1. Búnaðarfélög sveitanna

2. Búnaðarsambönd — búgreinafélög

3. Búnaðarfélag Íslands: samtök búnaðarsambanda eða búgreinasambanda

4. Hlutverk stjórnvalda og bændasamtaka

5. Skipulag búnaðarmennta

6. Sameinuð bændasamtök

1. Búnaðarfélög sveitanna

Búnaðarfélög sveitanna eru kjördæmi aðalfunda búnaðarsambandanna. Mörg þeirra starfa lítið. Engu að síður reynast þau enn sem fyrr heppilegur vettvangur til að koma á nýmælum, sem enginn annar er sjálfkjörinn til að taka að sér. Með sérstökum jarðræktar- og búfjárræktarfélögum er unnið að afmörkuðum mikilvægum málum, en með því hefur rýrnað starfssvið hinna almennu búnaðarfélaga. Sums staðar hafa menn þó haft lag á að láta það ekki sundra starfseminni. Í sumum fjölmennari búnaðarfélögum er allmikið starfað, en önnur eru svo fámenn, að ekki er að búast við, að þau láti mikið af sér leiða. Má vera ráðlegt að ganga skipulega að því að sameina hin fámennari félög, svo að býlafjöldi verði ekki undir 40-50, ef ástæður leyfa.

Hitt mætti líka vera ráð að efla starf með því að skipa 5-10 manna deildir um sérstök verkefni. Þannig starfa kanínubændur í Þýskalandi (5-10 saman), og garðyrkjubændur í Danmörku og Hollandi skipa sér í 6-8 manna gengi, sem ráðunautar vinna í. Ráðunauturinn kemur þá til fundar við gengið, en ekki til einstakra bænda, nema gegn sérstöku gjaldi.

Vissulega hefur búskapur þróast þannig, að þarfir bænda fyrir félagsskap eru ekki eins samstæðar og áður var. Sérhæfingin er samt sem áður oft tímabundin, þar sem bændur skipta um búgrein, þegar á ævina líður. Sami maður getur verið kúabóndi á einu skeiði ævinnar og fjárbóndi á öðru og bætt við sig kanínum eða tófum um tíma. Bændur hafa því eftir sem áður þörf fyrir almenn búnaðarfélög í sveitunum samhliða þeim félagsskap, sem helgar sig takmörkuðum verkefnum, svo sem einstökum búgreinum.2. Búnaðarsambönd—búgreinafélög

Ekki hefur verið bent á annan heppilegan vettvang fyrir leiðbeiningastarf í héruðunum en búnaðarsamböndin. Ráðunautum er nauðsyn að eiga samneyti við félaga sína, þótt þeir hafi hver sitt svið, og samrekstur er hagkvæmur um margt í starfi þeirra. Til skamms tíma hafa allir fulltrúar á aðalfundum búnaðarsambanda verið kosnir í almennum búnaðarfélögum sveitanna. Sú nýbreytni hefur orðið—trúlega fyrst í Eyjafirði—að gefa búgreinafélögum kost á að tilnefna fulltrúa á aðalfund. Með því ætti að mega tryggja, að málstaður þeirra búgreina, sem eru fáskipaðar í hverju einstöku búnaðarfélagi, verði tekinn fyllilega til greina.—Til heilla væri að gefa kvenfélagasamböndum héraðanna kost á að tilnefna úr röðum bændakvenna fulltrúa á aðalfund til að tryggja sjónarmið bændakvenna. Þátttaka þeirra mundi styrkja álit búnaðarfélaganna.

Með því fyrirkomulagi, að búgreinafélög ásamt búnaðarfélögum hreppanna kjósi fulltrúa á aðalfund, getur sami maður tekið þátt í fulltrúakjöri í fleiri en einu félagi, margir í tveimur, í búnaðarfélagi hrepps síns og í kúabændafélagi, fjárbændafélagi eða loðdýraræktarfélagi, sumir jafnvel í öllum þessum félögum. Kann það að þykja óréttlátt. Mestu skiptir þó að tryggja, að fjallað sé um mál af þekkingu á aðalfundum búnaðarsambandanna og að allra sjónarmiða sé gætt. Menn eru sjaldan bornir atkvæðum í meiri háttar málum á þeim fundum, heldur leitað samstöðu, og atkvæðagreiðsla er til að staðfesta hana.

