I

Það mætti segja mér, að um 500 manns í sveitum landsins móti landbúnaðarmálin að svo miklu leyti, sem sveitafólk mótar þau. Þetta fólk fylgist vel með, ræðir málin við nágranna sína og hefur trúnað þeirra og traust, af því að hagsmunirnir eru sameiginlegir. Þetta fólk hefur úrslitaáhrif á viðhorf sveitafólks í landbúnaðarmálum. Ég geri mig ánægðan, þó að lesendur þessarar greinar verði ekki fleiri en þessi takmarkaði hópur.

 

II

Fyrir einum sex árum vakti ungur maður, sem þá starfaði við kornræktartilraunir hér á landi, talsverða athygli fyrir erindi og grein um landbúnaðarmál. Um greinina sagði einn áhrifamesti embættismaður landsins í atvinnumálum, að hún væri það besta, sem lengi hefði verið skrifað um landbúnaðarmál hér á landi. Efnislega sagði höfundur þetta: Nú er talið, að kúabú þurfi að hafa 30 kýr til þess að gefa viðunandi afkomu og að fjárbú þurfi á sama hátt að hafa 500 fjár. Ef framleiðsla landbúnaðarafurða á aðeins að vera til að fullnægja innlendum þörfum, er þannig ekki rúm fyrir meira en 3000 bændur í landinu.

Þetta þótti mörgum bændum hart að heyra. Þeim fannst, að hér hefði áberandi landbúnaðarmaður tekið undir þá skoðun, sem komið hafði fram annars staðar, að bændum bæri að fækka. Það var að vísu ekki talað um það, á hvern hátt það átti að gerast, en þeir höfðu flestir séð það í sinni sveit og allir í sínu héraði, hvernig bændum fækkaði. Þeir gátu ekki séð betur en bændum fækkaði á þann hátt, að kjör einstakra bænda urðu svo slæm, að það varð viðvörun ungu fólki að hefja búskap, og á þann hátt hafði margur bóndinn brugðið búi, án þess að honum yrði verð úr eignum sínum og nokkur héldi uppi merkinu. Menn hlutu því að spyrja sig: Á hvern hátt á okkur að fækka? Hversu slæm verða kjör bænda að verða og hversu lengi verða þau að vera slæm, til þess að við verðum 3000? Verð ég einn þeirra, sem ganga frá jörð sinni verðlausri, áður en markinu er náð? Þó að ég verði ekki einn þeirra, hversu lágt verður verð á afurðum mínum fækkunartímabilið? Svona hugsaði margt sveitafólk.

 

III

Landbúnaðarmanninum, sem vitnað var í að framan, skjátlaðist í einu. Hann byrjaði á að athuga, hversu stór þau bú væru, sem gæfu viðundandi afkomu. (Látum hér vera, hvernig sú stærð var ákveðin). Síðan reiknaði hann á einfaldasta hátt, hversu mörg bú af þeirri stærð innlendi markaðurinn leyfði. Hann ræddi ekki nánar, hvernig ætti að ná þeirri tölu búa og bænda, sem útkoman sýndi. Í okkar landi, þar sem mönnum er tiltölulega frjálst að velja sér atvinnu, vitum við, hvernig það gerist, að fólki fækkar í atvinnugrein eins og landbúnaði, þar sem menn eru í sjálfsmennsku. Það gerist á þann hátt, að mönnum hefur lærst af eigin reynslu og annarra, að atvinnugreinin býður upp á lakari lífskjör en aðrar atvinnugreinar. Bændum fækkar því, af því að afkoman er slæm.

Er þá unnt að ná samtímis því marki, að bændum fækki talsvert og búin stækki mikið? Vilja menn stækka bú, ef afkoman er svo slæm, að fólk fælist búskap? Þessi markmið, að bændum fækki talsvert og búin stækki mikið, eru vel framkvæmanleg samtímis. Það er auðvelt með sérstökum stjórnarráðstöfunum (ódýrum lánum til bygginga, ræktunar og véla, jarðræktarstyrkjum) að beina svo miklu fjármagni í framkvæmdir í landbúnaði, að meðalbúið stækki verulega, og sjá um leið til þess með verðlagningu, að lífskjör fólksins í sveitunum séu svo slæm, að byggðum jörðum fækki og þeim fækki býlunum, þar sem fleiri en tvær hendur ganga að útiverkunum.

