Önnur grein

Áður en lengra er haldið, vil ég vekja athygli á því, að í greinaflokknum Landbúnaður í deiglu er víða farið skakkt með heimildir. Svo að nokkuð sé nefnt, er þetta tekið með: Á bls. 56 nefnir Breirem, að kjúklingakjöt í Bandaríkjunum sé ódýrara en annað kjöt og kosti enskt pund haustið 1958 30 – 35 sent. Á bls. 58 nefnir hann, að verð til framleiðenda vorið 1959 hafi ekki verið svo lágt síðan í stríðsbyrjun eða 16,3 sent á enskt pund. Gunnar slær saman verði framleiðenda og neytenda, og við fáum þessar andríku setningar: „þensluævintýri þessa kapítalíska bandalags kornsins og hænunnar stöðvaðist sl. ár (1959) með illþyrmislegum árekstri á vegg offramleiðslu og verð­hruns. Verðið á kg kjúklingakjöts féll skyndilega úr 60 sentum niður í 33 sent - - -“! Auðvitað verða þarna eins og annars staðar tvö ensk pund eitt kg!

Tafla um útflutning eggja og hænsnakjöts frá Hollandi verður tafla um framleiðslu eggja og kjúklinga í Hollandi. Sirkulasjonssykdommer er þýtt næringarsjúkdómar. Tafla um verslun með kjarnfóðurblöndur verður hjá Gunnari tafla um notkun kjarnfóðurs. Þó að vitað sé, að ekki nema nokkur hluti kjarnfóðurs í kornræktarlöndum er í verslun og að aðeins hluti kjarnfóðurs í verslun er seldur í blöndum. 2% fólksfjöldun á ári í 10 ár verður auðvitað 20 %.

Sagt er í 5. grein, að samkvæmt skýrslu ríkisstjórnarinnar til OEEC hafi vinnumönnum í sveit á Íslandi fækkað á árunum 1940 til 1950 úr 9894 í 7197 og síðar er sagt, að ef til vill séu vinnumenn jafnmargir og bændur. Ég veit, ekki, hvort þetta er sagt til að skemmta fólki eða hæðast að ríkisstjórninni fyrir skýrslugerð. Ríkisstjórnin hefur væntanlega látið í té tölur um fjölda þeirra, sem þiggja laun fyrir landbúnaðarstörf, og er því alsaklaus af vitleysunni. Síðan er þessi „vinnumanna-“fjöldi lagður við tölu bænda og sýnt fram á, að heldur litlu sé afkastað í sveitum landsins!

Fleira mætti til tína, en þó er verst, að víða eru dregnar ályktanir, án þess að séð verði, að nokkur fótur sé fyrir þeim. Er þar kominn hrossaræktarráðunauturinn með sinn andlega áburðarhest, klyfjaðan öðrum megin andríki og hugmyndaflugi, en hinum megin rökvísri hugsun, og hallast heldur á, enda snarast fljótt á klárnum. Síðar verður gerð tilraun til að hjálpa ráðunautnum að búa betur upp á klárinn og vikið að nokkrum fullyrðingum hans.

 

Sæluríki neytenda

Í greinaflokk Gunnars Bjarnasonar er nokkrum sinnum vikið að erfiðleikum bandarískra bænda vegna verðfalls á afurðum þeirra. Síðan er gjarna bætt við, að þetta sé „sæluríki neytenda“, kjör neytenda batni og verðfall á vörunum komi neytendum til góða. Okkur, sem aldir eru upp í trú á ágæti frjálsrar verðmyndunar, sýnist þetta ósköp sjálfsagt. En í reyndinni stígur verð til neytenda þar vestra, þó að verðfall verði til framleiðenda. Samkvæmt rannsókn í Bandaríkjunum (U.S. News and World Report, June 8, 1959) hafði smásöluverð á matvöru hækkað um 20% frá 1949 til 1958, en verð til framleiðenda féll um 8%. Frá Kanada er sömu sögu að segja, og í Frakklandi er vanalegt, að verð til bænda falli, án þess að það hafi áhrif á smásöluverð. Eina leiðin, sem reynst hefur fær til að tryggja hagstæðari verðlagsþróun er að samvinnufélög bænda taki að sér verslunina. Bandarískir bændur hafa nú hinn mesta áhuga á að efla með sér samvinnu og m.a. sent menn hingað til Noregs til að kynna sér málið. Í Bandaríkjunum styrkir það aðstöðu bænda í baráttu þeirra, að þeir geta bent neytendum á, að verðfallið komi þeim ekki til góða.