Búnaðarfélög í dönskum sveitum eru álíka fjölmenn og hin fjölmennari búnaðarsambönd hér á landi. Fyrir þau starfa héraðsráðunautar á ýmsum sviðum. Undir félagsstjórn eru nefndir fyrir hin ýmsu starfssvið ráðunautanna, svo sem jarðræktarnefnd, nautgriparæktarnefnd, búreikninga- og hagfræðinefnd, bútækninefnd, sem eru aðalstarfssviðin, og eru sums staðar fleiri en einn ráðunautur á hverju sviði. Önnur starfssvið með nefndir á vegum félagsstjórnar eru svínarækt, hússtjórn og æskulýðsmál. Leiðbeiningar búnaðarfélaganna hafa verið kostaðar að 70% af ríkinu, en það, sem á vantar, af félögunum. Afurðasölufyrirtæki greiða lítils háttar til leiðbeininga, en bændum og ráðunautum þykir heppilegra, að ráðunautar starfi hjá búnaðarfélögunum en afurðasölufyrirtækjum, svo að bændur megi treysta því, að ráðunauturinn gæti hagsmuna þeirra einna.

Loðdýraræktarsamband Danmerkur hefur eigin ráðunauta. Ríkið kostar jafnmarga ráðunauta og sambandið.

Í Noregi starfa ráðunautar á vegum fylkja og sveitarfélaga, en þeir eru kostaðir að fullu af ríkinu.

Ástæða er til að endurskoða stærð búnaðarsambanda. Nokkur búnaðarsambönd hafa sameinast um einstaka ráðunauta, eins og í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu og í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu, en á Vesturlandi hefur bændaskólinn á Hvanneyri tekið að sér leiðbeiningar í loðdýrarækt fyrir búnaðarsamböndin þrjú.3. Búnaðarfélag Íslands: samtök búnaðarsambanda eða búgreinaLeiðbeiningar

Ráðunautar Búnaðarfélags Íslands í jarðrækt, bútækni, hagfræði og landnýtingu starfa beint í þágu fleiri búgreina. Enn má nefna garðyrkju og hlunnindi, en þar eru fleiri búgreinafélög á hvoru sviði. Aðrir ráðunautar Búnaðarfélagsins mega teljast búgreinaráðunautar. Þótt búgreinasamtök hafi flest verið stofnuð til að sinna brýnum kjara- og markaðsmálum en ekki búfræðilegum verkefnum, þykir sumum vel koma til greina, að þau hafi ráðunauta undir sinni stjórn. Þá er athugandi að hafa samrekstur um þá starfsemi, þótt hver ráði sínum ráðunautum.

Forystumönnum sumra búgreina hefur þótt ráðunauturinn í búgreininni fara sínu fram gegn vilja þeirra. Úr þessu mætti bæta með því, að Búnaðarfélagið kæmi á nefndum bænda fyrir einstök starfssvið, sem ráðunauturinn hefði samráð við, líkt og er í búnaðarfélögum í Danmörku og lýst hefur verið.Búnaðarþing

Hlutverk Búnaðarþings er að leggja fram álit í ýmsum búnaðarmálum svo vel athugað og rökstutt, að ekki þurfi að leita frekari umsagnar samtaka bænda. Margt kemur til greina til að tryggja, að vegur Búnaðarþings rýrni ekki.a. Reglur um endurnýjun þingfulltrúa.

Ýmsum þykir endurnýjun þingfulltrúa fullhæg og kenna um, að menn óttist, að fyrri þingfulltrúum sárni að vera ekki endurkjörnir og láti því vera að kjósa nýja. Annars staðar kann þaulseta fulltrúa að stafa af því, að enginn nýr þykist vilja taka kjöri, svo að sá, sem sat fyrir, á erfitt með að skorast undan endurkjöri. Slík persónuleg tillitssemi kæmi ekki til greina, ef ákveðið væri, að enginn mætti sitja samfleytt lengur en 2-4 kjörtímabil. Með slíku ákvæði er ekki tekið fyrir, að þrautreyndir menn sitji Búnaðarþing, heldur aðeins, að þeir víki sæti eitt kjörtímabil annað veifið.b. Mætti fjölga fulltrúum?

