með öðrum. Að meðaltali voru það 45%. Mikilvægasta tækið, dráttarvél, áttu 37% þeirra bænda, sem á annað borð áttu í traktor með öðrum. Sameign var venjulegust á þeim verkfærum, sem notuð voru við jarðvinnslu, þar með talið áburðardreifing, og auk þess við kartöflurækt. Sameign á dráttarvélum var hvergi nema á samrekstrarbúum. Sameign var sjaldan studd skriflegum samningum. Menn áttu verkfæri svo til undantekningarlaust í jöfnum hlutum, og viðhald fór fram í þegjandi samkomulagi.

Það kom nokkuð á óvart, að venjulega áttu menn dreifara fyrir tilbúinn áburð saman. Hefði mátt ætla, að hver bóndi þyrfti sinn dreifara í vorönnunum. Þetta bendir til þess, að það séu ekki vélarnar, sem mest reyni á á vorin, heldur vanti meira lið. Það kom raunar fram, að nýting dráttarvélanna var mest um sláttinn. Af því má ætla, að samvinna nágranna, sem vildu með henni spara sér traktorkaup, yrði að ná til heyskaparins, ef hún ætti að bera tilætlaðan árangur. Traktor var á öllum bæjum nema einum. Á þessum árum, þegar viðtölin fóru fram, var nokkuð um það, að menn fengju sér aðra dráttarvélina og héldu þá þeirri fyrstu, sumpart til vara. Talað hefur verið um, að bændur gætu haft sameiginlegan varatraktor, en engin dæmi voru um það í þessari yfirferð.

Sameining gat komið fyrir, þó að menn notuðu verkfærið ekki saman. Eins kom fyrir samstarf um verk, þó að menn ættu ekki saman þau verkfæri, sem notuð voru við verkið. Óhætt er að segja, að samstarf meðal nágranna, þótt ekki séu samrekstrarbændur, hafi verið mjög almennt, ef um var að ræða verk, sem stóðu stutt. Einkum gætir þessa í sauðfjárræktinni. Samstarf um votheysgerð er áberandi almennara en samstarf um þurrheyskap, þó að miklu meira sé þurrkað af heyi en súrsað. Venjulegt var, að menn hjálpuðu nágrönnum sínum við steypuvinnu án greiðslu. Virðist þá ætlast til, að menn gyldu líku líkt, þannig að steypuvinna kæmi helst fyrir steypuvinnu, þó að önnur vinna gæti komið í staðinn. Ekki virtust vera haldnir neinir reikningar yfir slíka aðstoð, og ekki virtist til þess ætlast, að endurgreiðsla kæmi í bráð. Árin eftir 1945 hafði verið svo mikið um byggingar í sveitunum, að það var eðlilegt að ætla, að allir þyrftu fyrr eða síðar á hjálp við steypuvinnu á halda. Reglan um það, að menn hjálpist að við steypuvinnu, nær því yfir nokkuð langt tímabil og miðast við að bæta úr þörfum manna, þegar þær eru brýnastar. Það virðist ekki alltaf vera fólk af sömu bæjunum, sem hittist við steypuvinnu, heldur teygðist úr samstarfshópnum í ýmsar áttir. Þannig fóru menn frá Mýri í steypuvinnu að Stað og að Holti, en menn frá Holti fóru að Mýri og Fjalli, en ekki að Stað, menn frá Fjalli fóru að Holti og að Ási, en ekki að Mýri, svo að nefnt sé einfalt tilbúið dæmi til skýringar því, sem virðist vera regla. – Greiðsla í reiðufé kom frekar fyrir verk, sem ekki voru á meðfæri hvers sem var.

Þó að þess hafi verið vænst fastlega af nábúum, að menn sýndu góðan samstarfsvilja eins og fyrrum og menn teldu sig eiga gott nábýli, virtist verða algengara, að menn greiddu fyrir aðstoð í reiðufé. Eins og áður segir var þess vænst, að menn gyldu líku líkt. Þó virtist vera ætlast til þess af heimilum, sem voru vel liðuð af vinnufærum unglingum, að þau legðu fram vinnuafl eftir getu. Væntanlega áttu menn von á því, að það gæti jafnað sig, þegar fram í sækti. Það má tala um gagnkvæmnisreglu. Fólk kemur sér upp innstæðum í nágrenni sínu, ef svo má segja, og væntir þess að fá þær endurgreiddar síðar. Nágrennið verður eins konar net riðið gagnkvæmum skuldbindingum.

Þau verkefni, sem samstarf var um, voru yfirleitt þess eðlis, að það var nauðsynlegt til að leysa þau af hendi eða augljós kostur, að tveir eða fleiri tækju höndum saman við það. Auk þess átti það við um mörg þessi verkefni, að ekki var nauðsynlegt að vinna að þeim á sama tíma á hverjum bæ. Þetta kemur skýrt fram í því, að samstarf um votheysgerð og hirðingu á heyi var miklu algengara en um heyþurrkun, enda var hún mjög háð veðri. Í töflu 2 var öðrum tækjum en dráttartækjum skipt í skor d (verkfæri nr. 4-8), þau verkfæri, sem varla varð komist hjá að nota samtímis á hverjum bæ í nágrenninu, og skor e (verkfæri nr. 11-24), en það eru verkfæri, sem frekar mátti nota á ýmsum tímum. Samtala þeirra, sem áttu verkfæri einir í skor d, var 95, en samtala þeirra, sem áttu verkfæri með öðrum, var 51. Í skor e voru þessar tölur í sömu röð 99 og 167, og höfðu því hlutföllin gersamlega snúist við og svo mikið, að hverfandi litlar tölfræðilegar líkur eru til, að það hafi verið tilviljun, heldur má segja, að það renni stoðum undir þá skýringu, að samstarf og sameign sé á þennan hátt háð eðli verkefnisins. Þó er þess að gæta, að skiptingin í skorir hlýtur að vera nokkurt álitamál, til að mynda má segja, að múgavél hafi mátt nota á tveimur bæjum, þó að þurrkar væru stopulir, ef vélin var að sama skapi afkastamikil. Skorarskiptingin á því að vera háð afkastagetu verkfæranna, túnstærð og búfjártölu, ef hún er rétt gerð.

5. Hvernig samvinna nágranna stendur í sambandi við landbúnaðartæknina

Það liggur ekki alltaf í augum uppi, hvort samvinna nágranna í sveitunum eykst eða minnkar samfara þeirri þróun, sem almennt gerist, enda togast þar á ólík öfl. Tæknileg og efnahagsleg þróun búskapar, aukning viðskiptabúskapar og sérhæfing, auka samskipti bænda við verslunarfólk, iðnaðarmenn og ráðunauta, sem fæstir eru nágrannar bændanna. Önnur dæmi eru um það, að nýir framleiðsluhættir auki samskipti sveitafólks innbyrðis. Hér verða rakin nokkur dæmi um það, á hvern hátt nýir framleiðsluhættir hafa haft áhrif á samskipti manna í sveitum. Þessum dæmum er ekki ætlað að sýna neina heildarmynd af þróun þessara mála.

Þegar vírgirðingar voru teknar upp og breiddust út, fylgdu því aukin viðskipti og samskipti bænda og verslunarfólks. Girðingalög segja fyrir um það, hvernig gerð og viðhaldi girðinga er skipt milli nágranna. Lögin mæla þar fyrir um samskipti, sem, eins og oft vill verða, leiða til aukinna samskipta á öðrum sviðum. Þegar gaddavír fór að flytjast til landsins, hentaði það mörgum að skipta högum og beitilöndum, sem áður voru óskipt, og gat það dregið úr samskiptum nágranna. Að öllu samanlögðu er líklegt, að heldur hafi dregið úr samskiptum nágranna í sveitum vegna upphafs girðingaaldar.

Dæmi er um það, að aukið heilbrigðiseftirlit með búfé hafi aukið samskipti nágranna. Þannig var lögboðin sauðfjárböðun gerð með aðstoð nágranna á öllum bæjum, sem voru í rannsókninni. Hins vegar hefur dregið úr samstarfi nágranna við það, að farið var að flytja fé til slátrunar á bíl, en meðan rekið var, var venjan, að nágrannar hjálpuðust að við reksturinn.

Vélvæðing landbúnaðarins hefur auðvitað aukið viðskipti bænda við verslunarfólk. Bændur hafa líka víðtæk samskipti við nágranna sína við vélahald og vélanotkun. Það er því líklegt, að vélvæðingin hafi almennt aukið samskipti bænda við aðra, bæði fólk í öðrum atvinnugreinum og við sveitunga sína. Ekki er þó gott að segja um heildaráhrifin á samskipti manna innan sveitar nema kanna betur, hvernig þau verkefni, sem nú eru unnin með vélum, voru unnin áður.

Teikningin (nr. 1) er til skýringar á samhenginu milli samvinnu nágranna, nýrrar búskapartækni og aukinna fjármuna við búrekstur og fólksfækkunar á sveitaheimilum. Ný búskapartækni kallar í sumum efnum á samvinnu nágranna, en önnur dæmi eru um, að hún geri menn óháða nágrönnum sínum. Ný búskapartækni veldur við viss markaðsskilyrði fólksfækkun á sveitaheimilunum. Fólksfækkunin kallar stundum á samvinnu nágranna við verk, sem illa verða unnin af einum manni, en hún getur líka gert mönnum óhægara að fara af bæ og spillt þannig fyrir samvinnu nágranna. Fólksfækkunin kallar oft á nýja búskapartækni. Samvinnufjós og vélahringar voru hvor tveggja háð því, að vöxtur væri í búskapnum, en um slíkan vöxt er síður að ræða, þegar ör fólksfækkun er á sveitaheimilunum. Samvinna nágranna auðveldar mönnum stundum að taka upp nýja búskapartækni, og getur það óbeint flýtt fyrir fækkun á bæjunum, eftir því hvernig markaðsástæður eru.

1. teikning. Samhengi milli nýrrar búskapartækni, samvinnu nágranna og fólksfækkunar á sveitaheimilum.

Án þess að hafa mælt það nánar, hvaða áhrif hin nýju hlutföll milli vinnuafls og fjármagns hafa á samskipti manna í sveitunum, virðist eftirfarandi tilgáta í þremur liðum hafa við nokkur almenn rök að styðjast: (1) Samskipti sveitafólks við framleiðslukerfi bæjanna aukast, einkum við þann hluta kerfisins, sem lýtur að viðskiptum vegna landbúnaðarins og vinnslu á afurðum hans. (2) Fólki fækkar á bæjunum, og þar með dregur úr mannlegum samskiptum á heimilunum, en ekki er eins ljóst, hvaða stefnu samskipti nágranna taka. (3) Hvaða stefnu samskipti nágranna taka er háð efnahagslegri og tæknilegri þróun, fjarlægðum og búgreinum.

