Þegar rætt er um samyrkjubú, koma flestum í hug Sovétríkin eða Kína. Samyrkjubúskapur er þó eldri en Marx, Stalín og Maó. Á tímum Jesú frá Nazaret voru til samyrkjusamfélög í Gyðingalandi. Á síðari öldum hafa verið samyrkjubú á strjálingi í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, oftast byggð kristnu sértrúarfólki.

Samyrkjubúin í Ísrael hafa þá sérstöðu með öðru, að almennt er litið svo á, að þau séu vel heppnuð út af fyrir sig. Þau eru byggð fólki, sem af frjálsum vilja hefur valið sér lífsstarf, og hafa ekki notið opinberrar aðstoðar umfram önnur bú í landinu.

Það lætur nærri, að um fjórði hluti þeirra Ísraelsmanna, sem hafa framfæri af landbúnaði, búi í samyrkjubúum, það er að segja um 4% þjóðarinnar eða 80 þúsund manns.

Þau eru þó á ýmsan hátt snarari þáttur í þjóðlífinu en sem svarar fólksfjöldanum. Það vantar til að mynda ekki mikið á, að um helmingur ráðherra hafi verið frá samyrkjubúum og telji sér heimili þar, þó að þeir séu nú orðnir atvinnustjórnmálamenn. Þeirra þekktastur er nú forsætisráðherrann Levi Eskol.

Nú skal ég reyna að lýsa venjulegu samyrkjubúi í Ísrael. Samyrkjubúið er ekki bú í venjulegum skilningi, heldur samfélag og sveitarfélag að meðaltali tæplega 400 manna. Það sér félögum fyrir flestu, sem til lífsins þarf, þar hafa þeir atvinnu og óvinnufærir framfæri, þar eru barnaheimili, skólar og elliheimili, skemmtanir og fundahöld, séð fyrir fæði, klæðum og húsnæði. Samfélagið á allar eignir nema klæði og smádót, bækur og slíkt, sem hver getur haft fyrir sig.

Ísraelsk samyrkjubú skera sig frá öðrum stórum búum í austri og vestri að því leyti, hvað búskapurinn eða öllu heldur atvinnulífið er fjölbreytt. Atvinnuvegirnir á einu búi eru, fyrir utan þá þjónustustarfsemi, sem nefnd hefur verið, oft 7-8 með 5-20 meira eða minna föstum starfsmönnum. Sem dæmi má nefna mjólkurframleiðslu, kornrækt, appelsínurækt, garðyrkju, hænsnarækt, ræktun hráefnis til iðnaðar, viðgerðarverkstæði og oft einhvers konar verksmiðjuframleiðsla, sem stundum byggist á hráefnum frá búskap nokkurra nágrannabúa, en stundum er óháð því, eins og skógerð eða húsgagnasmíði.

Atvinnugreinarnar eru að nokkru óháðar hver annarri. Starfsmenn hverrar greinar velja sér verkstjóra árlega. Afkoma hverrar greinar er gerð upp fyrir sig og reiknað út, hvað dagsverkið skilar miklu til heildarþarfa búsins, en afkoma starfsmannanna og lífskjör almennt eru alveg óháð því, hvort búgreinin skilar miklu eða litlu miðað við aðrar búgreinar, og á sama hátt eru lífskjör hvers einstaklings borin saman við lífskjör félaga hans óháð því, hvort hann er duglegur verkmaður eða latur slæpingi, frískur eða sjúkur, barnakarl eða barnakerling eða barnlaus. Það er að segja á ísraelskum samyrkjubúum gildir sú regla, að hver fái eftir þörfum og vinni eftir getu. Stalín sagði, að þessi regla væri smáborgaraleg.

Það er von að fólk spyrji: Vinnur fólk eftir getu? Því má svara játandi. Þá má enn spyrja: Því í ósköpunum? Þessu er erfitt að svara. Mér skilst, að það megi skýra með því, að samfélagið er svo lítið, að almenningsálitið rekur menn þegjandi til verka, reynt er að gera starfið að íþrótt með því að bera saman árangur einstakra atvinnugreina á hverju búi og með samanburði milli sömu atvinnugreina á fleiri búum. Þannig er haldið uppi keppnisanda, og hver vinnuhópur er svo lítill, að enginn svíkst um.

Hinn óstaðfesti dómur almennings verður sumum veikgeðja sálum ofviða, til að mynda þeim, sem þjást af sjúkdómi, sem ekki er auðvelt fyrir alla að skilja eða meta. Það fólk hefur þá ekki önnur ráð en láta samyrkjubúið lönd og leið og setjast að í borg eða á eigin búi. Það er í hendi félagsmanna, hversu mikið þeim, sem yfirgefa búin, er hjálpað til að hefja nýtt líf utan garðs.