Til að vanda vinnubrögðin þarf Búnaðarþing að sitja alllengi. Milliþinganefndir hafa flýtt afgreiðslu meiri háttar mála á Búnaðarþingi. Í Stéttarsambandinu sáu menn ekki annað ráð til að hleypa fulltrúum búgreinafélaga að á aðalfundi en fjölga fulltrúum í heild. Ýmsum þótti það óheppilegt. Enn ver mundi það mælast fyrir að fjölga á Búnaðarþingi til að hleypa fulltrúum búgreinafélaga að, þar sem búnaðarþing situr gjarna tvær vikur, en aðalfundur Stéttarsambandsins hefur undanfarið staðið þrjá daga.c. Hversu margir búgreinafulltrúar?

Með fulltrúaskipan er leitast við að tryggja, að hver sá málstaður, sem á nokkurt fylgi, verði ekki sniðgenginn. Ef búgreinafulltrúar eiga að sitja Búnaðarþing, en fækkað yrði um jafnmarga fulltrúa búnaðarsambanda, er vandinn að ákveða, hvaða búgreinar eigi rétt á fulltrúa og hversu mörgum hver og hvernig eigi að fækka fulltrúum búnaðarsambandanna. Pá væri einnig til heilla að tryggja málstað bændakvenna með því að Kvenfélagasamband Íslands tilnefndi eina eða fleiri búandi konur til að sitja þingið.d. Stærri kjördæmi.

Þegar flest kjördæmi senda aðeins einn eða tvo fulltrúa á Búnaðarþing, má leiða líkur að því með reikningi, að varla verða aðrir kosnir á Búnaðarþing en fulltrúar aðalbúgreina landsins. Með því að stækka kjördæmin og láta þau hafa sömu mörk og alþingiskjördæmi má með sams konar reikningi leiða líkur að því, að meiri breidd yrði í fulltrúakjöri.

Reynslan af Suðurlandi, sem er 5 manna kjördæmi, staðfestir ekki það, sem hér er ályktað. Þar kemur það til, að þar eru menn kosnir af tveimur flokkslistum og raðað er á flokkslista í sýslunum þremur, svo að í reynd eru menn kosnir einn og einn. Þess vegna er ekki víst, þótt kosningar færu fram á þennan hátt annars staðar, að stækkuð kjördæmi tryggðu meiri breidd í fulltrúavali.

Athugandi er, hvort ekki mætti ráða bót á þessu með því að hin ýmsu samtök búnaðar, bændakvenna og um afurðasölu tilkynntu tímanlega, hverjir megi teljast fulltrúar þeirra, svo að taka megi tillit til þess, þegar listar eru skipaðir og við kosningu. Úr því liði mætti svo setja saman nokkra lista aðalmanna og varamanna, sem kosið yrði um. Sami maður gæti þá verið á ýmsum listum. Til að tryggja kjör eiginn fulltrúa yrði sigurstranglegast að setja hann á einn lista eða fleiri, sem skírskota til sem flestra. Þannig fælist það í leiknum, að sá listi, sem verður kosinn, er úr hópi lista, sem hafa almennan stuðning.—Þetta er frumleg hugmynd, ný og óreynd.e. Landið eitt kjördæmi.

Landið mætti verða eitt kjördæmi með hlutfallskosningu. Því kynnu að fylgja allmiklir flokkadrættir, sem ekki er víst, að væru til bóta. Ráð við því væri að hafa framangreint kosningafyrirkomulag. Slíku kjöri fylgdi auðvitað togstreita, eins og kosningum yfirleitt, en ekki sundrandi flokkadrættir.Búnaðarþing stjórnvaldsstofnun.

Nefna má þá hugmynd, að Búnaðarþing yrði stjórnvaldsstofnun skipuð fulltrúum bænda, ráðunauta, rannsóknarmanna og sölusamtaka, en þingforseti skipaður af ráðherra.

