Á árunum 1975-80 stóð Rannsóknastofnun landbúnaðarins fyrir tilraun með sauðfjárbeit á Auðkúluheiði, þar sem könnuð voru áhrif mismunandi beitarþunga á afurðir. Fram til 1979 var beitt áborið land í heiðinni til samanburðar við beit á óáborið. Áhrif mismunandi beitarþunga hafa verið metin til fjár og verður hér sagt frá niðurstöðum.

 

Tilraunin var gerð í um 470 m hæð á fremur þýfðu, hallalitlu landi; þó var eitt hólf í fremur brattri hlíð og annað flötum mel að hluta. Jarðvegur var að mestu fremur þurr mói. Lækur rann í gegnum efsta hluta landsins, og meðfram honum var fremur deigt land, einkum í einu hólfinu. Gróður var mosaþemba með smárunnum og grösum.

Beitarþungi, sem reyndur var á óábornu landi, var á bilinu 11 ær á ferkílómetra upp í 61, einlembur og tvílembur. Ætla má, að venjulegur beitarþungi á þeim slóðum sé um 30 ær á ferkílómetra.

Mælingar, sem gerðar voru á afurðum úr einstökum hólfum má nota til að reikna út, hvaða áhrif það hefði á arðsemi að þyngja eða létta beitina. Menn hafa þóst vita, að verðmæti afurða af hverri á rýrnuðu, þegar fé væri fjölgað. Nú eru komnar tölur í dæmið.

 

Fé fækkað

Ef fé er fækkað um helming – úr 30 ám á ferkílómetra í 15 – eykst arður af á um 9-10%.

 

Fé fjölgað

Ef fé er fjölgað úr 30 í 45 ær á ferkílómetra, minnkar arður af á um 9-10%. Ef fjölgað er í 60 ær, rýrnar verðmæti afurða af á um 18-20%.

 

Árið 1979

Niðurstaðan er í þessu efni svipuð frá ári til árs að árinu 1979 undanskildu, en þá var sumarið kaldast á þessum 6 árum. Afurðir reyndust þá talsvert minni við létta beit, en við aukinn beitarþunga hvarf munurinn.

 

Fækkað um einn tíunda og einn fimmta

Hugsum okkur, að fé sé fækkað um eina á af 10, og setjum, að afurðir ærinnar hafi verið 100. 10 ær gefa þá 1000. Ærnar, sem eftir verða, fá rýmra land og skila verðmætari afurðum. Tapið af að fækka um eina á af 10, verður því minna en 100, eins og sjá má í töflunni hér að neðan, og er þá miðað við beitarþunga 30 ær á ferkílómetra fyrir hækkun:

 

                Ærtala            10         9

Verðmæti afurða            1000    916-18

 

Verðmætið minnkar um 82-84 (1000/916=84) við að fækka um eina á af 10. Ef 10.000 ær hafa áður verið reknar á fjall, en er fækkað í 9.000, minnkar verðmæti afurða safnsins, sem af fjalli kemur um, 82-84.000.

 

                Ærtala             5          4

Verðmæti afurða              500    414-16

 

Verðmætið minnar um 84-86 við að fækka um eina á af 5.

            Þessar tölur gilda um árið 1975-78 og 1980, en árið 1979 skar sig úr, eins og hér má sjá:

 

                Ærtala            10         9

Verðmæti afurða            1000         906

 

            Verðmætið minnkar um 94 við að fækka um eina á af 10.

 

                Ærtala             5          4

Verðmæti afurða              500         405

 

Verðmætið minnkar því talsvert minna af þungbeittu landi en af meðalbeittu, þegar fækkað er, svo sem vonlegt er, þar sem ærnar, sem eftir verða, munar meira um að fá rýmra, þar sem þröngt var áður.

           

Árið 1979 hefur sams konar sérstöðu við þennan beitarþunga:

 

                Ærtala            10         9

Verðmæti afurða            1000         913

 

                Ærtala             5          4

Verðmæti afurða              500         411

 

Verðmæti minnkar um 89 við að fækka um eina á af  5.