Hér er ekki aðstaða til að rekja vandlega, hvernig búinu er stjórnað. Í stuttu máli má segja, að lögð er áhersla á almenna, lýðræðislega þátttöku í stjórn samfélagsins með því að vísa sem flestum málum til félagsfunda og með því að skipta sem oftast um fólk í æðstu trúnaðarstöðum. Þessi vinnubrögð þykja stundum stangast á við það markmið að auka framleiðsluafköstin sem mest og verða þyngri í vöfum, þegar fólki fjölgar á búunum og meiri sérhæfing og verkaskipting verður.

Þær ábyrgðarstöður, sem mest reyna á menn, er bústjórastaðan, staða gjaldkera sem þarf að greiða fram úr skuldaflækjum í landi, sem, að því er fjárfestingu og lánamál varðar, minnir mikið á Ísland, staða innkaupastjóra, staða sölustjóra, staða félagsmálafulltrúa, sem sér um framfærslumál með öðru og staða vinnumiðils. Vinnumiðillinn hefur erfitt starf. Verkstjórar hinna einstöku atvinnugreina senda honum pantanir á vinnuafli, og félagar, sem óska að skipta um starf, láta hann vita. Þessar óskir á hann að samræma í samfélagi, þar sem engum ber að hlýða öðrum og engar refsingar eru til nema reka manninn fyrir fullt og allt. Til þess er þó sjaldan gripið. Oftast hefur félaginn hypjað sig áður, þegar hann hefur kennt andúðar sambýlismanna sinna, og sú andúð getur orðið þyngri að þola en nokkur refsing. Flestir læra þó að syngja eftir nótum.

Þeir, sem sinna ábyrgðarstöðum, hafa oft langan vinnudag, en hljóta ekki aðra umbun erfiðis sín en þá, sem þeir kunna að finna í starfinu. Nú orðið er kvartað yfir, að erfitt sé að fá fólk í ábyrgðarstöður, og þeir, sem þeim gegna, kvarta yfir því, að þeir séu svo störfum hlaðnir, að þeir sjái ekki út úr augum, geti ekki gefið sér tóm til að skyggnast fram í tímann, en verði að láta hverjum degi nægja sínar þjáningar.

Ég nefndi, að reglan væri, að menn fengju eftir þörfum og ynnu eftir getu. Þetta má ekki taka bókstaflega. Almennur vinnutími er takmarkaður við 48 stunda vinnuviku, og maðurinn er þar eins og hér óseðjandi. Öllum þörfum verður því ekki fullnægt, og aðeins sumar þarfir eru lögmætar.

Við úthlutun lífsins gæða er fylgt ákveðnum reglum, samþykktum á félagsfundi. Mararæði er líkt, þó að menn geti valið á milli rétta. Einkum er dýraeggjahvíta takmörkuð af kostnaðarástæðum. Föt eru nú orðið ekki óþokkaleg, en ekkert tildur leyft. Í fyrra samþykktu samtök rauðustu samyrkjubúanna, að konur mættu nota varalit, en áður var það bannað. Leyfisveitingin var rökstudd með því, að konur komnar yfir þrítugt færu að láta á sjá af hita og erfiði og þyrftu að fá einhver meðul til að fá menn sína til að fylgja umferðarreglum hjónabandsins. Hætturnar eru taldar meiri í samyrkjubúum en utan, þar sem karlar hafa konur að vinnufélögum og matarfélögum og sitja í nefndum með þeim á kvöldin, en fjárhagsástæður eru ekki til að halda hjónabandinu saman. Hjónaskilnaðir eru þó fátíðir.

Sumar þarfir eru lögmætar, aðrar ekki. Til dæmis mundi maður geta fengið keyptar flestar klassískar hljómplötur, en tæplega margar bítlaplötur, og sömuleiðis ótakmarkað af svokölluðum góðum bókmenntum, en tæplega Playboy eða mánudagsblöðin.

