1. Málið kynnt og afmarkað

Í ritgerð þessari verður þaðtalið félagsbú, þar sem tveir eða fleiri giftir bændur hafa að minnsta kosti heyskap sameiginlegan, en hvor eða hver um sig vinnur ekki minna en fjóra mánuði á ári að búinu. Í ritgerðinni um samvinnu nágranna við búskap var hugtakið samrekstrarbú notað, þar sem hér er sagt félagsbú.[2] Samrekstrarbú hafði þó nokkuð víðari merkingu, því að þar töldust með bú, þó að bændurnir væru einhleypir. Félagsbóndi nefnist þá eðlilega í þessari ritgerð maður, sem býr félagsbúi. Í nefndri rannsókn á samvinnu nágranna kom fram, að þeir bændur, sem náðu best þeim kostum, sem talið var, að menn sæktust eftir með nágrannasamvinnu, voru samrekstrar- eða félagsbændur. Þessir kostir voru frjálsari vinuskilyrði við búfjárhirðingu og stærra land til að nýta afkastamiklar vélar. Einnig kom í ljós, að þessir búskaparhættir voru svo algengir á þeim búum, sem voru í rannsókninni, að þeir sýndust vera mikilvægir fyrir landbúnaðinn og sveitirnar. Þess vegna þótti rétt að rannsaka félagsbú nánar.

Markmið rannsóknarinnar var þríþætt: Í fyrst lagi að kanna, hversu algeng félagsbú voru í landinu; í öðru lagi að rannsaka kringumstæður á búunum og í þriðja lagi að greina þau skilyrði, sem þarf að fullnægja, til þess að þau komist á stofn. Síðasta atriðið er náskylt rannsókn á tví- og fleirmenningsbúum á Norðurlöndunum. Hafa niðurstöður þeirrar rannsóknar þegar verið birtar á íslensku.[3] Þær þrjár ritgerðir, sem nú hafa verið nefndar, verða því hlutar af könnun á samvinnu- og stærðarskilyrðum búskapsins.

Ekki er kunnugt um neina rannsókn á félagsbúum á Norðurlöndum eða yfirleitt. Það verður þó ekki fullyrt, að slík rannsókn hafi ekki verið unnin. Ekkert bendir þó til þess, að um sé að ræða alíslenskt fyrirbæri eða fyrirbæri, sem nýlega hafi orðið til. Öllu heldur er ástæða til að ætla, að slíkir búskaparhættir hafi tíðkast víða um lönd og á ýmsum tímum, þó að ekki verði sagt um hversu almennt. Sem dæmi frá síðari tímum má nefna, að Hill nokkur talar um félagsrekstur feðga, eins og það væri þekkt fyrirbæri í Michigan í Bandaríkjunum. Oft má ætla, að báðir hafi verið giftir. Hann skrifaði leiðbeiningabækling um samrekstur feðga, en vísar hvergi til rannsókna á þeim búskaparháttum.[4]

Hér á landi má segja, að vaknað hafi um tíma nokkur umræða um félagsbú. Þó verður ekki um það sagt, hvort slík bú hafi orðið almennari en áður var. Menn hafa í umræðum um málið talið til kosta félagsbúa, að þar ættu menn hægara með að víkja sér frá. Þetta er atriði, sem hefur skipt meira máli eftir því sem mjólkurframleiðslan hefur teygst til fleiri sveita út frá kaupstöðunum og fólki hefur fækkað á bæjunum. Auk þess hefur verið talið, að félagsbú auðvelduðu mönnum að komast yfir fjármagn og að fjármagnið nýttist betur.

2. Mannfjöldi á sveitabæjum. Fjöldi félagsbúa

Árin 1963 og 64 var send fyrirspurn til héraðsráðunauta um land allt um félagsbú.[5] Spurt var um þau bú, þar sem tveir eða fleiri bændur, sem unnu ekki minna en fjóra mánuði við búskap, höfðu hið minnsta heyskap sameiginlegan. Aðeins var spurt um þau bú, þar sem ekki færri en tveir bændur voru giftir eða sama sem giftir. Þar með voru skilin undan bú, þar sem bjuggu ógift systkin, ein hjón ásamt ógiftum ættingjum eða ógiftur sonur bjó með foreldrum sínum, þó að reksturinn væri sameiginlegur. Með þessu móti voru felld úr mörg bú, sem voru jafnvel sett og félagsbúin að því, er varðar tækifæri til að víkja sér frá og vélvæðingu.

Ástæða til þess, að aðeins var spurt um bú tveggja eða fleiri hjóna, var sú, að ætlunin var að bera félagsbúin saman við venjuleg fjölskyldubú. Gögnin hefðu orðið verulega ósamstæðari, ef tekin hefðu verið með bú með ógiftum aðilum eða bú tveggja fjölskyldna, þó að annar bóndinn ynni lítið við búið. Hætt er við, að aðstaða slíkra bænda sé heldur óstöðug miðað við gifta bændur og bændur, sem stunda lítið annað en sitt bú. Gögnin verða þá dreifð og erfitt að fá marktækar niðurstöður.

Héraðsráðunautarnir vissu um alls 498 bændur, sem fullnægðu fyrrgreindum skilyrðum. Veturinn 1963-4 voru það tæp 9% allra bænda á landinu. Var þá tala bænda áætluð 5800, en það er 240 fleiri en talið er í Búnaðarskýrslum 1961-63.[6] Munurinn stafar af því, að aðeins er talinn einn bóndi á félagsbúi í Búnaðarskýrslum. – Þar sem um 30% af bændunum voru ógiftir (32% árið 1965 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands) voru félagsbændur um 13% af giftum bændum. Á 217 búum voru tvenn hjón, á 16 búum þrenn hjón og á fjórum búum fern hjón. Með einni undantekningu var um fólk úr sömu fjölskyldu að ræða á búunum. Ættartengsl bændanna voru tilgreind nánar á 142 búum. Á 42 búum (30%) voru bændurnir af sömu kynslóð, voru bræðiur, mágar eða svilar, þar af 38 bræðrabú. Á 100 búm (70%) voru bændurnir af tveimur kynslóðum. Af þeim voru feðgabú 74, en tengdafeðga 26. Það má fullyrða, að konan hefur oftar flutt sig en maðurinn. – Þegar ástæða er talin til og kostur er á, verður hér á eftir gerð grein fyrir mun á félagsbúum, þar sem eru bændur af einni kynslóð annars vegar og af tveimur kynslóðum hins vegar.

Til að fá mynd af mannafla á sveitabæjum, einkum með tilliti til skilyrða fólks til að víkja sér frá, hefði verið best að telja öll bú, þar sem voru tveir eða fleiri fullorðnir af sama kyni. Þetta hefur verið rannsakað á Fljótsdalshéraði, enda var til skýrsla um tölu, kyn og aldur heimilisfólks á sveitabæjum þar, en ekki úr öðrum héruðum (tafla 1). Á 263 búum í héraðinu voru samtals 653 vinnufærar manneskjur eldri en 14 ára. Gerir það 2,5 að meðaltali á bú. Á um 40% búanna voru minnst þrjár vinnufærar manneskjur. Ætla má að ástandið á þeim búum hafi verið sæmilegt varðandi skilyrði fólks til að víkja sér frá.

Tafla 1. Bú á Fljótsdalshéraði eftir tölu fólks eldri en 14 ára árið 1964. Fólk yfir sjötugt ekki talið með nema með nema bændahjónin sjálf.

Tala fólks
eldri en 14 ára
Tala búa % búa
1 2 11,0
2 128 48,7
3 71 27,0
4 24 9,1
5 7 2,7
6 4 1,5

Heimild: Tölur í Athugunum um búnaðarástand á Fljótsdalshéraði.[7]

Að meðaltali voru 4,84 manns á heimili, en á öllu landinu voru í sveitum 5,22 manns að meðaltali á heimili samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Má þá ætla, að vinnufært fólk hafi tæplega verið færra á heimili í sveit á landinu öllu en á Fljótsdalshéraði. Þau vinnuskilyrði, sem eru háð fólksfjölda á heimili, hafa því trúlega ekki verið lakari almennt en á Fljótsdalshéraði.

3. Skoðun héraðsráðunauta á félagsbúum

Héraðsráðunautar þeir, sem spurðir voru um tölu félagsbúa á starfssvæði sínu, voru einnig spurðir, hvað þeim þætti einkenna þau bú í heild fjárhagslega og félagslega borið saman við ástandið á svæði þeirra almennt. Svör þeirra verða rakin hér, enda eru þau fróðleg og réðu miklu um það, hvaða stefnu rannsóknin tók síðan. Í sviga við einkennisbókstaf hvers svaranda er tala félagsbúa á svæði hans 1963-1964.

A (2): Það er mitt álit að búreksturinn á þessum félagsbúum stendur mun betur að vígi en annars staðar í héraðinu  bæði að myndarskap og auðlegð. Enn fremur virðist mér samkomulag félagsbúenda sérlega gott; einnig eru þeir félagslyndir um flest öll félagsmál í sínu héraði.

B (11): Félagsbúskapur á þeim búum sem talin eru á listanum, er í flestum tilfellum a.m.k. stundarfyrirbæri, aðferð til að flytja bú og jörð milli kynslóða og er nákvæmar skilgreindur sem fjölskyldubúskapur en félagsbúskapur. Hitt er svo annað mál, að aðferð sú við flutning milli kynslóða, sem hér er beitt, er að mínum dómi mjög æskileg og þyrfti að verða ráðandi. Skilyrði þessi, að hún fari vel fram er, að á jörðinni séu tvö sæmileg íbúðarhús (fremur tvö en tvær íbúðir). Annað íbúðarhúsið mætti nota yfir aðkeypt vinnuafl á þeim tímum, sem fjölskyldan þyrfti þess ekki við eða til einhverra annarra nota (sumarbústað, íbúð iðnaðar- eða vélamanns). Hér í … eru allar sæmilegar íbúðir notaðar, liggi þær haganlega við samgöngum. Ég sé ekki enn hylla undir eiginleg samvinnubú (samrekstrarbú þykir af sumum heppilegra nafn af stjórnmálaástæðum) og bið þig þó að skilja orð mín ekki svo, að ég vilji draga úr því, að það búrekstrarform sé reynt í alvöru.

C (10): Þessi bú, sem teljast félagsbú hér, eru ekki sjáanlega frábrugðin öðrum búum, en eru þó mjög misjafnlega rekin allt frá fyllstu gætni við fjárfestingu og í það að vera bú, sem hafa góðan húskost og tækni. Félagsbúskapur á rétt á sér og mun fara vaxandi. Tæknibúskapur er erfiðari einyrkja að mörgu leyti heldur en gamaldags búskapur, og orsökin er, hversu sum tækin eru erfið og krefjast mannafla til verulegrar nýtingar. Höfuðatriðið er, að fólkið velji sig saman og þekki hvert annað. Auðveldara er fyrir félagsbændur að víkja sér frá. Fleiri kosti mætti upp telja, en flestum ljósir.

D (0): Af félagsbúskap hef ég því enga reynslu. En þar sem samvinna er við heyöflun, t.d. þar sem tveir bræður búa með konum sínum, þá skilst mér, að allur vinnukraftur þurfi að vera sem jafnastur, sami barnafjöldi á svipuðum aldri og eins uppalin, svo að ekki verði metingur um, að annar leggi fram meiri vinnukraft en hinn (Ég býst við að konurnar þurfi líka að vera eins). Vegna fjölskylduvandamála hef ég ekki trú á, að félagsbúskapur gangi vel til lengdar.

E (11): Ég tek helst eftir því í sambandi við þessi bú, að bændurnir komast betur af með tilliti til líkamlegs erfiðis, hafa meiri möguleika til frjálsræðis út á við og standa betur að vígi gegn óvæntur forföllum (t.d. veikindum) heldur en þar, sem allt hvílir á einum manni. Að öðru leyti hef ég ekki greint neitt hvorki fjárhags- né félagslega, sem einkennir þessi bú frá öðrum innan héraðsins, en slæ þó engu föstu um, að svo sé ekki, því þar brestur mig kunnugleik.

F (12): Ég get ekki séð, að þau skeri sig neitt úr heildinni fjárhagslega, en aðalmunurinn virðist mér liggja í því, að fólkið er fleira. Það skapar meira öryggi, ef eitthvað ber út af og ætti að gefa möguleika til að sinna meira hvers kyns félagsstörfum.

G (1): Virtist þetta geta gengið t.d. hjá bræðrum, meðan aðeins annar er giftur. Giftust báðir, leystist slíkur búskapur upp og hvor aðilinn fór að hafa sitt sér. Ekki veit ég hvort þetta gildir sem óbrigðult lögmál, en nærri mun, að svo sé. Aftur á móti er algengt, að synir sitji að búi með feðrum sínum og þeir vinni sameiginlega að búinu, þótt ekki sé um raunverulegan félagsbúskap að ræða og virðist vera góð afkoma þessara búa oft og tíðum, því að þarna er þá ekki einyrkjabúskapur, a.m.k. meðan eldri maðurinn er sæmilega vinnufær.

H (23): Í heild hygg ég, að fjárhagsafkoman sé betri hjá þessum búum en almennt gerist í sýslunni. Félagslega séð tel ég heimilin öruggari og fólkið frjálsara en þar sem einyrkjabúskapur er rekinn.

I (14): Hér var fyrirspurnunum vísað til formanna búnaðarfélaga á svæðinu, og voru svör þeirra sem hér segir : 1) Erfitt er að svara þessu, en allar jarðirnar eru of stórar fyrir einn mann að nytja þær. En í þessu fyrirkomulagi felst öryggi, því að hending má heita, að óvandabundið fólk fáist til bústarfa. Frá mínu sjónarmiði er þetta mjög eðlilegt og ákjósanleg leið, eins og nú háttar í málefnum bændastéttarinnar. – 2) Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá, að þessi félagsbú hafi neina sérstöðu miðað við önnur bú sveitarinnar. En ef vel er að gáð, þá mun óhætt að fullyrða, að sú samvinna og samhjálp, sem fram fer á þessum búum, valdi því, að framleiðsla þeirra verði eitthvað ódýrari en annars væri vegna betri hagnýtingar á vinnuafli. Það er raunar augljóst, að bændur, sem hafa einhvern félagsrekstur í búskap og þó einkum þar sem samvinna er um bústörfin alla tíma árs, hafi meiri möguleika að vinna að hinum ýmsu félagsmálum, sem til falla í hverju sveitarfélagi, heldur en hinir, sem margir eru þá einyrkjar og verða að vinna að öllum þeim störfum, sem fyrirfinnast á einu búi. Þó er þetta ekkert einkenni á þeim félagsbúum, sem rekin eru hér í sveit. – 3) Það, sem augljóst blasir við gagnvart félagsbúskap í minni sveit, er þetta: Búin allt of lítil, vantar ræktun og um leið byggingar. Fjárhagsörðuleikar áberandi. Samstarf gott. – 4) Ég get ekki séð, að þessi bú skeri sig úr öðrum búum hér hvorki fjárhagslega eða á annan hátt. – 5) Bæði búin eru mjög vel rekin og fjárhagsafkoma viðunandi miðað við aðra bændur. – 6) Síst betri fjárhagsleg afkoma og hlutfallslega minni bústofn miðað við það vinnuafl, sem þessi bú hafa.

J (43) Ekki er gott að lýsa því, sem einkennir félagsbúin, en mér sýnist, að kostir þeirra séu meðal annarra: a) Minni vinnuþrælkun og ekki eins geigvænlegt, þó að annar bóndinn forfallist um tíma. b) Hægt að komast af með tiltölulega minni vélakost. c) Sum verk eru tiltölulega léttari fyrir tvo en einn, t.d. smölun, byggingar (takmarkaður tími vegna lána, sem þurfa að fást sama árið). d) Meira félagslíf í vinnunni.

Ókostir félagsbúskapar eru t.d.: a) Annar bóndinn vill vinna 15 klukkustundir hvern dag, en hinn aðeins 10. b) Annar hefur börn, sem geta gert verulegt gagn, en vandi að meta þá vinnu. c) Verkaskiptingin. Stundum fer það svo, að annar lendir oftast í verri verkin (margar ástæður).

Þau félagsbú, sem leystust upp nú síðustu árin, eru ekki mörg, að ég álít og orsök þeirra slita margvísleg og stundum annarleg.

K (12): Ég held, að það verði langt þangað til íslenskir bændur óskyldir eða ótengdir vinni á félagslegan hátt við rekstur búanna. Mín skoðun er sú, að við þurfum að halda í fjölskyldubúin. Þó tel ég ágætt að hafa tvíbýli á sem flestum jörðum, því þegar þar sitja skyldmenni eða nógu félagslega þroskað fólk getur það haft sameiginlegan búrekstur, en skilyrði er þó, að heimilishald sé aðskilið, helst með tveimur íbúðarhúsum.