Til samanburðar má athuga fiskiþing. Það er skipað samkvæmt lögum Fiskifélags 35 fulltrúum ásamt fiskimálastjóra og varafiskimálastjóra, sem Fiskiþing kýs. Fiskiþing situr allt að 6 dögum. 7 fiskifélagsdeildir eða sambönd kjósa 2 eða 4 fulltrúa hvert, alls 24. Þar við bætast 7 fulltrúar sölusamtaka, sem eru vitaskuld misjafnlega veigamikil, 2 fulltrúar samtaka útvegsmanna og 2 fulltrúar samtaka sjómanna. Fiskiþing hefur undanfarin ár fjallað um fiskveiðistjórn. Um hana hafa verið skiptar skoðanir, en stjórnvöld hafa farið eftir samþykktum fiskiþings, enda einnig mjög skiptar skoðanir um fiskveiðistjórn innan flokka alþingis.—Fiskifélag fær ríkisframlag til starfsemi sinnar.

Kirkjuþing situr samkvæmt landslögum. Það er skipað 22 mönnum, biskupi og kirkjumálaráðherra eða fulltrúa hans og 20 kjörnum fulltrúum. 18 fulltrúar eru kosnir í 8 kjördæmum, sem mynduð eru úr 1-3 prófastsdæmum, 2 í hverju, nema 4 í Reykjavík. Er annar prestur kosinn af prestum og próföstum, en hinn leikmaður kosinn af safnaðarstjórnum. Guðfræðideild á einn fulltrúa á kirkjuþingi og guðfræðingar í sérstökum verkefnum þjóðkirkjunnar annan.

Þrátt fyrir það að kirkjuþing starfar samkvæmt landslögum, hefur alþingi ekki farið að vilja kirkjuþings í ýmsum efnum, m.a. því máli, sem kirkjuþing hefur lengi lagt kapp á, breytingu á veitingu prestsembætta.

Kirkjuþing fjallar um mál félagsskapar, þjóðkirkjunnar, sem mönnum er frjálst að standa utan við. Þjóðkirkjan starfar að mestu fyrir ríkisfé, eins og Búnaðarfélag Íslands, og henni er falin með lögum framkvæmd mála, eins og Búnaðarfélaginu.4. Hlutverk stjórnvalda og bændasamtaka

Viðfangsefni Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands hafa í aðalatriðum verið ólík, þótt hvor tveggja samtökin séu byggð á sama grunni, búnaðarfélögum sveitanna. Skilin hafa samt ekki alltaf verið skýr. Búnaðarþing hefur stundum fjallað um kjaramál, og komið hefur fyrir, að aðalfundur Stéttarsambands hafi tafist við að fjalla um búfræðileg mál, eins og rannsóknir.

Eins og sjá má hér að framan, kom ég ekki auga á neitt gott ráð til að veita búgreinafélögunum brautargengi á Búnaðarþingi. Í framhaldi af því og með hliðsjón af skipulagi bændafélags Noregs fór ég að velta fyrir mér þeirri lausn, að bændur hefðu með sér ein heildarsamtök í stað tvennra. Ég tek það fram, að til þess hafði ég talið heppilegt, að bændur hefðu tvenn samtök til að sinna ólíkum málum, eins og verið hefur.

Eitt af því, sem menn hafa búist við, ef samtökin yrðu ein, er, að ríkið hætti að veita fé til leiðbeininga, eins og það hefur gert með fjárframlögum til Búnaðarfélags Íslands og til búnaðarsambandanna, þar sem ekki þætti rétt, að ríkið styrkti starfsemi stéttarsamtaka. í því sambandi er athyglisvert, að danska ríkið greiðir ekki minna hlutfall kostnaðar við leiðbeiningar en íslenska ríkið. Þar eru leiðbeiningar í höndum búnaðarfélags og kotbændafélags hverrar sveitar, en fyrir allt landið er sérstök búfræðimiðstöð. Hún er rekin sameiginlega af landssamböndum búnaðarfélaganna og kotbændafélaganna í samráði við leiðbeininganefnd landbúnaðarráðuneytisins. Búfræðimiðstöðin starfar í deildum varðandi jarðrækt, nautgripi, svín, byggingar og vélar, rekstrarhagfræði, æskulýðsmál og búalög. Við þær deildir starfa einir 65 landsráðunautar.