6. Samvinna nágranna og ríkisframlög til landbúnaðar

Framlög ríkisins til fjárfestingar á jörðunum hafa óbeint áhrif á samvinnu nágranna. Ef við göngum út frá því, að markaðurinn fyrir landbúnaðarafurðir sé lokaður fyrir erlendri sam-keppni og takmarkaður, þannig að aukið framboð þrýsti verðinu niður, þegar til lengdar lætur, þá leiða ríkisframlög til jarðabóta til þess, að fólki fækkar að meðaltali á býli, einkum þó ef menn hafa jafnan rétt til framlaga. Hvaða áhrif slík fólksfækkun ein út af fyrir sig hefur á samvinnu nágranna, er þegar rætt.

Um nokkurt árabil eða alveg síðan fyrir seinna stríð, hafði notkun á innfluttu kolvetnafóðri og innlendu eggjahvítukjarnfóðri aukist stórlega. Það leikur ekki á tveim tungum, að íslenskt hey og beitirækt annars vegar og kjarnfóður hins vegar geta að nokkru komið hvort í annars stað, og hversu mikið það kemur hvort í annars stað, fer eftir kostnaðarhlutfalli. Þar sem framlög til fjárfestingar í landbúnaði hafa að mestu beinst að nýrækt, hefur kostnaður við heimafengið fóður lækkað nokkuð. Þetta hefur svo leitt til þess, að tún eru stærri en ella. Stækkun túnanna hefur stundum valdið því, að vélar hafa orðið fullnýttar án sameiginlegrar notkunar, en annars kann aukin túnstærð að hafa valdið því, að skilyrði sköpuðust til að taka upp samvinnu um vélar, sem ekki hefði verið grundvöllur fyrir, ef ræktunin hefði verið minni. Án umfangsmikilla athugana er erfitt að segja nokkuð ákveðið um það, til hvorrar áttarinnar jarðabótaframlögin höfðu áhrif á samvinnu nágranna.

Á öðru sviði hafa afskipti ríkisins stuðlað að samskiptum nágranna, þar sem ríkisvaldið hefur stutt ræktunarfélög bændanna til kaupa á jarðvinnslutækjum, skurðgröfum og jarðýtum. Ræktunarfélögin ná yfir einn eða fleiri hreppa (ræktunarsambönd). Líklegt er, að samvinna sveitunga hafi með þessu móti orðið meiri en ella, og að án stuðnings ríkisins við ræktunarfélögin hefði nýræktin verið meira í höndum einstakra verktaka, að minnsta kosti í þeim sveitum, þar sem mikið var ræktað.

7. Samvinna nágranna undir forystu hreppsfélaga

a. Yfirlit

Hér að framan hefur verið rætt um samvinnu fáeinna nágranna. Slík samvinna fór undantekningarlítið fram án skriflegra samninga. Nú skal gerð grein fyrir samvinnu nágranna undir forystu hreppsfélaga, en hreppsfélögin starfa að sjálfsögðu eftir skriflegum reglum með gerðabókum og reikningshaldi.

Sveitahrepparnir á Íslandi eru svo fámennir að líta má á íbúa þeirra sem nágranna og telja þá smáhóp eða félagsklasa á félagsfræðimáli, en með klasa er átt við, að sérhver einstaklingur hópsins viti nokkur deili á öllum öðrum í hópnum. Í hreppunum, sem farið var í til athugana, voru að meðaltali 37-38 býli á þeim árum. Auk þess var í tveimur þeirra nokkurt þéttbýli. Íbúatala hreppanna 6 var árið 1963 304 (þar af 125 í þorpi), 189, 787 (þar af 419 í þorpi) og 256, en tveir hreppar höfðu 251 íbúa hvor. Í flestum sveitahreppum voru hins vegar færri en 200 íbúar.

Hér skulu rakin verkefni nátengd búskap, unnin undir forystu hreppa og hreppa-búnaðarfélaga, eins og fram kemur í viðtölum sumarið 1963. Enginn dómur er lagður á það, hversu algengt var, að einstök verkefni væru í höndum þessara aðila. Fyrst má nefna afréttarmál, bæði smölun og girðingar. Nýrækt, nautahald og illgresiseyðing kom einnig fyrir á vegum þeirra. Til var, að sömu aðilar ættu útbúnað til bygginga, dreifara fyrir búfjáráburð, hefðu á hendi búfjárrækt og skipulögðu mjólkurflutninga. Oft var það, að samvinna var milli hreppa. Þó voru félögin svo lítil, að verkunum var stjórnað og þau unnin af bændunum. Ákvarðanir voru teknar og tekjum og kostnaði skipt á formlegan hátt. Tilhneiging virtist til þess, að útgjöldum væri skipt í hlutfalli við veltu eða breytilega kostnað, þegar hann var mestur hluti kostnaðarins. Ef verkið dró ekki á eftir sér veruleg rekstrargjöld, var til, að hreppsstofnunin tók á sig fjárfestinguna án þess að leggja gjöld á afnotin. Kostnaði vegna afréttaralmenninga var jafnað niður á búfjáreigendur í réttu hlutfalli við tölu vetrarfóðraðs fjár og hrossa án tillits til þess, hvort menn ráku á fjall eða ekki. Fyrir kom þó, að fjallskilum var að nokkru jafnað niður á landeigendur í hlutfalli við jarðamat. Venja var að skylda menn til fjallferða, en þó áttu menn þess kost að útvega menn fyrir sig.

b. Hæfileg fjártala í almenningum

Afréttarmál eru fyrirferðarmest þeirra verkefna hreppsfélaga og annarra stofnana í hreppunum, sem lúta að búskap. Þau varða svo til alla bændur. Skipan þeirra mála getur verið nokkuð breytileg. Í sumum hreppum eru afréttir afmarkaðir frá afréttum annarra hreppa með ám eða sauðfjárveikivarnagirðingum, en í öðrum sveitum kunna fleiri hreppar að vera um afrétt, og fer það þá helst eftir landslagi. Þegar svo er, eru fleiri en einn hreppur í fjall-skiladeild.

Nýting afrétta skiptir afkomu landbúnaðarins miklu. Hér á eftir verður reynt að gera grein fyrir því, hvaða áhrif það hefur á bestu nýtingu afréttar, sem er almenningur, að ákvörðun um fjölda fjár, sem rekið er á afrétt, er tekin af öllum fjáreigendum, sem þar eiga upprekstur án samráðs milli þeirra. Heildarkostnaður fjallskiladeildar í vinnu og girðingum er svo til alveg óháður því, hvort einstakur fjáreigandi rekur 100 eða 200 fjár á fjall. Fjallskila-deildin jafnar þessum fasta kostnaði á fjáreigendur oftast í réttu hlutfalli við fjártölu. Fjallskil, sem gera skal að hausti til, eru oft á þeim tíma, sem mjög er áskipaður hjá mörgum bændum. Fjallskil verða því álögur og aukinn kostnaður fyrir marga bændur, því meira sem fjallskil eru meiri. 100 kindur til eða frá breytir engu um kostnað fjallskiladeildarinnar, en hefur áhrif á kostnað einstakra bænda vegna þeirrar aðferðar, sem notuð er við niðurjöfnun fjallskila. Af þessu virðist mega draga þá ályktun, að sá bóndi, sem hefur ekki fleira fé en svo, að síðasta kindin, sem hann setur á, gefur jafnmikið af sér og hún kostar bónda sérstaklega (en þannig ákveða góðir búmenn, sem vita allt um búskap sinn, fjártölu sína), setur á færra fé en honum væri hagur í, ef raunverulegum viðbótarkostnaði fjallskiladeildarinnar, sem er nánast enginn, væri vísað öllum til bóndans. Þar sem enginn munur er á bændum að þessu leyti, má af þessari ástæðu ætla, að í heild verði færra fé sett á vetur en hæfilegt er. Þetta gildir þó því aðeins, að bændur ákveði fjártölu sína eins og góðir búmenn og þekki alla kostnaðar- og tekjuliði búsins.

Þó er ekki nóg með þetta. Þegar einn einstakur bóndi setur á færra fé en hæfilegt væri, ef hann þyrfti aðeins að standa undir viðbótarkostnaði fjallskiladeildarinnar vegna fjár-fjölgunar, en ekki meðalkostnaði deildarinnar á kind, dregur hann upp meðalkostað fjallskiladeildarinnar á kind. Hærri fjallskil á kind draga svo enn frekar úr mönnum að setja á fé, en það hækkar aftur meðalkostnað fjallskiladeildarinnar og svo koll af kolli.

Þessu má lýsa frekar með tilbúnu talnadæmi. Í fjallskiladeild eru sett á vetur 5.000 fjár. Jafnað er niður 250 dagsverkum eða einu dagsverki á hverjar 20 vetrarfóðraðar kindur. Bóndi, sem á 500 fjár, á að skila 25 dagsverkum og á þeim tíma, þegar aðrar annir eru talsverðar og fækkar á heimilinu, þegar skólar hefjast. Bónda virðist því viðbótarálagið, sem á hann fellur, of þungt miðað við árangur og tekur því þann kost að fækka fénu í 250 vetrarfóðraðar kindur. (Hann dregur saman seglin á búinu eða fjölgar kúm í staðinn). Virðist honum þá líklegt, að aukatilkostnaður vegna seinustu kindanna verði nokkurn veginn jafnmikill og afurðir þeirra. Nú hefur fækkað um 250 vetrarfóðraðar kindur í fjallskiladeildinni, en almenningurinn er jafnstór og áður og allur tilkostnaður deildarinnar. Þarf því að jafna 250 dagsverkum á 4750 vetrarfóðraðar kindur eða dagsverk á 19 kindur. Þetta er auðvitað ekki stórvægileg breyting, en ljóst er þó, hvert stefnir, og ætla má, að áhrifanna gæti, þegar til lengdar lætur og fleiri breyta á sama veg.