Félagslega held ég, að öll þau búa, sem hér að framan greinir, standi ekki að baki annarra hér í sýslu. Ekki er hægt að sjá, að efnahagur sé að mun betri, enda er hér lítið um einyrkja, því að margir eru óvæntir og búa þá saman systkini, feðgar o.s.frv.

L (13): Ef ég ætti að nefna eitthvað sameiginlegt einkenni á þessum samvinnubýlum, myndi ég helst telja það vera að fólkið þar væri yfirleitt frjálslegra og  yndi glaðara við sitt en fólk í einyrkjabúskap.

M (10): Allur búrekstur ætti að verða ódýrari, vélakostur nýtist betur, bústörfin verða ekki eins erfið, menn eru frjálsari og eiga hægara að sinna félags- og andlegum störfum. Ég tel, að félagsbúskapur sé það, sem eigi að koma. Það verður hann einn, sem getur leyst einyrkjabúskapinn af hólmi, en hann er að ganga sér til húðar.[8]

N (8): Það þýðingarmesta við félagsrekstur er, að friður og eining geti ríkt hjá aðilunum. Á því byggist allt. Ef svo getur verið, finnst mér þessi bú standa alveg upp úr, hvað fólkið er frjálsara. Það getur leyst hvað annað af og skroppið frá.  Hvað fjárhagslega afkomu snertir get ég ekkert sannað, því fyrir því hef ég engin gögn, en það er skoðun mín en aðeins skoðun, að fjárhagsafkoma þeirra sé betri en almennt gerist, sérstaklega ef bústærðin er ekki höfð of stór miðað við vinnuaflið, sem til er á búinu.

O (46): Almennt séð get ég sagt þér, að þau standa alveg upp úr hér í héraðinu þau bú, þar sem fleiri hendur vinna að búinu., þar sem er systkinabúskapur eða fjölskyldubúskapur. Maður tekur eftir því, hvað fólk á félagsbúum hefur það frjálsara, getur tekið þátt í félagslífi og yfirleitt sinnt erindum. Yfirleitt virðist mér ganga verst, þegar tveir vinna saman, og ég hef heyrt, að tvíbýli sé vafasamast til árangurs í samstarfi. Fjölbýlið er miklu happasælla.[9]

4. Bú felld úr úrtakinu

Til þess að gera gögnin samstæðari og hæfari til tölfræðilegrar úrvinnslu, voru þau bú tekin úr, þar sem einn bændanna hafði minna en helming tekna af búskap. Með því móti fækkaði búunum um 42% niður í 137. Oftast var ástæðan til þess, að tekjur af búskap voru hlutfallslega lágar, að menn stunduðu aðra atvinnu með búskapnum.

Til að fá mynd af samstarfsháttum á félagsbúum og viðhorfi félagsbænda til samstarfsins voru sendir spurningalistar á búin 137. Voru þá liðin tvö ár síðan fyrirspurnum var beint til ráðunautanna. Texti spurningalistans er birtur í 1. viðbæti. Svör bárust frá aðeins 53 búum, þó að spurningarnar væru ítrekaðar. Svona lítil skil munu þó ekki þykja óeðlileg í stofnunum landbúnaðarins. Frá þremur búum kom það svar, að þau gætu tæplega talist félagsbú, þó að ráðunautarnir hefðu talið svo vera. 106 bændur á 50 félagsbúum, sem þá voru eftir, höfðu heldur fleira búfé en meðaltal 137 búa. Annars vegar voru að meðaltali á bónda 8,3 kýr og 82 ær, en hins vegar 7,2 kýr og 82 ær. Ekki er gott að geta til, hvers vegna svör bárust síðar frá búum með minni bústofn á bónda. Áður en svör bændanna verða rakin, er rétt að minna á, að spurningalistinn hafði ekki nema 3-5 línur fyrir svar við hverri spurningu, sem var með óbundnum svörum. Það takmarkaði eðlilega svörin.

5. Samvinna á félagsbúum

Til þess að teljast félagsbú varð heyskapur að vera sameiginlegur. Á 16 búum af 50 átti hver sínar vélar, en á 34 voru heyskapartæki og vélar í sameign.

46 af 50 hirtu kýr sameiginlega, 29 af þeim 46 áttu kýr í séreign, en 17 í sameign. 45 af 49 hirtu sauðfé saman, 37 af þeim áttu kindur sérstaklega, en 8 áttu fé með öðrum aðilum félagsbúsins.

Á 9 félagsbúum voru tekjur utan búskaparins lagðar í sameiginlegan sjóð.

Rétt er að veita því athygli, að séreign á sauðfé var algengari en séreign á kúm. Munurinn er nokkuð marktækur.[10] Hins vegar var jafnalgengt, að sauðfé og kýr væru hirt sameiginlega.

Á tæplega þriðjungi búanna (16 búum af 50) var eins og áður segir séreign á vélum og tækjum, þó að heyskapur væri sameiginlegur. Svör bárust frá 15 búum af 16 um það, hvernig kostnaði var skipt:

 1. Viðhald er sameiginlegt (1 bú).
 2. Rekstrarkostnaður er sameiginleg. (2 bú).
 3. Rekstrarkostnaður skiptist á aðila, án þess að tekið væri fram hvernig (4 bú). Annar á mest af vélunum, en hinn á jörðina. Við látum það mætast (1 bú).
 4. Sonurinn kaupir áburð á flest heyskapartækin. Hann hefur fleiri skepnur, sem við látum koma upp í það (1 bú).
 5. Við höfum haft svipað magn af heyskapartækjum. Að öðru leyti slumpureikningur (1 bú).
 6. Skipt til helminga (3 bú).
 7. Kostnaði jafnað að mestu af handahófi, en með hliðsjón af bústærð (1 bú).

Það var vissulega yfirsjón að spyrja ekki, hvernig þeir, sem áttu verkfæri saman, skiptu með sér kostnaði, þar sem sameiginlegur rekstrarkostnaður fylgir ekki sjálfkrafa sameign. Þrátt fyrir það var upplýst á 5 búum, hvernig kostnaði var skipt. Á 2 búum var kostnaði skipt í hlutfalli við bústærð, á 2 var honum skipt í tvennt, en þar var raunar jafn bústofn á hvorn bónda, og á einu búi var kostnaður gerður upp mánaðarlega í hlutfalli við búfjáreign, en það má heita, að sé að skipta eftir bústærð.

Helst má því ætla, að vélakostnaði sé skipt eftir bústærð, en uppgjör er trúlega handahófskennt og vafalaust sjaldan samkvæmt skriflegum reglum.

Á þeim fáu búum, þar sem búfé var ekki hirt sameiginlega, var heyjum skipt eins og hér segir:

Öllum heyjum er skipt: Þegar hey er þurrkað, er það sett í bólstra (galta) og þeir hafðir sem jafnastir að stærð og koma jafnmargir í hluta hvers (1 bú, 4 bændur).

Heyjum er skipt strax á hverju túni fyrir sig til helminga að báðum viðstöddum og síðan ræður hlutkesti, hvor fær hvorn hlut (1 bú).

Hver á sín tún og hefur hey af sínum túnum (4 bú).

Heyjum er ekki skipt, en reynt að gefa svipað magn, eftir því sem hægt er (1 bú).

Á 13 búum af 49 var séreign á túni. Á einu þessara búa voru menn þinglýstir eigendur hvor fyrir sínum bletti, en það var aðeins formsatriði og kom ekki við búrekstrinum inn á við. Aðspurðir, hvernig þeir ákvæðu, í hvaða röð túnin skyldu slegin, svöruðu 7, að það væri gert, eftir því sem þau spryttu. 2 bættu því við, að þeir tækju tillit til þess, hvernig túnspildurnar lægju. Þessar ákvarðanir krefjast þess, að samstarf sé gott.

6. Skráning, skipting og verðlagning á vinnuframlagi

Á aðeins 2 búum var því svarað, að vinnuframlag væri skráð. Á 44 búum var því svarað neitandi. Á 11 búum var sagt, að vinnuframlag væri talið ójafnt. Á 11 búum var vinnuframlag sagt ójafnt. Á 11 búum var vinnuframlag sagt ójafnt. Spurt var: Ef vinnuframlag er ekki talið jafnt, hvernig var því þá skipt og hvernig er það látið jafna sig? Eftirfarandi 9 svör bárust:

 1. Frá félagsbúinu er ákveðin fjárhæð færð í einkareikning hvers aðila mánaðarlega. Á áramótum er vinnuframlag og úttekt hvers aðila gert upp og ógreiddar vinnustundir bókfærðar sem inneign til næsta árs, og færist sem vinnustundadagatal en ekki fjárhæð (1 bú með 3 bændum).
 2. Vinnuframlag hefur oft verið misjafnt en hefur verið látið jafna sig, ef ekki á hverju ári, þá á milli ára, enda er hér með skyldum að skipta (1 bú).
 3. Þar sem feðgar búa saman, er vinnuframlag ekki reiknað nákvæmlega (1 bú).
 4. Faðirinn á jörðina og leggur hana búinu til. Leiga er engin reiknuð sértaklega, en látin koma á móti því, sem sonurinn leggur fram meiri vinnu, — allt eftir nánara samkomulagi (2 bú).
 5. Við höfum látið vinnuframlagið vera jafnt, en þó stundum jafnað það með andvirði selds heys (1 bú).
 6. Mjög ónákvæm skipting á vinnu, en þó ögn reynt að taka tillit til bústærðar, eftir því sem hægt er ( 1 bú).
 7. Sá, sem hefur meira vinnuafl, hefur stærri bústofn (1 bú).
 8. Í fyrstu var vinnuframlag feðga talið jafnt, en framlag föðurins fór minnkandi, eftir því sem aldurinn hækkaði og er nú talið ¼. Tekjuskipting hefur farið nákvæmlega eftir vinnuframlagi og bústofnseign, en ekki fasteign (1 bú).

Vinnuframlagið er talið jafnt, en faðirinn er farinn að tapa starfsorku vegna slits og aldurs. Hann á langtum meira af búvélum og peningahúsum. Er það látið jafna vinnuframlagið. Sonurinn hefur fulla starfsorku, en faðirinn er 66 ára.

Að þessum upplýsingum fengum virðist mega álykta, að uppgjör fyrir vinnuframlag sé mjög af handahófi. Kemur því mjög til kasta sameiginlegra hagsmuna fjölskyldunnar. Oftast er vinnuframlag þó talið jafnt, og er það af mörgum talið æskilegast, eins og síðar kemur fram.

7. Verkaskipting

Varðandi verkaskiptingu meðal félagsbænda hafði ég sett fram þá tilgátu, að hirðing sauðfjár ásamt erindrekstri í kaupstað félli mest á eldri kynslóðina, en yngri bændurnir fengju það verk að hirða kýr, vinna með vélum og gera við þær. Þetta reyndist vera svo, að því er varðar vélarnar. Á 18 búum var tekið fram, að föst verkaskipting væri um vélarnar, m.ö.o. sérhæfing. Á 15 þessara búa höfðu yngri bændurnir vélavinnuna. Ekki varð greindur neinn kynslóðarmunur í öðrum verkum.

Það var mjög breytilegt, hversu víðtæk eða skýr verkaskiptingin var. Á 32 spurningalistum af 50, sem bárust, voru upplýsingar um verkaskiptingu. Spurningin hljóðaði svo: Gerið svo vel að gera grein fyrir, hvernig verkaskiptingu er háttað milli ykkar. Falla fjósverk, fjárhirðing, vélavinna, vélaviðgerðir, reikningshald og útréttingar meira á einn en annan, og hvernig þá?

Eftirfarandi verk var tekið fram, að væru unnin af einum bændanna sérstaklega: Fjárhirðing (8 bændur), hirðing á hrossum ( 1 bóndi), fjósverk (1 bóndi), fjósverk nema mjaltir (3 bændur), mjaltir (1 bóndi), búfjárhirðing (2 bændur), (auk þess voru vikuleg verkaskipti á einu búi um fjárhirðingu og fjósverk), skýrsluhald vegna kynbóta (2 bændur), heilsufarseftirlit (1 bóndi), kjarnfóðurgjöf (1 bóndi), vélaviðgerðir (4 bændur), viðhald véla (3 bændur), vélavinna nema um hásumar (1 bóndi), vélavinna hásumar (1 bóndi), vélar yfirleitt (7 bændur), það sem reynir yfirleitt minna á tæknilega hæfileika (1 bóndi), nýsmíði (1 bóndi), viðhald húsa (1 bóndi), viðhald girðinga (1 bóndi), útréttingar (9 bændur), bókhald (11 bændur).

Af þessu má sjá, að verkaskipting er ekki umfangsmikil. Um sum verk virtist frekar vera verkaskipting en önnur. Er það allt, sem að vélum lýtur fyrst og fremst, síðan reikningshald, útréttingar og hirðing sauðfjár. Þegar verkefni eru látin í hendur einum ákveðnum manni, virðist ástæðan sumpart vera, að verkið er ekki meira en svo, að það er viðráðanlegt fyrir einn mann, sumpart er útilokað, að sumir geti unnið verkið með viðunandi árangri (t.d. sumir rosknir menn með vélar), en einnig er um það að ræða, að verkin krefjast sérstakrar reglu og æfingar (t.d. bókhald og viðhald véla). Á búi þriggja bænda var skipulögð verkaskipting. Yngri sonurinn sá að mestu um allt bókhald, eldri sonurinn sá að mestu um vélaviðhald, yngri sonurinn að mestu um mjaltir, önnur fjósverk eftir aðstæðum hverju sinni, utan hvað faðir þeirra bræðra sá um allt skýrsluhald viðkomandi kúnum.

Útréttingar önnuðust allir aðilar eftir ástæðum.  „Annars er stefnt að því, að hver og einn geti leyst hinn af hólmi, þegar henta þykir.“ Setur þetta verkaskiptingu nokkur takmörk, ef mönnum er mjög í mun að geta vikið sér frá eða forfallast án vandræða fyrir búið. Um verkaskiptingu almennt skrifaði einn bændanna þriggja: „Loks er dagleg verkstjórn nokkurt vandamál. Tel ég að nauðsynlegt sé, að einn aðilinn hafi hana á hendi, þar eð ráðrúm gefst ekki alltaf til að leita samþykkis allra aðila á hverju smáatriði. T.d. við heyskap þarf iðulega að taka skjótar ákvarðanir og framfylgja þeim af fullum krafti. Til að vega upp á móti þessu er heppilegt, að hver aðili hafi sitt verksvið í búrekstrinum, s.s. nautgriparækt og hirðingu kúa, umsjón með sauðfé, jarðrækt eða vélbúnaði.“ – Þessar athugasemdir eru mjög í samræmi við reynslu manna af vélahringum í Noregi.

8. Skilyrði sem ráða því hvenær kynslóðaskipti fara fram

Eins og síðar mun koma ljósar fram, eru margir þeirrar skoðunar, að félagsbú með bændum af tveimur kynslóðum beri fyrst og fremst að líta á sem fyrirkomulag til að flytja búreksturinn milli kynslóða. Þetta gerist ekki innan neins skipulags, sem stutt er lögum. Ekki virðist heldur hægt að koma auga á neinar reglur um það, hver í röðinni tekur við, ef um barnahóp er að ræða, ef það er þá nokkur, sem við tekur. Það er víst, að ekkert regluboð er til í þá áttina eins og tíðkast t.d. í Noregi, að elsti sonur skuli taka við búi. Ég vil því fyrst um sinn ætla, að þessu ráði einungis hagsmunir bónda að láta búið af hendi og hagsmunir sonar eða tengdasonar að taka við búi. Hagmunir eldri bóndans munu oft vera blandaðir. Hann telur sig hafa hag af aðstoð við búskapinn, einkum á efri árum, og þá helst frá sínu fólki. Hann vill helst draga saman seglin, eftir því sem vinnuþrek og þarfir minnka. Hann þarf helst að byrja að láta búið af hendi svo snemma, að sá, sem ætti að taka við, hafi ekki áður komið sér fyrir á annarri jörð eða í öðru starfi. Það er ekki ráðlegt, að bíða með að bjóða yngsta barni þátttöku í búinu, þar sem alltaf er nokkur hætta á, að yngsta barnið kæri sig alls ekki um að búa á móti honum, en þegar svo er komið, kunna hin börnin að hafa fest ráð sitt annars staðar. Það er því hyggilegt að hafa yngstu börnin til vara, ef hin vilja ekki taka við búinu.