 

IV

Stefnan í fjárfestingarmálum landbúnaðarins á upptök sín árið 1923, þegar jarðræktarlögin voru fyrst sett. Þá var markvisst farið að vinna að því með styrk ríkisins, að bændur ykju ræktun hraðar en þeir gerðu af eigin rammleik. Árið 1930 er Búnaðarbankinn stofnaður í þeim tilgangi að beina meira og ódýrara fjármagni til framkvæmda í landbúnaði en hefði orðið án afskipta ríkisins. Þessari stefnu hefur verið fylgt síðan. Tölurnar hafa að vísu breyst, vinnubrögðin við ræktun og byggingar sömuleiðis, en árið 1968 er það enn höfuðstefna ríkisin í fjárfestingarmálum landbúnaðarins að vinna að því, að bændur rækti meira land en þeir mundu gera af eigin rammleik með því að veita þeim ræktunarstyrki og niðurgreidd lán, og að bændur byggi yfir fleiri nautgripi, sauðfé og svín en þeir gerðu, ef þeir fengju ekki til þess niðurgreidd lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins. Öll árin 1923, 1930 og 1968, eru þessi vinnubrögð viðhöfð, ekki aðeins með samþykki bændastéttarinnar, heldur að ósk og kröfu bænda.

 

V

Við skulum þá athuga, á hvern hátt þessi vinnubrögð samrýmast hagsmunum sveitafólks árið 1923 og 1968.

Árið 1923 voru kjör almennings í landinu þannig, að það hafði talsverð áhrif á neyslu hans á innlendum matvælum, nýmjólk, osti, smjöri, kindakjöti og kartöflum, hvort verðið var hátt eða lágt. Ræktunarstyrkirnir og síðar Búnaðarbankalánin stuðluðu að auknu framboði á landbúnaðarafurðum. Þetta aukna framboð hvarf auðveldlega í magann á neytendum, án þess að verðið þyrfti að lækka til þess að matarlystin ykist. Árið 1923 var verðlag á innlenda markaðinum í nánum tengslum við verðlag erlendis. Þær afurðir, sem voru fluttar út, voru á líku verði innanlands og fékkst fyrir þær erlendis, og þær afurðir, sem voru framleiddar í samkeppni við innfluttar afurðir, voru yfirleitt verðlagðar mjög líkt því, sem innfluttu afurðirnar kostuðu. Verðlagið var því yfirleitt lágt, lífskjör sveitafólks léleg, en það spillti ekki markaðinum svo neinu næmi, þó að framboðið ykist vegna jarðræktarlaganna. Þvert á móti styrktu jarðræktarlögin samkeppnisaðstöðu sveitafólks bæði gagnvart innfluttum landbúnaðarafurðum og gagnvart sjávarútveginum, sem var annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar.

Árið 1968 er allt þetta breytt. Nú ríkir hér verðlagskerfi, sem í nafninu á að slíta tengslin milli framboðs og eftirspurnar og gerir það vissulega, ef litið er á málið frá mánuði til mánaðar. Útflutningsuppbæturnar eru veittar til þess að slíta verðmyndunina innanlands úr tengslum við erlenda markaði, ströng innflutningshöft eru, sem vernda innlenda framleiðslu frá samkeppni við innflutta, og verðlagið er ákveðið af nefnd sex manna (og yfirnefnd), sem hefur fyrirmæli um að verðleggja afurðir landbúnaðarins þannig, að kjör bænda verði sem líkust kjörum nokkurra annarra fjölmennra stétta. Ef við berum kjör bænda saman við fyrirmæli löggjafarvaldsins til nefndarinnar um að verðleggja þannig, að kjör bænda verði sem líkust kjörum hinna fjölmennu samanburðarstétta, er ljóst, að nefndin hefur aldrei reiknað rétt og oft langt frá því. Þetta er ekki óeðlilegt, þar sem óvissa er um margt, þegar verðið er ákveðið. Það sem er athyglisverðara, er þó, að nefndin (eða yfirnefndin) hefur alltaf reiknað skakkt í aðra áttina. Útkoman, þegar reikningar hafa verið gerðir upp, hefur alltaf verið sú, að tekjur bænda hafa verið lægri en tekjur samanburðarstéttanna. Þetta er ekki einleikið, ef um ófyrirséða reikningsskekkju væri að ræða í tuttugu ár.

