Í grein minni í síðasta tölublaði um tolla- og innflutningsmál garðyrkjunnar kom fram, að fyrirhuguð lækkun á tolli á grænmeti kynni að þrengja nokkuð kosti garðyrkjunnar. Hugmyndin um tollalækkunina er upphaflega óviðkomandi garðyrkjunni, hún er sú að lækka yfirleitt þá tekjuöflunartolla sem verið hafa í hærra lagi, og það á við um grænmeti og aðrar garðyrkjuafurðir.

 

Verkefni mitt var að gera grein fyrir stöðu garðyrkjunnar með tilliti til tollalækkana, með rökum sem stjórnvöld teldu gild. Hvernig átti ég að vita, hvaða rök stjórnvöld teldu gild fyrir garðyrkjubúskap hér á landi? Þar hafði ég enga aðra yfirlýsingu að styðjast við en lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins með ákvæði um forgang innlendrar garðyrkju að markaðnum. Ég gekk úr skugga um, að ekki hefði komið til greina að skerða þennan forgangsrétt, þar sem fjallað hefði verið um endurskoðun laganna á vegur ríkisstjórnarinnar. Ekki lagði heldur neinn neitt slíkt til í miklum umræðum um innflutningsverslun með grænmeti á alþingi í vor, þar sem rætt var um, hverjir mættu hafa verslunina með höndum. Afstaða stjórnvalda sýnist því skýr að þessu leyti.

Fleira hefur áhrif á svigrúm garðyrkjunnar en ofangreindur forgangsréttur. Verð á ávöxtum lækkaði mikið á sínum tíma, þegar tollar voru lækkaðir á þeim. Ávextir koma að nokkru leyti í stað tómata og annars grænmetis. Enn sem komið er kveður trúlega lítið að samkeppni frá niðursoðnu, þurrkuðu eða frystu innfluttu grænmeti, en innfluttar matbúnar kartöflur koma í stað innlendra að einhverju marki. Spyrja má, hvort neytendur skuli bera allan kostnað af því, að innlend garðyrkja hefur forgang að markaðnum, og hvernig og hversu mikið stjórnvöld skuli taka á sig af kostnaðinum.

Ég útvegaði mér opinbera greinargerð (nefndarálit) um verslun með grænmeti og blóm í Noregi. Þar kom fram, að alþingi norðmanna hafði rökstudda stefnu um hversu mikið bæri að framleiða í landinu af landbúnaðarafurðum með tilliti til öryggis þjóðarinnar, eftir því sem skilyrði væru til. Þar kom einnig fram, hvernig sjá mætti til þess, að framleiðslan yrði neytendum ekki svo dýr, að þeir spöruðu við sig, að næringarástand þjóðarinnar spilltist.

Lítum nánar á, hvernig norðmenn hafa snúist við þessu. Fyrir síðustu heimsstyrjöld voru tollar mikilvægt stjórntæki til þess að afla ríkissjóði tekna og til þess að vernda innlenda framleiðslu. Eftir stríð sneru norðmenn við blaðinu og takmörkuðu með gagnkvæmum samningum við önnur ríki rétt sinn til að leggja á tolla. Var það gert í þeirri trú, að tollfrjáls viðskipti færðu þjóðunum hagsæld. Landbúnaður var skilinn undan í þessari þróun til frjálsari milliríkjaviðskipta til að tryggja þjóðunum eigin landbúnaðarafurðir eftir því sem skilyrði væru til (Efnahagsbandalagið hefur að vísu afnumið hömlur á viðskipti með landbúnaðarafurðir milli ríkja bandalagsins, en ekki gagnvart öðrum ríkjum, og hefur þannig skipað málum líkt og Bandaríki Norður-Ameríku, enda var með efnahagsbandalagi stefnt að stofnun bandaríkja Vestur-Evrópu).

Norðmenn þurftu því að finna önnur ráð en tollvernd til að treysta stöðu garðyrkjunnar. Fyrir aldarfjórðungi tóku þeir upp nýtt skipulag í innflutningsmálum með samningi bændasamtakanna og stjórnvalda, og er það enn við lýði. Beitt er lagaákvæði sem heimilar stjórnvöldum að takmarka innflutning á aldinum, berjum, grænmeti og plöntum. Samið er um viðmiðunarverð á aldinum, berjum og grænmeti, sem sölufélag garðyrkjumanna skal stefna að ná, en ekki er veitt nein trygging fyrir því að það náist. Ef skráð verð fer 12% yfir viðmiðunarverð tvær vikur í röð er innflutningur leyfður. Innflutningur stöðvast 9 dögum eftir að skráð verð er komið niður á viðmiðunarverð eða niður fyrir það.