 

Fjölgað um einn tíunda

Það kann að þykja ótímabært að fjalla um áhrif arðsemi af að fjölga á fjalli, en lítum samt á tölur um það. Ef bætt hefði verið við einni á, þar sem 10 voru fyrir og beitarþungi svaraði til 30 áa á ferkílómetra, hefði útkoman orðið sem hér segir:

 

                Ærtala            10        11

Verðmæti afurða            1000  1078-80

 

Verðmætisaukning verður því 78-80 við að fjölga um eina á af 10.

 

Árið 1979 hefur hér minni háttar sérstöðu:

 

                Ærtala            10        11

Verðmæti afurða            1000       1097

 

            Verðmætisaukning verður 97 við að fjölga um eina á af 10.

 

Verðmæti af hektara

Reikna má hvaða áhrif það hefur á verðmæti afurða af hektara að fækka eða fjölga fé miðað við 30 ær á ferkílómetra sem upphaflegan beitarþunga. Ef fjártalan er helminguð (lækkuð um 50%), minnkar verðmæti afurða um 45-48%. Ef fjölgað er um 50%, eykst verðmæti afurða á hektara um 35-37% (45% árið 1979). Afurðirnar af landinu breytast sem sagt ekki eins mikið hlutfallslega og fjártalan.

Hugsum okkur, að tekinn sé undan einn hektari af ferkílómetra lands (til að mynda sökkt undir vatn), þar sem voru 30 ær, og fjártalan haldist. Slík 1% skerðing landsins mundi skerða verðmæti afurða um 0,2% (0,07% árið 1979). 10% skerðing lands (1 ha af 10 hektara landi) mundi skerða verðmæti afurða um 2-2,2%  (0,07% árið 1979).

 

Borið á

Þar sem borið var á, var haft miklu þrengra í haga eða 83 ær miðað við 100 hektara, þar sem rýmst var, en 278 ær, þar sem þyngst var beitt. Áburðarskammturinn var 400 kg á hektara af tegundinni 26-14 árin 1975-8, en 320 kg árið 1979. Verðmæti afurða af landinu jókst með þyngri beit. Heldur dró úr verðmætisaukningu á flatareiningu, eftir því sem beit þyngdist (þó ekki árið 1979). Verðmæti afurða af á minnkaði nokkuð með þyngri beit (þó ekki árið 1979). Dæmið snerist við, þegar áburðarkostnaðurinn hafði verið dreginn frá. Arður af á varð þá mestur við þyngsta beit, en þó aðeins 47-57% (83% árið 1979) af verðmæti af á á óábornu, þar sem beitt var 30 ám á ferkílómetra.

 

Borgar áburður sig?

Með þessu er ekki öll sagan sögð um hag manna eða óhag af að bera á hluta landsins, þar sem rýmra verður á óáborna landinu, ef hluti fjárins er tekinn í áburðarhólf. Hugsum okkur, að tekinn sé einn ferkílómetri lands af 100 ferkílómetra landi og girtur og borið á og þar beitt 278 ám, en fjártalan í heild óbreytt. Ef landið hefði verið beitt með 60 ám á ferkílómetra, hefði aukning verðmætis afurða svarað til aðeins hluta af áburðarkostnaðinum. Hlutfallið af áburðarkostnaðinum, sem þannig hefði endurspeglast, hefði orðið 50% árið 1975, 88% árið 1976, 96% árið 1977, 73% árið 1978 og 79% árið 1979. Enn minna hefði skilað sér, ef beitarþunginn í heild hefði verið 45 ær á ferkílómetra eða í sömu áraröð 24, 63, 71, 47 og 69%.

Þeir sem best mega vita, telja áburðarskammtinn, sem notaður var, fullstóran, og líklegt að minni áburður hefði verið hagkvæmari. Engu að síður er ráðlegt að bera á árlega, svo sem og var gert í tilrauninni.

 

Frey 80 (1984) 536-8