Má ég svo minna á, í framhaldi af þessu, að ísraelsk samyrkjubú eru ekki bú í þröngum skilningi, ekki heldur venjulegt samfélag, heldur stjórnmálafélög. Flest samyrkjubúin eru í samtökum. Þrjú fjölmennustu samtökin eru kjarninn í stjórnmálaflokkum, rauðum marxískum flokki, hálfrauðum flokki og bleikfölum flokki Eskols og Ben Gurions. Búin eru í minni hluta í þessum flokkum, en eru fjárhagsgrundvöllur þeirra og leggja þeim til forystulið og starfslið. Þau eru skyld að leggja fram 6% af mannafla sínum til starfa fyrir samtökin, flokkana og síónistahreyfinguna. Stjórnmálaáhuginn dvínar stöðugt, en samt er ekki langt síðan fjölmennt og gróið samyrkjubú klofnaði í tvennt út af afstöðunni til Sovétríkjanna. Það er greinilegt, að búskapurinn er ekki aðalatriðið.

*

Hver er svo árangurinn af samyrkjubúunum í Ísrael? Það ætti að vera ljóst, að tilgangurinn með þeim var annar en menn hafa á Íslandi, þegar þeir stofna bú eða fyrirtæki. Tilgangurinn var ekki aðeins sá að búa sér heimili, ekki aðeins að taka þátt í að stofna ríki gyðinga, heldur að stofna nýtt þjóðfélag og taka þátt í að bylta heiminum. Eftir því sem stjórnmálaáhuginn dvínar, er réttmætt að meta árangurinn í tekjum og velferð, eins og gert er hér á landi.

Það er talið að 80-90% þeirrar kynslóðar, sem er fædd og uppalin í samyrkjubúunum, velji sér þar búsetu að lokinni herþjónustu, flestir af eigin hagsmunum, halda menn. Þó ber á því, að rauðustu búunum helst betur á sínu fólki. Hið sama á við um þau fáu bú, sem biblíutrúaðir gyðingar hafa stofnað, það er að segja, þeim búum helst best á unga fólkinu, þar sem það er alið upp í mestri andstöðu við lífsviðhorf þjóðfélagsins fyrir utan. Nýlega er lokið vandaðri rannsókn á þætti samyrkjubúanna í sköpun þjóðarteknanna. Þar kom í ljós, að þjóðartekjur á mann eru talsvert hærri á samyrkjubúunum en á búum sjálfstæðra bænda. Það er að miklu leyti skýrt með því, að samyrkjubúin hafa á sinni hendi iðnað og þjónustustarfsemi, en aðeins liðugur þriðjungur karla og kvenna á starfsaldri vinnur að landbúnaðarstörfum þar.

Einnig hafa samyrkjubúin styrkt aðstöðu sýna síðustu árin eftir að kjör bænda versnuðu, fyrir það að afköst þeirra höfðu um skeið aukist hraðar en eftirspurnin. Þetta stafar af því, að samyrkjubúin eiga tiltölulega hægt með að flytja fólk úr landbúnaði í iðnað og þjónustustarfsemi, án þess að fólkið þurfi að flytja í burtu. Nágrannabú vinna nú orðið saman um að koma upp iðnfyrirtækjum og framhaldsskólum. En það er áberandi vinsælla á samyrkjubúunum að vinna við búskap en í verksmiðju.

Einnig hefur verið gerð tilraun til að bera saman arðsemi mjólkurframleiðslu og hænsnaræktar á grónum samyrkjubúum og á nálægum jafngömlum býlum sjálfstæðra bænda. Árangurinn var mældur í vinnutekjum á dagsverk, og niðurstaðan var sú, að ekki mátti á milli sjá. Ef árangurinn væri mældur í vinnutekjum á klukkustund, hefðu samyrkjubúin borið af, því að dagsverkið er þar oftast ekki nema 8 tímar, en sennileg ekki undir 10 tímum á bændabýlunum.

Íslenskir hlustendur vilja væntanlega heyra nánar um kúabúskapinn. Ekki er óvanalegt, að um 200 kýr séu á samyrkjubúi og kýrnar mjólkaðar 8 í einu í tank, en fóður keyrt um fóðurganga á traktorum. Þrátt fyrir þetta er talið, að hæfilegt sé að ætla manninum 20-25 kýr. Það mundi sumum íslenskum ræðuskörungum í landbúnaðarmálum þykja furðu lítið. Ég hef reynt að finna skýringar á þessu. Mér virtist fjósamenn á samyrkjubúunum ekki slá slöku við, eftir því sem ég er vanur frá Íslandi og Noregi. Hins vegar rann ekki æði á mennina, eins og stundum sést í dönskum fjósum. Fyrst má benda á, að kýrnytin á samyrkjubúunum er hærri en þekkist annars staðar eða um 6 000 kg. Þá verða afköst mannsins 120-150 þúsund kg, og það mundi þykja sæmilegt á málfundum hér. Kýrnar eru mjólkaðar þrisvar á dag, og kemur því nokkuð af vinnunni í næturvinnu. Vinnutími þeirra, sem lenda í næturvinnu, er aðeins 6-7 tímar.