Það er eðlilegt, að menn spyrji, af hverju hin frjálsa verðmyndun nái ekki til milliliðanna. Til að skýra það mætti nefna eftirfarandi: Hin frjálsa verðmyndun er takmörkuð af hverskonar samtökum. Launþegar hafa sín verkalýðssamtök, sem banna mönnum að taka lægri laun en samið er um, þótt þeir séu atvinnulausir, iðnaðarmenn hafa sín bréf, háskólafólk sín sérréttindi, bæði iðnaðarmenn og háskólafólk reyna að takmarka aðsókn í stéttir sínar, iðnrekendur mynda hringa, sem enginn lagabókstafur fær náð til, og að lokum hafa kaupmenn þegjandi samkomulag sín á milli um að halda ákveðnu verði. Komið hefur í ljós hér í Noregi, að flestar verslanir fylgja leiðbeiningum frá verksmiðjum um verð. Þar með er ekki sagt, að öll verðsamkeppni sé horfin, og er auðvelt að nefna dæmi þess, en minnt á þær hömlur, sem lagðar eru á samkeppnina, af því að þeim er oft haldið leyndum.

Hvar er þá samkeppni? Samkeppnin hefur að miklu leyti færst yfir frá samkeppni um verðlag og er nú orðin samkeppni um þjónustu, um legu verslunar o.s. frv. og ekki má gleyma garminum honum Katli, auglýsingatækninni. Bandarísk auglýsingastarfsemi er samkvæmt mörgum samfélagsfræðingum þar vestra öfl sem ógna óháðri skoðanamyndum og ala á stöðugri óánægju meðal almennings til að koma út vörunum (Aldous Huxley í Brave New World Revisited o.fl.)

Hvar standa svo bandarískir bændur í þessum heimi samtaka og ófrjálsrar verðmyndunar? Þeir hafa engin samtök um sölu á afurðum sínum, en sláturhús og verslanir láta þá rífast um að fá að losna við þær.

Hér má bæta við, að bandarískir hagræðingar játa, að bændur hafi rétt fyrir sér þegar þeir benda á, hvernig kreppt er að frjálsri verðmyndum í öðrum greinum atvinnulífsins en þeir svara bændum og segja, að þeir eigi heldur að reyna að höggva á fjötrana í staðinn fyrir að reyna að færa atvinnulífið í fastari fjötra. Annað er, hvort það er kleift.

 

Afköst í landbúnaði

Það er nokkuð algengt, að menn geri samanburð milli landa á afköstum í landbúnaði. Þetta gerir Gunnar einnig í 5. grein sinni. Dæmið er gjarnan sett upp þannig: Í Bandaríkjunum geta 5% af þjóðinni við ríkjandi aðstæður fullnægt búvöruþörf þjóðarinnar. Á Íslandi er þessi tala um 15%. Þó er framleiðslan vestra svo margfalt fjölbreyttari. Ályktunin verður þá einföld: Íslenskir bændur eru búskussar, bornir saman við stéttarbræður í Bandaríkjunum. Hér verða gerðar nokkrar athugasemdir við slíkar ályktanir.