Hér virðist vera um vítahring að ræða, þannig að fé fækki stöðugt í fjallskiladeild, ef því byrjar að fækka. Reynslan kennir þó, að vítahringurinn rofnar fyrr eða síðar og fjárfækkunin stöðvast og fé tekur jafnvel að fjölga. Það má líka skýra með vitrænni hegðun fjáreigenda. Þegar fé fækkar á jörð, má ætla, að afurðir á kind aukist og aukatilkostnaður vegna síðustu kindanna minnki, þó að fjallskil, eins og þau eru lögð á í þessu dæmi, hækki. Einkum mun þessa gæta, þegar menn eiga fárra og lítilla annarra kosta völ. Þá verður aukavinnukostaður vegna fjárfjölgunar lítill, og lítið sparast, þó að menn geti létt af sér vinnu. Öðru máli gegnir, ef mönnum bjóðast nýir kostir, annað hvort utan landbúnaðarins eða ný búgrein er tekin upp. Því er eðlilegt að álykta, að alls þessa kunni að gæta í víðlendum sveitum með þung fjallskil, þegar mjólkurbú er stofnað í byggðarlaginu eða mjólkurflutningar hefjast þaðan. Þetta hefur ekki verið kannað sérstaklega, þó að fyrir hafi borið dæmi um breytingar á búskaparháttum, sem skýra má að nokkru á þann hátt, sem hér er gert.

Sá háttur fjallskiladeilda að jafna fjallskilum á fjáreigendur í réttu hlutfalli við fjártölu, virðist því geta leitt til lægri fjártölu í fjallskiladeild en yrði, ef fjallskilum væri jafnað sem föstum kostnaði, hvernig sem því yrði fyrir komið. Einkum virðist þessara áhrifa geta gætt á tímum, þegar afkomuskilyrði við annað en fjárbúskap batna.

Ekki er þó öll sagan sögð með þessu. Annað kemur til, sem virðist geta haldið fjártölunni úr hófi hátti á almenningsafrétti. Ætla má, að samanlagðar afurðir af fé, sem gengur á afrétti, aukist minna fyrir hverja viðbótarkind, að minnsta kosti þegar vissri tölu er náð, og að svo geti farið, þegar enn meira fjölgar, að samanlagðar afurðir minnki beinlínis. Þetta má meðal annars rekja til þess, að spretta á afrétti eykst ekki með fjárfjöldanum, jafnvel minnkar, en hver kind þarf sinn fasta skammt sér til viðhalds, og þá verður minna eftir til vaxtar, því fleira sem féð er.

Málið stendur þá þannig, að líklegt er, að samanlagðar afurðir aukist minna fyrir hverja nýja kind, sem bætt er á afréttinn, en þessa gætir að sjálfsögðu ekki sérstaklega á þeim tilteknu kindum. sem kynni að verða bætt við, ef um slíkt er að tala, né gætir þess sérstaklega á kindum þess fjáreiganda, sem fjölgunina má rekja til, heldur kemur það fram í meðalafurðum fjárins á afréttinum. Þetta má einnig skýra með tilbúnu dæmi. Á almenningsafrétt eru rekin 10.000 vetrarfóðraðs fjár. Samanlagðar afurðir eru í venjulegu árferði 150.000 kg af kjöti. Nú fjölgar fjáreigandi einn fé sínu úr 100 í 200, en aðrir halda óbreyttri fjártölu. Sprettu á afrétti var svo háttað, að samanlagðar afurðir 10.100 kinda verða 150.100 kg af kjöti. Það má því segja, að afurðir á viðbótarkind séu 1,0 kg. Bóndinn, sem fjölgaði fé sínu, hugsum við okkur, að hafi fengið meðalafurðir á kind fyrir og eftir fjölgun. Hann hefur þá fengið 1.500 kg af kjöti fyrir fjölgun, en 2972 kg eftir fjölgun, en aðrir fjáreigendur, sem höfðu óbreytta fjártölu, fengu 148.500 kg, áður en hann fjölgaði og 147.128 kg eftir fjölgun. Þannig náði fjáreigandinn í sinn hlut 1.372 kg, sem áður komu í hlut annarra fjáreigenda, þó að tilkostnaður þerra hafi verið óbreyttur.

Svo virðist því sem fjárfjölgun sjálfstæðra einstaklinga geti auðveldlega leitt til þess, að of margt fé varði rekið á afrétt. Þó er ekki víst, að svo sé, þar sem hér er gert ráð fyrir, að aðrir fjáreigendur bregðist ekki við minnkandi meðalafurðum. Ef þeir breyta eins og góðir búmenn og vita afleiðingar verka sinna, munu þeir vissulega bregðast við. Eðlilegt er, að menn fækki fé, þegar meðalafurðir þeirra minnka, en það hefur síðan áhrif til hækkunar meðalafurða. Menn vita þó aldrei nákvæmlega fyrirætlanir sveitunga sinna, þannig að ekki er að búast við, að fjártalan leiti varanlegs jafnvægis af þessum ástæðum, þó að þær virðist ekki valda eins skaðlegri fjárfjölgun og í fljótu bragði sýndist.

Í ályktunum þessum um hæfilegan fjárfjöld hefur verið gert ráð fyrir því, að fjáreigendur brygðust við eins og góðir búmenn, en með því er átt við, að menn leitast við að auka umsvif sín svo mikið, að síðasta aukning afurða sé jafnverðmæt og hún kostaði sérstaklega, en ekki umfram það. Ekki er nóg að hafa slíka viðleitni í frammi, heldur þurfa menn að þekkja fyrir afleiðingar gerða sinna. Talsvert mun vanta á, að vitað sé, hvaða áhrif fjártala á einstökum jörðum hefur á afurðir fjárins og afkomu búanna eða hvernig menn ákveða fjártölu sína í reynd. Um áhrif fjártölu á landgæði hafa menn enn ekki nema meira eða minna óljóst hugboð. Hvort tveggja takmarkar hagnýtt gildi ályktananna. Hins vegar eiga þær að hjálpa mönnum að átta sig á því, hvar skórinn kreppir í leit að hæfilegri fjártölu í einstökum afréttum, bæði að því er varðar skipulag á nýtingu þeirra og búfræðilega þekkingu.

8. Samvinnufjós í hreppshlutunum sex?

a. Almennt um skilyrði fyrir samvinnufjós

Nokkuð hefur verið rætt, að bændur gætu framleitt mjólk ódýrar með því að stofna allstór samvinnufjós. Einkum ætti þó slíkur rekstur að auðvelda mönnum afleysingar. Nú skal ræða, hversu samvinnufjós hefðu hentað í hreppshlutunum sex, og er þá byggt á athugunum frá sumrinu 1963. Það hlýtur að greiða fyrir myndun nýrra fjósa af hvaða tagi sem er, að þannig er búið að mjólkurframleiðslu, að kúm fjölgar í landinu. Ekkert vantaði á það árið 1963, enda hafði kúm fjölgað allmikið undanfarin ár, og reyndist sú fjölgun ekki vera stöðvuð þá. Annað skilyrði, sem uppfylla þarf, er, að samvinnufjósin bjóði betri kjör en einstaklingsfjós eða fjós á samrekstrarbúum. Kjör mjólkurframleiðenda höfðu að vísu ekki verið slík, að fleiri höfðu dregist að þeirri framleiðslu. Hins vegar hafði víðast hvar komið maður í manns stað. Það fólk, sem kemur í stað þeirra, sem falla frá á einhvern hátt, stendur þó ekki endilega samvinnufjósum til boða. Kemur þar það til, að ekki er víst, að fjósamannsstarf laði menn til sín, þótt í samvinnufjósi sé, heldur kjósi menn frekar rekstur með venjulegu lagi. Líka er það, að nýjum mönnum býðst oft að taka við meira eða minna uppbyggðum búum á lægra verði en kostað hefur að koma þeim upp.

Þó stöðugt hafi verið fest aukið fé í mjólkurframleiðslu, hefur sjaldnast verið um að ræða svo stórtækar framkvæmdir á einum stað eða í einni sveit, að það svari til þess, sem þyrfti að vera, ef efnt væri í myndarlegt samvinnufjós, sem veitti nokkrum mönnum atvinnu. Hins vegar hafa ekki verið neinir tæknilegir örðugleikar á því í flestum sveitum á Íslandi. Að minnsta kosti ætti ekki að skorta ræktunarland. Þó að sú uppbygging, sem þegar hafði verið gerð á kúabúum um land allt, hafi veikt samkeppnishæfni nýrra samvinnufjósa og það kunni að hafa ráðið úrslitum um gildi þeirra, þarf líka að hyggja að, hver samkeppnishæfni samvinnufjósa yrði miðað við venjulegan rekstur, þegar hvort tveggja er reist frá grunni. Um þetta liggja ekki fyrir neinar íslenskar athuganir, en málið hefur verið kannað í Svíþjóð.[21] Niðurstaðan benti ekki ótvírætt til yfirburða stórra samvinnufjósa. Ekki er ástæða til að ætla, rekstraryfirburðir stórra samvinnufjósa séu meiri hér á landi en í Svíþjóð.

Skal þá snúa sér að því að gera grein fyrir því, hvaða áhrif núverandi skipan mjólkurframleiðslu hefur á skilyrðin til að koma upp stórum samvinnufjósum hér á landi. Ýmsar rannsóknarniðurstöður benda til þess, að það ráði miklu um það, hvort það borgi sig fyrir bændur að taka þátt í slíkum stórrekstri, í hvaða ásigkomulagi byggingar eru á jörðum þeirra. Þar sem útihús eru niðurnídd, eru vinningshorfur mun meiri en á vel hýstum jörðum. Á flestum jörðum eru byggingar komnar misjafnlega langt til ára sinna. Það eru afdrifaríkar ráðstafanir að flytja meginþunga búskaparins í einni sveit eða sveitarhluta af einstökum jörðum á miðstöð, þar sem kýr eru haldnar í samvinnufjósi. Líklegt er, að fljótlega þætti henta að koma þar upp íbúðarhúsum starfsfólks og láta nýrækt sveitarinnar vaxa út frá fjósinu. Við allt þetta hefur það mikið að segja, hvort bændurnir eru á góðum aldri. Líklegt er, að jarðir séu þá fast setnar. Einnig skiptir það miklu máli og mælir á móti flutningi, ef íbúðarhús eru í viðunandi eða góðu ásigkomulagi. Ástand þessara mála er sjaldnast eins á öllum sviðum á hverri jörð. Það er oft svo, að eðlilegt er, að bóndi losi við sig búið á einum áratug, á öðrum áratug verður fjósið ónothæft, og þá getur vel staðið svo á, að íbúðarhúsið haldi gildi sínu einn áratug eða tvo til. Á hverjum tíma vill það þá vera svo, að túnin og fjósið og íbúðarhúsið eða túnin og fjósið og bóndinn eða túnin og bóndinn og íbúðarhúsið eru í fullu gildi, þannig að það borgar sig að endurbæta fjósið eða íbúðarhúsið eða byggja nýtt eða það borgar sig fyrir nýjan mann að taka við af þeim, sem aldrinum hefur orðið að bráð. Þátttaka í nýju samvinnufjósi verður, þegar svona stendur á, of mikil kollsteypa, og leiddi til lélegrar nýtingar á rekstrarhæfum verðmætum.