Þetta ætti að ýta á eftir bónda að byrja snemma að deila búi með öðrum. Annað heldur aftur af honum, einkum það að gæði jarðarinnar er takmörkuð, þannig að vinnutekjur á mann minnka eftir því sem bætt er fleira fólki á búið. Oft vill vöxtur í vinnuafli fylgja því, að bú er flutt á milli kynslóða á nokkru tímabili. Slíkt aukið vinnuafl má nýta betur með því að bæta jörðina með fjárfestingu, einkum nýrækt, útihúsum og með auknum bústofni. Þessi vöxtur vinnuaflsins er tímabundinn. Annað vinnuafl óvandabundið jafngott mun oft ætla sér hærri tekjur en vandabundið fólk. Fjárfesting, sem stendur undir vinnuafli vandamanna, kann því að vera of dýr til að standa undir óvandabundnu vinnuafli. Reikningslega þarf að mæta því með því að fyrna fjárfestinguna hraðar en ella.

Þetta síðasta atriði, um að nauðsynlegt kunni að vera að fyrna fjármuni hraðar en ella til þess að mæta því, að vandabundin aðstoð er tímabundin, kann þó að vera léttara á metunum nú á dögum. Þetta stafar af því, að þeir fjármunir, sem áður hæfðu 2-3 starfandi mönnum, hæfa nú 1-2 mönnum. Ef sú þróun, sem verið hefur, heldur áfram, munu þeir fjármunir, sem nú hæfa félagsbúi tveggja bænda, verða fullnýttir á venjulegu búi innan tíðar og því ekki þörf á að fyrna, þá hraðar í bókhaldi en þeir úreldast í reynd. Ef það tekur alllangan tíma að flytja bú alveg úr höndum föður til sonar eða tengdasonar, kunna börn yngri bóndans að vera komin á þann aldur, að ný mannaskipti geta hafist, þegar hinum fyrri er lokið.

Eftirfarandi breytingar á fjölskylduskipan geta því, eins og fram mun koma, haft áhrif á skilyrðin fyrir félagsbúi með bændum af tveimur kynslóðum.

 1. Eftir því sem hjúskaparaldur lækkar eykst þörfin fyrir auknar tekjur af búinu handa nýja bóndanum. Þá verður nauðsynlegt að auka fjármuni búsins fyrr en ella, þar sem það tímabil, sem báðir eru starfandi verður lengra en ella.
 2. Ef eldri bóndinn er vinnufær lengur en áður var, verður meiri þörf á viðbótarfjármunum til að nýta vinnuaflið, meðan báðir eru í starfi.
 3. Ef unglingar leggja minni vinnu af mörkum vegna lengri skólagöngu, eykst vinnuframlagið snöggar en áður, þegar sonur vill taka við búi. Áður var talað um, að þriðja kynslóðin gæti komið í stað elstu kynslóðar, þegar hún fer að draga saman seglin. Þess verður síður kostur, þegar unglingar eru mikið í skóla.
 4. Fækkun barna á heimili gerir vinnuframlag heimilisfólksins ójafnara með tímanum. Óvissan um það, hvort nokkurt barnanna muni vilja taka við búi, eykst. Styttra barneignaskeið eykur einnig sveiflurnar, sem verða á vinnuframlagi fjölskyldunnar.

Við gagnasöfnun vegna þessa verks var mér ekki ljóst, að umræddar breytingar á fjölskylduskipan gætu haft áhrif á það, hversu tíð félagsbú væru. Þess vegna vantar að mestu tölur, sem gætu lýst því, á hvern veg þær breytingar hafa orðið, sem nefndar eru í atriðunum fjórum. Þó eru til nokkrar upplýsingar þess efnis.

Hjúskaparaldur í landinu hefur lækkað nokkuð í heild. Ekki er kunnugt um það, hvort hann hefur fallið í sveitunum. Á þeim búum, þar sem voru tvær kynslóðir af bændum og svör bárust frá, var hjúskaparaldur yngri kynslóðar bænda að meðaltali 25,8 ár, en hjúskaparaldur eldri kynslóðar bænda að meðaltali 27,0 ár. Munurinn er nokkurn veginn marktækur. Aldur bænda yngri kynslóðarinnar var að meðaltali 25,5 ár, þegar þeir hófu búskap, en aldur bænda eldri kynslóðarinnar var 27,0 ár að meðaltali. Munurinn er marktækur. Af þessum tölum verður þó ekki dregin sú ályktun, að bændur almennt giftist nú yngri en áður né hefji búskap fyrr. Meðalaldur bænda eldri kynslóðarinnar, þegar þeir tóku yngri bónda í búið, var 56,4 ár.

Ég hygg, að öll umrædd atriði hafi haft áhrif á íslenskan landbúnað undanfarið. Enn er þó aðeins um tilgátur að ræða. Þær verða ekki sannreyndar í þetta sinn. Ætla má, að þessi atriði skýri að nokkru leyti hinn mikla áhuga, sem verið hefur á félagsbúum undanfarið. Þessi atriði hafa þó ekki komið fram við opinberar umræður. Ég set fram tilgátu: Félagsbú bænda af tveimur kynslóðum koma helst fram, þegar annaðhvort eldri bóndinn hefur hafið hjúskap og eignast börn (helst syni) snemma eða yngri bóndinn hefur hafið hjúskap snemma, eða helst hvort tveggja hafi gerst, þannig að þá verða tvær kynslóðir bænda tiltölulega lengi vinnufærar samtímis. Þessi tilgáta byggir á því, að framleiðsluföngin séu aðhæfð fjölskylduástæðum. Gagnstæð tilgáta um, að hjúskaparaldurinn mótist af framleiðsluskilyrðum er þessi: Á félagsbúum er hjúskaparaldur yngri kynslóðarinnar líkari því sem gerist, þar sem vaxtarskilyrði hafa verið góð og veruleg fólksfjölgun, vegna þess að félagsbú hafa myndast á jörðum, sem báru vel fleiri heimili. Á öðrum búum er hjúskaparaldur hærri vegna þess að takmarkaðir landkostir töfðu stofnun nýrra heimila.

9. Hvers vegna menn töldu sig hafa hafið félagsrekstur

Í 2. viðbæti eru rakin svör félagsbænda, hvers vegna þeir höfðu kosið félagsbúskap. Á spurningalistanum var ekki gefið í skyn, að félagsbú væri fyrirkomulag til að færa bú smám saman milli kynslóða. Því fremur er það áberandi, hversu algengt það er, að menn svari því, að menn völdu félagsbúskap einmitt vegna þeirra hluta. Þá þyrfti að vita líka, hvernig staða og afstaða þessara bænda var öðru vísi en þeirra, sem ekki stunda félagsbúskap. Það hefur ekki verið kannað, en hér verður ætlað, að hagstæð skilyrði til búrekstrar (sjá nánar um það síðar) og stutt bil á milli kynslóða fari saman. Það er vitað, að meðalaldur félagsbænda, þegar þeir hófu búskap, var lægri en meðalaldur úrtaksbænda í rannsókninni á samvinnu nágranna.[11] Meðalaldur félagsbænda var, eins og þegar er tekið fram, 25.5 og 27,0 ár, en meðalaldur bændanna 50 í þeirri rannsókn var 28,0 ár. Munurinn er nokkurn veginn marktækur.

Ekki var sendur spurningalisti á þau bú, þar sem einn bændanna hafði minna en helming tekna sinna af búskap. Þrátt fyrir það kom svar frá tveimur búum um að menn stunduðu búskap saman til að auðvelda sér að vinna utan búsins. Grunur leikur á, að þetta gildi oftar. Þetta er eðlilegt, þar sem búfjárræktin er eins ríkjandi og hér og því nauðsynlegt að vera leystur af, ef menn vilja víkja sér frá til að vinna annars staðar.

10. Hvað menn hefðu gert að öðrum kosti

Á spurningarlistanum, sem sendur var á 137 félagsbú, var þessi spurning lögð fyrir hvern bónda: Ef ekki hefði verið um samrekstur að ræða, til hvaða ráða hefðir þú gripið þá? Þessu svöruðu 65 bændur, 24 þeirra af eldri kynslóðinni. Svörin voru stutt. Þau má flokka þannig: 10 af eldri kynslóðinni töldu, að þeir hefðu orðið að bregða búi, 3 töldu, að þeir hefðu haldið áfram búskap, en dregið hann saman, og 11 svöruðu því, að þeir hefðu haldið áfram búskap, án þess að segja nokkuð um það, hvort að þeir hefðu dregið saman seglin. Af þessum 11 tók 1 fram, að hann hefði haldið áfram búskap á eigin spýtur.

Svör hinna bændanna, en þeir voru 41, voru þessi: 23 ætluðu, að þeir hefðu valið annað starf, 1, að hann hefði annaðhvort kosið sér annað starf eða búið upp á eigin spýtur, og 17 kváðust hafa orðið bændur, hvað sem félagsbúskap liði. Af þessum 17 notuðu 9 orðið einyrki, 2 af 17 kváðust tekið fólk í vinnu, þegar þurft hefði.

Hversu háður félagsbúskapur er ástæðum, sem menn ráða ekki við, má ætla af því, að einungis 4 svöruðu ákveðið eftirfarandi spurningu: Hvað gerir þú ráð fyrir að halda samrekstri lengi áfram? Þetta hlýtur að stafa af því, að eldri kynslóðin hættir félagsbúskap og búskap yfirleitt, þegar heilsa og líf bregst. Ekki er auðvelt að sjá fyrir, hvenær það verður.

Svör við spurningum um það , hvað menn hygðust gera undir kringumstæðum, sem menn búa ekki við og hafa ef til vill aldrei búið við, ber að dæma með varfærni. Í ljósi þeirra ástæðna, sem menn höfðu til að hefja félagsbúskap, má þó ætla, að svörin bendi til þess að félagsbúskapur sé ekki óvenjuleg aðferð til að halda bændastéttinni við. Einnig má ætla, að hann lengi starfstíma roskinna bænda. Af því verður þó ekki dregin sú ályktun, að hér sé um að ræða nauðsynlegan þátt í viðhaldi bændastéttarinnar. Ef sá þáttur brygðist, en eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum væri nokkurn veginn óbreytt má nefnilega ætla að verðlag á landbúnaðarafurðum eða verðlag á framleiðsluföngum landbúnaðarins breyttist, þannig að séð væri fyrir þeirri bændatölu, sem fullnægði eftirspurninni. Án þessarar aðferðar til að flytja bú á milli kynslóða mætti jafnvel hugsa sér, að það yrði að bætast örar í stéttina, af því að rosknir bændur fengju ekki þá aðstoð, sem gerði þeim fært að draga saman seglin án þess að hætta alveg; með öðrum orðum sagt myndi hver kynslóð stunda búskap skemur. Þar sem meira en helmingur yngri bænda svarar á þá leið, að félagsbúskapur hafi verið úrslitaatriði fyrir starfsval þeirra, hefðu þeir trúlega ekki hafið búskap nema tekjuútlit hafi verið mun betra, ef ekki hefði verið kostur á félagsbúskap. Án þess að menn ættu kost á félagsbúskap og það þætti stundum betri kostur en einyrkjabúskapur, hefði vinnuafl við landbúnað því orðið dýrara.

11. Kostir félagsrekstrar

Félagsbúskapur er að sjálfsögðu fyrst og fremst aðferð til að sjá sér farborða. Auk þess ætti það nú að vera ljóst, að flestir skoða hann sem aðferð til að flytja bú á milli kynslóða. Sömuleiðis að félagsbúskapur er að vissu marki háður fjarlægð milli kynslóða í aldri og hjúskaparaldri. Þar sem aðrar leiðir eru til að flytja bú á milli kynslóða, skýrir þetta ekki til fullnustu þá kosti, sem félagsbændur telja fylgja félagsrekstri, hvorki búum, þar sem eru tvær kynslóðir bænda og enn síður, þar sem bændurnir eru af sömu kynslóð. Eftirfarandi spurning á spurningalistanum átti að skýra þetta mál: Hvað telur þú af fenginni reynslu samrekstri til gildis? Svörin voru mjög breytileg. Ekki varð greindur neinn munur á svörum eftir því, hvort um var að ræða bændur af einni eða tveimur kynslóðum á búinu að slepptum þeim fjórum, sem nefndu, að auðveldara væri að taka við búi. Ég hef flokkað svörin, eins og hér greinir. Fyrst koma þau atriði, sem oftast koma fyrir. Í sviga er tala bænda, sem nefndu atriðið.

a)Beinir hagsmunir (84 bændur)

Betri nýting á vélum og verkfærum, skilyrði til aukinnar vélvæðingar eða ódýrari vélvæðingar (62 bændur). (Hugmyndin um betri nýtingu véla stenst ekki nema að litlu leyti, bætti einn bóndi við, en á því búi voru fjórir giftir bændur).

Margs konar kostnaður lækkar á grip (1 bóndi).

Stærri og fullkomnari útihús (1 bóndi).

Útihús nýtast betur, verða ódýrari (6 bændur).

Búið verður minna háð kaupgjaldi (3 bændur).

Búið sparar aðkeypt vinnuafl ( 1 bóndi).

Almennt kostur, ef einungis er litið á efnahaginn (1 bóndi).

Minni fjárfestingar- og rekstrarkostnaður (2 bændur).

Fjárhagslega hægara (3 bændur).

Ódýrari fjárfesting og rekstur ( 2 bændur).

Það er hægt að búa stærra (1 bóndi).

Fjárfesting er auðveldari (1 bóndi).

Kostirnir við vélvæðingu eru mest áberandi hér. Orð sumra má skilja svo, að þeir eigi við, að vélafjármunir á mann verði minni, en aðra, að aukin vélvæðing geti borgað sig betur. Við hvoru tveggja má búast. Getur það farið eftir skilyrðum til vélvæðingar og búreksturs yfirleitt í viðkomandi búi. – Þetta voru svokallaðir beinir hagsmunir. Aðrir kostir kunna vissulega að vera efnahagslegir á einhvern hátt, þó að ekki séu þeir kallaðir svo. Geta þeir verið hvort heldur sem er hagrænir í afleiðingum, þó að ástæður kunna að vera annað en hagrænar eða mönnum gangi til hagrænar ástæður, þó að það komi ekki fram beinlínis.

b)Frí og orlof (63 bændur)

Betri skilyrði til að taka sér frí (62 bændur).

Frjálsara og skemmtilegra á allan hátt (1 bóndi).

Þessir 62 bændur notuðu að vísu ýmislegt orðalag. Algengt orðalag benti til þess, að menn hefðu í huga skilyrði til að bregða sér að heiman. 6 nefndu skilyrði til vinnu utan heimilis.

c)Öryggi (37 bændur)

Meira öryggi ef sjúkdóma eða óhöpp ber að höndum (31 bóndi).

Meira öryggi (6 bændur).

d)Verkaskipting (15 bændur)

Skilyrði til sérhæfingar og verkaskiptingar (14 bændur) (af því að fólk bætir hvort annað venjulega upp, bætti einn bóndi við).

Einn maður getur tekið að sér útréttingar fyrir búið (1 bóndi).

Útréttingar geta verið örðugar einyrkja, sem þarf að hirða marga gripi og á langt í kaupstað. Því skilyrði að auðvelda útréttingar er fullnægt undir b-lið (frí og orlof).

e)Verkefni sem eru einum erfið (14 bændur)

Léttir verk, sem eru of erfið einum (13 bændur). (Sumir taka fram fjárhirðingu).

Betur sjá augu en auga (1 bóndi).

f)  Vinnan nýtist betur, verður hægari (33 bændur)

Léttir vinnuna (14 bændur).

Miklu léttara (1 bóndi).

Vinnan nýtist betur (18 bændur).

d, e og f heyra eðlilega saman.

g) Ánægjuleg samskipti

Skemmtilegra að vera ekki einn í ráðum og deila áhugamálum með öðrum (1 bóndi).

Skemmtilegra (2 bændur).

Einangrunin verður ekki eins tilfinnanleg (1 bóndi).

Skemmtilegra að vinna einstök verk saman (1 bóndi).

Góð sambúð (1 bóndi).

h) Auðveldara að taka við búi (4 bændur)

Faðir styður son og sonur föður við færslu búsins milli kynslóða ( 1 bóndi).

Miklu auðveldara að byrja (1 bóndi).

Auðveldari fjárfesting (1 bóndi).

Þetta kann að virðast lítið eftir það, sem sagt hefur verið um félagabúskap sem aðferð til að flytja bú milli kynslóða. Menn höfðu hins vegar gert grein fyrir því atriði í spurningunni: Hvers vegna valdir þú samrekstur?

i) Engir kostir (2 bændur)

Tveir vissu fáa kosti við félagsbúskap.

