Menn spyrja, hvort þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til til að takmarka framleiðslu í samræmi við innlenda neyslu, verði ekki óþarfar eftir fáein ár. Hafa menn þá í huga, að aðgerðirnar hafi náð tilgangi sínum í mjólkurframleiðslu, en svo mjög sé þrengt að sauðfjárbændum, að búast megi við stórfelldum samdrætti á nokkrum árum, og verði þá engan vanda að leysa í afurðasölu.

Ekki eru rök til að fullyrða, hvað framundan kunni að vera í þeim efnum. Þó er vitað, að allmikil framleiðslugeta er ónýtt, svo að veruleg framleiðsluaukning gæti orðið, ef mönnum yrði gefinn laus taumurinn. Almennt er búist við framhaldi á þeirri þróun til aukinna afkasta, sem lengi hefur verið, bæði í sjálfri framleiðslunni og í nýtingu afurðanna. Ennfremur má vel hugsast, að fram komi nýjar afurðir, sem keppi við þær afurðir, sem nú eru framleiddar og ryðji þeim út að einhverju marki. Hins vegar eru þær skoðanir, að mannkynið ofbjóði náttúrunni og komi að því fyrr eða síðar, að þörf verði fyrir alla framleiðslugetu íslensks landbúnaðar á viðunandi verðlagi fyrir framleiðendur, svo að opinber stjórn til að halda aftur af framleiðendum verði óþörf. Ekki er trúlegt, að til þess komi í bráð.

Þótt jafnvægi næðist milli framboðs og eftirspurnar á innlendum matvælum, þegar litið er til nokkurra ára, er vandinn ekki leystur. Framleiðsla getur auðveldlega farið fram úr þörfum vegna góðs árferðis. Vegna góðrar afkomu almennings er neysla nú þegar svo mikil á flestum innlendum matvælum, að framboð umfram venjulega neyslu þrýstir verðlagi niður og miklu meira en svarar til aukinnar sölu. Þar sem framleiðslukostnaður hér og verðlag á búsafurðum er miklu hærra en það verð, sem fæst við útflutning, mundi framleiðsla umfram venjulega neyslu innanlands lækka verðlag stórlega, nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir. Útflutningsverð er ekki til leiðsagnar um það verðlag, sem þarf til að fullnægja innlendri eftirspurn. Kartöfluverð, sem fengist við útflutning, er svo lágt, að enginn mundi sjá sér hag í að setja niður útsæði, ef það verðlag gilti hér. Verð á eggjum og kjúklingum, eins og það var alllengi haustið 1987, var svo lágt, að enginn hefði haft hag af því að setja á hænuunga til að halda áfram slíkri framleiðslu. Svo stórfelldar verðsveiflur eru því ekki til leiðsagnar um hæfilegt framleiðslumagn.

Þetta eru gömul sannindi, og raunar lúta kennslubókardæmi í hagfræði framboðs og eftirspurnar að þessu eðli búvöruframleiðslunnar. Þessa gætir misjafnlega eftir því hversu varanlega menn eru bundnir við framleiðsluna. Framleiðendur eggja og kjúklinga, sem búa í nágrenni þéttbýlis, eiga tiltölulega auðvelt með að draga saman framleiðsluna, þegar verð lækkar. Þeir geta beint vinnuafli sínu að öðrum verkefnum og nýtt húsakost til annars, líkt og verkstæðismenn í þéttbýli. Þeir geta líka verið tiltölulega fljótir að auka framleiðsluna. Viðbrögð svínabænda eru hægari. Nautgripa- og sauðfjárbændur eiga óhægt með að fylgja dægursveiflum í verðlagi. Þær yrðu þeim því síst til leiðbeiningar um hæfilegt framleiðslumagn, enda er langt síðan hætt var að styðjast við þær.

Verðlagslög byggja á því meginviðhorfi, að almenn samkeppni framleiðenda og verslana leiði til hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta þjóðfélagsins og sanngjarnrar skiptingar þjóðartekna. Verðlagsráð, sem stjórnar þeim málum, hefur heimild til að veita undanþágu frá fullri samkeppni og heimila samninga og samráð fyrirtækja um verðlagningu, ef það er nauðsynlegt til að vernda fyrirtæki gegn óæskilegum eða þjóðfélagslega skaðlegum samkeppnisháttum. Eins og að ofan greinir er búvörumarkaðurinn þannig í eðli sínu, að verðsamkeppni án samráðs er ekki til leiðsagnar um hæfilegt framleiðslumagn. Með búvörulögunum er ómakið tekið af verðlagsráði varðandi ofannefndar undanþágur og málið fært til sex manna verðlagsnefndar, ef samtök framleiðenda óska þess. Sú verðlagning á að taka mið af því, að tekjur framleiðenda verði sambærilegar við tekjur annarra, hún tekur sem sagt ekki mið af því, að verðið leiði til hæfilegs framleiðslumagns. Þess vegna getur þurft aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að framleiðslumagnið verði of mikið miðað við söluhorfur.

Spurningunni í yfirskrift greinarinnar verður því af ýmsum ástæðum að svara játandi.

Frey 84 (1988) 715, 714