Þar við bætist, að það fer sjaldan saman á jörðum í einni sveit, hvernig þær ganga úr sér. Þó að ein jörð gangi svo úr sér, að vel mætti flytja búskapinn til samvinnufjóssins, er undir hælinn lagt, hvort nógu mikið yrði um það í þeirri sveit, og eins líklegt, að bændur á þeim jörðum, sem héldu enn gildi sínu, sæju sér hag í því að nytja frá jörðum sínum þá jörð, sem kynni að verða úr sögunni sem sjálfstætt býli. Þegar búskap er haldið í horfinu af þessum ástæðum, hefur það auðvitað þau áhrif, að minna þarf að greiða fyrir aukningu mjólkurframleiðslu með því að auðvelda mönnum að reisa bú frá grunni, þar á meðal samvinnufjós.

Kannað var ástand þessara mála í hreppshlutunum sex, þ.e.a.s. aldur húsa og bænda og hvaða áhrif hann hefði líklega á skilyrðin fyrir stór samvinnufjós. Hér fer á eftir lýsing á ástandinu í hreppshlutunum, og er þá sérstaklega dvalið við þær jarðir, sem ætla má, að gætu losnað úr ábúð innan tíðar.

b. Hreppshlutinn með talsverða mjólkurframleiðslu og mikla votheysgerð

Þar voru þrír bændur yfir sextugt, Einn þeirra rak bú með bróður sínum, sem var lítið innan við fimmtugsaldur. Báðir voru ógiftir, en systir þeirra stóð fyrir heimilinu. Á öðrum bæ var gamall bóndi, en sonur hans giftur hafði reist bú í túnfætinum hjá honum og bjó þar sjálfstætt. Sá þriðji þessara gömlu bænda stundaði bú sitt í félagi við tvo syni sína gifta. Þó að tveir síðast töldu bændurnir létu af búskap, var ekki ástæða til að vænta annars en að jarðirnar yrðu áfram fullnýttar heima fyrir, þannig að þar var ekkert, sem staðið hefði samvinnufjósi til boða, hvorki tún né kýr. Þarna virtist því ekki heldur um að ræða líklegan samdrátt í búskap, sem hefði getað aukið svigrúm á markaðinum fyrir nýjan rekstur í stórum stíl.

Í þessum hreppshluta er elsta íbúðahúsið 21 árs og elsta fjósið 42 ára. Það fjós var á bæ, þar sem var stórt íbúðarhús viðgert í lok síðara stríðs. Þetta var jörð ógiftu bræðranna, sem nefndir voru. Þeir voru svo heilsuveilir, að vel mátti búast við því, að jörðin færi úr byggð innan tíðar, en þá var líklegt, að menn á næstu jörðum sæju sér hag í því að nytja túnin og jafnvel fjárhúsin, ef jörðin byggðist ekki.

c. Sauðfjárræktarsveit án votheysverkunar

Þarna var lítið um mjólkurframleiðslu, enda þannig valinn hreppurinn. Hér var því ekki um að ræða nein föng, sem flytja mátti úr almennum kúabúskap í samvinnufjós, heldur mátti hugleiða það, hvort það væri slíkt los á búskap, að það gæti opnað leiðir fyrir stórrekstur í mjólkurframleiðslu og þá alveg eins og annars staðar. Er þá haft í huga, að telja verður markað fyrir sauðfjárafurðir takmarkaðan með viðunandi verðlagi, þó að takmörkin séu að vísu nokkuð óljós vegna fyrirkomulags verðlagningar, en ef markaðurinn er takmarkaður, leiðir af því, að samdráttur í sauðfjárrækt í einni sveit greiðir fyrir aukningu sauðfjárræktar í öðrum sveitum. Slík aukning hlýtur að taka frá almennri mjólkurframleiðslu búrekstrarföng. Kallar það auðvitað á aukna fjárfestingu í mjólkurframleiðslu og þá ef til í samvinnufjósum. Þetta samhengi kann að þykja langsótt og er að sjálfsögðu óljóst, hversu mikið þess gætir, en þó þótti rétt að drepa á það, hvaða áhrif þróun búskapar í sauðfjársveitum gæti haft á skilyrði fyrir að koma upp samvinnufjósum.

Í þessum hreppshluta voru tveir gamlir bændur. Annar þeirra var 71 árs og rak bú sitt að talsverðu leyti í samvinnu við son sinn, sem var giftur og hafði reist nýbýli þar í túnfætinum með því að skipta jörðinni. Hinn bóndinn var 77 ára. Tengdasonur hans var að koma sér fyrir þar á jörðinni. Hann var smiður, og kom honum því ekki eins illa, að íbúðarhúsið var gamalt, — frá því skömmu fyrir fyrra stríð. Honum yrði auðveldara en ýmsum öðrum að byggja upp jörðina. Telja mátti því tryggt, að jörðin héldist í byggð. – Tveir ógiftir bræður, 59 og 56 ára, bjuggu samrekstrarbúi. Þeir voru fatlaðir. Þar var ekki séð fyrir um framhald búskaparins. Á jörðinni var að vísu aðeins 7 ára gamalt íbúðarhús. – Þarna var líka ógiftur 45 ára gamall bóndi. Hann vann oft á jarðýtu, en móðir hans gætti bús og heimilis á meðan. Íbúðarhúsið var 10 ára. Þarna var nokkuð óvíst, hversu lengi bóndi héldi áfram búskap, en síður var ástæða að gera ráð fyrir, að jörðin færi úr byggð, þó að hún losnaði úr ábúð.

d. Sauðfjárrækt og mikil votheysverkun

Á einu búinu var bóndi 78 ára. Búskapurinn var í höndum þriggja barna hans, tveggja sona, 45 ára og 41 árs, og 43 ára dóttur. Þau voru ógift. Íbúðarhúsið var byggt strax eftir stríð. Á sömu torfunni voru tvö önnur býli. Þar bjuggu ungir bændur. Á fjórða búinu var bóndi 64 ára. Þar hafði sonur hans giftur nýlega sest í bú og rak það í félagi við föður sinn. Á einu búi var bóndi 63 ára, en hann bjó í félagi við fósturson sinn giftan. Þetta var á sömu torfunni og fyrst var nefnd. Elsta íbúðarhúsið í hreppshlutanum var 34 ára og það næstelsta 24 ára. Í þessari sveit var því ekki útlit fyrir slíkt los á ábúð jarða, að það gæti dregið úr búrekstri, svo að þess gætti þar í sveit og enn síður annars staðar.

e. Miðlungssveitin

Þar var einn búandinn 67 ára gömul ekkja. Búið var ósköp lítið, ein kýr og 40 kindur og túnið 2 hektarar. Að búinu vann sonur ekkjunnar, 24 ára að aldri, og var það allt og sumt, sem hann vann. Þó að þetta bú hyrfi úr sögunni, hefði það engin áhrif á annan búskap þar í sveit. Annar roskinn bóndi, 63 ára, bjó búi sínu í félagi við giftan fósturson sinn. Elsta íbúðarhúsið á jörðunum var 19 ára og jafngamalt næstelsta fjósinu, sem var á sama bæ. Elsta fjósið var hins vegar meira en aldargamalt. Á þeim bæ voru bæjarhúsin 15 ára, en bóndi 55 ára. Þarna virtist því ekki vera neitt los á ábúð jarða að koti ekkjunnar slepptu, en vel lá fyrir bónda á næsta bæ að nytja túnið, ef kotið legðist í eyði.

f. Góðsveitin

Í þessum hreppshluta var elsti bóndinn 53 ára. Elsta íbúðarhúsið var frá því skömmu fyrir aldamót. Bóndinn á þeim bæ var aðeins þrítugur og fjósið 15 ára með 30 básum. Bóndinn á einni jörðinni vildi helst komast þaðan, ef hann fengi jarðnæði. Voru þá litlar líkur á því, að jörðin byggðist aftur, þar sem öll hús voru að falli komin, en jörðin var í eign næsta kaupstaðar. Túnið mátti vel nytja frá næstu bæjum. Á þessari jörð var lítill búskapur eða aðeins 7,5% kúgilda jarðanna 8 í hreppshlutanum.

g. Fátæka sveitin

Elsti bóndinn í hreppshlutanum var 68 ára. Sonur hans giftur hafði reist nýbýli, en býlin lágu samtúns. Á búi gamla mannsins voru fjögur ógift börn hans á þrítugsaldri, synir og dætur. 62 ára gamall bóndi átti samrekstrarbú með giftum fóstursyni. Elstu bæjarhúsin í hreppshlutanum voru 16 ára. Ekki var því hér frekar en annars staðar um að ræða slíkt los á ábúð jarða, að það gæti greitt fyrir byggingu stórra samvinnufjósa, hvorki þar í sveitinni né annars staðar á landinu vegna áhrifa á markaðinn.

h. Niðurlag

Þó að sú hafi orðið niðurstaðan, er hugsanlegt, að minna los hafi verið á ábúð jarða í hreppshlutunum sex en í sveitum yfirleitt. Til þess bendir, hversu algeng samrekstrarbú voru þar. Af 52 bændum voru 15 giftir samrekstrarbændur eða 19%, en á sama tíma voru um 9% allra bænda á landinu giftir samrekstrarbændur. Það, sem hér er ætlað um ábúð einstakra jarða, er að sjálfsögðu engin vissa. Ef meira los yrði á ábúð jarða en hér er ætlað, þarf því samt ekki að fylgja, að skilyrði til að koma upp stórum samvinnufjósum hafi batnað. Aukið los á ábúð jarða getur nefnilega stafað af því, að fjárfesting í mjólkurframleiðslu sé yfirleitt orðin arðminni og þar með einnig bygging og rekstur stórra samvinnufjósa.

Niðurstaða þessarar könnunar á skilyrðum til að koma upp samvinnufjósum er raunar í samræmi við viðbrögð bændanna, þegar þeir voru spurðir um áhuga sinn á slíkum bústað, en þeir kváðu hann lítinn. Þó kvaðst einn bændanna helst hafa viljað koma upp sameiginlegu fjósi með bændum af næstu bæjum, en af því hafði ekki orðið, og nú bjuggu þeir allir við ný fjós á jörðum sínum, svo að málið var ekki tímabært lengur, taldi hann. Bóndinn hafði hugsað sér, að byggingin væri sameiginleg, en hver ætti og hirti sínar kýr. Varðandi aðrar ráðagerðir um fjósbyggingu en samvinnufjós er þess að geta, að 22 bændur svöruðu þeirri spurningu játandi, hvort þeir hefðu í hyggju að reisa nýtt fjós. Það er að sjálfsögðu erfitt að dæma um það, hversu raunverulegar slíkar ráðagerðir eru, en, eins almennar og fjósbyggingar höfðu verið á þessum árum, þótti ekki ótrúlegt, að flestir þeirra mundu byggja fjós í náinni framtíð.