Viðmiðunarverð breytist frá vori til hausts. Með því móti má ráða því, hvað forgangur innlendrar garðyrkju varir lengi. Eins og hér á landi eru tómatar mikilvæg afurð. Stöðva má innflutning tómata 10. maí, en venjulega er það ekki gert fyrr en seint í maí, þegar eftirspurn hefur nokkurn veginn verið fullnægt í um hálfan mánuð með norskum tómötum. Norskir tómatabændur eru styrktir í samkeppni við innflutninginn á vorin með framleiðsluuppbót á uppskeru fram til 10. júlí. Einnig er veittur umbúðastyrkur, sem hefur verið hærri en raunverulegur umbúðakostnaður. Sennilegt er, að framlag ríkissjóðs til umbúðakaupa skili sér að verulegu leyti aftur í ríkissjóð, þar eð styrkurinn stuðlar að betra framtali á afurðum. Enn má nefna flutningsstyrk til þeirra, sem leita langt á markað (tómatar frá Rogalandi og aldin úr Sogni til Oslóar), framleiðsluuppbót sem er í hlutfalli við áætlaða eðlilega vinnuþörf við hvers konar jarðyrkju og orlofs- og afleysingastyrk. Garðyrkja í Norður Noregi er styrkt í samkeppni við garðyrkju í Suður-Noregi og til að lækka grænmeti í verði í Norður-Noregi. Er það gert með styrk á ræktað land, breytilegum eftir tegundum.

Með verðlagskerfi norðmanna felst tækifæri til að stefna á ákveðið framleiðslumagn í meðalári, skipta framleiðslukostnaðinum milli neytenda og stjórnvalda og beina framleiðslunni í ákveðin héruð, með þessum ráðum:

  1. Lækka má efri verðmörk, án þess að dragi úr ræktun, með því að hvetja til ræktunar með verðbótum, umbúðastyrk, framleiðsluuppbót og orlofs- og afleysingastyrkjum. Þannig lækkar verð á innlendum tómötum, eplum, perum og jarðarberjum, og eftirspurn eftir þeim helst betur í samkeppni við suðræna ávexti.

  2. Efri verðmörk takmarka kostnað neytenda.

  3. Flutningsstyrkur er til hagsbóta héruðum, sem eiga langt á markað. Hlutur norðlægra héraða er styrktur með framlögum á garðland þar.

Íslensk garðyrkja hefur verið í örri þróun í skjóli verndarákvæða. Smám saman verður ljósara hvaða árangri má ná í ýmsum greinum hennar. Nú, þegar á dagskrá er að rýra ákvæði (tolla), sem verið hafa garðyrkjunni til verndar, af ástæðum sem eru málum garðyrkjunnar óviðkomandi, er tímabært, að stjórnvöld taki afstöðu til þess, hvert hlutverk garðyrkjunni sé ætlað, svo sem að hve mikilli ræktun skuli stefnt af einstökum tegundum, hvernig stuðla megi að slíkum árangri og hvernig kostnaðinum við það skuli skipt milli stjórnvalda og neytenda. Verðlag má ekki vera svo hátt, að almenningur spari við sig grænmeti – því aðeins er þjóðinni öryggi í garðyrkjunni, ef að kreppir, að ræktunin sé við venjulegar kringumstæður ríflega umfram nauðsynjar.

Þótt mál garðyrkjunnar, sem komust á dagskrá með hugmyndum um lækkun tolla, brenni fyrst og fremst á garðyrkjubændum og byggðarlögum þeirra, er það ekki þeirra vegna, að garðyrkjunni hafa verið veitt starfsskilyrði með forgangsrétti að innlendum markaði. Við athugun á málum garðyrkjunnar kemur fram kjarninn í landbúnaðarstefnunn og kallar eftir svörum við ýmsu varðandi landbúnaðarmálin, sem ekki hefur verið tekin rökstudd afstaða til. Landbúnaðarmálin hafa helst verið rædd með tilliti til stundarhagsmuna neytenda og framleiðenda, sem eru viðfangsefni sexmannanefndar, en þá vantar mikið á að heildarsjónarmiða sé gætt.

Frey 81 (1985) 54-5