Án þess að orðlengja það frekar virðist mér öll reynsla af verðlagningu á landbúnaðarafurðum hér á landi gefa tilefni til að skýra kjör bænda á Íslandi á líkan hátt og kjör bænda í öðrum löndum, þar sem almennur efnahagur er líkur því sem er hér, eru skýrð. Eins og efnahag almennings er nú háttað, bætir fólk ekki meira á sig af mjólkurafurðum og kjöti nema verðið lækki verulega. Aukið framboð á landbúnaðarafurðum leiðir því til þess, að erfitt reynist að halda upp verðinu. Útflutningsuppbæturnar geta að vissu marki (sem nú er komið yfir) tekið hið aukna framboð út úr markaðinum og forðað þannig frá verðhruni, en þeir, sem bændur eiga að semja við um verðlagið, finna enga hvöt hjá sér til þess að halda háu verði á vöru, sem nóg er af fyrir, og viðbótarframleiðslan leiðir einungis til aukinna útgjalda ríkissjóðs vegna útflutningsuppbótanna, á meðan þær duga. Enginn óskar eftir þeim nema bændurnir.

Áhrifin af fjárfestingarmálum bænda árið 1923 og 1968 eru því gerólík. Árið 1923 var það bændum í hag, að ríkið ýtti undir það, að þeir ræktuðu meira og byggðu yfir fleira búfé en ella. Árið 1968 er markaður bændanna takmarkaður. Nú leiðir sú stefna ríkisvaldsins að hvetja bændur með styrkjum og niðurgreiddum lánum til þess að rækta meira og byggja yfir fleira búfé en þeir gerðu ella til þess, að verðlag á afurðum þeirra lækkar eða hækkar minna en það gerði án þessarar stefnu.

 

VI

Af ýmsum ástæðum er eðlilegt og hagkvæmt, að meira ræktað land og fleira búfé komi á hvern starfandi mann í landbúnaði eftir því sem árin líða. Fyrir tæknilegar framfarir aukast afköstin, og þótt ekki væri um þær að ræða, eykst fjármagn á mann með hverju ári og þar með framleiðslan á mann. Grein mín fjallar ekki um þá hlið málsins. Hún fjallar um það, hvernig stefna ríkisvaldsins í fjárfestingarmálum bændanna fær menn til þess að taka stærri skref í þessum efnum en þeir sæju sér hag í, ef atbeini ríkisins kæmi ekki til. Greinin fjallar um það, á hvern hátt þessi stefna er andstæð bættum lífskjörum sveitafólks.

 

VII

Ég hóf mál mitt með því að rekja sjónarmið þekkts búvísindamanns í landbúnaðarmálum. Ég geri mér grein fyrir því, í hverju honum skjátlaðist. Ég gerði einnig grein fyrir því, að hvaða leyti hann hefði rétt fyrir sér. Ég vil nú tengja aðalmál mitt upphafi greinarinnar.

Sú bústækkun, sú afkastaaukning, sem fer fram í sveitunum, er sumpart borin uppi af viðleitni bænda til að nýta framleiðsluöflin sem best. Sú viðleitni hefur að leiðarljósi, að það á að vera samræmi á milli þess tilkostnaðar og fyrirhafnar, sem afkastaaukningin krefst, og þeirrar verðmætasköpunar, sem afkastaaukningin og bústækkunin er. Sumpart er bústækkunin borin uppi af öðrum aðilum, af ríkinu, þannig að hún verður örari en bændur sæju sér hag í ella, verður örari en hún yrði, ef þeir sem framkvæma hana, bændurnir og þeirra heimilisfólk, bæru sjálfir kostnaðinn við hana að öllu leyti.

Í upphafi var bent á, að fjöldi bænda takmarkast af þeirri framleiðslu, sem þjóðin þarfnast, á þann hátt, að bændurnir verða því færri sem hver þeirra framleiðir meira. Einnig var bent á, að fjöldi bændanna (og heimilisfólks þeirra) er háður því, hversu góð kjör þeir hafa. Framlög ríkisins (jarðræktarstyrkir, niðurgreiðslur á lánum) hafa því ekki hagstæð áhrif á lífskjör sveitafólks í heild. Þvert á móti. Þau eru framlög háð því skilyrði, að þau séu notuð til að kaupa sement og timbur í útihús, skurðgröfuvinnu og áburð í flög. Enginn bóndi verður feitur af þeim kosti. Þegar framlögin eru komin í gagnið, orðin að framkvæmdum, þrengja þau atvinnuskilyrðin í sveitunum. Áhrifin koma fram við verðlagningu landbúnaðarafurða.