9. Orlof, frítími og tekjur og viðhorf til búskapar og sveitalífs

Það er ekki auðvelt að mæla frítíma bændafólks, og enn erfiðara er að meta á tölulegum grundvelli þær upplýsingar, sem fást. Í viðtölunum voru menn spurðir um það, hversu marga frídaga þeir hefðu haft á síðastliðnu ári frá vori til vors. 33 bændur og 25 húsmæður kváðust aldrei hafa haft frí á árinu. Af þeim höfðu þrjár húsmæður og einn bóndi verið veik langtímum saman. 9 bændur og 6 húsmæður höfðu haft frí allt að einni viku á árinu, en 3 bændur og 7 húsmæður höfðu frí allt að einni viku á árinu, en 3 bændur og 7 húsmæður höfðu haft lengra frí. 4 bændur höfðu farið ferð til Reykjavíkur, en töldu það ekki beinlínis frí, þó ferðin tæki nokkuð langan tíma, enda hefðu þeir verið í erindagerðum vegna búskaparins. Loks vantar upplýsingar frá 3 bændum og 1 húsmóður. – Sumt af því, sem talið var frí, var erindrekstur vegna búskaparins, til að mynda ferðalög vegna lána, aðdrátta og mannaráðninga.

Þó að svo margir hafi ekki haft neitt frí, sem kallast gæti, voru fáir svo illa komnir, að þeir gætu ekki fengið aðstoð, ef skammvinnan umferðarsjúkdóm bar að garði, að minnsta kosti ef veikin lagðist ekki á flesta í sveitinni samtímis. Ekki er gott að setja, hversu margir komust í hrein vandræði, ef veikindi urðu á bænum. Þess bera að gæta, að telja má víst, að viðtalsbændurnir hafi verið betur settir að þessu leyti en bændur almennt fyrir það, hvað hlutfallslega margir þeirra voru samrekstrarbændur.

Í viðtölunum var húsráðendum gefinn kostur á því að láta uppi viðhorf sitt til búskapar og sveitalífs. Tilgangurinn var sá að fá fram það, sem gæti ráðið því, hvernig gengi að taka upp nýtt skipulag við búskap. Þetta fór fram á þann hátt, að lagður var fram listi með jákvæðum og neikvæðum einkennum á búskap og sveitalífi og menn beðnir að tilgreina þau þrjú atriði hvoru megin, sem þeir létu sig mestu varða (sjá viðbæti).

Niðurstaða þessarar könnunar er birt í töflum 3 og 4. Þar kemur fram, að ekki notuðu allir tækifærið til að tilgreina þrjú atriði hvoru megin. Fólk dró fram fleiri jákvæðar en neikvæðar hliðar, og konur voru hlédrægari en karlar. Til þess að hafa ekki áhrif á viðmælendur kom fyrir, að sama atriði var haft með báðu megin. Fólki var til að mynda gefinn kostur á að taka fram, að því þætti leiðinlegt að eiga við sauðfé, en einnig, að sauðfé væri eitt af því, sem því félli best við búskapinn. Slíks jafnvægis var þó ekki gætt alls staðar, þar sem það gat komið til greina, heldur þótti stundum rétt að spara heldur rúm. Þess vegna var ekki tekið í jákvæðu hliðina, að mönnum þætti gott að njóta félagsskapar sveitunga sinna eða eitthvað í þeim dúr, en á neikvæðu hliðinni var einangrun. (Áður hafði komið fram í viðtalinu álit manna á hjálpsemi nágranna fyrr og nú). Fólk bætti stundum við atriðum. Þannig var heilbrigt umhverfi fyrir börn með á jákvæðu hliðinni, og bættu nokkrir þar við fullorðnu fólki.

Tafla 3. Viðhorf til búskapar og sveitalífs. Neikvæð atriði. Svör 52 bænda og 39 húsmæðra við spurningunni: Hvað líkar þér verst við starfið? Nefn þrjú atriði, sem þú leggur mesta áherslu á.1
  (1) (2 (3) (4)
Einangrun, fámenni og fásinni (lítið félagslíf) 0 2 0 4
Erfitt að fá aðstoð innanhúss 2 0 3 0
Erfitt um læknishjálp 2 1 3 2
Erfitt um skólagöngu 6 10 8 22
Langur vinnudagur 8 8 11 17
Leiðinlegt að fást við sauðfé 0 0 0 0
Kýrnar bindandi 6 4 8 9
Litlar tekjur 24 7 33 15
Lítils virt starf 0 0 0 0
Maður fer úr einu í annað 0 0 0 0
Mas við vélarnar 1 0 1 0
Óreglulegur vinnutími 2 4 3 9
Ótrygg afkoma 7 0 10 0
Rafmagnsleysi 15 10 21 22
Samtals 73 46 101 100

(1) Tala bænda, sem tilgreindu atriðið.

(2) Tala húsmæðra, sem tilgreindu atriðið.

(3) Tala atriða í dálki (1) margfölduð með 100/73 (73 er dálkur (1) samtals).

(4) Tala atriða í dálki (2) margfölduð með 100/46 (46 er dálkur (2) samtals).

Tafla 4. Viðhorf til búskapar og sveitalífs. Jákvæð atriði.
Svör 52 bænda og 39 húsmæðra við spurningunni: Hvað líkar þér best við búskapinn? Nefn 3 atriði, sem þú leggur mesta áherslu á.1
  (1) (2) (3) (4)
Bóndastarfið er heiðursstaða 2 0 2 0
Góðar tekjur 1 0 1 0
Heilbrigt umhverfi fyrir börn 17 299 15 38
Hrossin 9 4 8 5
Kýrnar 1 3 1 4
Maður er eigin herra 355 15 30 19
Maður tekur virkan þátt í að byggja upp landið 14 5 12 6
Sauðféð 11 5 10 6
Starfið er fjölbreytt 12 6 10 8
Trygg afkoma 1 0 1 0
Útivinna 12 9 10 12
Að vinna með vélum og við vélar 0 1 0 1
Samtals 115 77 100 99

1 Sjá skýringu neðanmáls í töflu 3 (115 kemur í staðinn fyrir 73 og 77 fyrir 46).

Könnun af þessu tagi á viðhorfi fólks hefur auðvitað takmarkað gildi, þegar draga skal af henni ályktanir. Fólk er misjafnlega fyrir kallað og stendur alla vega á fyrir því, þegar viðtalið fer fram, og gætir þess auðvitað í svörunum. Hugmyndir manna um gott og vont eru auðvitað háðar því, hvað menn telja raunsætt að óska sér, eins og högum þeirra er háttað. Þetta kom fram í viðtölum, þar sem allir, sem ekki höfðu fengið rafmagn frá samveitu, kvörtuðu yfir því. Áætlanir um rafvæðingu sveitanna hafa náð til fleiri og fleiri bæja, svo að telja mátti slíkar umkvartanir ekki óraunhæfar. Þá er líka vert að veita því athygli, að ekki nema 6 bændur draga fram, að kýrnar séu bindandi, en 24 kvarta yfir litlum tekjum. Að vísu hefur það ekki verið kannað sérstaklega, hvort bændur teldu raunsærra að óska meiri tekna en afleysinga. Það kemur nágrannasamvinnu sérstaklega við, að svo virðist sem menn leggi meira upp úr því að auka tekjur sínar en frí og afleysingar, þó að annað sé oft uppi, þegar þessi mál eru rædd á opinberum vettvangi.

Þó að svo virðist sem menn legðu meiri áherslu á auknar tekjur en auðveldari afleysingar, er það allt byggt á veikum grunni, en það er í nokkru samræmi við könnun, sem gerð var meðal bændakvenna í Noregi vorið 1967.[22] Konurnar voru spurðar þessarar spurningar (í íslenskri þýðingu): „Ef þú ættir um að velja heldur rýmri frítíma eða heldur meiri tekjur, hvort mundir þú vilja heldur?“ 117 kváðust heldur velja rýmri frítíma, en 201 meiri tekjur. Spurningin var sett fram, af því að ætla mátti, að skortur á frítíma væri öllu frekar að skoða sem einkenni á almennt erfiðum kringumstæðum. Segja má, að könnunin renni stoðum undir þessa ætlun, þar sem aðeins 117 af 239 bændakonum, sem kváðust hafa of lítinn frítíma, tóku rýmri frítíma fram yfir meiri tekjur á hugsaðri óskastund. Meðal þeirra 201, sem tóku meiri tekjur fram yfir lengri frítíma sinn, kunna þó að vera einhverjar, sem sjá sér leik á borði að lengja frítíma sinn, þegar þær hafa meiri tekjur til ráðstöfunar. Um slíkt verður ekki vitað nema svo að segja rannsaka hjörtu og nýru kvennanna. Það er þó ljóst, að hver einstaklingur getur, ef hann vill, ráðstafað tekjum sínum til aukins frítíma innan vissra marka, fyrir utan önnur gæði, sem tekjurnar gera honum kleift að veita sér.

Ef það er svo, að frítími og tekjur komi að nokkru hvort í annars stað og þá þannig, að fullnægja, sem hvort veitir, minnki eftir því, sem meira verður neytt, má ætla, að menn leitist við að njóta svo mikils af hvoru tveggja, að viðbótaránægja af frítíma sé jafnmikil og viðbótaránægja af tekjum. Þessi hyggja byggir á almennum kenningum hagfræðinga um neysluval einstaklinga og er ekki seld dýrar en hún var fengin. Einkum má ætla, að þetta eigi við um bændur og bændakonur, sem geta ráðið vinnutíma sínum sem einstaklingar án þess að vera háð heildarsamningum um vinnutíma sínum sem einstaklingar. Ef þetta er allt rétt og bændur og bændakonur ákveða vinnutíma sinn nokkurn veginn svo langan, að krónurnar, sem síðasta vinnustundin gefur af sér, veiti þeim jafnmikla ánægju og þau hefðu haft, ef þau hefðu hætt vinnu þessari klukkustundinni fyrr, hefði mátt búast við, að nokkurn veginn jafnmargir hefðu kosið lengri frítíma og meiri tekjur. Fyrst það varð ekki, verður að skilja það svo, að konurnar hafi skynjað spurninguna svo, að meira hafi falist í orðalaginu „heldur meiri tekjur“ en í orðalaginu „heldur meiri frítími“ ef menn trúa yfirleitt á þessa kenningu um besta neysluval. Ef svörin hefðu skiptst jafnt, hefði það þó ekki sannað annað en, að a=a. Af þessu má sjá, að ekki tekst að sanna né afsanna kenninguna um, að fólk ákveði vinnutíma sinn á þennan hátt, og verður því hver að trúa því, sem hann vill um það og yfirleitt, hvort fólk velur neyslu sína með kenninguna um besta neysluval að leiðarvali.