Samandregið má segja um þá kosti, sem menn telja við félagsbúskap, að þar kemur í fyrstu röð kostir við vélvæðingu og fjárfestingu yfirleitt. Þar næst kemur frí og orlof og þá sérstaklega skilyrði til að komast að heima. Í þriðja lagi kemur öryggi vegna veikinda og slysa. Ýmsir kostir vegna skipulagningar verka komu síðan sem fjórði helsti flokkurinn. Allir þessir kostir geta talist hagrænir, þar sem þeim fylgir efnahagslegur ávinningur eða þeir spara aðkeypta aðstoð.

12. Ókostir félagsbúskapar

Félagsbændur voru spurðir þessarar spurningar: „Hvaða annmarka telur þú á samrekstri?“ Spurningunni var ekki svarað eins vandlega og fyrri spurningu um kosti félagsbúskapar. Ókostir voru nefndir aðeins 50, en kostir 258 sinnum. Í spurningunni um kosti var sagt „Að fenginni reynslu“, en það var ekki gert varðandi ókostina. Kann það að hafa valdið því, að svörin urðu almenns eðlis. Svörin kunna að vera svo fá, vegna þess að menn vilja síður flíka vandræðum sínum. Það á við um bæði kosti og ókosti, að svörin gilda einungis fyrir þá, sem hafa kosið sér félagsrekstur til handa. Ekki hefur verið kannað, hvaða skoðanir aðrir hafa á málinu að fráteknum héraðsráðunautunum, sem sagt hefur verið frá.

Svörin voru eins og tekið hefur verið fram almenns eðlis og mjög breytileg í orðalagi, svo að það er nokkrum vandkvæðum bundið að flokka þau. Þó má koma auga á vissar línur. Venjulegast var talið vandkvæði við félagsbúskap, að fólk geti ekki unnið saman af persónulegum ástæðum (einstaklingshyggjufólk, getur ekki tekið tillit hvert til annars, er misjafnlega skapi farið, er smámunasamt). Sum svörin miðast við þær kringumstæður, sem menn bregðast í: Efnahagur fólks er misjafn, fólk sækist ekki eftir því sama, á misjafnlega mörg börn og er misduglegt. Fáeinir taka fram, að stjórn búsins verður erfiðari, af því að reksturinn verður stærri í sniðum og vegna nefndra persónulegra eiginleika. Fjórir telja ekki víst, að þátttakendur leggi sig eins fram, þar sem árangurinn skiptist. Tveir nefna örðugleika á að skipta búinu, ef að því rekur, og einn nefnir vandkvæði á að halda áfram búskapnum, ef einhver aðili hættir búskap.

13. Nauðsynleg skilyrði fyrir félagsrekstri

Nú hefur verið rakið, hvað félagsbændur töldu sér hafa gengið til með félagsbúskap og hvaða kosti og ókosti þeir sjá þar á. Nokkuð má ráða af því, hvernig þeir svöruðu síðustu spurningunni, en hún var orðuð svo: „Hvaða skilyrði verður að fullnægja til þess að samrekstur geti notið sín?“ Það er ljóst, að menn hafa mjög frjálsar hendur, hvernig þeir svara slíkri spurningu, sem ekki fylgja bundin svör. Sumir nefndu skilyrði, sem aðrir hafa talið svo sjálfsögð, að þeir hafa ekki séð ástæðu til að taka þau fram. Það hefur aðeins lítillega verið kannað hvort það stenst, að þau skilyrði, sem nefnd eru, séu nauðsynleg.

Skilyrðin hafa verið flokkuð í fernt. Sú flokkun er að sjálfsögðu ekki skýlaus. Flokkarnir eru: a) ytri kringumstæður, b) skipulagsatriði, c) sérstakar óskir og hæfileikar og d) persónulegir eiginleikar eða skapgerðareinkenni.

a) Ytri kringumstæður

13 taka fram, að jörðin verði að bera fleiri en eitt heimili, svo að kjörin verði bærileg eða viðunandi og búskapur geti aukist á jörðinni. Þetta er auðvitað hvað öðru skylt. Þessu skilyrði, má ætla, að verði að fullnægja frá byrjun. Án þeirra kæmi félagsbúskapur ekki til greina.

Að nokkru leyti gera bændur sjálfir ráðið stærð búa sinna. Einkum má segja það um kúabúskapinn á flestum jörðum, þar sem hann byggist að mestu á ræktun og víðast má rækta mikið land. Þetta kann að vera ástæðan til þess, að aðeins 13 nefna þetta skilyrði um jörðina. Annars nefna menn, að efnahagur manna þurfi að vera líkur, að fjárfesting þurfi að vera lík í upphafi, að bændurnir þurfi að vera á líkum aldri og geta lagt fram jafnmikið vinnuafl. (Hvert atriði var nefnt tvisvar).

Meðal þeirra skilyrða, sem bændur gátu ráðið við sjálfir, var það oftast nefnt að heimilishald skuli vera aðskilið. Sumir tóku það fram, að helst skuli íbúðirnar hafa sérinngang, og einu sinni er sérhús talið skilyrði (13, 4 og 1 svar í þessari röð, samtals 18 svör). Þrír nefndu, að húsakynni og útbúnaður húss skuli vera líkt. Einn þessara taldi, að það verði að tryggja með því að félagsbúið kosti útbúnaðinn. Það er skylt þeirri ástæðu, sem annar færði fram fyrir því, að efnahagurinn, þyrfti að vera rúmur. Þá væri unnt að sinna ólíkum þörfum, t.d. vegna misjafns barnafjölda, án þess að heimili sem hefði minni þarfir, þyrfti að líða fyrir það og finna til þess, að ekki væri samræmi milli þess, sem menn legðu af mörkum og þess, sem menn fengju úthlutað.

b) Skipulagatriði

26 sinnum voru nefnd skilyrði, sem lúta að skipulagi félagsbúskaparins. 9 nefndu, að skýrt bókhald væri nauðsynlegt, 8 nefndu skilyrði um, að verkum væri skipt skipulega með þátttakendum, og 4 töldu, að skriflegur samningur þyrfti að vera um búskapinn. Auk þess telur einn þurfa lög og opinberan stuðning við félagsbú; annar, að ekki sé nóg, að samrekstur sé á búinu, heldur þurfi það að vera í sameign; sá þriðji, að tekjur utan bús renni í sameiginlegan sjóð; sá fjórði, að unglingum þurfi að greiða kaup, eins og þeir væru aðkomnir, og sá fimmti, að jörðin þurfi að vera óðal.

c) Sérstakar óskir og hæfileikar

Samtals 12 sinnum voru nefnd skilyrði varðandi óskir um búskaparlag eða hæfileika til að stunda búskap. Þau voru öll á þá lund, að áhugamálin, sjónarmiðin og hæfileikarnir ættu að vera eins.

d) Persónulegir eiginleikar

Skilyrði, sem kalla má persónulega eiginleika voru nefnd oftast, alls 90 sinnum. Slíkir eiginleikar eru ekki óháðir fyrirkomulagi félagsbúskapar og ytri kringumstæðum, og verður því að skoða þá í því ljóst. Fyrst má minna á, að með einni undantekningu voru öll félagsbúin rekin af einni fjölskyldu. Náinn skyldleiki hlýtur því að vera mikilvægt skilyrði. Nokkrir taka líka fram, að aðilar þurfi að vera skyldir.

Mest áhersla er lögð á eiginleka, sem lúta að hæfileikum til að starfa saman, samstöðu og góðum skilningi (nefnt 65 sinnum). Aðrir eiginleikar, sem nauðsynlegir töldust, er það, að menn dragi hvergi af sér, en vinni af kappi að hag heildarinnar, að menn séu reglusamir og heiðarlegir. Fjórir taka það fram, að aðilar þurfi að þekkjast náið áður.

Sú áhersla, sem lögð er á persónulega eiginleika, er ugglaust háð því, að samstarf á félagsbúum fer nær alltaf fram án stuðnings við skriflega samninga og að aðilar hafa jafnan rétt til áhrifa. Það er satt að segja erfitt að hugsa sér þann samning, sem átt gæti við allar hinar fjölbreytilegu kringumstæður, sem orðið geta á félagsbúi. Því reynir mikið á samstarfshæfileika.

14. Gögn við útreikninga

Fram til ársins 1963 voru gerðar búnaðarskýrslur úr skattframtölum bænda og þeim safnað á Hagstofu Íslands. Í þessar búnaðarskýrslu voru sóttar upplýsingar um rekstur félagsbúa árið 1963. Talið hefur verið af kunnugum mönnum, að búnaðarskýrslur væru almennt nokkuð traust heimild um búskap þeirra, sem hafa aðalframfæri sitt af landbúnaði. Á þetta helst við um aðalafurðir landbúnaðarins, mjólkurmagn og lambakjöt, en fallþungi var ekki færður í búnaðarskýrslur, og helstu kostnaðarliði, kjarnfóður og tilbúinn áburð. Heimildir um aðrar afurðir en mjólk og lömb voru heldur lakari, og ætla má, að þær séu vantaldar. Í heild skipta þessar afurðir ekki miklu máli í íslenskum landbúnaði. Nefna má óvissa kostnaðarliði. Er þar helst fyrningar á vélum og verkfærum, sem færð eru á innkaupsverði, en það verður miklu lægra en endurkaupsverð vegna örrar verðbólgu. Ætla má, að reksturskostnaður véla hafi verið vantalin og sömuleiðis safnliðurinn „annar reksturskostnaður“. Laun bæði greidd laun og launatekjur, er óviss liður. Einkum á það við um laun greidd fjölskyldu bónda. Skekkjur á þessum liðum má ætla, að komi nokkuð jafnt fyrir á félagsbúum og öðrum búum.

Upphaflega náði safnið til 237, þegar felld voru úr bú, þar sem einn eða fleiri bændur höfðu meira en helming tekna utan landbúnaðar. Á móti hverjum bónda á 137 félagsbúum var valinn bóndi í sama hreppi, fæddur sama áratug, bóndi, sem var einyrki að mestu. Ef ekki fannst slíkur bóndi í sama hreppi, var leitað í næsta hrepp, og eins ef ekki fannst bóndi fæddur á sama áratug, var leitað að bónda, sem fæddur var næsta áratug. Safnað var upplýsingum um búrekstur þessara bænda. Þannig voru bændur spyrtir saman. Í hverri spyrðu var félagsbú og jafnmargir einyrkjar og bændur á félagsbúinu (2, 3 eða 4 bændur). Ef upplýsingar um einn þessara bænda voru verulega tortryggilegar, var öll spyrðan felld úr safninu. Þannig urðu eftir 93 félagsbú með samtals 189 félagsbændur (90 félagsbú með 2 bændur og 3 með 3).

Meðalbústærð var 7,3 kýr og 82 ær á 93 félagsbúum, en var 7,2 kýr og 82 ær á 137 félagsbúum. Munurinn á bústærð var því óverulegur á búunum, sem felld voru úr og þeim, sem urðu eftir. Upplýsingar um tekjur, fjármagn, fóðuröflun og þátttöku í félögum eiga við 137 bú. Aðrar upplýsingar, eins og þær, sem notaðar voru til að áætla framleiðslufall og jaðarsteygni, eiga við 93 félagsbú (189 félagsbændur) og samanburðarhóp 189 einyrkja.

15. Munur á afkastagetu einyrkjabúa og félagsbúa

Til að áætla, hvort afkastageta félagsbúa og einyrkjabúa væri ólík, voru reiknuð tvenns konar framleiðsluföll fyrir hvort búasafnið um sig. Annað var transcendental-fall, en hitt Cobb-Douglas fall.[12] Ef tekinn er lógaritmi af hvoru tveggja fallinu verður það að línuaðhvarfslíkingu. Framleiðsla í föllunum var samanlagðar framleiðslutekjur búsins, þar með launatekjur bónda. Hægri breytistærðir voru 1) Greidd laun, kr., 2) vélakostnaður, kr., 3) tilbúinn áburður, kr., 4) barnafjöldi, 5) kjarnfóður, kr., 6) safnliðurinn annar reksturskostnaður, kr., 7) kúatala, 8) ærtala, 9) túnstærð, 10) stærð nýræktar, 11) fjárfesting í byggingum á árinu og 12) þegar bæði söfnin voru reiknuð saman „blindur“ þáttur, sem hafði gildi 1 á félagsbúum, en annars 0. Breytistærðir fyrir hvert félagsbú voru reiknaðar með því að deila með bændatölu búsins í stærð liðarins á öllu búinu. (Hann var fundinn með samlagningu, þegar hver bóndi búsins hafði sérframtal). Þeir þættir aðrir en „blindi“ þátturinn, sem gátu haft stærðina 0 á einu búi, voru margfaldaðir með 100 eða 1000 og lagður við 1. Þetta er nauðsynlegt að gera vegna stærðfræðilegs forms fallanna, en hefur ekki áhrif á niðurstöður.

Í þetta vantar mikilvægan framleiðsluþátt, vinnu bónda. Búnaðarskýrslur höfðu ekkert um hana að segja. Í líkingum bar að skilja það svo, að vinna bónda væri hluti af fastanum í fallinu. Raunar er tala hægri breytistærða í mesta lagi. Þær, sem hér voru teknar með, lækkuðu þó afgangsfervirkið marktækt. Samlagning á óskyldum liðum er líka varasöm, eins og þurft hefði að gera, ef fækka átti breytistærðum.

Annað framleiðslufallið, transcendentalfallið, sýndi þá niðurstöðu, að vænta mátti 18% minni framleiðslu á félagsbúum, ef notað var jafnmikið af öllum tilgreindum þáttum í hvoru safninu um sig. Talan 18% var ekki örugg, en talsverðar líkur voru á, að framleiðslan á félagsbúum yrði minni en á einyrkjabúum.

Niðurstaðan af útreikningum með hinu framleiðslufallinu, Cobb-Douglas-fallinu var sú, að vænta mátti 20% minni framleiðslu á félagsbúum en á einyrkjabúum, ef notað var jafnmikið magn af hverjum tilgreindum þætti eins og notað var að meðaltali á öllum búum í söfnunum. Þetta eru raunar býsna líkar niðurstöður.

Sérstakir útreikningar á transcendentalframleiðslufalli á 28 einyrkjabúum og 14 félagsbúum í sveitum, þar sem sauðfjárrækt ríkti, gaf niðurstöðu, sem benti til hins sama. Útkoman varð þó enn óhagstæðari fyrir félagsbúin. – Meðalbú á bónda var 3,7 kýr og 149 ær í sauðfjárræktarsafninu, en 8,7 kýr og 98 ær á öllu landinu.

Það hefur verið venjulegt að ætla að félagsbúskapur byði upp á afkastameiri framleiðslu, af því að þá næðust ýmsir stærðarkostir. Niðurstöður útreikninga þessara á framleiðsluföllum eru því óvæntar. Meðalbústærð á einyrkjabúum var 9,4 kýr og 105 ær með 14,8 hektara meðaltún, en meðalstærð félagsbúa var 14,8 kýr, 167 ær og 24,4 hektara tún. Meðalkúatala á félagsbúi var því 57% stærri, meðalærtala 59% stærri og meðaltún 65% stærra. Þarna er ekki um svo mikinn bústærðarmun að ræða, að vænta megi ókosta vegna aukinnar bústærðar, hvorki að því er varðar kýr né tún. Er í því efni byggt meira á almennri skoðun meðal landbúnaðarfræðinga á Norðurlöndum á stærðaraðstæðum á þessu bili en sérstökum athugunum á íslenskum aðstæðum. Varðandi stærðaraðstæður í sauðfjárrækt er um enn minna af kerfisbundnum athugunum að ræða. Áður en þessar óvæntu niðurstöður verða ræddar nánar, er rétt að gera grein fyrir útreikningum á jaðarsteygni einstakra framleiðsluþátta.

