Fyrir hálfri öld mynduðu saltfiskframleiðendur með sér samtök til að skipuleggja með sér samtök til að skipuleggja sölu afurða sinna. Að þessum samtökum stóðu jafnt stórir framleiðendur sem smáir. Með því var smáframleiðanda gert kleift að koma afurðum sínum á framfæri við neytendur með sömu kjörum og stórframleiðanda eins og Kveldúlfi. Þetta fyrirkomulag gildir enn. Skilyrði saltfiskframleiðslu eru mjög ólík hjá Ísbirninum eða Bæjarútgerðinni í Reykjavík og hinum nýjungagjörnu og framtakssömu saltfisverkendum austur á Bakkafirði, svo að dæmi séu tekin, en í afurðasölunni standa allir jafnt að vígi.
Sölusamtök fiskframleiðenda gæta hagsmuna sinna best með því að koma vörunni á framfæri í þeirri mynd sem fellur neytendum best. Þannig keppa þeir við saltfiskframleiðendur í öðrum löndum og við framleiðendur annarra matvæla sem neytendur kunna að kjósa í stað saltfisks. Frystihús í eigu einstaklinga og bæjarfélaga hafa einnig með sér sölumiðstöð í sama tilgangi og saltfiskverkendur mynduðu sölusamtök sín. Sölusamtök í landbúnaði eru vel þekkt, bæði samtök búvöruframleiðenda, eins og Sláturfélag Suðurlands og Mjólkurbú Flóamanna og sölumiðstöð mjólkurbúanna, Osta- og smjörsalan. Allar þessar sölumiðstöðvar njóta almennrar viðurkenningar fyrir vandaða vöru.
Nú hafa ýmsir eggjaframleiðendur viljað fara að dæmi annarra framleiðenda í sjávarútvegi og landbúnaði og koma á fót sölumiðstöð. Þeir sem eru stærstir í hópi eggjabænda hafa snúist gegn því og telja sér betur borgið með því að koma eggjum sínum til neytenda á eigin spýtur. Þar taka þeir að vísu aðra afstöðu en stórframleiðendur í sjávarútvegi, eins og Kveldúlfur á sínum tíma til stofnunar sölusambands fiskframleiðenda (SÍF) og útgerð Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík gerir enn þann dag í dag með traustri aðild sinni að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH). Látum það vera. Hitt er merkilegra, að neytendur og samtök þeirra í Reykjavík skuli beita sér gegn því að komið sé á fót slíkri sölumiðstöð ásamt gæðaeftirliti, líkt og er um önnur matvæli og nýtur almennrar viðurkenningar. Sölumiðstöð eggjaframleiðenda er eins eðlileg og hagkvæm og Sölumiðstöð hraðfrystihúsa og Osta- og smjörsalan. Er raunar furðulegt að slíkri miðstöð hafi ekki verið komið á fót fyrir löngu að kröfu reykvíkinga.
Hinir smærri framleiðendur eggja, sem sjá sér ávinning í eggjasölumiðstöð, eru raunar eins og skjaldborg um hagsmuni stórframleiðendanna, sem vilja halda áfram að selja eggin beint. Á íslandi eru nefnilega ekki skilyrði til eggjaframleiðslu nema með innflutningstakmörkunum. Innflutningstakmarkanir á eggjum eru liður í almennum takmörkunum á innflutningi búvöru. Bændasamtökin eru auðvitað öruggasti málsvari þessara innflutningstakmarkana. Bændasamtökin hafa stutt viðleitni þorra eggjaframleiðenda til að koma upp eggjasölumiðstöð. Ef svo færi, að stórframleiðendurnir útrýmdu smáframleiðendum með því m.a. að koma í veg fyrir stofnun sölumiðstöðvar, þykir mér ekki líklegt, að bændasamtökin sæju ástæðu til að halda uppi innflutningstakmörkunum á eggjum, ef aðrir vildu afnema þær, heldu létu það afskiptalaust, að flutt yrðu inn egg frá Danmörku og Hollandi. Þá yrði eggjaframleiðslan óviðkomandi sveitunum, en eggjaverð yrði eins og í Hollandi eða Danmörku að viðbættum flutningskostnaði eggjanna.
Gerum samt ráð fyrir að innflutningstakmarkanir haldist. Hvernig er þá heppilegast að verð myndist á eggjum? Flestir telja heppilegt, að verðlagið hafi þau áhrif að framboð og eftirspurn standist á, þegar til lengdar lætur. Á eggjamarkaði geta hins vegar orðið stundarsveiflur sem ekki eru til leiðbeiningar fyrir framleiðendur um að auka framleiðsluna eða draga hana saman. Verðskráning á eggjum, líkt og iðnmeistarar hafa með sér eða lögfræðingar, er til leiðbeiningar einstökum framleiðendum. Aukin trygging ætti því að vera í því frá því frá því, sem nú er, að hafa slíka verðskráningu í höndum verðlagsnefndar framleiðenda og kaupenda. Með því ætti að mega treysta því að verð yrði skráð þannig, að framboð og eftirspurn stæðist á til lengdar, en með sölumiðstöðinni gefst tækifæri til að jafna út framboðssveiflur, sem stafa af tilviljunum og koma til móts við eftirspurnarsveiflur sem fylgja árstíðum og hátíðum.
Slík verðlagsnefnd framleiðenda og kaupenda er þegar starfandi, þótt hún hafi ekki tekið að sér að verðleggja enn sem komið er, nefnilega Verðlagsnefnd landbúnaðarafurða (sexmannanefnd). Í henni sitja þrír fulltrúar framleiðenda annars vegar, og væri eðlilegt að samtök eggjaframleiðenda tilnefndu menn til að fjalla um eggin, og þrír fulltrúar kaupenda, nefnilega fulltrúi Landssambands iðnaðarmanna, en í því eru bakarar, sem nota mikið af eggjum, fulltrúi félagsmálaráðuneytis og fulltrúi Sjómannafélags Reykjavíkur. Ætti með slíku fyrirkomulagi á verðskráningu að vera séð fyrir því að verðlag yrði ekki svo lágt til lengdar að skortur yrði á eggjum né svo hátt að birgðir mynduðust.
Morgunblaðinu 6. desember 1983