 

  1. Í rauninni starfa 12% af bandarísku þjóðinni við landbúnað. Talan 5% er þannig fengin: 44% af bændum framleiða yfir 90% af búvöruframleiðslunni. (Hér ætti að standa af seldri framleiðslu. Bæði Gunnar og Breirem gera sömu villuna. Þetta skiptir nokkru máli). Auk þess er nokkur offramleiðsla. Á sama hátt mundi talan 15% lækka, ef aðeins væru teknir með þeir, sem miklu afkasta og þeir dregnir frá, sem svarar til vinnu við framleiðslu á sauðfjárafurðum til útflutnings (10-15% af verðmæti heildarframleiðslunnar).
  2. Þær búgreinar, sem Bandaríkjamenn stunda umfram íslenskar búgreinar, þarfnast í eðli sínu mjög lítil vinnuafls (akuryrkja).
  3. Ef við höldum okkur við töluna 5%, ber að draga frá þá bændur á Íslandi, sem hafa önnur störf með búskapnum. Sverrir Gíslason í Hvammi upplýsti á aðalfundi Stéttarsambands bænda í haust, að 217 bændur hefðu yfir 50 þús. kr. í tekjur utan bús (kennarar, prestar vegaverkastjórar o.fl.). Í verðlagsgrundvelli eru launatekjur áætlaðar um 8% af tekjum bóndans.
  4. Íslenskir bændur hafa með höndum ýmis störf, sem eru nánast borgarleg skylda og eru ólaunuð. Vegna lítilla sveitarfélaga og fámenns þjóðfélags verður þátttaka í opinberum störfum almennari en vestan hafs (og um leið stendur lýðræðið fastari fótum). Vestra eru slík störf í stærri stíl en á Íslandi unnin af launuðu fólki.
  5. Hér í Noregi heyrist oft slagorðið: Varan er ekki framleidd, fyrr en hún er seld. Á Íslandi stjórna bændur sjálfir milliliðastarfseminni. Í Bandaríkjunum láta bændur aðra um þá hluti. Þessi munur verður ekki metinn í ársverkum eða til fjár.
  6. Íslenskur búskapur er ekki eins hreinn viðskiptabúskapur og bandarískur, þ.e.a.s. á Íslandi vinnur bændafólk ýmis störf að meira eða minna leyti, sem bændur vestra láta aðra gera fyrir sig í stærri stíl. Þetta er margt smávegis, sem engin leið er að mæla, en skiptir máli, þegar saman er dregið. Til skýringar má nefna matvælageymslu og matseld (tilbúinn matur vestra), slátrun til heimilis, strokkun og skyrgerð, barnakennsla o.fl. í sambandi við heimilisstörf, og við búskapinn má nefna byggingar og viðgerðir (langt á verkstæði).
  7. Á Íslandi neyta menn meira af þeim landbúnaðarafurðum, sem í eðli sínu eru vinnufrekari í framleiðslu en þær afurðir, sem menn neyta vestan hafs. Þessu til skýringar birtist tafla, sem sýnir brúttótekjur í dollurum fyrir 100 vinnustundir:

Mjólkurkýr180

Eggjaframleiðsla444

Sláturgrísir784

Kjúklingar726

Holdanaut2805

 

Það er rétt að leggja áherslu á, að hér er um brúttótekjur að ræða. Tölurnar segja því ekkert um arðsemi einstakra búgreina. Gera verður ráð fyrir, að arðsemi búgreina sé lík, þar sem flestir bændur geta valið á milli framleiðslugreina. Einnig er rétt að minna á, að tölurnar eru bandarískar, svo að menn dragi ekki of ákveðnar ályktanir um vinnuþörf við holdanaut á Íslandi. Taflan sýnir, að mjólkurframleiðsla er í eðli sínu vinnufrek. Samkvæmt íslenskum athugunum er sauðfjárrækt nokkurn veginn eins vinnufrek og mjólkurframleiðsla miðað við brúttótekjur, en eins og sýnt er fram á í kaflanum Kjarnfóðurbúskapur, er fyllilega samkeppnisfær við framleiðslu á öðrum kjöttegundum. Íslendingar neyta af kjöti fyrst og fremst dilkakjöts, en Bandaríkjamenn nautakjöts, svínakjöts og hænsnakjöts. Þetta veldur því, að miklu fleiri hendur vinna tiltölulega fá verkefni við kjötframleiðslu á Íslandi.

