Ég hélt fram hér í blaðinu í sumar („Hóf er best á hverjum hlut“, 12. tbl., bls. 509), að það færi betur með gróður, að kindakjötsframleiðsla landsins skiptist á margar jarðir en fáar. Auk gróðurfarsraka benti ég m.a. á, að oft gæti verið hagkvæmt á jörð, þar sem aðallega væru nautgripir, að hafa með nokkurt sauðfé, því að það nýtti ýmislegt sem fylgdi aðalbúskapnum, án þess að miklu þyrfti til að kosta.

Það spillti fyrir þessu, áleit ég, að ríkið bauðst til að greiða 5 000 kr. fyrir hverja sauðkind innan fullvirðisréttar, ef öllum stofninum væri fargað, en 3 500 kr., ef hluta stofnsins væri fargað.

Þessu hefur ekki verið andmælt í Frey. Hinsvegar lagði blaðamaður Tímans málið fyrir Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Jón V. Jónmundsson ráðunaut Búnaðarfélagsins. í svörum þeirra (13. júlí) koma fram athyglisverð rök, sem ástæða er til að ræða í Frey, þótt liðinn sé sá frestur, sem boð ríkisins gilti, því að þau lýsa hugsun, sem oft virðist ráða ályktunum og ráðstöfunum.

Sveinn segir sjónarmið mín ekki eiga við rök að styðjast, því að með tilboði ríkisins fari fram eins konar grisjun óhagkvæmra búa, en þau hagkvæmari verði lífvænlegri.

Á Sveinn með því við, að það hljóti að vera óhagkvæmt að hafa sauðfé sem aukagrein með kúm sem aðalbústofn?

Á hann við, að það hljóti að vera óhagkvæmt að hafa fjárbúskap með annarri atvinnu, eins og margir stunda?

Á hann við, að það hljóti að vera óhagkvæmt, þegar dregur úr starfsgetu, að draga úr umsvifum án þess að hætta alveg?

Gáum að því, að sveigjanleiki ræður miklu um hagkvæman árangur við búskap. Ýmsar ástæður við búrekstur eru lítt sveigjanlegar, svo sem vinnuframlag búsins, sem ræðst allmikið af fjölskylduástæðum, og ýmis fjárfesting. Margir hafa hagnýtt sér tilfærslu á milli nautgripa og sauðfjár við breyttar ástæður, en aðrir hafa haft hag af að nýta jörð sína með nokkrum fjárstofni með annarri atvinnu, og svo eru þeir sem ekki hafa mikla starfsgetu og búa í samræmi við það. Fjárbúskapur við aðstæður af þessu tagi getur vitaskuld verið ekki síður hagkvæmur en önnur fjárbú.

Það sýnir því skilningsleysi á því hvað er hagkvæmt að kaupa menn sérstaklega til að hætta slíkum fjárbúskap. Það stuðlar að óhagkvæmni að spilla fyrir því, að menn geti gripið til slíkrar aðlögunar að aðstæðum, og er illa farið með takmarkað framlag ríkisins til að ná jafnvægi á kindakjötsmarkaði landsins að beina því sérstaklega að fjárbúskap, sem getur verið hagkvæmur við ofangreindar ástæður. Slíkur búskapur verður samt sjaldnast glæsibúskapur, en það er annað mál.

Eftir Jóni er haft, að með tilboði ríkisins, þar sem þeim er boðið meira á kind sem farga öllu en hinum, vaki fyrir mönnum að hvetja bændur til að hætta alveg búskap. Ég er ekki undrandi á, að það hafi orðið markmið í sjálfu sér til viðbótar við það, sem var réttmætt viðfangsefni sjömanna nefndar, sem lagði grundvöll að búvörusamningnum, að í landinu yrði hæfilega mikil framleiðsla á hagkvæmum búum. Það er býsna algengt, að þeir, sem vilja leið beina bændum og stýra, villist á þessu og geri glæsibúskap að keppikefli í stað hagkvæms búskapar. Það má skilja á svörum þeirra Sveins og Jóns, að sjömannanefnd hafi verið haldin slíkri skynvillu. Það var mér ókunnugt um og hafði ekki í huga, þegar ég samdi athugasemd mína.

Ef þetta sérstaka ákvæði hefði ekki verið í búvörusamningnum, heldur verið boðið jafnt fyrir að láta fullvirðisrétt af hendi (einhvers staðar á bilinu 3 500 og 5 000 kr.), má ætla, að meira hefði verið um að fækkað hefði verið á jörðum með allmikinn fjárþunga og færri fargað öllu. Ennfremur er líklegt, að meira hefði verið boðið af fullvirðisrétti í heild og þar með náðst það mark sem sett var um fækkun á einstökum búmarkssvæðum með minni flötum niðurskurði. Það er því ástæða til að ætla, að án þessarar mismununar hefði skipting kindakjötsframleiðslunnar á einstök bú orðið hagkvæmari en nú varð, beitarálag jafnara og flatur niðurskurður minni.

Frey 87 (1991) 819