En það, sem óþægilegast kemur við afköstin er, að hér er að verki fólk á öllum aldri, karlar og konur, frískt og heilsuveilt fólk, fólk, sem hefur 52 hvíldardaga á ári og aðra helgidaga að auki, 10-15 virka orlofsdaga, leggst í rúmið þegar það er veikt, konur ala börn og eru frá verki og fólk sækir námskeið. Alls tapast þannig að meðaltali á starfsmann á ári rúmir 100 dagar. Það gerir alvarlegt strik í reikninginn.

Má ég svo að lokum reyna að skýra, af hverju ísraelsku samyrkjubúin eru einstök í sinni röð og hafa ekki orðið öðrum fyrirmynd. Fyrst vil ég þá minna á, að aðeins fjórðungur landbúnaðarins í Ísrael er samyrktur. Það hefur aldrei komið fyrir í Ísrael, að venjulegum bændabýlum hafi verið breytt í samyrkjubú, og ég varð þess ekki var, að nokkur gerði ráð fyrir því, að svo yrði. Vöxtur samyrkjubúanna er stöðvaður að fólksfjölda í heimalandi þeirra.

Ísraelsku samyrkjubúin urðu til og reyndust lífvænleg, af því að saman fór óvenjuleg markaðsskilyrði og óvenjulegt fólk, og er þá farið fljótt yfir sögu. Brautryðjendurnir á samyrkjubúunum voru úrval af því úrvali gyðinga, sem á tímum vesturferða valdi baráttuna í Gyðingalandi í stað kjötkatlanna í Ameríku. Þeir höfðu frá því um fermingaraldur markvisst stefnt að því að stofna þjóðfélag, sem í flestu var andstæða þess þjóðfélags, sem feður þeirra í Póllandi og Rússlandi höfðu búið við. Þeir vildu sameign í stað séreignar, lýðræði í stað einræðis, jafnrétti karla og kvenna í stað karlríkis, frjálslegt uppeldi, töldu erfiðisvinnu dyggð í sjálfu sér og bústörf mesta dyggð allrar erfiðisvinnu, en höfðu skömm á starfi feðra sinna, voru guðleysingjar í stað biblíutrúar feðra sinna, trúðu á bækur Marx, Lenins og landa síns Gordons, sem boðaði ágæti vinnunnar og afturhvarf til landbúnaðarins, kunnu ekkert til búskapar, en voru um leið óháðir venjum, og þegar þeir voru komnir til lands Davíðs, Sáls og Salómons var aðeins ein leið fær, leiðin fram á við, en allar brýr að baki brotnar. Fátt er líklegra til að landnám heppnist en það, að menn eygi þá leið eina, sem þeir hafa valið.

Svo koma til aðrar jarðneskari og óskáldlegri aðstæður, sem valda því, að samyrkjubúin í Ísrael heppnuðust. Ef litið er á, hversu margir unnu við landbúnað í Evrópu á árunum fram að stofnun Ísraelsríkis og samtímis skoðað, hversu margir gyðingar í Gyðingalandi stunduðu landbúnað, sést að þeir voru tiltölulega fáir. Hinn mikli innflutningur tvö- og þrefaldaði tölu gyðinga í landinu og kallaði því á stóraukna landbúnaðarframleiðslu, sem ekki varð svarað nema með stofnun nýrra fyrirtækja, með landnámi. Svo bættist það við, að viðskipti við lönd araba, en það eru landbúnaðarlönd, hurfu úr sögunni með stofnun Ísraelsríkis og með stríðinu, og um leið lokuðu Ísraelsmenn landinu með innflutningshömlum. Eftirspurn eftir ísraelskum landbúnaðarvörum stórjókst því og hefur haldið áfram að aukast vegna aukinnar velmegunar. Efnahagur er nú lítið lakari í Ísrael en í Vestur-Evrópu. Seinustu árin hafa afköstin í landbúnaðinum aukist hraðar en eftirspurnin, og gullöld ísraelskra bænda er þar með liðin hjá. Ísraelskir bændur hafa því með dugnaði sínum sett sig í sömu klípu og íslenskir, danskir, norskir og bandarískir bændur þekkja.

Þó að slík hagræn rök hafi gert samyrkjubú Gyðinga lífvænleg, verður því ekki hnekkt, að landnám samyrkjubænda í Ísrael var mikið afrek. Það má ef til vill segja: Það var afrek unnið í fyllingu tímans, og það er líka afrek.

Frey 61 (1965) 121-127