Svo að betur sé gerð grein fyrir könnuninni á frítíma bændakvenna í Noregi að svo miklu leyti, sem hún varpar ljósi á frítímaval íslenskra bænda og bændakvenna, er þess að geta, að frítími á virkum dögum og tekjur bændanna fylgdust að og orlofsvikum fjölgaði eftir því, sem tekjur jukust. Hins vegar varð þess ekki vart, að frítími á sunnudögum né síðdegisblundur fylgdi tekjum. Að því er varðar spurningu um það, hvort menn vildu frekar meiri frítíma eða heldur meiri tekjur, var glöggt, að menn kusu aukinn frítíma því meir sem tekjurnar voru meiri. Það kom einnig greinilega fram, að þeir, sem höfðu meiri tekjur, töldu sig frekar en aðra hafa efni á því að greiða fyrir aukinn frítíma. Niðurstöður þessarar könnunar styðja á ýmsan hátt þá ætlun, að naumur frítími sé einkenni á erfiðum kringumstæðum almennt séð.

Að því er varðar viðhorf manna til búverka, sem hugsa mætti sér, að nágrannar hefðu samvinnu um, er vert að taka eftir því, að enginn bóndi mat vélavinnu mikils, en aðeins einn kvartar yfir masi við vélarnar. Það virðist því sem litið sé á vélavinnu eins og aðra vinnu, og ekki ber á því, að slík vinna sé talin merkilegri né verri en hvað annað. Annars létu 11 uppi sérstaka ánægju með að hirða fé og 12 lofuðu vinnuna úti við. Það atriði, sem oftast var nefnt á jákvæðu hliðina, var að ráða sér sjálfur. Af samtölum við fólkið utan við viðtalsformið kom raunar fram, að það taldi sig ekki alfrjálst við búskapinn. Það frelsi, sem menn héldu fram og virtust meta mest, var að vera ekki undir aðra settur. Norskir fræðimenn segja þessu skylt af frelsisviðhorfi trillukarla þar í landi. Þar segir, að kjörorðið um að vera óháður klukkunni eigi rætur sínar að rekja til óskar um að vera óháður öðrum.[23]

Þetta atriði skiptir nokkru máli, þegar rætt er um samvinnu nágranna, eins og skýra má með dæmi. Ef menn eiga um það að velja að nota afkastamikla vél í samvinnu, þannig að þátttakendur verða að koma sér saman um það, hvenær hver þeirra fær vélina til afnota, eða hver á sína afkastalitlu vél, er líklegt, að menn vegi aukin afköst á móti því að þurfa ekki að taka tillit hvers til annars, ef um séreign er að ræða. Þetta er ekki óskylt því, sem fleiri en bændur kannast við, þegar menn eiga bíl með öðrum (oftast maka) og þurfa að hafa samráð við meðeigandann um afnotin. Í samvinnu eru menn að vísu jafnréttháir, en ekki undir aðra komnir, en athafnafrelsi manna er samt skert. Ef menn eiga að velja á milli framleiðsluhátta, þar sem samskipti manna eru einskorðuð við kaup og sölu, og samvinnu nágranna, sem getur verið meira eða minna óformleg og fylgt alhliða samskipti, getur þetta atriði stundum spillt fyrir þeim framleiðsluháttum, sem byggjast á nágrannasamvinnu. Auðvitað eru líka jákvæðar, mannlegar hliðar á samvinnu nágranna, sem vega þar á móti, eins og koma fyrir í klösum yfirleitt. Eins og áður segir var ekki reynt að kanna, hversu menn mátu samskiptin við nágranna sína.

Í töflu 4 má sjá, að 14 bændur lögðu áherslu á það, að þeir kynnu að meta það, að þeim gæfist kostur á því sem bændum að taka þátt í uppbyggingarstarfi. Það er ljóst, að óvíða hafa bændur getað notið slíks í jafnríkum mæli og á Íslandi frá síðustu stríðslokum eins hröð og uppbygging jarðanna hefur verið. Hvort þessi uppbyggingargleði hefði orðið minni, ef uppbyggingin hefði verið meira í samvinnu, skal ósagt látið, en þó er þarna um atriði að ræða, sem vissara er að gera ráð fyrir, ef út í byggingu sameiginlegra stöðva er farið.

12 bændur tóku fram, að þeim líkaði vel, hversu fjölbreytt starfið var. Stundum getur aukin sérhæfing fylgt samvinnu nágranna, og dregur það úr fjölbreytninni, en eins getur samvinnan boðið upp á fjölbreyttara líf, þótt verkin verði einhæfari. Ekki varð ráðið af viðtölunum, að húsmæðurnar hefðu nokkur þau viðhorf, sem spilltu fyrir eða léttu undir samvinnu nágranna. Þær voru tregari til svars en bændurnir. Það eru færri svarsatriði á húsmæður í töflunum en bónda. Hugur þeirra er bundinn við uppeldi og almenna velferð. Varðandi búskaparstörfin vildu þær helst fá að vinna úti, hvort sem það var útivistin sjálf, félagsskapurinn eða tilbreytingin, sem þær sóttust eftir. Í því sambandi má segja smásögu úr sveitinni, sem valin var vegna mikillar votheysgerðar og engrar mjólkursölu. Þar unnu þrír bændur að því að vélvæða votheysgerðina í sameiningu. Þeir stefndu að því að ljúka slætti sem fyrst, svo að þeir hefðu betri tíma til að vinna að heiman á skurðgröfu þeirri, sem þeir áttu saman. Konum þeirra var lítið um þessa vélvæðingu, ekki af því að þær hefðu nokkuð á móti samstarfinu, en þær kváðust ekki vilja missa hrífuvinnuna, — þótti gott að fara út og raka með hrífu. Aðrir höfðu ólíka skýringu á þessu viðhorfi þeirra. Þær mundu ekki kæra sig um, að bændur þeirra væru í vinnu að heima, og þess vegna væru þær á móti þeirri vélvæðingu, sem gerði þeim kleift að vinna meira utan heimilisins.

Til viðbótar við þau atriði, sem finna má í töflu 3 og 4, bættu nokkrir við atriðum frá eigin brjósti, þó að þau væru ekki á listanum, sem lagður var fyrir menn. Oft var þó aðeins um nýtt orðalag að ræða, en efnislega lítið nýtt. Það væri þá helst, að 4 bændur vildu taka það fram, að þeim þætti starfið bindandi. Það var ekki nóg fyrir þá, að mega geta þess, að kýrnar væru bindandi. Ekki varð þess vart, að afstaða manna til samvinnu nágranna væri tengd afstöðu manna til kaupfélaga eða annarra samvinnufélaga. Þó var ekki laust við, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins notuðu annað orðalag, þegar þeir töluðu um samvinnu nágranna, en stuðningsmenn Framsóknarflokksins, sem notuðu frekar orðalag, sem minnti á málfar fulltrúa kaupfélagshreyfingarinnar. Stuðningsmenn annarra stjórnmálaflokka voru ekki meðal þess fólks, sem viðtölin voru höfð við. Ekki bar á því, að þátttaka bænda í nágrannasamvinnu færi nokkuð eftir afstöðu til stjórnmálaflokka. Rétt er þó að minna á, að úrtakið var svo lítið, að það hlýtur að vera valt að byggja á niðurstöðum könnunarinnar á þessu sviði sem og ýmsum öðrum.

III. Félagsfræðilegar athugasemðir

Það samstarf og sú sameign, sem sagt er frá, er svo umfangsmikið og þess eðlis, að það myndast allþéttriðið net samskipta meðal sveitafólks. Þessi samskipti eru þannig vaxin og þau eru studd og eða styðja að þess háttar samskiptum, að klasaeinkenni sveitanna verða allsterk. Það kom fram, að það verður ekki sagt með vissu, hver áhrif ný tækni hefur á sveitirnar sem klasa, því að sumri tækni fylgdu aukin samskipti nábúa, en önnur tækni gerði menn meira sjálfbjarga sem einstaklinga og einyrkja eða leiddi til tengsla sveitafólks við fyrirtæki eða stofnanir utan sveitar, en þau tengsl eru fyrir flesta lítt persónuleg. Eins og kunnugt er, hafa mannfélagsfræðingar um langt skeið hugað, að aukin tækni, iðnvæðing og borgmenning drægi úr klasaeinkennum mannfélagsins, en efldi lítt persónuleg samskipti. Þær athuganir, sem hér greinir, sýna, að þetta gerist ekki skilyrðislaust.

Í grein II.5 hafa verið færð nokkur rök að því, að áhrif nýrrar tækni á klasaeinkenni sveitanna hafi verið eins og hér segir, óviss og geti raunar brugðið til beggja átta með þau. Hér skal því bætt við, að þessi áhrif eru að einhverju leyti háð því, hvaða samtök bændur hafa með sér, hvort þau samtök eru fremur klasafélagsskapur eða fjölmennari félagsskapur án persónulegra samskipta alls þorra félagsmanna. Hreppabúnaðarfélögin eru víðast hvar slíkur klasafélagsskapur, þar sem stefnt er saman þeim, sem eiga samleið atvinnulega. Sveitahrepparnir á Íslandi eru flestir svo fámennir og halda uppi svo nánum samskiptum íbúanna, að þeir efla klasaeinkenni sveitanna. Það auðveldar samskipti hreppsbúa, að hrepparnir eru oftast atvinnulega samkynja og ekki svo langt á milli endimarka þeirra í byggð, að það kljúfi hreppana hagsmunalega og hindri samgang innan sveitar. Sem stjórntæki er sá munur helstur á hreppsbúnaðarfélagi og sveitahreppi, að búnaðarfélögin eru öllu meira samkynja atvinnulega séð, hafa þrengri fjárráð og menn eru ekki skilyrðislaust félagar þeirra, þó að þeir stundi búskap. Að vísu er það svo í reynd, að það er undantekning, að menn, sem stunda búskap, séu ekki í búnaðarfélagi, enda er það skilyrði fyrir því, að menn fái jarðabótastyrk. Sveitahrepparnir eru ekki allir eins samkynja atvinnulega séð og hreppabúnaðarfélögin, þó að aðrir íbúar eins og á skólastöðum, verslunarstöðum og útgerðarstöðum, þar sem slíkir staðir eru, séu oftast færri en bændafólkið. Hrepparnir hafa frjálsari fjármál en búnaðarfélögin, þar sem þeir geta lagt gjöld á íbúana, og í sveitarfélagi eru allir íbúar sjálfkrafa með, þannig að ekki þarf að efna til söfnunar félaga eða samskota, ef uppkemur mál, sem er við hæfi félagsskapar á stærð við hreppsfélag að leysa. Hin ýmsu samtök meðal hreppa tengja fyrst og fremst saman forráðamenn hreppanna persónulega, en síður almenna íbúa. Þannig myndast félagsklasar meðal forráðamanna.

