Í fyrravetur kom til tals meðal stjórnvalda að lækka almennt þá tolla sem hafa verið í hærra lagi, á forgengilega neysluvöru (þ. á. m. grænmeti og blómum) í 20% í stað 30% á varanlegri neysluvöru. Af því tilefni var ég fenginn til að athuga, hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íslenska garðyrkju.

 

Garðyrkja hefur verið vaxandi atvinnugrein um langan aldur. Hún hefur forgang að innlendum markaði samkvæmt lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Þar segir, að þess skuli jafna ngætt, að innflutningur á landbúnaðarvörum fari því aðeins fram, að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni, og ennfremur, að þeir, sem með þau mál fara, skuli leita álits og tillagna Framleiðsluráðs, áður en ákvarðanir séu teknar um innflutning garðávaxta og gróðurhúsaframleiðslu. Þess hefur að vísu ekki verið gætt nema hálft árið varðandi blóm og pottaplöntur. – Geta má þess, að í þessu efni hefur Ísland enga sérstöðu meðal þeirra ríkja og ríkjabandalaga, sem landið á nánust samskipti við.

Það er í skjóli þessa forgangs að markaðnum fremur en hárra tolla, að garðyrkjan hefur dafnað. Öðru máli gegnir um iðnaðinn fram til 1970. Flestar greinar hans störfuðu í skjóli tollverndar, þar til tollar á iðnvarningi voru felldir niður gagnvart löndum Vestur-Evrópu með gagnkvæmum samningum. Fyrirhuguð tollalækkun mun ekki hafa nein áhrif á innlendan iðnað í samkeppni við iðnvarning, sem enn er tollaður (frá Ameríku og Asíu), þar sem tollar á samkeppnisvarningi þaðan eru nú þegar lægri en 30%.

 

Áhrif tollalækkana á verðlag

Tollur á garðyrkjuafurðir hefur verið tekjuöflunartollur, en hefur þó haft nokkurt verndargildi, eins og hér mun koma fram. Tollur á kartöflum hefur verið 4%, á grænmeti 70%, 80% á afskornum blómum, en 40% á pottaplöntum og græðlingum.

Nýjar íslenskar sumarkartöflur hafa verið 80-90% dýrari í heildsölu en innfluttu kartöflurnar á sama tíma, en verðið á aðaluppskerunni hefur orðið talsvert lægra, nú í haust fór það niður undir það, sem innfluttu kartöflurnar kostuðu í sumar. Neytendur hafa tekið nýju íslensku kartöflunum vel, vitandi það, að verðið mundi lækka, þegar kæmi fram á haust. Brögð munu þó hafa verið að því, að stórkaupendur eins og mötuneyti birgðu sig upp af innfluttum kartöflum.

Fyrsta íslenska grænmetið hefur verið verðlagt líkt og innflutta grænmetið. Lækkun á tolli úr 70 í 20% sýnist leiða til þess, að innflutt grænmeti lækki í verði um 25-29%, misjafnt eftir tegundum. Hér verður fyrst gert ráð fyrir, að verð á innlendum afurðum, þegar þær koma á markað, lækki í sama hlutfalli.

Tómatar eru mikilvægasta gróðurhúsaafurðin. Innfluttir tómatar mundu lækka um 25-26%. Sama verðlækkun á fyrstu innlendu tómötunum svarar til þess, að verð til bænda lækkaði um 30-31%. Innlendir tómatar hafa undanfarin vor haldist alllengi í sama verði frá því þeir komu fyrst á markað snemma í apríl. Það hefur ekki verið fyrr en í maílok, að verðið hefur lækkað og þá um 25-30%. Þá hefur verið nokkuð um liðið frá því, að innfluttu tómatarnir seldust upp. Á þessum tíma (apríl og maí) hafa bændur fengið fimmta hluta verðmætis ársuppskerunnar. Ef 20% ársuppskerunnar lækka í verði um 30%, skerðist verðmæti hennar um 6% (30x0,2).