Talað er um togstreitu á milli Búnaðarfélagsins og landbúnaðarráðuneytisins. Búnaðarfélagið fer samkvæmt lögum með ýmis mál, sem í Noregi eru á hendi stjórnvalda, þ. á m. leiðbeiningar í landbúnaði, og vilji ráðuneytisstjórinn koma slíkri skipan á hér. (Ekki var tækifæri til að ræða málið við hann fyrir ráðstefnuna). Ekki er vitað til, að landbúnaðarráðherrar hafi tekið undir þá skoðun. Ýmum líst ekki á að bæta málum á landbúnaðarráðuneytið, þar sem flest mál gangi þar hægt, eins og er. Aðrir svara því til, að ráðuneytið sé vanmegnugt vegna þess hvað verkefni þess eru takmörkuð og að það yrði skilvirkara yfirleitt við að fá ný verkefni og aukinn liðsafla vegna þeirra, þ. á m. að stjórna leiðbeiningastarfseminni.

Í skýrslu fjármálaráðherra um greiðsluskyldur ríkissjóðs (1. hluti, um landbúnað, vorið 1985) er fundið að því, að framkvæmdavaldið feli óháðum félagsskap mál, eins og Búnaðarfélagið hefur með höndum fyrir landbúnaðarráðuneytið. Allt er það þó samkvæmt lögum og slík lög samkvæmt stjórnarfarsrétti. Ekki hafa verið sett fram rök fyrir því, að slíkt fyrirkomulag sé óhagkvæmt fyrir ríkið, en sumum ráðunautum þykir óheppilegt að verða að meta fyrir hönd ríkisins framkvæmdir bænda og geta þannig komist í óþægilega stöðu gagnvart bændum, sem þeir þyrftu að eiga fullt traust hjá sem leiðbeinendur. Annað mál er það gagnvart stjórnarráðinu, að það getur spillt málum, og þarf að bregðast við því, ef þar þykir óeðlilegt, að sjálfstæður félagsskapur taki að sér verk fyrir stjórnvöld, þótt því ráði aðeins órökstudd tilfinning. Eins og bent hefur verið á, er þetta í enn stærri stíl varðandi annan sjálfstæðan félagsskap, þjóðkirkjuna.

Leiðbeiningar í Noregi fara fram á þremur stigum. Sérstök búfræðistofnun ríkisins sér um leiðbeiningar fyrir allt landið. Sú miðstöð er á sama stað og búnaðarháskóli landsins. Í Svíþjóð starfa landsráðunautarnir við búnaðarháskólann. Þessir háskólar eru um leið miðstöðvar búnaðarrannsókna landanna.

Þegar stofnaðar voru stöður héraðsráðunauta, voru ráðunautar Búnaðarfélagsins kennarar þeirra, fyrst sem stundakennarar nemenda við framhaldsdeild bændaskólans á Hvanneyri og áfram eftir að þeir hófu störf hjá búnaðarsamböndunum. Kennarar búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri eru nú kennarar verðandi héraðsráðunauta. Athugandi væri að gera búvísindadeildina ábyrga fyrir leiðbeiningum fyrir allt landið, þeim leiðbeiningum, sem ráðunautar Búnaðarfélagsins hafa nú með höndum. Ætti þá búvísindadeild að fela aðalkennara viðkomandi greinar stjórn þeirra leiðbeininga um ákveðið árabil í einu, en starfslið yrði aukið við deildina, til að breytingin bitni ekki á öðrum verkefnum búvísindadeildar. Breytingin mætti gerast í áföngum eftir ástæðum núverandi starfsmanna. Í samræmi við það yrðu leiðbeiningar í garðyrkju á ábyrgð garðyrkjuskólans í Ölfusi. (Ef ráðunautarnir sætu þar, kynni að þurfa héraðsráðunaut í garðyrkju í Reykjavík).Forsendur landbúnaðar á Íslandi

Búskapur hér á landi er háður almennum stuðningi þjóðkjörinna fulltrúa og hefur notið hans lengi.