16. Jaðarsteygni reiknuð með Cobb-Douglas-falli

Til þess að kanna, hvort framleiðslan í söfnunum breyttist misjafnlega mikið hlutfallslega við sömu hlutfallslegu breytinguna á magni einstakra framleiðsluþátta, var reiknuð jaðarsteygni þáttanna, en jaðarsteygni er einmitt slíkur mælikvarði. Var það gert með því að reikna Cobb-Douglas-fall fyrir framleiðsluna í hvoru safni fyrir sig með sömu breytistærðum og taldar eru í 15. kafla. Útkoman var yfirleitt ekki marktæk tölfræðilega. Í sumum tilvikum var útkoman svo ólík í söfnunum, að það var engu lagi líkt. Slíkur árangur af tilraunum til að mæla jaðarsteygni með Cobb-Douglas-falli á söfnum býla, sem eru á sama svæði, hefur fyrr borið jafntortryggilegan árangur, þar sem ástæða var þó til að ætla, að jaðarsteygni býlasafnanna væri tiltölulega lík.[13] Það eru fleiri ástæður til þess, að slíkir útreikningar með margþátta aðhvarfslíkingu leiði til svo óvissrar og ruglingslegrar útkomu. Í fyrsta lagi kunna gögnin að vera léleg. Í öðru lagi breytast mikilvægir framleiðsluþættir í fallinu, eins og tilbúinn áburður, kjarnfóður, kýr og tún, nokkurn veginn jafnmikið hlutfallslega frá búi til bús. Fylgnistuðull þessara þátta var 0,5-0,6. Í þriðja lagi kann óvissan að vera að kenna því, hve stórt fervik lendir í afganginum. Mikilvægur þáttur eins og vinnuframlag bónda átti að vera hluti af fasta líkinganna, en trúlega hefur þessi liður verið mjög breytilegur milli búa og sumpart breyst samhliða öðrum þáttum og þar með orðið hluti af afgangsfervikinu. Afgangsliðurinn má hins vegar ekki breytast samhliða einstökum breytistærðum líkingarinnar, ef skekkja á ekki að verða í útkomunni.[14] Í fjórða lagi kann ástæða að vera það grundvallarskilyrði, sem fullnægja verður við aðhvarfsgreiningu, nefnilega að hægri breytistærðir fallsins séu exógenar, það er að segja ákveðnar utan frá, en það er vitað, að svo er ekki, þar sem áburðarmagn er sumpart ákveðið með hliðsjón af túnstærð, kjarnfóðurmagn er að nokkru leyti ákveðið út frá kúatölu og ærtölu, kúatala og ærtala er að nokkru ákveðin með hliðsjón af túnstærð o.s.frv. Það eru því góðar ástæður til að mæla jaðarsteygnina með annarri aðferð en Cobb-Douglas-falli.

Sú aðferð, sem notuð verður í næstu grein, hefur þann kost, að þáttum, sem örðugt er að mæla, má sleppa við útreikninga. Þá eiga menn ekki á hættu, að t.d. vinnuliðurinn sé falinn í öðrum liðum og niðurstaðan verði skökk af þeirri ástæðu.

17. Jaðarsteygni mæld á annan hátt

Bestunarskilyrði í framleiðslukenningum er p x i l = q i en þar er p verð afurðarinnar, x i l er jaðarsframleiðni þáttarins v i og q i er verð á þættinum v i . Með því að setja ϵ i inn í líkinguna

ϵ i = x i × v i l x ,

en það er jaðarsteygni þáttarins  v i , fær líkingin myndina

q i × v i = ϵ i × p × x ,

þar sem x er framleiðslumagn. Það er með öðrum orðum fast hlutfall af stærðinni  ϵ i  milli þáttarkostnaðar vinstra megin og framleiðsluverðmætisins  p × x , og þessi fasti er einmitt jaðarsteygnin.  ϵ i má því mæla við bestunarskilyrði í líkingunni

q i × v i = ϵ i × p × x + μ , (1)

en þar hefur u væntanlegt gildi 0. Með þessari aðferð veldur innbyrðis fylgni einstakra þátta engum vandræðum, og því skilyrði, að hægri breytistærðirnar skuli vera ákveðnar innbyrðis utan frá (exógent) er auðveldlega fullnægt, þar sem aðeins er um eina hægri breytistærð að ræða í hverjum útreikningi. Matstærð fyrir  ϵ i  verður  e i í líkingunni

q i × v i = e i × p × x .

Það sem færa má fram á móti þessari aðferð, er, að hún geri ráð fyrir því, að bestunarskilyrðinu sé fullnægt. Það er eins og kunnugt er ekki óalgengt, að því sé haldið fram, að bestunarskilyrðinu sé ekki fullnægt í búskap. Í líkingu (1) er hins vegar gert ráð fyrir, að frávik frá bestunarskilyrðinu sé ekki kerfisbundið, m.ö.o. að væntanlegt gildi afgangsliðarins sé 0. Nú er það ekki óalgengt meðal landbúnaðarhagfræðinga að ætla, að frávikið frá bestunarskilyrðinu sé kerfisbundið, þannig að sumir þættir séu notaðir of lítið og aðrir of mikið. Án þess að ræða nánar þessar hugmyndir landbúnaðarhagfræðinga má koma til móts við þá viðbáru, að byggt skuli á bestunarskilyrðinu í líkingunni. Í stað bestunarskilyrðisins er þá gert ráð fyrir, að notkun þáttarins sé lýst með eftirfarandi líkingu:

p × x i = k i × q i , (2)

en þar er k i fasti, sem talinn er jafn í báðum söfnunum. Þarna er m.ö.o. gert ráð fyrir kerfisbundnu fráviki frá bestu nýtingu og að þetta kerfisbundna frávik kunni að vera jafnstórt fyrir hvern einstakan þátt í báðum söfnunum. Líking (2) umskrifast í

q i × x i = k i × ϵ i × p × x + μ ,

og þá má enn prófa, hvort munur er á söfnunum. Líkingin fyrir hvert einstakt bú fær afgang (u), en væntanlegt gildi afgangsins er 0, og í stað ϵ i kemur e i . Hinn útreiknaði aðhvarfsstuðull verður  k i × e i . Ef marktækur munur mælist á  k i × e i milli félagsbúa og einyrkjabúa, má túlka það á þrjá vegur. Í fyrsta lagi kann jaðarsteygnin að vera misjöfn, í öðru lagi geta  k i -stærðirnar verið misjafnar og í þriðja lagi getur hvort tveggja komið til. Hvaða túlkun er réttust, skiptir ekki öllu máli, þegar bera skal saman rekstrarhætti búsaafnana eins og þeir eru í reynd.

Mæliaðferðin gerir ráð fyrir fastri jaðarsteygni, þ.e.a.s. Cobb-Douglas-falli. Þess vegna verður munur á jaðarsteygni safnanna ekki skýrður með því, að notað sé misjafnlega mikið magn af framleiðsluþættinum í söfnunum.

Bestunarskilyrðið gerir ráð fyrir, að framleiðsluþættirnir geti breyst jafnt, en ekki í stökkum. Þá má deila um það, hvort þetta gildi um vélar og þá helst dráttarvélar. Þó verður að segja, þegar tekið er tillit til hins fjölbreytilega framboðs á nýjum dráttarvélum og þess, að menn geta líka keypt notaðar vélar, að stökkin verða ekki ýkja stór. Ein dráttarvél getur nýkeypt haft 50 ólík verðgildi. Fjölbreytni var þó orðin mun meiri árið 1963, þar sem það var þá orðið býsna algengt, að bændur fengju sér aðra vél. Til viðbótar koma allar aðrar vélar og verkfæri, svo að óhætt er að segja, að stökkin í vélareign þurfa ekki að vera stærri en stökkin í kúaeign.

Tafla 2. – Mæling á aðhvarfsstuðlum í líkingunni  q i × v i = k i × e i × p × x .

q i × v i er magn þáttarins i, p × x er framleiðsluverðmæti í krónum og  k i × e i er aðhvarfsstuðullinn. 93 bú í hvoru safni

Félagsbú Einyrkjabú
Þáttur k i × e i R 2 k i × e i R 2 t [1]
Laun greidd vandafólki, 100 kr. 0,000251 0,28 0,000487 0,35 0,51
Laun greidd öðrum, 100 kr. 0,000319 0,34 0,000327 0,30 0,02
Laun greidd alls, 100 kr. 0,000570 0,48 0,000814 0,58 0,47
Fyrningar á vélum og verkfærum, 100 kr. 0,000330 0,74 0,000334 0,74 0,03
Brennsluefni og fleira, 100 kr. 0,000610 0,83 0,000568 0,86 0,22
Kostnaður við vélar alls, 100 kr. 0,000941 0,89 0,000902 0,91 0,16
Tilbúinn áburður, 100 kr. 0,00112 0,86 0,00114 0,86 0,06
Kjarnfóður, 100 kr. 0,00175 0,85 0,00181 0,86 0,11
Annar reksturskostnaður, 100 kr. 0,000696 0,85 0,000634 0,83 0,28
Kýr 0,0000397 0,92 0,0000392 0,88 0,05
10 ær 0,0000332 0,55 0,000381 0,67 0,24
Tún, 1002 0,00591 0,81 0,00573 0,90 0,11

1 t-gildið er próf á muninum á stuðlunum milli safnanna [15]

Tafla 2 sýnir matstærðir aðhvarfstuðlanna, þ.e.a.s. k i × e i .Athyglisverðast við matið er, hversu marktækt stærra en 0 það er tölfræðilega. t gildi hleypur frá 6,5 upp í 42,2. Þarna kemur fram hlutfallsbreyting milli þáttarkostnaðar og framleiðsluverðmætis. Forsendan, sem matið byggir á, að bændur noti framleiðsluþættina á besta hátt eða hlutfallslega jafnlangt frá bestu notkun, virðist í samræmi við raunveruleikann. Munurinn á aðhvarfsstuðlunum er venjulega heldur lítill og aldrei marktækt stærri en 0. Þetta mat bendir því ekki til neins munar á söfnunum, hvorki því er varðar framleiðni né frávik frá bestu notum framleiðsluþáttanna. Mælingin styður því ekki þá niðurstöðu, sem fékkst við útreikning heildarframleiðslufallanna að framan, að munur sé á afkastagetu safnanna. Mælingin mælir ekki heldur gegn þeirri niðurstöðu, þar sem mikilvægasti framleiðsluþátturinn, vinna bónda og konu hans, var ekki með í henni. Kann það að skýra muninn á niðurstöðunum.

18. Munur á tekjum og fleiri einkennum

Ekki voru tiltækar upplýsingar um persónulegar tekjur félagsbænda og einyrkjabænda úrtaksins árið 1963, en hins vegar fyrir árið 1964. Félagsbændurnir höfðu það árið að meðaltali 149.100 krónur í persónulegar tekjur, en samanburðarsafnið 156.400 eða 4,8% meira. Munurinn er nokkurn veginn marktækur tölfræðilega. Skattar og útsvör voru að meðaltali á félagsbónda árið 1963 3.620 kr., en 3.360 krónur á einyrkja. Munurinn er ekki marktækur tölfræðilega. Félagabændur greiddu skatt, 2,42% af persónulegum tekjum sínum, en einyrkjarnir 2,15%. Þessi munur kann að stafa af misjafnri framfærslubyrði, ef hann er raunverulegur, en félagsbændur höfðu að meðaltali  1,8 börn á framfæri sínu og einyrkjarnir 2,3 börn.

Áður var bent á, að félagsbændur hafa tiltölulega fleiri kýr í hlutfalli við ær. Þeir skera sig úr um fleiri búskaparhætti. Frjósemi ánna var heldur meiri á félagsbúum eða 1,09 lömb á móti 1,02 á einyrkjabúum. Eins var með afurðir kúnna, að þær voru heldur meiri á félagsbúum. Meðalnyt þar var 2.920 kg, en 2.720 kr. á einyrkjabúum. Ekki var staðfestur neinn marktækur munur á afkastagetu véla í söfnunum. Heyskapur á bónda var öllu meiri á einyrkjabúum. Var það líkt og með túnstærð og gripatölu. Einyrkjarnir heyjuðu að meðaltali 590 hestburði af þurrheyi, en félagsbændur 483 hesta. Öðru máli gegndi um votheyið. Af því heyjuðu félagsbændur að meðaltali sem svaraði 73 hestum af þurri töðu, en einyrkjarnir 69 hestburði.

Könnuð var þátttaka bændanna í ýmsum félagsskap. Af samtals 278 bændum í hvoru safni voru 56 félagsbændur og 37 einyrkjar hreppsnefndarmenn, endurskoðendur hreppsreikninga og sýslunefndarmenn. Munurinn var marktækur. Ef bætt er formennsku í hreppsbúnaðarfélagi við trúnaðarmannastöðurnar, verða þær 64 meðal félagsbænda og 53 meðal einyrkja, og er munurinn þá ekki lengur marktækur tölfræðilega. 67 félagsbændur og 53 einyrkjar voru í sauðfjárræktarfélagi. Munurinn er tæpast marktækur tölfræðilega. 94 félagsbændur og 67 einyrkjar voru í nautgriparæktarfélagi. Munurinn er marktækur. Almennt er því þátttaka félagsbænda í félagsmálum meiri en einyrkjanna.

Þegar hefur verið gerð grein fyrir mun á persónulegum tekjum bændanna. Erfitt er að gera sér grein fyrir, hvort munur er á vinnu bónda og konu hans og eigin fjármagni, en eðlilegt er að bera þá liði saman við tekjurnar. Þó má ætla, að vinna félagsbændanna sé öllu hægari en einyrkjanna. Er það ekki byggt á öðru en svörum félagsbændanna og því, að vitað er, að betur er liðað á félagsbúunum miðað við bústærð. Eins kemur fram, að þátttaka félagsbænda í ýmissi félagsstarfsemi utan bús er öllu meiri. Örðugt er að ætla á um fjármagnið. Mat á eignum var mjög ónákvæmt árið 1963. Meðaleign alls á félagsbónda taldist það ár 302.000 krónur og 203.000 krónur á einyrkja. Munurinn er mjög vel marktækur. Skuldahlutfall félagsbænda verður þá 51,3%, en einyrkjanna 59,6%. Vaxtagjöld og landleiga var að meðaltali á félagsbónda 8.670 krónur og 12.060 krónur á einyrkja. Munurinn er mjög vel marktækur. Hrein eign verður samkvæmt þessu 147.000 á félagsbónda og 138.000 á einyrkja. Þar sem mat á hreinni eign er mjög ónákvæmt, verður ekki sagt, að nokkur munur sé á söfnunum að þessu leyti. Skuldirnar skiptast ólíkt í söfnunum. Stofnlán Búnaðarbankans og aðrar veðskuldir eru nánast eins í söfnunum (90.100 á félagsbónda og 95.800 á einyrkja, ekki marktækur munur). Stofnlánin voru veitt með þeim kjörum, að allflestir, sem fullnægðu settum skilyrðum, tóku þau. Félagsbændurnir höfðu til muna minna af þeim veðskuldum hjá Búnaðarbankanum, sem komið höfðu í stað lausaskulda samkvæmt lögum um þau mál. Meðaltölin voru þar 15.800 og 27.700 krónur. Aðrar skuldir voru einnig til muna meiri á einyrkja en á félagsbónda. Meðaltölin voru 60.800 krónur. Það leikur því ekki á tveim tungum, að fjárhagsleg staða félagsbænda var hægari en einyrkjanna. Má trúlega skýra það að nokkru með því, að einyrkjar hafa þurft að leysa út jörð sína og hafa meira umleikis á mann en félagsbændur, en á félagsbúum sitja yngri bændurnir oft í óskiptu búi með fyrri ábúanda og eiganda. Þó að nokkur munur sé á skuldum, varð munur á vaxtagreiðslum og landleigu ekki ýkja mikill, eins og þegar greinir. Því til viðbótar kemur, að verðbólgan, sem verið hafði um langt árabil, gerði mönnum allar skuldir miklu bærilegri en marka mátti af hæð vaxta.

19. Félagsbúin sem tákn um hagstætt ástand í landbúnaði

Sú tilgáta var mjög í samræmi við svör margra félagsbænda, að félagsbú væru tákn um gott ástand í sveitunum. Þau verði því aðeins stofnuð, að það þyki svo eftirsóknarvert að stunda búskap, að eftirspurn eftir jarðnæði verði aðeins fullnægt með því, að bændum fjölgi á sumum jörðum, stundum með stofnun nýbýla, en, eins og dæmin sanna, oft með félagsbú bræðra og mága, og enn oftar með því móti, að sonur eða dóttir hefur búskap á búi föður síns, áður en ævistarfi hans er lokið. Af þessu mætti ætla, að félagsbú væru tiltölulega fleiri því betra sem ástandið væri og hefði verið í héraðinu. Þó að slík tilgáta sé sett fram, er engin bein leið að prófa hana. Hvað er mælikvarði á gott ástand í héraði? Á hvaða tímabili var það góða ástand, sem réð mestu um hlutfallslegan fjölda félagsbúa árið 1963. Til þess að verða nokkru nær um þessa tilgátu verður fyrst kannað samhengi milli tekna á bónda og hlutfallslega tölu félagsbænda árið 1963.