Hvert gildi hreppsfélög og hreppabúnaðarfélög hafa fyrir samvinnu nágranna í sveitum og samskipti fólks yfirleitt, verður ekki mælt á einfaldan hátt með því til dæmis að skrá alla starfsemi, sem er í höndum þessara félaga formlega. Þegar menn eru nauðugir viljugir félagar í hreppsfélagi og taka þátt í þeirri starfsemi, sem því fylgir beinlínis, myndast um leið og er haldið við ýmiss konar öðrum samskiptum, sem ekki verða lesin beint af gerðabókum hreppsnefndar.

IV. Ágrip

Í ritgerðinni segir frá samvinnu nágranna um búskap, og er þar aðallega byggt á athugunum úr viðtölum við húsráðendur í 6 sveitum á Íslandi sumarið 1963, 52 bændur og 39 húsfreyjur. Með ritgerðinni er leitast við að gefa hugmynd um, hversu umfangsmikil slík samvinna var og í hvaða myndum og kanna almenn tæknileg og hagræn skilyrði fyrir samvinnu nágranna. Fyrst er greint frá nokkrum ritum um samvinnu nágranna í sveitum Evrópu og helstu niðurstöðum þeirra, og búskap á Íslandi lýst stuttlega. Síðan er lýst samvinnu bændanna. Allmikill hluti þeirra, eða 21 bóndi, stundaði búskap, í mjög náinni samvinnu við annan bónda. Þeir unnu alla útivinnu saman og oft hirtu þeir búfé saman. Slíkt náið samstarf var einungis innan fjölskyldu.

Fyrir utan þetta unnu menn saman að mörgum verkum og áttu mörg verkfæri saman. Einkum var því svo farið um verk, sem mátti vinna á ýmsum tíma. Þannig var algengari samvinna um votheysgerð en annan heyskap. Dæmi voru um sjálfboðavinnu, og yfirleitt virtist vera gott nábýli í sveitunum. Menn voru til að mynda leystir af, ef nauðsyn bar til. Bent er á, hvernig þróun nágrannasamvinnu, fólksfækkun á bæjunum og ný búskapartækni er háð hvert öðru ein og í þríhyrning. Rætt er, hvaða áhrif ríkisframlag til jarðabóta hefur á nágrannasamvinnu beint og óbeint.

Hlut hreppsfélaga og hreppsbúnaðarfélaga í samvinnu nágranna er lýst stuttlega. Greint er fræðilega, hvort ætla má, að bændur hafi of margt eða of fátt fé, þegar afréttarlönd eru almenningur. Þar er þess að gæta, að sá bóndi, sem breytir fjártölu sinni, er ekki persónulega ábyrgur fyrir markakostnaði (breytilegum kostnaði) né markaframleiðni almenningsins. Niðurjöfnun fjallskila, eins og henni er háttað, virðist geta leitt til þess, að menn fækki fé niður fyrir bestu fjártölu. Hins vegar verður ekki séð, að það hafi óheppileg áhrif á fjártöluna, að menn geti fjölgað fé sínu og þannig valdið rýrari afurðum hjá öðrum fjáreigendum, þó að svo kunni að virðast í fljótu bragði. Þar með verður ekki sagt, að hæfilega margt fé sé á almenningsafréttum. Kemur þar til greina, að land spillist, og eins var gert ráð fyrir því í hinni fræðilegu greiningu, að menn ákvæðu fjártölu sína eins og góðir búmenn, sem þekkja afleiðingar gerða sinna.

Könnuð voru skilyrði bændanna í hreppshlutunum 6 til að setja á stofn stór samvinnufjós. Þau virtust ekki hagstæði. Athugað var, hvernig fólki gekk að fá sig leyst af og hvernig fríum hafði verið háttað undanfarið. Í því sambandi var rætt sérstaklega, hversu frí og tekjur kæmu hvort í annars stað. Könnuð voru viðhorf húsráðenda til einstakra einkenna sveitalífs og búskapar og rætti, hvaða áhrif þau viðhorf gætu haft á samvinnu nágranna.

Loks eru klasaeinkennis sveitanna rædd félagsfræðilega, bent á, að ný tækni og búskaparhættir ýmist styrki eða veiki félagsklasana í sveitunum. Rædd eru lítillega áhrif hreppsfélaganna á klasaeinkenni sveitanna og þá sérstaklega það, að flestir sveitahreppar eru atvinnulega samkynja, eru svo til hreinir landbúnaðarhreppar, og hvorki svo fjölmennir né víðlendir, að það hindri verulega persónuleg, alhliða samskipti íbúanna.

V. Ályktun

Í rannsókn þessari á samvinnu nágranna um búskap, var í upphafi gengið út frá því, að mönnum gangi tvennt til með slíkri samvinnu: annars vegar að nýta í einu lagi svo stór tún, að þar yrði komið við stærri og afkastameiri vélum og vinnubrögðum á hagkvæman hátt, og hins vegar að auðvelda mönnum, sem hirða búfé, að taka sér frí. Telja má, að mikilvægasta almenna niðurstaða rannsóknarinnar sé sú, að hinir breyttu búskaparhættir og efnahagsskilyrði landbúnaðarins, sem mótað hafa sveitirnar undanfarna áratugi, beri í skauti sér ýmislegt, sem greiðir fyrir samvinnu nágranna, en líka annað, sem standi þar á móti. Það hafa komið fram nýjar tæknilegar og skipulagslegar aðferðir við mjólkurframleiðslu, þar sem kýr eru hafðar í stórum fjósum og mikil tækni notuð, en fjósin ýmist í eigu bænda eða sjálfstæðra fyrirtækja, sem geta verið óháð bændunum. Slík mjólkurframleiðsla hefur ekki verið stunduð hér á landi að heitið geti og aðeins lítillega á Norðurlöndum. Ýmsar ástæður valda því, að ekki hefur orðið meira um slíkan rekstur, meðal annars það, að það hefur ekki borgað sig fyrir menn í grónum búum að leggja fyrir róða það, sem fest hefur verið í jörðunum. Að þessu leyti er niðurstaðan skyld niðurstöðunni í ritgerð um tvímenningsbú á Norðurlöndum.[24]

Samvinna um heyskap virtist hefjast og ganga greiðlega, ef það hentaði og ekki voru vandkvæði á því að skipta fengnum milli þátttakenda. Vandkvæðin á að skipta fengnum kunna að hafa valdið því, að samvinnu um þurrheyskap var sjaldgæf, en því kann einnig að hafa valdið, að vélakostur við þurrheyskap var mikið til nýttur, þar sem túnin voru á evrópskan mælikvarða alltstór, eða 13 ha að meðaltali, en þurrkur oft ótryggur og því erfiðara að hafa mikil land undir.

Við rannsóknina komu fram allmörg sveitaheimili, þar sem fólk hafði komið því svo fyrri, að það hafði náð því, sem talinn var tilgangurinn með samvinnu nágranna, en það voru afleysingar við gripahirðingu og heyskapur í allstórum stíl. Hér var um að ræða bú með tveimur eða þremur bændum, sem unnu alla útivinnu saman og hirtu skepnur sínar saman eða að minnsta kosti gegndu hver fyrri annan, þegar á þurfti að halda. Svo virtist sem þessum bændum tækist að skipta fengnum erfiðleikalítið. Það varð því eðlilegt, að rannsókninni yrði fram haldið og kannað, hvernig slík bú voru skiplögð og við hvaða skilyrði stofnað var til þeirra. Niðurstöður þeirrar rannsóknar verða birtar annars staðar.[25]

Árbók landbúnaðarins 1970, 210-239


Athugasemdir og heimildir:

[1] BJÖRN STEFÁNSSON: Nabosamvirke og tofamiliebruk. En analyse af samarbeids- og skalaforboldene i jordbruksproduksjonen basert på materiale fra Island og Sverige. Norges landbrukshøgskole. Institutt for driftslære og landbruksøkonomi. Vollebekk 1967. – Ritgerðin er að mestu þýðing á tveimur fyrstu köflum þess rits.

[2]Ø. BERGER: Utstyr og drift af Arnesens maskinstasjon, Ø. Gausdal. Hovedoppgave ved NLH. Vollebekk 1963.

[3]S. SØLVERUD: Maskinstasjoner i jordbruket. Norges landbruksøkonomiske institutt. Oslo 1965

[4]H. LANGVATN og K. SKEJESETH: Kostnader, kapasitet og økonomiske resultat ved mekanisering. Norges landbruksøkonomiske institutt. Særmelding nr. 18. Oslo 1960.

[5]Sjá: Nabosamvirke om driftsrasjonalisering i jord- og skogbruk. Tidsskrift for det norske landbruk nr. 7-8 1962, bls. 177-222; Nabosamvirke og mjølkeproduksjon. Uttalelse avgitt av et utvalg oppnevnt av direksjonen 25. apríl 1963. Det kgl. Selskap for Norges Vel. 1964 og J. HORNSLIEN: A new type of farmers´cooperatives. Sociologia Ruralis nr. 2 1964, bls. 116-125.

[6]Ef reiknað er með að meðaltali 5 bændum í hring, eru 1350 bændur í 270 hringum, en það er heldur minna en 1% allra norskra bænda.

[7]K. KNAPSKOG og L. WIERSHOLM: Maskinsamvirke i jordbruket. Norges landbruksøkonomiske institutt. Oslo 1967.

[8]H. LLÖNNEMARK: Jordbrukets mekanisering. Handlingar 1963, bls. 137-193. Uppsala läns kungl. Hushållningssällskap. Uppsala.

[9]E. GEIERSBERGER: Die Maschinenbank”. München 1959.

[10]H. HOECHSTETTER: Ist die Maschininbank das Ei des Kolumbus”? Landtechnik nr. 7 1960, bls. 185-188.

[11]Husmandshjemmet nr. 32, 33 og 34 1964.

[12]J. OKUNIEWSKI: Collective forms of organisation of agricultural production. Polish co-operative review nr. 4 1965, bls. 18-27.

[13]G. SÉVÉRAC: Existing forms of mutual assistance among farmers in Europe. Studies of the European Commission on Agriculture 3. FAO 1965.