Í búvörulögum frá 1985 segir: „Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.“ Sérákvæði er um innflutning kartaflna, nýs grænmetis, sveppa og blóma, sem „skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn“ að mati ráðherra.

Enginn andmælti þessum innflutningshömlum í umræðum á Alþingi. Ekki andmælti heldur neinn því nýmæli, sem heimilar ráðherra að leggja sérstakt gjald á innflutt fóður til að styrkja stöðu þeirra búgreina, sem styðjast mest við innlent fóður, þ.e.a.s. graspeningsrækt.

Þetta er sá grundvöllur, sem félagsskapur bænda stendur á. Samtök bænda geta beitt sér í dægurbaráttu til að tryggja hagsmuni bænda um stundar sakir, en þau geta ekki til lengdar tryggt stöðu landbúnaðarins án almenns stuðnings þjóðarinnar.

Þess vegna er brýnt, að landbúnaðarráðuneytið marki stefnu í landbúnaðarmálum á grundvelli búvörulaganna með rökstuddu áliti um hæfilegt afurðamagn, svæðisskiptingu og takmarkanir á fóðurinnflutningi.

Þetta ætti að verða meginverkefni ráðuneytisins. Leyfi ég mér að vísa til greinar minnar um landbúnaðarmálin með tilliti til þjóðaröryggis í Frey 10, 1985. Með búvörulögunum er lagður grundvöllur að því að taka á öllum landbúnaðarmálum sem þjóðmáli með tilliti til þeirra raka, sem eru grundvöllur laganna, þ.m. fjárveitingum til landbúnaðarmála. Ég sé fram til þess, að landbúnaðarráðuneytið geri víðtækan samning um landbúnaðarmálin við bændasamtökin og þ. á m. um verkefni þeirra. Þar yrði stefnan mótuð og starfsskilyrði landbúnaðarins ákveðin til að framfylgja stefnunni. Samtökum bænda, rannsóknastöðvum og skólum yrði falin framkvæmd mála, en eftirlitið yrði hjá ráðuneytinu. Slík skipting ábyrgðar sýnist mér vera í samræmi við ríkjandi hugmyndir.

Bændasamtökin yrðu auðvitað gildur aðili í stefnumörkun og við að móta landbúnaðarsamninginn. Þau hlytu eftir sem áður að gæta stundarhagsmuna bænda, eftir því sem tilefni er til. Það er ekki ósvipað stöðu kennarastéttarinnar. Ríkisvaldið hefur menntastefnu, sem kennarastéttin á mikinn þátt í að móta og sér um framkvæmdina á. Um leið gæta samtök kennara stundarhagsmuna þeirra gagnvart hinu opinbera og getur jafnvel skorist í odda, án þess að það raski menntamálastefnu ríkisins.

5. Skipulag búnaðarmennta

A. Búnaðarmenntastofnun

Verkssvið búnaðarmenntastofnunar landbúnaðarráðuneytisins skal vera skólar, rannsóknir og leiðbeiningar. Við stofnunina skal vera búnaðarmenntaráð fulltrúa bænda, ráðunauta, rannsóknamanna og sölusamtaka.

Starf búnaðarmenntastofnunar skal vera:

1. Fjárlagagerð með samræmingu á starfi rannsóknastöðva, skóla og ráðunauta.

2. Eftirlit með framkvæmd og fjárútlátum.

3. Einstakar stofnanir (Keldnaholt, Keldur, Hvanneyri (skóli og bútæknideild), Reykir, Hólar, Stóra-Ármót, Mó-gilsá, Kollafjörður, Möðruvellir o.fl.) heyri beint undir búnaðarmenntastofnunina. Við þær séu rekstrarráð eða stjórnarnefndir með fulltrúum starfsmanna og félaga bænda, eftir því sem starfsmannafulltrúar óskuðu og búnaðarmenntastofnunin samþykkti.B. Leiðbeiningastarfsemi

Búnaðarmenntastofnun samræmi leiðbeiningastarfsemi með fjárveitingum. Leiðbeiningar bænda fyrir allt landið séu í höndum Búnaðarfélags Íslands, búvísindadeildar á Hvanneyri, garðyrkjuskólans og bútæknideildar með áðurnefndu samráði við fulltrúa búgreina, en rannsóknastofnanir sjái um leiðbeiningar til ráðunauta bændanna.