Tafla 3. – Tala félagsbúa og tekjur bænda árið 1963, eftir sýslum

a b c d e f g h i j
Gullbringusýsla 0 0 0 71 0,0 75 71 75 119 11
Kjósarsýsla 2 4 2 117 1,7 102 119 100 129 12
Borgarfjarðarsýsla 11 22 11 244 4,5 106 255 101 124 11
Mýrasýsla 1 2 2 203 0,5 118 204 118 131 13
Snæfellsnessýsla 10 20 10 232 4,3 75 242 72 99 9
Dalasýsla 0 0 0 213 0,0 70 213 70 88 8
Austur-Barðastrandarsýsla 0 0 0 83 0,0 71 83 71 95 9
Vestur-Barðastrandarsýsla 1 2 1 92 1,1 60 93 59 96 9
Vestur-Ísafjarðarsýsla 10 20 10 83 12,0 90 93 80 116 10
Norður-Ísafjarðarsýsla 0 0 0 94 0,0 86 94 86 101 10
Strandasýsla 12 27 15 156 9,6 86 171 78 110 10
Vestur-Húnavatnssýsla 1 2 1 220 0,5 86 221 86 104 10
Austur-Húnavatnssýsla 10 21 11 247 4,5 91 258 88 106 10
Skagafjarðarsýsla 23 49 26 444 5,9 79 470 75 102 9
Eyjarfjarðarsýsla 14 28 14 370 3,8 136 384 131 156 15
Suður-Þingeyjarsýsla 43 86 43 436 9,9 108 479 98 134 12
Norður-Þingeyjarsýsla 12 24 12 190 6,3 71 202 67 96 9
Norður-Múlasýsla 7 15 8 340 2,4 62 348 61 84 8
Suður-Múlasýsla 6 15 9 253 3,6 73 262 70 93 8
Austur-Skaftafellssýsla 10 22 121 129 9,3 78 141 72 92 8
Vestur-Skaftafellssýsla 11 23 12 192 6,2 90 204 85 104 9
Rangárvallasýsla 8 18 10 464 2,2 120 474 118 131 12
Árnessýsla 46 98 52 595 8,7 130 647 119 144 13
Alls í sýslum og meðaltal 238 498 260 5.468 4,8 96 5.728 92 116 11

a tala félagsbúa, b tala félagsbænda, c tala félagsbænda umfram tölu félagsbúa, d tala bænda í Búnaðarskýrslum árið 1963 (eiginlega tala búa), e c í % af d, f meðaltekjur af búskap árið 1963 á bú samkvæmt Búnaðarskýrslum, 1.000 kr., g tala bænda (c+d), h tekjur á bónda af búskap 1963 (tekjur undir f leiðréttar með hlutfallinu d/g, 1.000 kr., i tekjur alls á bú 1963, 1000 kr., j tekjur alls á bónda 1963, 1000 kr.

Tafla 3 sýnir tölu félagsbænda og bænda alls eftir sýslum og tekjur þeirra árið 1963. Tala bænda það ár er samkvæmt Búnaðarskýrslum. Er þó þess að gæta, að í Búnaðarskýrslum er aðeins talinn einn bóndi á hverju félagsbúi. Hér hefur bændatalan verið leiðrétt í samræmi við félagsbændatal. Sem mælikvarði á vaxtarbrodd búskaparins í einstökum sýslum hefur verið notuð tala félagsbænda ásamt tölu félagsbúa í hlutfalli við tölu íbúa alls (dálkur e). Vaxtarbroddurinn er mestur í Vestur Ísafjarðarsýslu, en þar næst koma Suður-Þingeyjarsýsla, Strandasýsla, Austur-Skaftafellssýsla og Árnessýsla. Vaxtarbroddurinn er minnstur í Gullbringusýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslu, N-Ísafjarðarsýslu, Mýrasýslu og Vestur- Húnavatnssýslu. Sýslurnar raða sér allt öðruvísi eftir tekjum af búskap bónda. Þrjár af þeim fimm sýslum, sem hafa stærstan vaxtarbrodd, hafa tekjur á bónda undir meðaltekjum á bónda á öllu landinu, og Mýrasýsla, sem hefur mjög stuttan vaxtarbrodd, hefur tekjur talsvert yfir landsmeðaltali, enda er fylgnistuðull tekna bónda af búskap og hins svokallaða vaxtarbrodds aðeins 0,05. Vissulega bendir það til jákvæðs samhengis, en mikið vantar á, að sú tala sé tölfræðilega marktæk. Verður því ekki fullyrt um það, hvort samhengi tekna á bónda af búskap og vaxtarbroddsins sé jákvætt. Líku máli gegnir með tekjur alls á bónda (j). Þar eru enn þrjár af fimm sýslum með lengstan vaxtarbrodd með tekjur undir landsmeðaltali, en tvær sýslur með örstuttan vaxtarbrodd með tekjur hærri en landsmeðaltal, enda reyndist fylgnistuðullinn neikvæður, en svo lítill, -0,002, að ekki verður sagt með nokkurri vissu, að samhengi milli meðaltekna alls á bónda í sýslu og vaxtarbroddsins sé neikvætt, þó að ætla megi, að svo sé frekar en hitt.

Niðurstaða þessarar könnunar gefur því ekki tilefni til að segja, að félagsbúskapur sé því algengari sem tekjur bænda í héraðinu séu meiri. Það er raunar alkunnugt og má telja alþjóðlegt fyrirbæri, að vöxtur búskapar og viðhald byggðar í einstökum löndum og héruðum verður ekki nema að litlu leyti skýrt með samanburði á tekjum fólks af búskap. Til skýringar þarf meðal annars að taka samanburð á tekjum fólks í öðrum atvinnugreinum, sem standa mönnum í héraðinu opnar.[16] Niðurstaðan mælir ekki heldur á móti því, að vaxtarbroddur búskaparins í landinu í heild lengist, ef hlutfallslegar tekjur bænda ykjust. Enn síður mælir niðurstaðan á móti því, að vöxtur búskaparins verði fyrst og fremst á þeim jörðum í hverju héraði, sem bjóða upp á best lífskjör. Hvort tveggja má telja líklegt eftir sem áður.

Ætla mátti, að vöxtur búskapar sem félagsbúskapur væri mestur í þeim sveitum, þar sem fólki, sem hefur framfæri af landbúnaði, fjölgar mest. Félagsbúskapur er þá ein aðferð til að mæta fólksfjölguninni, en því minna reynir á þá aðferð, því meira sem fólki fækkar í sveitinni. Þá er kostur á jarðnæði, þó að ekki sé stofnað til búskapar með því að bæta við bændum á einstökum jörðum, og yngra fólk leggur lítið kapp á að hefja búskap á móti foreldrum sínum. Haldast þá jarðir frekar í byggð með því móti að bændur sitja eins lengi og sætt er, og þá fyrst kemur nýr ábúandi, þegar menn eru komnir að niðurlotum. Í sveit, þar sem fólki, sem hefur framfæri af landbúnaði, fjölgar frekar ört, er hins vegar líklegra, að nýr ábúandi vilji hefja búskap, áður en eldri bóndinn vill skila öllu af sér. Til þess að kanna, hvort samhengi væri milli þess, hversu algengur félagsbúskapur var sem aðferð til bændaaukningar á jörðum og fjölgunar á tölu framfærðra, var reiknuð tala félagsbænda umfram tölu félagsbúa í hverjum hreppi í hlutfalli við tölu starfandi fólks að landbúnaði í hreppnum samkvæmt manntalinu 1960.[17] Það hlutfall var síðan borið saman við fjölgun framfærðra af landbúnaði á árunum 1940-1950 og 1950-1960 (tafla 4 og 5). Sveitarfélögum var skipt eftir hlutfallstölu umframfélagsbænda og gerður samanburður á raunverulegri fjölgun í hverjum flokki sveitarfélaga og reiknaðri fjölgun miðað við sömu breytingu á tölu framfærðra af landbúnaði á öllu landinu. Lagt var tölfræðilegt mat á mismun fjölgunarinnar. Sá mismunur var mjög vel marktækur á árabilinu 1950-1960, en einnig marktækur á árabilinu 1940-1950, og þannig, að fækkun framfærðra var því meiri, því lægri sem hlutfallstala umframbænda var. Niðurstaða þessarar könnunar styður þá skoðun, að félagsbú séu almennt þáttur í viðbrögðum fólks við tiltölulegri fólksfjölgun í sveitum.

Af svörum félagsbænda mátti álykta, að félagsbúskapur væri jöfnum höndum fylgifiskur bústofnsaukningar og orsök hennar. Til að kanna það tölulega, hvort samhengi væri milli bústofnsaukningar og hlutfallslegrar tölu félagsbænda voru töflurnar 6, 7 og 8 gerðar. Sýna þær mjög greinilega slíkt samhengi fyrir aukningu nautgripa og kúagilda frá 1955–1963, og raunar mátti rekja slíkt samhengi aftur til ársins 1935, þó að það yrði óljósara, þegar frá sækti. Einnig mátti sannreyna slíkt samhengi fyrir sauðfé síðustu árin, en þó var það greinilegast, ef tekið var fyrir allt tímabilið frá því, áður en sauðfé fór að fækka af völdum pestanna eða frá 1930–1963. Styðja niðurstöður þessara útreikninga mjög vel þá skoðun, að félagsbúskapur sé ýmist orsök eða afleiðing bústofnsaukningar.

Tafla 4.

 Breytingar á tölu framfærðra af landbúnaði í sveitarfélögum eftir hlutfallslegri tölu félagsbænda

a b c d e f g
0 13.080 9.997 10.876 ÷ 879 ÷ 8,1 ..
1-5 11.744 10.335 9.765 590 6,0 ..
6-17 3.868 3.505 3.216 289 9,0 ..
  28.692 23.857 23.857     0,1%

a flokkur sveitarfélaga með tilgreint hundraðshlutfall af félagsbændum umfram félagsbú árið 1963 af tölu starfandi fólks að landbúnaði árið 1960, b tala framfærðra af landbúnaði árið 1950, c tala framfærðra af landbúnaði árið 1960, d reiknuð tala framfærðra af landbúnaði miðað við sömu hlutfallslegu fækkun frá 1950 í hverjum flokk, e, c–d, f e í % af d, g líkurnar fyrir að munurinn e sé ekki marktækur.

Tafla 5.

Breytingar á tölu framfærðra í sveitarfélögum frá 1940-1950 eftir hlutfallslegri tölu félagsbænda

a b c d e f g
0 17.248 13.080 13.330 250 1,9 ..
1-5 7.502 5.882 5.798 84 1,4 ..
6-17 12.373 9.730 9.563 167 1,7  
  37.123 28.691 28.691     5%

a eins og í töflu 4, b tala framfærðra af landbúnaði árið 1940, c eins og b í töflu 4, d reiknuð tala framfærðra af landbúnaði miðað við sömu hlutfallslegu fækkun frá 1940 til 1950 í hverjum flokki, e, f og g eins og í töflu 4.

Tafla 6.

Fjölgun nautgripa í sveitarfélögum frá 1955–1963 eftir hlutfallslegri tölu félagsbænda

a b c d e f
0 17.848 20.867 22.441 ÷ 1.574 ÷ 8,1
1-2 11.699 14.275 14.672 ÷ 397 ÷ 2,7
3-5 10.227 14.081 12.859 1.222 9,5
6-17 5.757 7.988 7.239 749 10,3
  45.501 57.211 57.211  

a eins og a í töflu 4, b tala nautgripa 1955, c tala nautgripa 1963, d reiknuð tala nautgripa frá 1955 til 1963 miðað við sömu hlutfallslegu aukningu í hverjum flokki, e, c-d, f e í % af d.

Tafla 7.

Fjölgun sauðfjár frá 1930–1963 í sveitarfélögum eftir hlutfallslegri tölu félagsbænda

a b c d e f
0 316.624 310.490 337.820 27.330 8,1
1-2 143.054 158.739 152.631 6.108 4,0
3-5 136.971 155.535 146.140 9.395 6,4
6-17 93.529 111.617 99.790 11.827 11,9
  688.878 736.381 736.381    

a eins og í töflu 4, b tala sauðfjár 1930, c tala sauðfjár 1963, d reiknuð tala sauðfjár 1963 miðað við sömu hlutfallslegu  fjölgun í hverjum flokki frá 1930, e c–d, f e í % af d.

Tafla 8.

Fjölgun kúagilda frá 1955–1963 í sveitarfélögum eftir hlutfallslegri tölu félagsbænda

a b c d e f
0 32.375 36.392 38.839 ÷ 27.330 ÷ 8,1
1-2 18.447 22.212 22.130 82 0,4
3-5 17.061 21.858 20.467 1.391 6,8
6-17 10.498 13.568 12.594 974 7,7
  78.381 94.030 94.030    

a eins og í töflu 4, b tala kúgilda 1955 (einn nautgripur eða 20 kindur teljast þá kúgildi), c tala kúailda 1963, d reiknuð tala kúgilda frá 1955 til 1963 miðað við sömu hlutfallslegu aukningu í hverjum flokki, e c–d, f e í % af d.

20. Ágrip

Ritgerðin fjallar um félagsbú á Íslandi. Athuganir sem hún byggir á, voru að mestu gerðar árin 1963–1966. Félagsbú telst hér, þar sem tveir eða fleiri giftir bændur hafa að minnsta kosti heyskap sameiginlegan, en hvor eða hver um sig vinnur ekki minna en fjóra mánuði á ári að búinu. Ritgerðin er samin í framhaldi af ritgerðinni Samvinna nágranna við búskap, en í framhaldi af þessari ritgerð er svo ritgerðin Tvímenningarbú og stærri bú á undanhaldi í Noregi og Svíþjóð, þó svo að sú ritgerð sé prentuð á undan.[18] Um skeið hefur verið nokkur áhugi á félagsbúskap meðal landbúnaðarfólks hér á landi. Töldu menn hann hafa það fram yfir venjulegan búskap, að þar væru frjálsari vinnuskilyrði við búfjárhirðingu og stærra land fengist til að nýta afkastamiklar vélar. Markmið þeirrar rannsóknar, sem gerð var á félagsbúum, var þríþætt: Í fyrsta lagi að kanna, hversu algeng félagsbú voru í landinu, í öðru lagi að rannsaka kringumstæður á búunum og í þriðja lagi að greina þau skilyrði, sem fullnægja þarf, til þess að þau komist á stofn. Hliðstæðar rannsóknir voru ekki kunnar.

Veturinn 1963–64 töldust á landinu 237 félagsbú, þar sem bjuggu samtals 498 bændur. Voru það um 9% allra bænda á landinu, en um 13% allra giftra bænda. Með einni undantekningu var um fólk úr sömu fjölskyldu að ræða á búunum. Oftast voru bændurnir af tveimur kynslóðum, þó að bú bræðra væru allalgeng. Ráðunautar búnaðarsambandanna voru spurðir álits á félagsbúum. Má segja, að þeir hafi talið þau æskilegt rekstrarform, þó að sumir væru vantrúaðir á, að þau gætu orðið algeng. Voru þau af ýmsum talin eiga að geta bætt kjör manna, þó að reynslan væri ekki ótvírætt sú, en helst voru menn sammála um, að vinnuskilyrði á þeim væru betri en á einyrkjabúum. Bent var á, að oftast væri um að ræða flutning á búi milli kynslóða.

Til frekari úrvinnslu voru tekin þau bú, þar sem allir bændurnir höfðu meira en helming tekna af búskap. Voru þau 137. Árið 1965 voru sendir spurningalistar til bænda á þessum búum. Svör bárust frá 53 búum, þar af voru 3 ekki talin félagsbú. Spurt var, hvernig samvinnu var háttað og sameign, um skiptingu kostnaðar, skráningu, skiptingu og verðlagningu á vinnuframlagi, verkaskiptingu, hvers vegna menn höfðu hafið félagsrekstur, hvað menn hefðu gert að öðrum kosti, hverjir væru kostir og ókostir félagsrekstrar og hvaða skilyrði þyrfti að fullnægja á félagsbúum. Helstu niðurstöður við úrvinnslu á svörum spurningarlistanna voru þessar: Búfé var yfirleitt hirt saman, en séreign á búfé var algengari en sameign, einkum á sauðfé. Vélakostnaði var helst skipt í hlutfalli við búfjáreign, þar sem vélar voru í séreign, en oftast voru þær í sameign. Vinnuframlag var undantekningarlítið ekki skráð og oftast talið jafnt. Þar sem vinnuframlag var ekki talið jafnt, virtist uppgjör mjög af handahófi. Verkaskipting var ekki umfangsmikil. Var helst um slíkt að ræða við það, sem lýtur að vélum, reikningshald, útréttingar og hirðingu sauðfjár. Þar sem stefnt var að því, að menn gætu leyst hver annan af, voru verkaskiptingu nokkur takmörk sett.