Sumir halda, að setja mætti heldur hærra verð á íslenska tómata en á innflutta eftir að verð innfluttra tómata hefði lækkað vegna lægri tolla, þar sem íslenskir tómatar þykja betri. Aðrir halda, að fyrsta verðið gæti haldist lengur, þegar lægra væri byrjað. Ekki þykir ósennilegt, að verðskerðingin yrði helmingur af því, sem hér hefur verið reiknað, þótt erfitt sé um að spá. Þá mundu tapast 3% af verðmæti ársuppskerunnar. Afkoma heimila framleiðendanna mundi skerðast allmikið meira hlutfallslega, þar sem ráðstöfunartekjur eru aðeins hluti af verðmæti uppskerunnar. – Verðþrýstingurinn á gúrkur, sem eru næstmikilvægastar gróðurhúsaafurðanna, og á papriku sýnist gera orðið líkur. Örðugra er að meta áhrifin á verð á blómkáli og hvítkáli. Þau gætu orðið misjöfn frá ári til árs, en ólíklega meiri en 4-6%.

 

Afleiðingar verðlækkunar

Afleiðingar verðþrýstingsins sýnast geta orðið þessar að meðaltali, en meiri hjá þeim sem kosta því til að sá snemma og ala tómata og gúrkur við rafljós og koma þannig fyrr en aðrir á markað með uppskeruna. Þannig er dæmi um framleiðanda sem fékk 30% verðmæta uppskerunnar fyrir maílok. Hætt er við að verðlækkun á fyrstu tómötunum dragi úr mönnum að kosta miklu til við uppeldi með rafljósum. Þeir mundu þá seinka ræktuninni og koma á markað af þunga á sama tíma og aðrir. Aukið framboð á sumrin þrýstir verðinu hratt niður og hraðar en salan eykst. Þannig var það í sumar sem leið. Verðið lækkaði á 4 vikum úr 135 kr. í 45 kr. eða um 2/3, en vikusalan varð aðeins rúmlega tvöföld að magni, þannig að söluverðmæti á viku ¼ minna. Lakari afkoma almennt mundi síðan verða til þess, að menn fækkuðu tómatahúsum og tefja fyrir því, að aðrir bættu við sig húsum. Með því móti drægist framleiðslan saman.

 

Stöðvast framsókn garðyrkjunnar?

Garðyrkjan verður stöðugt fjölbreyttari. Ýmsar nýjar afurðir verða vinsælar. Paprika er nýleg afurð hér á landi, en skilar nú verðmætum á borð við eldri afurðir eins og höfuðsalat, gulrætur og blómkál. Enn má nefna blaðlauk, silju og kínakál af nýjum afurðum. Þær tegundir ásamt steinselju og hreðkum hafa haldist í sama verði allt sumarið undanfarin ár. Innlend ræktun þessara tegunda nær að fullnægja eftirspurn. Hins vegar hafa sveppir og íssalat verið flutt inn allt sumarið, þar eð innlend ræktun hefur ekki fullnægt eftirspurn. Ræktun þessara tegunda hefur hafist í skjóli hárra tolla. Tollalækkun mundi bitna mest á afurðum sem þessum, þar sem innlend ræktun nær aldrei að fullnægja eftirspurninni.

Sú skerðing á tekjum framleiðenda, sem hér er reiknað með, kann að þykja óveruleg, og víst er hún minni en búist var við að óathuguðu máli. Þó kann hún að skipta sköpum fyrir garðyrkjuna, þar sem staða hennar snerist úr sókn í vörn, en það gerir gæfumuninn í atvinnugrein, þar sem skilyrði eru til aukinna afkasta. Sóknin hefur einmitt verið fólgin í ræktun nýrra tegunda, sem hefur hafist og aukist í skjóli tolla, og í aukinni raflýsingu til að koma uppskerunni fyrr fá markaðinn, en þannig hefur dregið úr þörfinni fyrir innflutning.