 

VIII

Hingað til hef ég forðast nokkuð afstætt mál hagfræðinga. Meðal þeirra er nokkur tilhneiging til að skýra erfiða aðstöðu bænda á þann hátt, að nálgast náttúrulögmál. Skýringarnar eru þó í sama dúr og hér að framan (V):

1.                 Neysla landbúnaðarafurða eykst mjög lítið, úr því að lífskjör almennings eru orðin sæmileg eða góð.

2.                 Afköst á starfandi mann í landbúnaði aukast vegna tæknilegra framfara og vegna aukinnar fjárfestingar á mann.

3.                 Afkastaaukningin gerist á þann veg, að framboð á landbúnaðarafurðum eykst.

4.                 Þar sem neyslan eykst mjög takmarkað, veldur aukið framboð markaðsörðugleikum, sem fyrir eða síðar leiða til verðlækkunar (miðað við það, sem væri ella), sem löggjafarvaldinu tekst ekki að koma í veg fyrir.

5.                 Verðlækkunin rýrir lífskjör sveitafólks, og það ýtir fólki út úr landbúnaðinum, þannig að dregur úr framboði. Þar með næst ekki jafnvægi, því að sagan með tæknilegar framfarir og aukna fjárfestingu endurtekur sig stöðugt (punktarnir 2 og 3 hér að framan). Kjör sveitafólks verða því stöðugt verri en kjör annarra fjölmennra stétta.

6.                 Þó að kjör sveitafólks verði stöðugt verri en almennt gerist, geta þau batnað hlutfallslega á sama hátt og kjör annarra. Þetta gerist ekki fyrir aukin afköst í landbúnaði, heldur þrátt fyrir þau, líkt og kjör hárskera og bifvélavirkja geta haldið í horfinu við kjör annarra, þó að afköst hárskera og bifvélavirkja væru óbreytt. Menn fást ekki til að klippa hár til lengdar eða gera við bíla, ef það veitir lakari kjör til lengdar en völ er á annars. Til þess að fæla menn frá landbúnaði þarf róttækari aðgerðir (óhagstæðari kjör) en til að fæla fólk frá öðrum störfum, meðal annars vegna þess að bændur þurfa ekki aðeins að skipta um starf, heldur oftast einnig flytjast búferlum og skilja eignir sínar eins og íbúðarhús verðlitlar eftir.

 

IX

Þessar skýringar hagfræðinga eru, eins og ég sagði, stundum túlkaðar á þann veg, að efnahagslegir erfiðleikar bænda, miðað við aðrar stéttir, stafi af nokkurs konar náttúrulögmáli, og séu því óhjákvæmilegur fylgifiskur tæknilegra framfara og aukinnar fjárfestingar. Ég ætla ekki í þessari grein að ráðast á þá hugmynd, að erfitt sé að komast hjá því, að kjör sveitafólks verði almennt lakari en gerist og gengur. Það, sem hér er til umræðu, er, hversu miklu lakari en gerist og gengur sé eðlilegt, að kjör sveitafólks séu. Ég ætla að nefna nokkur atriði í því sambandi.

1.           Árin 1962-1966 var fjárfesting á hvern starfandi mann í landbúnaði á verðlagi ársins 1967 53 þúsund krónur á ári, í fiskverkun 45 þúsund og í iðnaði 31 þúsund krónur. Fjárfesting á mann er því mest í þeirri þessara þriggja atvinnugreina, landbúnaðinum, þar sem starfandi fólki fækkar. Í fiskverkum og iðnaði fjölgar fólki. Þar hefði því mátt ætla, að fjárfesting á mann yrði meiri en í landbúnaði, þar sem fjármagnið skiptist í tvo hluta; til þess að útbúa þá, sem bætast við, og til þess að búa þá betur, sem fyrir eru. Í landbúnaðinum hefur ekkert fjármagn farið til þess að útbúa þá, sem bætast við, þar sem það er enginn, og ekki einu sinni að komi fólk fyrir þá, sem falla frá. Sést því, að munurinn er enn meiri en tölurnar sýna.