Mjög algengt var, að menn töldu sig hafa tekið upp félagsrekstur til að færa bú milli kynslóða. Ýmsir töldu sig ekki mundu stunda búskap, ef ekki hefði komið til greina að stunda félagsbú. Kostir félagsbúa voru taldir þessir til viðbótar við hagræði við flutning búa milli kynslóða: Betri nýting á vélum og verkfærum og skilyrði til ódýrari og aukinnar vélvæðingar var oftast nefnt. Betri skilyrði til að hafa frí, kom næst. Svo má nefna öryggi, verkaskiptingu, að sum verkefni eru einum erfið, að vinnan nýtist betur, verður hægari og ánægjuleg samskipti. Oftast var talið vandkvæði við félagsbúskap, að fólk geti ekki unnið saman af persónulegum ástæðum. Líkt var um þau skilyrði, sem fullnægja þurfti í félagsbúskap, þar sem var lögð hvað mest áhersla á hæfileika manna til að starfa saman, samstöðu og góðan skilning. Bent var á nauðsyn þess, að jörðin bæri fleiri en eitt heimili, að heimilishald væri aðskilið, að óskir manna um búskaparlag og hæfileikar til búrekstrar væru líkir. Nokkur áhersla var lögð á skipulag búrekstrarins, nauðsyn bókhalds, skipulegrar verkaskiptingar og skriflegs samning.

Gerður var samanburður á tekjum, fjármagni, fóðuröflun, afurðum og þátttöku félagsbænda og sambærilegra einyrkja í félagsmálum. Félagsbændur höfðu 4,8% lægri tekjur  en samanburðarhópurinn, en greiddu þó heldur meiri skatta. Skuldabyrði félagsbænda var léttari en einyrkjanna, einkum voru lausar skuldir minni. Félagsbændur höfðu að meðaltali minni bú á bónda en einyrkjar, en meiri afurðir á grip og hlutfallslega meiri votheyskap. Þeir höfðu tekið á sig fleiri trúnaðarstöður en einyrkjar. Samanburður þessi náði til 137 félagsbúa og jafnmargra einyrkja og bændur voru á félagsbúum. Til að reikna út afkastagetu félagsbúa í samanburði við einyrkjabú voru felld úr safninu bú með takmarkaðar reikningslegar upplýsingar. Urðu þá eftir 93 félagsbú með 189 bændum og jafnmargir einyrkjar. Niðurstaða á útreikningi á tveimur framleiðsluföllum benti til þess, að afköst félagsbúanna væru minni á bónda, þegar notað var jafnmikið af öllum helstu aðföngum öðrum en vinnu bónda, konu hans og barna. Er þá þess að gæta, að engar beinar upplýsingar eru um það, hvort vinnuálag á félagsbónda er minna en á einyrkja, en ýmislegt bendir til þess, að svo sé. Verður því ekki sagt, að afköst félagsbúa hafi verið minni við jafnmikið vinnuálag á bónda í báðum söfnunum. Ekki kom fram neinn munur á afköstum einstakra framleiðsluþátta í söfnunum. Voru þar borin saman afköst allra helstu þátttanna nema vinnu bónda og konu hans og barna.

Kannað var, hvort félagsbúskapur væri algengari í sýslum með háar tekjur á bónda, en þess varð ekki vart. Hins vegar kom það greinilega fram, að bændafjölgun var því algengari sem minna hafði fækkað í hreppnum framfærðum af landbúnaði frá 1940-50 og enn frekar frá 1950-60.

Nautgripum og sauðfé hafði fjölgað því meira sem bændum hafði fjölgað meira í hreppnum við félagsbúskap. Samhengi við búfjárfjölgunina var best á tímabilinu 1955-63, en þó var mjög gott samhengi við sauðfjárfjölgun tímabilsins 1930-63.

21. Ályktanir

Félagsbúskapur er tímabundið fyrirbæri, sem fólk innan sömu fjölskyldu velur sér. Er þá ýmist um að ræða, að feðgar eða tengdafeðgar búi saman, á meðan búið er flutt á milli kynslóða, eða bræður, mágar eða svilar búa saman, þar til börn þeirra komast á legg og fara að beita sér við búskapinn. Mörg bú, sem verið hafa félagsbú, verða síðar einyrkjabú og búa þá að þeim búskapargrundvelli, sem skapaðist á félagsbúskapartímabilinu. Samanburður á einyrkjabúum og félagsbúum, sem gerður er fyrir eitt ár, er því öðrum þræði samanburður á einyrkjabúum sem verið hafa félagsbú og félagsbúum sem verið hafa einyrkjabú. Missir slíkur samanburður marks að nokkru leyti.

Félagsbú eru vaxtarbroddur sveitanna. Þar sem er tiltölulega mikil ásókn í jarðnæði, eru meiri líkur til, að menn hafi ekki aðra úrkosti um jarðnæði en hefja búskap í félagi við sína nánustu. Þykir það betri kostur en leita í aðrar sveitir, þar sem viðgangur búskapar er minni eða skipta jörð alfarið með stofnun nýbýlis. Í sveitum, þar sem lítil eftirspurn er eftir jarðnæði og jarðaverð lágt, er minni hagur að því að stofna til félagsbúskapar en í sveitum með tiltölulega háu jarðaverði. Þó að félagsbú séu vissulega háð því að menn vilji yfirleitt búa saman, fer það hversu algeng þau eru, eftir þeim kostum sem bjóðast um jarðnæði. Menn virðast því fúsari til að njóta kosta félagsbúskapar og til að leiða hjá sér sambúðarörðugleika, sem þar má vænta, því aðþrengdari sem menn eru um jarðnæði, þar sem stunda má einyrkjabúskap.

Félagsbúskap, eins og til hans hefur verið stofnað með fjölgun bænda á viðkomandi jörðum fylgir talsverð framleiðsluaukning. Hætt er við, að flestar ráðstafanir til fjölgunar félagsbúa auki um leið heildarframleiðsluna í landinu. Ekki hefur komið fram, að félagsbúskap fylgi þeir rekstraryfirburðir, sem menn sjá ekki eða vilja ekki nýta, þegar kringumstæður leyfa. Ekki verður því séð, að ráðstafanir til fjölgunar félagsbúa með fjölgun bænda á sumum jörðum, séu líklegar til að draga úr framleiðslukostnaði vegna rekstraryfirburða, en þær eru líklegar til að þrengja kost þeirra bænda, sem ekki eiga beint hlut að máli, með framleiðsluaukningu og markaðsþrengingum sem henni vilja fylgja.

Yfirburðir félagsbúskapar eru þeir, að það er oft hentugra að afla sér jarðnæðis með stofnun félagsbús en með stofnun sjálfstæðs bús á lítt uppbyggðri jörð eða með stofnun nýbýlis, og rekstrarformið býður upp á betri vinnuskilyrði og auðugra mannlíf en einyrkjabúskapur. Kostirnir eru þó ekki svo miklir, að óvandabundið fólk hafi tekið þá fram yfir þau vandkvæði, sem slíkum rekstri fylgja. Vandkvæði félagsbúskapar lúta að bústjórn. Á félagsbúi eru allir aðilar jafn réttháir og bera sömu ábyrgð. Þó verður þar að vera nokkur verkaskipting og jafnvel verkstjórn, en mjög örðugt er að setja um slíkt reglur í fámennum hóp, svo að mönnum sýnist réttindum og skyldum skipt réttlátlega. Hefur því hingað til ekki orðið af félagsbúskap óvandabundinna nema sem undantekning, en samábyrgð vandafólks breiðir yfir þá örðugleika, sem verða í sambúð fámenns hóps jafn rétthárra aðila.

[1] Ritgerð þessi er að stofni til þýðing á III. kafla verksins Nabosamvirke og tofamiliebruk. En analyse av samarbeids- og skalaforholdene i jordbruksproduksjonen basert på materiale fra Island og Sverige. Norges landbrukshøgskole. Institutt for drifslære og landbruksøkonomi. Vollebekk 1967. Kaflinn heitir To- og flerfamiliebruk på Island. Þýðingin hefur verið styrkt fjárhagslega af Framleiðsluráði landbúnaðarins.

[2] BJÖRN STEFÁNSSON: Samvinna nágranna við búskap. Árbók landbúnaðarins 1970, bls. 210-239.

[3] BJÖRN STEFÁNSSON: Tvímenningsbú og stærri bú á undanhaldi í Noregi og Svíþjóð. Árbók landbúnaðarins 1969, bls. 110-117.— Samning og þýðing beggja þessara ritgerða var einnig styrkt af Framleiðsluráði landbúnaðarins.

4 E.B. HILL: Father and son farm partnerships. Michigan State College. Agricultural Experiment Station. Special Bulletin 330. East Lansing 1944.

[5] Að vísu fór fyrirspurnin til formanns búnaðarsambands héraðsráðunautar í eitt skipti, enda formaðurinn sérstakur áhugamaður um málefnið, og í einu tilviki til framkvæmdarstjóra búnaðarsambands.

[6] Búnaðarskýrslur árin 1961-1963. Hagskýrslur Íslands II, 34.

[7] SIGURÐUR ELÍASSON: Athuganir um búnaðarástand á Fljótsdalshéraði. Reykjavík 1964.

[8] Þetta var svar búnaðarformannsins.

[9] Úr blaðaviðtali 1961.

[10] Í ritgerð þessari er munur talinn marktækur, þegar það eru minna en 5% líkur til, að reiknaður munur sé ekki raunverulegur, nokkuð marktækur við 10 eða 20% mörk, vel marktækur við 1% mörk og mjög vel marktækur við 0,1 % mörkin.

[11] sjá2

[12] Sjá nánar bls. 50 í 1. Cobb-Douglas-fall hefur þessa mynd:

y = c x i b 1   x 2 b 2 ... x n b n

Þar er y framleiðslumagn, c fasti, x i (i fer frá 1 upp í n) er magn þáttarins i. Transcendentalfallið hefur myndina:

y = c x 1 a 1   e b 1 x 1   x 2 a 2   e b 2 x 2 ... x n a n   e b n x n

Þar er y framleiðslumagn, c er fasti, x i er magn þáttarins i, e er grunntalan í náttúrulega lógaritmanunm og a 1 , b 1 og e eru stikar.

[13] K. BRUNLAND, F. REISEGG og O.R. SANDBERG: Driftsvilkår og driftsformer i leirjordsbygdene på Sør-Østlanded. Norgers landbruksøkonomiske institutt. Særmelding nr. 11. Oslo 1957. – E. SANDQVIST: Analys av produktivietsförhållandene i svensk landsbruk. Meddelanden från ekonomiska institutionerna, Kungl. Lantsbrukshögskolan. Uppsala 1961.

[14] Sjá t.d. H.T. AMUNDSEN: Innföring i teorisk statistikk. Hefte III. Sampelundersøkelser. Samvariasjon mellom variable. Memorandum fra Sosialøkokonomisk Institutt, Universitetet i Oslo 1962.

[15] Sjá 14, formáli nr. 9.1.106.

[16] Um þetta má lesa víða, t.d. T.W. SCHULTS: The economic organisation of agriculture. New York 1953.

[17] Manntal á Íslandi 1. desember 1960. Hagskýrslur Íslands II, 47.

[18] Sjá2 og 3.

1. viðbætir

Spurningalisti sendur á félagsbú

1. Fyrirspurnir sendar á hvert bú:

A. Hversu náinn er samrekstur ykkar?
Gerið svo vel að setja kross við, þar sem við á.

1. Heyskapur er í samvinnu, en séreign á heyskartækjum.

2. Heyskapur er í samvinnum og sameign á heyskapartækjum

3. Heyskapur er í samvinnu, en séreign á túnum.

4. Heyskapur er í samvinnu og sameign á túnum.

5. Fjósaverk eru í samvinnu, en séreign á nautgripum.

6, Fjósaverk eru í samvinnu og sameign á nautgripum.

7, Fjárhirðing er í samvinnu, en séreign á sauðfé.

8. Fjárhirðing er í samvinnu og sameign á sauðfé.

9. Ef fleiri búgreinar eru stundaðar, gerið þá svo vel að nefna þær og um leið, hvort þær eru í samvinnu ykkar.
10. Tekjur af vinnu utan bús renna til sameiginlegra þarfa.

11. Alger samrekstur er á bústofni, vélum og fasteign.

12. Ef samrekstur ykkar fellur að einhverju leyti utan við þau ellefu atriði sem hér eru talin, gerið þá svo vel að gera stuttlega grein fyrir því hér.

B. Gerið svo vel að svara eftirfarandi spurningum í stuttu máli, eftir því sem við á.

1. Ef heyskapur er í samvinnu, en séreign á heyskapartækjum, hvernig er kostnaði þá jafnað?


2. Ef samvinna er um heyskap, en ekki um alla gripahirðingu, hvernig er heyjum þá skipt?


3. Ef samvinna er um heyskap, er séreign á túnum, hvernig er þá ákveðið, í hvaða röð á að heyja túnin?


C. Um vinnuframlag. (Setjið strik undir já eða nei, eftir því sem við á.)

1. Er vinnuframlag hvers einstaklings bókfært? Já Nei

2. Er vinnuframlag samrekstrarbændanna talið jafnt? Já Nei

3. Ef vinnuframlagið er ekki talið jafnt, hvernig er því þá skipt og hvernig er það látið jafna sig?


D. Um verkaskiptingu

Gerið svo vel að gera grein fyrir, hvernig verkaskiptingu er háttað milli ykkar. Falla fjósverk, fjárhirðing, vélavinna, vélaviðgerðir, reikningshald og útreikningar meira á einn en annan, og hvernig þá?


11. Eftirtöldum spurningum vil ég biðja menn um, að svari hver fyrir sig.

E. Hvaða ár hófst þú búskap?

F. Hvaða ár giftir þú þig?

G. Hvaða ár hófst þú samrekstrarbúskap?

H. Hvers vegna valdir þú samrekstur?


I.Ef ekki hefði verið um samrekstur að ræða, til hvaða ráða hefðir þú gripið þá?


J. Hvað gerir þú ráð fyrir að halda samrekstri lengi áfram?


K. Hvað telur þú að fenginni reynslu samrekstri til gildis?


L. Hvaða annmarka telur þú á samrekstri?


M. Hvaða skilyrðum verður að fullnægja til þess að samrekstur geti notið sín?Nafn


Heimilisfang

2. viðbætir

Hvers vegna menn kusu félagsbúskap

Svör við spurningu H: Hvers vegna valdir þú samrekstur?

