Um alllangt skeið hefur beitarþol afrétta landsins verið rannsakað á vegum Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Það er auðvitað brýnt starf ef bændur eiga að halda áfram að nýta afréttina og spilla þeim þó ekki með beit. Beitarþol er þá sá mesti fjárfjöldi sem reka má á fjall. Annað mál er hvað er hæfilegur fjárfjöldi miðað við að afréttur skili sem mestum arði (og spillist þó ekki). Væntanlega er hæfilegur fjárfjöldi þannig skoðað minni en beitarþolið. Ef beitt er á tún miða menn beitarþungann ekki við hvað túnið þolir án þess að verða að flagi, heldur við það hvað landið gefur mest af sér.

Ég sé það vel að menn hafa önnur og betri tök á því að nýta tún til beitar en afrétti, og eins get ég búist við því að ekki sé alltaf mikill munur á beitarþoli og hæfilegum fjárfjölda, en veit það þó ekki með vissu. Ég þykist sjá að vandasamara muni vera að finna hæfilegan beitarþunga á fjalli en á túni, og eins að auðveldara sé að finna beitarþol á afrétti en hæfilegan fjárfjölda, og vissulega er mest um vert að fá sem fyrst vitneskju um hvað má nýta afrétti mikið án þess að spilla þeim. Samt þykir mér rétt að koma þessari athugasemd á framfæri og vænti þess að fræðimenn geri grein fyrir því verkefni, sem ég bendi á.

Frey 69 (1973) 91