Munurinn á fjárfestingu í þessum þremur atvinnugreinum er þó mestur, ef litið er á áhrifin. Hin mikla fjárfesting í landbúnaði spillir lífskjörum sveitafólks og veldur því, að starfandi fólki fækkar í landbúnaði. Fjárfesting í öðrum atvinnugreinum, þar sem markaður og náttúruauðæfi eru lítt takmörkuð, er leið til þess að veita fleira fólki góða atvinnu í þessum atvinnugreinum. Þetta misræmi milli fjárfestingar á mann í landbúnaði og öðrum atvinnuvegum stafar sumpart af markvissri viðleitni stjórnvalda til að beina fjármagni inn í landbúnaðinn. Að svo miklu leyti, sem örðugleikar bændastéttarinnar stafa af þessu misræmi, teljast þeir því ekki náttúrulögmál, heldur stjórnmál.

2.           Á fjárlögum fyrir árið 1968 eru veittar 45 milljón krónur til jarðræktar, 25 milljónir til framræslu ásamt sérstökum lið upp á 5 milljónir til sömu hluta, tæpar 18 milljónir til sömu hluta á uppbyggðum jörðum á vegum landnáms ríkisins og 9,5 milljónir til nýbýla. (,,Nýbýlin“ er nú oft raunverulega uppbygging og endurbygging á eldri jörðum gerð samkvæmt þeim kröfum sem Nýbýlastjórn gerir. Ríkisstjórnin hefur heimild til þess að veita aðeins 3,5 milljónir til nýbýla.)

Sú framleiðsluaukning, sem þessar fjárveitingar valda, og þeir erfiðleikar, sem sú framleiðsluaukning mun valda bændastéttinni samkvæmt reynslu síðustu fimmtán ára, stafa ekki af náttúrulögmáli, heldur af liðunum 241 (undirliðirnir 02 og 04) og 245 (undirliðirnir 07,08 og 10) á fjárlögum fyrir árið 1968.

3.           Á landbúnaðarafurðir er nú lagt gjald til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Bændur greiða 1%, neytendur 0,75% og auk þess ríkissjóður sinn hluta. Sú framleiðsluaukning, sem þessi stuðningur við stofnlánadeildina veldur, þeir erfiðleikar, sem framleiðsluaukningin skapar bændum við að ná því verði á afurðir sínar, sem veitir þeim lífskjör, sem eru nær því, sem almennt gerist, en verið hefur, og sú atvinnurýrnun í sveitunum, sem hlýst af fjárfestingunni, stafar ekki af náttúrulögmáli, heldur af 4. grein í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum nr. 75 27. apríl 1962.

 

Ég hef bent á, að stefnan í fjárfestingarmálum landbúnaðarins hentaði hagsmunum sveitafólks árið 1923. Síðan hafa aðstæður í landinu breyst svo, að með hverju árinu, sem leið, þjónaði þessi stefna hagsmunum bænda ver og ver, uns svo kom, að stefnan varð andstæð bættum lífskjörum í sveitunum. Það er tilgangslítið að tímasetja þessi umskipti, nóg að vita, að árið 1968 eru þau orðin. Þetta verður ótvíræðara með hverju ári, sem markaður fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir innanlands og erlendis þróast, eins og hann hefur gert, síðan fjárskiptum lauk að mestu. Núverandi stefna í fjárfestingarmálum landbúnaðarins er því yfirleitt andstæð lífskjörum sveitafólks.

Síðan í hitteðfyrra hafa tekjur almennings minnkað og atvinna víða orðið takmarkaðri en var. Þegar svo stendur á, minnkar innlenda neyslan á landbúnaðarafurðum eða vex minna en ella, og fleira fólk en ella stundar búskap, þótt kjörin séu vond, fyrst erfitt er um atvinnu annars staðar. Það er því tvöföld ástæða til að ætla, að viðleitni stjórnvalda til að auka fjárfestingu og framleiðslu meira en bændur sæju sér hag í ella, hafi sérlega óhagstæð áhrif á lífskjör bænda eins og á stendur.

 

Núverandi vinnubrögð í fjárfestingarmálum landbúnaðarins eru því almennt andstæð lífskjörum bænda og sveitafólks, og þau eru sérstaklega andstæð lífskjörum bænda eins og nú standa sakir í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Samvinnunni 4 1968