 

Lækkun kostnaðar

Uggur var í garðyrkjubændum, þegar þeir fréttu um ráðagerðir um lækkun tolla. Þeir vildu láta athuga, hvort stjórnvöld gætu ekki bætt þeim þá tekjuskerðingu, sem þeir þóttust sjá fyrir, með því að draga úr ýmsum álögum, sem eru á aðföngum þeirra. Ýmis tæki í gróðurhús eru hátolluð, sömuleiðis plöntulyf og græðlingar. Þetta mundi lækka allmikið í verði, ef tollar féllu niður, en samanlagt nemur það ekki háu hlutfalli af öllum kostnaði og trúlega lægra hlutfalli af tekjum framleiðenda en sem nemur reiknuðu tekjutapi vegna lægra afurðaverðs. Lækkað raforkuverð til ljósa væri hnitmiðuð ráðstöfun til að styrkja ræktunina á þeim tíma, sem verð á innfluttu grænmeti gæti haft áhrif á verð á íslensku grænmeti. Hins vegar væri hæpinn ávinningur fyrir garðyrkjubændur í heild að fá ódýrara lánsfjármagn til uppbyggingar gróðrarstöðva, þótt þeir sem fengju lánin hefðu hag af því. Markaðurinn er þegar svo mettur, að verðið lækkar verulega með auknu framboði, sbr. dæmið að ofan um verð á tómötum.

 

Innflutningsverslunin

Ekki hefur komið til greina hjá stjórnvöldum að draga úr forgangsrétti innlendrar garðyrkju. Í löngum umræðum um grænmetisverslun á Alþingi í vor sem leið mælti enginn með því. Þar var ágreiningsefnið fyrirkomulag innflutningsverslunarinnar þann tíma, sem innlendar afurðir fullnægja ekki eftirspurn. Nauðsynlegt sýnist að treysta betur forgangsrétt innlendrar garðyrkju, þegar innflytjendum fjölgar. Mestu varðar, að einstakir innflytjendur hafi ekki hag af því að selja frekar innflutt grænmeti en innlent. Ef innflytjandi hefur ekki innlent grænmeti á boðstólum, hefur hann ávinning af að halda áfram innflutningi, þótt uppskera sé hafin hér á landi, ella missir hann verkefni til að nýta þá aðstöðu, sem hann hefur komið sér upp. Í fjölmiðlum gæti síðan hafist áróður gegn forgangsrétti innlendrar garðyrkju með því að skírskota til stundarhagsmuna neytenda varðandi verð á innlendum og innfluttum afurðum. Slík skírskotun yrði áhrifameiri eftir að innflutta grænmetið hefði lækkað í verði vegna tollalækkana.

Koma má í veg fyrir, að innflytjendur hafi hag af því að versla frekar með innflutt grænmeti en innlent með því að setja það að skilyrði fyrir heimild til innflutningsverslunar með grænmeti, að viðkomandi hafi verslað með innlendar afurðir. Innflutningar mætti vera frjáls fyrirtækjum, sem hefðu í viðskiptum sínum náð ákveðnu hlutfalli innlendra og innfluttra afurða. – Hliðstæðar reglur mætti setja um innflutning á lifandi jurtum og afskornum blómum.

Eftir sem áður þyrfti að gera ráðstafanir til að tryggja, að innflutningur verði ekki umfram þörf þegar fer að styttast í uppskeru innanlands. Þann tíma yrði innflutningur að vera undir eftirliti, ef forgangsrétturinn á ekki að bregðast. Til greina kæmi að skipta innflutningsheimildinni eftir því hlutfalli, sem umsækjendur hafa verslað með innlendar afurðir undanfarið. Finnsk innflutningsyfirvöld hafa athyglisverða reglu um, að innflytjendur megi ekki gera bindandi pöntun eða kaup fyrr en að fengnu innflutningsleyfi. Reynslan frá í sumar sýnir, að brýn þörf er fyrir slíka varúðarreglu.

Fáar þjóðir fullnægja eins illa þörfum sínum fyrir matjurtir og annan jarðargróða til matar með eigin ræktun og íslendingar. Gott er til þess að vita, að enginn ábyrgur að löggjöf og landstjórn skyldi mæla með því, að slakað yrði á innflutningsvernd garðyrkjunnar í umræðum um innflutningsverslun í vor, þrátt fyrir þá óánægju sem var með skipulag hennar og mistök við innflutning. Annað mál er það, að tímabært er orðið, að stjórnvöld geri rökstudda grein fyrir afstöðu sinni til garðyrkju hér á landi, svo sem hver sé tilgangurinn með henni og hvers hún megi njóta til þess að sinna hlutverki sínu. Um það verður fjallað í annarri grein.

Frey 81 (1985) 27-9