 

Af mjólk neyta Bandaríkjamenn 300-350 kg á mann, þegar smjör og ostur er umreiknaður í mjólk, en Íslendingar 500-550 kg. (Orsakir: Margt barna og unglinga, vörugæði, bjórleysi o.fl.) Ef við hugsum okkur, að 3/5 af starfi bænda sé við mjólkurframleiðslu eða um 9% af þjóðinni, mundi sú tala lækka niður fyrir 6%, ef mjólkurneyslan minnkaði niður í það, sem er vestan hafs.

Sennilega vegur þetta atriði þyngst af öllum og er auðvitað ómetanlegt fyrir landbúnaðinn.

  1. Prófessor Westermarck í Helsinki hefur útskýrt fræðilega, hvernig hagkvæmd við vélvæðingu er háð verðhlutfalli milli framleiðsluþáttanna, vinnu og fjármagns. Á einfaldan hátt má skýra fyrirbrigðið þannig: Ef við gerum ráð fyrir, að vinnuafl í bandarískum landbúnaði sé helmingi dýrara en á Íslandi, en traktor sé jafndýr í rekstri (sennilegar forsendur), og að á Íslandi borgi sig að kaupa traktor, ef hann sparar sem svarar 2/3 úr ársverki (ágiskun), þá borgar sig að kaupa traktor vestan hafs, ef hann sparar sem svarar 1/3 úr ársverki. Samtímis hækkar kjörstig bústærðar við stígandi verðhlutfall milli vinnu og fjármagns.

Þetta skýrir, að á Íslandi borgar sig að nota vinnufrekari vinnubrögð en vestan hafs.

  1. Að lokum má nefna, að í Bandaríkjunum eru vélar og verkfæri oft notað meira en talið er borga sig, og þess vegna verða eftir verkefni fyrir færri hendur. Þetta á eflaust við um íslenskan landbúnað, en er væntanlega í stærri stíl vestan hafs. Hin óhóflega vélvæðing er mikið rædd af hagfræðingum. Þekktur bandarískur hagfræðingur komst svo að orði: Ef menn íhuga að hagnýta sér sjálfvirkni við búskap, ættu menn að hugsa sig vel um, og þá mun oft fara svo, býst ég við, að menn hverfa frá því að taka upp sjálfvirkni. Prófessor Breirem segir: „Það er hins vegar skiljanlegt, að fulltrúar iðnaðarins hafa áhuga á áróðri fyrir vélvæðingu og annars konar tækninýtingu. Iðnaðurinn hefur nefnilega oft jafnmikinn hag af aukinni tækni og landbúnaðurinn“.

Bent er á að ofþensla í bandarískum landbúnaði valdi því, að reynt sé að selja bændum meira af tækjum en þeim er í hag. Til þessa er beitt áhrifamikilli auglýsingatækni. Hér í Noregi eru sölumenn hálfgerð plága í sveitum, og þeir fá fólk oft til að kaupa tæki, sem engin skynsemi er í að kaupa. Á Íslandi ber sennilega lítið á þess háttar, en ástandið í öðrum löndum er áminning um, að þess sé gætt, að ráðunautar bænda og samtaka þeirra séu látnir hafa síðasta orðið, þegar bændur leita ráða.

Áhrif þeirra atriða sem hér eru nefnd, verða ekki metin í ársverkum. Augljóst er, að sá samanburður, sem getið er um í upphafi, er út í hött. Það er hagvísindum til tjóns, að menn dragi ályktanir svo gagnrýnislaust sem raun ber vitni.

Morgunblaðinu 9. febrúar 1961