Í héruðunum séu leiðbeiningar í höndum búnaðarsambanda og samtaka þeirra, rannsóknastöðva og búnaðarskóla (Hvanneyri, Hólar, Reykir).C. Rannsóknastarfsemi

Búnaðarmenntastofnun með búnaðarmenntaráði skipuleggi rannsóknastarfsemina með fjárlagagerð. Einstakar rannsóknastöðvar heyri beint undir búnaðarmenntastofnunina, sem veitir þeim aðhald um samræmingu starfseminnar með fjárveitingum.6. Sameinuð bændasamtök

Við að rýna í skipulag Bændafélags Noregs kviknaði hugmynd um skipulag sameinaðra bændasamtaka hér. Í hverju sveitarfélagi í Noregi er bændafélag, oft eins fjölmennt og búnaðarsambönd eru hér. Þau mynda fylkisfélög, sem kjósa fulltrúa á aðalfund bændafélagsins í hlutfalli við tölu félagsmanna. Fylkissambönd bændakvennafélaganna eiga rétt á að senda einn fulltrúa hvert og sömuleiðis æskulýðssambönd sveitafólks. Loks sitja þar fulltrúaráðsmenn, samtals á 3. hundrað manns. Aðalfundurinn stendur fáa daga. Á honum er aðeins fjallað um vel undirbúin stefnumarkandi mál og skipað fulltrúaráð um 60 manna, Meðal þeirra eru 10 fulltrúar afurðasölusamtaka einstakra búgreina, 2 fulltrúar bændakvenna og 2 fulltrúar sveitaæskunnar. Loks er þar skipuð 13 manna stjórn bændafélags Noregs, þar sem m.a. er tryggð seta trúnaðarmanna tiltekinna afurðasölusamtaka ásamt formanni bændakvennafélags Noregs og formanni æskulýðssambands sveitanna.

Hugmynd mín um sameinuð bændasamtök er þessi. Búnaðarþing, aðalfundur samtakanna, stæði stutt, og því væri ekkert að því, að það yrði fjölmennara en Búnaðarþing er nú. Kjördæmi þess yrðu alþingiskjördæmi (Reykjavík með Reykjaneskjördæmi). Úr hverju kjördæmi yrði núverandi fulltrúatala kosin beint, en við bættust jafnmargir, sem væru stjórnarmenn búgreinasamtaka eða félaga, kvenfélagasambanda og sölusamtaka. Á búnaðarþingi yrði aðeins fjallað um vel undirbúin stefnumarkandi mál. Búnaðarþing kysi 20-25 í fulltrúaráð og 3-5 manna stjórn. Fulltrúaráð yrði kallað saman eftir því, sem stjórninni þætti tilefni til eða fulltrúar óskuðu eftir. Fulltrúaráð skipaði tvær fastar nefndir, aðra um kjara- og framleiðslumál, en hina um búnaðarmenntir (leiðbeiningar, rannsóknir, skóla).Búnaðarráð í landshlutum (kjördæmum)

Búnaðarráð kjördæmanna yrðu skipuð búnaðarþingsfulltrúum. Þau kysu tvær fastar starfsnefndir, aðra um kjara- og framleiðslumál, en hina um búnaðarmenntir, sem fjallaði um mál héraðsráðunauta, samstarf búnaðarsambanda um leiðbeiningar, búnaðarskóla og rannsóknarstöðvar. Búnaðarráð ættu fulltrúa í stjórn rannsóknarstöðva og skóla. Búnaðarsamböndin yrðu eftir sem áður framkvæmdaaðiljar og félagsskapur bænda.

Með þessu lægi betur við að taka á búnaðarmálum sem héraðsmálum með þátttöku landshlutasamtaka sveitarfélaga og með alþingismönum landshlutans.

Búnaðarriti 100 (1987) 156-168