 1. bú. Bræður tveir: hægara að byrja búskap.
 2. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Átti þrjár samliggjandi jarðir og hafði keypt þær með það fyrir augum, að synir mínir, einn eða fleiri, gætu rekið þar búskap sameiginlegan.
 3. bú. Tengdafeðgar. Eldri bóndinn: Það er hægara fyrir tvo menn að hirða helmingi stærra bú en einn mann helmingi minna. Nýting búvéla verður betri og auðveldara að hafa nægar vélar. Yngri bóndi: Vegna þess að það er enginn fjárhagsgrundvöllur fyrir að reisa bú frá grunni.
 4. bú. Þrír feðgar. Faðirinn; Tveir synir mínir vildu stofna til búrekstrar. Ég hafði nokkra trú á, að þetta form hentaði okkur. Ég var að verða of gamall til að búa verulegu búi einn. – Eldri sonurinn. Frá árinu 1956 til 1962 vann ég að búi föður mín. Ætlunin var, að ég tæki við því síðar. Þegar ... bróðir minn var fús til að stofna til samrekstrar, tók ég því fegins hendi því ég taldi samrekstur að mörgu leyti hagkvæman, auk þess sem okkur bræðrunum fellur vel samvinna og búið þá orðið það stórt, að erfitt var einum manni, þegar faðir okkar eldist. – Yngri bróðirinn: Snemma árs 1960 buðu faðir minn og eldri bróðir minn mér að ganga til félagsbúskapar með þeim með mjög hagstæðum kjörum. Þar sem mér lék nokkur hugur á búskap, tók ég þessu boði.
 5. bú: Feðgar tveir. Sonurinn: Sökum efnaskorts og af átthagaást.
 6. bú: Tveir feðgar. Faðirinn: Það kom af sjálfu sér sem kynslóðaskipti. Ég var orðinn roskinn, en sonur minn tilbúinn að hefja búskap, og má segja að þetta sé hin eðlilega þróun. – Sonurinn: Þetta kom af sjálfu sér. Ég hafði alla tíð starfað að búi föður míns og átti orðið nokkurn bústofn. Þegar ég giftist og stofnaði heimili eignaðist ég fljótlega hálft búið, en við héldum áfram að vinna að þessu saman, eins og verið hafði.
 7. bú: Tveir feðgar: Sonurinn: Íbúðarhúsið það stórt, að það tók tvær litlar fjölskyldur. Faðir minn, sem bjó á jörðinni, ekki fær um að búa á henni einn. Hafði ég auk þess lagt í íbúðarhús og annað fjármagn.
 8. bú: Tveir feðgar: Faðirinn: Af því að við vorum ekki fær um að reka búskap á eigin spýtur vegna heilsubrests. – Sonurinn: Bæði vegna þess að faðir minn var kominn á efri ár og eins hefði ég aldrei flutt úr kaupstað og farið að búa einn í sveit, ekki haft efni á, að komast yfir jörð, vélar og bústofn. Svo er einyrkjabúskapur bindandi og erfiður.
 9. bú: Tveir feðgar. Faðirinn: Ég er bráðum 74 ára og heilsuveill. Það er ekki hægt að kalla þetta hjá mér „samrekstur“ nema að litlu leyti, heldur eins og venjulega gerist milli foreldra og barna. Hver höndin styður aðra. Við kaupum í félagi áburð og slíkt, sem til þarf, og borgum sinn helminginn hvort, fóðurfénaður svipaður hjá báðum, en ekki farið í neinn meting með það. – Sonurinn: Samrekstur lá beinast við m.a. vegna þess að ég hafði unnið að búinu áður og komið mér upp vísi að bústofni.
 10. bú: Tveir feðgar. Faðirinn: Starfsþrekið var farið að bila og sonur minn ...... hafði búið sig undir að stunda búskap, og ég vildi, að hann tæki við jörðinni, þegar ég gæfist upp, og hef minnkað minn bústofn, en hann aukið að sama skapi. – Sonurinn: Þar sem faðir minn bjó hér fyrir, töldum við að flestu leyti heppilegra að vinna öll verk saman, heldur en að vera sinn í hvoru lagi. Það var kostnaðarminna s.s. varðandi byggingar, vélar o.fl.
 11. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Þar sem lítið vinnuafl er, notast það betur.
 12. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Ég hef alltaf talið, að bændur ættu að hafa meiri samvinnu sín á milli en yfirleitt er. Þegar sonur minn ...... hóf búskap hér, komst þetta í framkvæmd. – Sonurinn: Vegna þess að hér fékk ég jarðnæði á hálfri jörðinni, og ennfremur taldi ég hagkvæmt að hafa samvinnu um heyskap og annað slíkt.
 13. bú. Tengdafeðgar. Hagkvæmara vegna vinnu við búið.
 14. bú. Þrír feðgar. Faðirinn: Þar sem synir mínir vildu frekar vera kyrrir á heimilinu heldur en að búa annars staðar og stunda aðra vinnu, myndaðist félagsbúrekstur. – Eldri sonurinn: Þar sem ég hafði unnið að búskapnum með föður mínum frá því að ég lauk námi við Bændaskólann á Hvanneyri 1949 þar til ég gifti mig, og þar sem samkomulagið var gott, var ákveðinn félagsbúrekstur. – Yngri sonurinn. Vann að búi föður míns, áður en ég gifti mig, og þar sem samkomulagið var gott, hóf ég félagsbúskap með föður mínum og bróður.
 15. bú. Tengdafeðgar. Eldri bóndinn: Í fyrsta lagi til að auðvelda fjölskyldu minni og mér sjálfum að geta haldið saman, og í öðru lagi taldi ég, eins og síðar hefur komið fram, að búskapur mundi eiga í vök að verjast vegna vinnuaflsskorts, en hann var ekki hættulegur, þar sem tvær fjölskyldur unnu saman á búi.
 16. bú. Feðgar tveir. Faðirinn. Ár 1957 giftist sonur minn, og töldum við þá hagkvæmast, að við ynnum í félagi að búskapnum og skiptum arði og vinnu eftir því sem okkur fyndist hentast á hverjum tíma. – Sonurinn: Faðir minn var orðinn gamall og jörðin nógu stór fyrir okkur báða.
 17. bú. Feðgar: Til að hjálpa syni mínum að koma sér fyrir og finna, hvernig hann væri hæfur til búskapar.
 18. bú. Bræður tveir. Eldri bróðirinn: Byggingarnar voru sameiginlegar. Vorum báðir ógiftir. Höfðum sameiginlegt heimili og ráðskonu. Samrekstur hentaði vel öllum aðstæðum. Gagnkvæmur vilji á samrekstri. – Yngri bróðirinn: Var ógiftur og efnalaus og bjó með föður mínum og bróður á ríkisjörð, sem við keyptum síðar og skiptum milli okkar. Auk þess taldi ég það hagkvæmara fjárhagslega.
 19. bú. Tveir feðgar. Faðirinn: Samrekstur kom af sjálfu sér um leið og .... sonur minn fór að eignast búpening.
 20. bú. Fjórir bræður. Einn bróðirinn: Af ýmsum orsökum, m.a. af því að ég var þá ógiftur, en þá var ...... bróðir minn giftur og farinn að búa hér og vildi fá mig í sambýli. Afi okkar átti jörðina. Minni stofnkostnaður.
 21. bú. Tveir feðgar. Sonurinn: vegna fjárskorts og þægilegra að byrja með minna bú.
 22. bú. Tveir feðgar. Sonurinn fyrir hönd beggja: Vegna þess að ég áleit það hagkvæmara og ég hafði unnið hér við búskapinn. Auk þess var faðir minn heilsulaus um þessar mundir, þó úr því rættist seinn.
 23. bú. Tengdafeðgar. Eldri bóndinn: Okkar samrekstur staðið frá 1956 og vegna tengda og af þeirri nauðsyn að halda búrekstri á jörðinni, en að ýmsu leyti ekki hentugt að skipta henni. – Yngri bóndinn: Við ætluðum í nýbýli, en það féll niður þegar mágur minn fór frá búinu, og voru þá eftir þrjár aldraðar manneskjur (foreldrar konu minnar og móðursystir) Þess vegna lentum við í þennan samrekstur.
 24. bú. Tengdafeðgar. Eldri bóndinn: Ég vildi, að tengdasonur minn tæki við búskap hér eftir mig, og okkur kom saman um, að samrekstur væri heppilegri en að skipta jörðinni og hver byggi fyrir sig. Og óvíst ég gæti búið lengi einn. – Yngri bóndinn: Á þessari jörð kom tæplega annað til greina. Auk þess er ég þeirrar skoðunar, að tveir einyrkjar geti rekið búið mun betur í félagi en hver í sínu lagi, t.d. með auknum og hagrænum vélakosti.
 25. bú. Tveir feðgar. Faðirinn. Ég taldi það hagkvæmt fyrir báða aðila. – Sonurinn. Hagkvæmt fyrir báða aðila.
 26. bú. Tveir bræður.: Vegna þess að ég taldi hann bæði hagkvæmari og léttari.
 27. bú. Tveir feðgar. Faðirinn. Það kom að nokkru leyti af sjálfu sér, þar sem sonur minn hafði ekki aðstöðu til þess að reisa bú sjálfstætt. – Sonurinn: Þar sem ég ek bifreið með búskapnum, er það form það eina, sem mér hentar með akstrinum.
 28. bú. Tveir bráður: Þá gekk okkur betur að vinna út á við til skiptis.
 29. bú. Tveir feðgar. Faðirinn: Okkur feðgunum kom saman um, að ef samvinna væri um heyskap og önnur bústörf, þá væri sanngjarnast, að bústofn og áhöld öll væri sameign. – Samrekstur okkar feðga í búskap hófst af sjálfu sér, ef svo má segja. Báðir aðilar munu hafa talið það rekstrarform ákjósanlegt.
 30. bú. Tveir bræður: Vegna þess að konur okkar bræðranna eru systur og áttu jörðina.
 31. bú. Tveir feðgar. Faðirinn: Hvorugur gat almennilega án annars verið. T.d. varð ...... að sjá um meðferð véla og annars, sem laut að tæknibúskap. – Sonurinn: Vegna þess að ég átti lítið af vélum og húsum fyrir gripi. Einnig var heppilegra fyrir mig að vera í samvinnu, þar sem ég hafði engan vinnukraft en þann, sem við hjónin lögðum til.
 32. bú. Bræður tveir. Annar: Sérstakar aðstæður réðu þar mestu um. Áður en ég giftist, hafði ég um nokkurt árabil séð um bú föður míns ásamt yngri bróður mínum og tekið mitt kaup í kindafóðrum. Hefði ég þá farið burtu, hefði faðir minn sennilega orðið að hætta búskap. Honum var því ljúft að minnka sitt bú og mér að ílengjast á æskustöðvunum meðal þeirra er ég hafði alist upp með. Síðar tók bróðir minn við búi af föður okkar. – Yngri bróðirinn. Ég hafði alla tíð unnið að búrekstri á þessari jörð, sem faðir minn hafði til ábúðar, og bróðir minn hafði einnig unnið að búinu á sama hátt – líka eftir að hann kvæntist. Það lá beinast við að halda þessum samrekstri áfram eftir að faðir okkar hætti búskap – og ég kvæntist um sama leyti, þar eð um sömu jörð var að ræða, og allar nytjar hennar, hús og annað var báðum jafnheimilt. Einnig var sameign véla og verkfæra fyrir.
 33. bú. Feðgar þrír. Faðirinn: Synir mínir vildu búa hér, og við vorum allir sammála um að hafa félagsrekstur. Gerðum því með okkur formlegan samning um búrekstur á þeim grundvelli. — Eldri sonurinn: Vegna þess að ég tel hann skemmtilegri, arðbærari og að öllu leyti meira mannsæmandi en einyrkjabúskap. – Yngri sonurinn: Taldi það heppilegasta búskaparfyrirkomulagið, þar sem grundvöllur var fyrir hendi.
 34. bú. feðgar tveir. Faðirinn: ...... sonur minn er fæddur 1922, og þegar hann kvæntist 1948, þá hófum við samvinnubúskap, sem við höfum rekið síðan, og mér er óhætt að segja alveg árekstralaust. Frá árinu 1919-1948 rak ég búið einn. – Sonurinn: Vegna þess að mér fannst hægara að koma upp bústofni í samvinnu en að fara að búa sjálfstætt.
 35. bú. Feðgar þrír. Faðirinn: Þar sem synir mínir vildu fara að búa hér og jörðin stór, taldi ég þetta mjög heppilegt og ég farinn að eldast og slitna. – Eldri sonurinn: Mér stóð til boða jarðarpartur hjá föður mínum og sá strax, að samvinnubúskapur yrði léttari en einyrkjabúskapur.
 36. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Ég var að byrja að tapa starfsorku, en ...... sonur minn hafði ekki fjármagn til að taka við öllu í einu, svo ég gat með þessu móti hjálpað honum af stað að mynda sér heimili, — og nýta þar með betur það ræktaða land og þann vélakost, sem til var. — Sonurinn: Ég var að byggja mér íbúðarhús og valdi þann kostinn að stofna nýbýli með styrk úr Nýbýlasjóði, vegna þess að mér stóð til boða jörð og ræktað land til láns með góðum kjörum, svo og bústofn, peningshús, vélar og samrekstur.
 37. bú: Feðgar tveir. Faðirinn: Vegna þess að ég var orðinn fullorðinn og sá, að þetta var hægara. — Sonurinn: Vegna þess að mér fannst það eina færa leiðin fyrir mig að byrja búskap, um leið og ég studdi föður minn. Tók ég við hálfu búinu þegar árið 1957 og síðan höfum við stækkað búið smátt og smátt, þannig að það skapaði næga atvinnu fyrir tvo.
 38. bú. Mágar. Annar þeirra: Vegna þess að ég taldi, að með mínu lífsviðurhorfi yrði einyrkjabúskapurinn mér erfiður og argsamur. Ég hefi gaman af því að sinna ýmsum félagsmálum, en það er nær útilokað fyrir einyrkja.
 39. bú. Feðgar fjórir. Faðirinn. Ég var að eldast og drengirnir vildu vera hér. Reynslan hefur kennt mér að á hverjum haustnóttum má bóndinn búast við að verða að sinna búinu einn. Ég gat því með góðum hug ráðlagt sameiginlegan rekstur. – 1. sonur: Taldi hann gefa möguleika á betri afkomu og frjálsræði fram yfir einyrkjabúskap. Stærra bú, glæsilegri resktur og betri nýting tækjakosts. – 2. sonur: Taldi hann æskilegri að mörgu leyti. – 3. sonur: Ég hafði unnið árum saman að búi föður míns ásamt bræðrum mínum og átti raunverulega orðið hlut í því. Horfði því beint við að reka búið sameiginlega. Verkefni var nóg fyrir okkur alla og erfiðara að byrja á nýjum stað. Svo var ég ógiftur þá.
 40. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Af hagfræðiástæðum. – Sonurinn: Eðlilegur milli skyldra. Einkum mjög nauðsynlegur til að gera kynslóðaskipti þægilegri. Þannig verða held ég aldrei snöggar breytingar við þannig búendaskipti og jörðin líður ekki. A.m.k. ekki hér við fyrri kynslóðaskipti 1894-99 og 1933-39.
 41. bú. Þrír bræður og ekkja fjórða bóndans. 1. bróðir: Hafði trú á samvinnu. Langaði ekki í einyrkjabúskap. Og hafði ekki efni á öðru. – 2. bróðir: Taldi hann hagkvæmari en annað búskaparfyrirkomulag. – 3 bróðir: Kom af sjálfu sér.
 42. bú. Þrír bændur. Einn þeirra: Félagsbúið óx upp úr búi foreldra okkar, sem bjuggu hér í 29 ár og síðar móðir okkar með okkur fast að 20 árum. Þegar við hófum búskap, var afkoma öll erfið hjá alþýðu, og býst ég við að það hafi verið ríkasta ástæðan fyrir félagsbúskap okkar, hversu fáir möguleikar voru þá til arðbærra starfa. Nú hefur þetta vanist í fast form með viðunandi afkomu og á mælikvarða sveitafólks, ágætri.
 43. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Vegna þess að sonur minn hóf búskap og við töldum betra að vinna í samvinnubúskap. – Sonurinn: Vegna þess að ég hafði aðstöðu til að nota gripahús og vélar með öðrum og taldi mjög erfitt að byggja öll hús í einu.
 44. bú. Feðgar þrír. Faðirinn: Fasteignin er óðalseign frá 1952. ...... og ...... synir mínir höfðu báðir alist upp við störf búrekstursins og voru mér handgengnir. ...... fær byggingarbréf að hálfri eigninni ´63 og er þá fjölskyldumaður. ...... fær byggingarbréf að hálfri eigninni ´65, en þá er ég óvinnufær og fór undir allstóra skurðaðgerð.
 45. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Taldi hentugt vegna vinnu véla og húsakosts heldur en að skipta öllu milli feðga. – Sonurinn: Taldi mér ókleift að hefja búskap öðruvísi. Fyrst með ¼ hlut í búinu, síðan 1/3 og nú ½. Hef stundað kennslustörf á veturna, en unnið að búinu jafnframt og að sumrinu. Tekjur runnið til heimilisins og sameiginlegra þarfa og í bústofnsauka.
 46. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Við tókum við jörð, búi og skuldum bræðurnir tveir af föður okkar, sem var orðinn aldraður og við búnir að vinna að búinu alla tíð. Bróðir minn hætti 1959 og sonur minn tók við. – Sonurinn: Ég tók við af föðurbróður mínum, sem hætti búskap og leigði mér jarðarhluta sinn. Hans hlut af vélum og skepnur keypti ég.
 47. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Sökum þess að son minn vantaði jarðnæði. – Sonurinn: Minni stofnkostnaður, ef hægt er að eiga sameiginlega hús og vélar.
 48. bú. Feðgar tveir. Faðirinn: Sonur minn byrjaði búskap á hálfri jörðinni, og þótti okkur þægilegra að vinna saman að búrekstrinum. – Sonurinn: Vegna þess að varla var um annan rekstrargrundvöll að ræða fyrir tvo bændur á þessari litlu jörð.
 49. bú. Tveir bræður. Eldri bróðirinn: Ekki eins bundinn við búskapinn. Þar sem við bræðurnir áttum báðir eftir að læra, gátum við skipst á að læra. Maður þurfti minna fjármagn til kaupa á vélum og byggingum. – Yngri bróðirinn: Vegna þess að ég hóf búskap á óskiptri jörð og hafði ekki fjármagn til að koma mér upp einsamall eigin vélakosti.

Árbók landbúnaðarins l971 38-75