[14]E. ELSTRAND: Den driftsøkonomiske virkning av overgang til fellesfjøs. Utredning i forbindelse med planene om andelsfjøs på Nes, Hedmark. Norges landbruksøkonomiske institutt. Oslo 1961. - K. KNAPSKOG: Fellesfjøs og lønnsombet. Utredning angående planen om fellesfjøs i Våler. Norges landbruksøkonomiske institutt. Oslo 1966. – Samvirkefjøs i Norge. Norges landbruksøkonomiske institutt. Særmelding nr. 9. Oslo 1957.

[15]Kungl. Lantbruksstyrelsen hefur gefið út fjögur fjölrituð rit um samvinnufjós: Utredning angående förutsättningar för andelsladugård i Alva socken, Hemse 1961, Ekonomisk utredning ang. gemensam ladugård i Ăsumtorp, Kristiansadslän 1962, Utredning angående förutsättningar för andelsladugård i Jättendals socken 1963 og Utredning angående förutsättningar för andelsladugård i Breds socken 1964.

[16]G. OSCARSON og U. RENBORG: Förutsättningar för centralisered mjölkproduktion i stordrift (Hogstad-undersökningen). Jordbrukets utredningsinstitut. Meddelande nr. 4 Stockholm 1961.

[17]Freyr nr. 3 1967.

[18]Sjá heimildir á norsku undir 5.

[19]Sjá þriðja kafla í Nabosamvirke og to familiebruk.

[20]BJÖRN STEFÁNSSON: Tvímenningsbú og stærri bú á undanhaldi í Noregi og Svíþjóð. Árbók landbúnaðarins 1969, bls 110-117.

[21]L. HJELM: Det svenska lantbrukets effektiviseringsvägar. Statens offentliga utredningar 1963:66.

[22]H. SOLLI og BJÖRN STEFÁNSSON: Undersøkelse av fritidsforhold blant kvinner i jordbruket. Rapport fra avdeling for sosiologi, Institutt for driftslære og landbruksøkonomi, NLH. Vollebekk 1967.

[23]V. AUBERT og G. KARLSEN: Flytting fra utkanten. Tidsskrift for samfunnsforskning nr. 3 1965, bls. 183-212.

[24]Sjá 20.

[25]Þriðji kafli ritsins Nabosamverike og tofamiliebruk.


VIÐBÆTIR: Texti eyðublaðs til notkunar við viðtöl um samvinnu við búskap.

Bæjarnafn            hreppur         sýsla                
Ábúandi   Eigandi              
Áhöfn   kýr            nautgripir              fjár sett á vetur            hross í vetur              
Túnstærð ha af kartöflum m3   gryfjur   vothey m3          

 

Vélar (gerð, aldur)
 1. Traktor
 2. Vörubíll
 3. Jeppi
 4. Sláttuvél
 5. Múgavél
 6. Vagn
 7. Plógur
 8. Mjaltavél
 9. Snúningsvél
 10. Herfi
 11. Áburðardreifari
 12. Ámoksturstæki
 13. Mykjudreifari
 14. Ávinnsluherfi
 15. Heyhleðsluvél
 16. Upptökuvél
 17. Heyblásari
 18. Rakstrarvél
 19. Tætari
 20. Heyýta
 21. Heygreip
 22. Heykvísl
 23. Kartöflusetjari
 24. Kartöfluupptökuvél
 25. Saxblásari
 26. Knosblásari
 27. Forardæla
 28. Forardreifari
 29. Annað
Byggingar:
 1. Fjós frá 19. Ásigkomulag ágætt, viðundandi, óviðunandi.
 2. Rafmagn, sími, sumarvegur, vetrarvegur
Vinnuafl:
 1. Bóndi f.Heilsa ágæt, þolanleg, slæm
 2. Hefur búið á jörðinni ár.
 3. Bjó áður
 4. Er uppalinn
 5. Vann í kaupstað
 6. Systkini og börn í kaupstað
 7. Konan er frá
 8. Heilsan er ágæt, þolanleg, slæm. Hjálpar hún við gegningar?
 9. Foreldrar, systkini og börn, sem vinna við búið sumar og vetur
 10. Annað vinnufólk sumar og vetur (aldur og geta)
Samvinna og sameign:
 1. Síðasta árið (frá sumri til sumars), tæki, búfé, verkefni, með hverjum, skyldleiki (tvímenningur eða nánara), af hverju við hvert verkefni og tæki
 2. Illgresiseyðing og heilbrigðiseftirlit
 3. Rúningur
 4. Sláttur
 5. Votheysverkun
 6. Hirðing
 7. Viðhald girðinga
 8. Slátrun
 9. Kartöfluupptaka
 10. Mjólkurflutningar
 11. Göngur
 12. Fjárrekstur úr réttum
 13. Fjárrekstur í sláturhús
 14. Haugakstur
 15. Nýrækt
 16. Fjárrag við bólusetningu, böðun og vigtun
 17. Frystihólf
 18. Gegningar
 19. Kartöflugeymsla
 20. Nautahald
 21. Byggingar
 22. Vélaviðgerðir
 23. Hvernig gera menn upp samvinnu og sameign?
 24. Við hvaða fleiri störf vill bóndi taka upp samvinnu?
 25. Hvers vegna hefur ekki orðið af?
 26. Virðist bónda hjálpsemi meðal nágranna vera meiri eða minni nú en fyrr?
 27. Við hvern ráðgast bóndi um framkvæmdir í búskapnum, konuna, börnin, foreldra, nágranna, ráðunauta? (1, 2, 3)
 28. Hvenær er tilbúnum áburði dreift venjulega og í köldu vori miðað við sauðburð?
 29. Hve mörgum dögum fyrr mætti byrja?
 30. Hvað er mikill tími aflögu frá gegningum fyrir sauðburð og meðan á sauðburði stendur?
 31. Ber á húsi? (Venjulega, sjaldan, aldrei)
 32. Hvað nær áburðardreifingin yfir marga daga?
 33. Hversu margra daga frí hefur bóndi haft síðasta árið?
 34. En húsmóðirin?
 35. Hvernig er að fá fólk, ef forföll verða? (Útilokað, erfitt, fæst oftast)
 36. Hvað vildi bóndi gefa fyrir að hafa frí frá gegningum einu sinni í viku?kr. Hálfsmánaðarlega? kr. Hálfan mánuð á ári? kr.
 37. Er bónda kunnugt um nokkurn hæfan fjósamann ráðinn í hreppnum?
 38. Er unnið annað en nauðsynlegustu gegningar á sunnudögum?
 39. Var svo áður?
Fjárfesting:
 1. Hvers vegna byggði bóndi fjós?
 2. Hvers vegna af þessari stærð?
 3. Hefur hann í hyggju að byggja fjós?
 4. Hvers vegna?
 5. Hversu stórt?
 6. Hvers vegna þá stærð?
 7. Hversu margt fé ber jörðin án hagabóta?
 8. Á bóndi kost á vinnu utan bús svo nærri, að hann geti búið á bænum?
 9. Hvers vegna tekur hann hana ekki?
 10. Hefur bóndi byggt íbúðarhús?
 11. Hvers vegna?
 12. Hvers vegna af þessari stærð?
 13. Hefur hann í hyggju að byggja nýtt íbúðarhús?
 14. Hversu stórt?
 15. Hvers vegna þá stærð?
 16. Braut hann nýtt land í fyrra?
 17. Hvers vegna?
 18. Hversu stórt?
 19. Hefur hann hugsað sé að brjóta nýtt land í ár?
 20. Hvers vegna?
 21. Hversu stórt?
 22. Hversu stórt tún telur hann, að megi gera á jörðinni?
 23. Hvers vegna keypti bóndi traktor síðast?
 24. Hefur hann í hyggju að kaupa nýjan traktor?
 25. Hvers vegna?
 26. Hvers vegna hefur ekki orðið af því þegar?
 27. Hvað telur bóndi líklegast, að geti bætt hag hans eins og ástatt er og er í hans hendi?
 28. (Við neikvæð svör við fjárfestingu spyrja einnig um ástæðu)
Vothey:
 1. Hvers vegna verkar bóndi vothey?
 2. Hvers vegna ekki meira?
 3. Hvaða álit hefur ráðunauturinn á votheysgerð? (Jákvæður, áhugalaus, neikvæður, veit ekki)
 4. En handa sauðfé sérstaklega? (Jákvæður, áhugalaus, neikvæður, veit ekki)
 5. Hefur bóndi heyrt, hvernig gefst að blanda maurasýru í vothey?
 6. Hvaðan?
 7. Hvernig er aðstaðan að láta í votheysgryfju? (Ágæt, sæmileg, afleit)
Viðhorf til búskapar?
 1. Hvers vegna valdi bóndi búskap að starfi?
 2. Óskar hann, að eitthvert barna hans taki við? (Já, hlutlaus, nei)
 3. Gerir hann ráð fyrir, að eitthvert barna hans taki við?
 4. Vill hann hætta búskap?
 5. Hvers vegna hættir hann ekki búskap?
 6. Hvað vill hann þá fá fyrir jörðina?
 7. Telur hann líklegt, að hann fái það verð?
Hvað líkar bónda verst við búskapinn?
Nefn þrjú atriði, fyrst það, sem skiptir mestu. Sama spurning fyrir húsmóður:
 1. Ótrygg afkoma
 2. Einangrun, fámenni og fásinni (lítið félagslíf)
 3. Erfitt að fá aðstoð innanhúss
 4. Erfitt um skólagöngu og læknishjálp
 5. Langur vinnudagur
 6. Leiðinlegt að fást við fé
 7. Kýrnar bindandi
 8. Litlar tekjur
 9. Lítils virt starf
 10. Maður fer úr einu í annað
 11. Mas við vélarnar
 12. Óreglulegur vinnutími
 13. Annað
Hvað líkar bónda best við starfið?
Nefn þrjú atriði, fyrst það sem hann leggur mesta áhersslu á. Sama spurning fyrir húsmóður:
 1. Bóndastarfið er heiðursstaða
 2. Starfið er fjölbreytt
 3. Góðar tekjur
 4. Heilbrigt umhverfi fyrir börn
 5. Kýrnar
 6. Maður er eigin herra (makræði, sjálfstæði)
 7. Maður tekur virkan þátt í að byggja upp landið
 8. Sauðféð
 9. Trygg afkoma
 10. Útivinna
 11. Að vinna með vélum og við vélar
 12. Annað
 13. Er bóndi áhugasamur samvinnumaður, áhugalítill, andvígur?
 14. Styður hann opinberlega A, B, D eða G?
 15. Vegalengdir milli túns og gripahúsa
 16. Er hægt að kaupa mjólk til heimilisins?
 17. Hvers vegna er það ekki gert?