Úthlutun fullvirðisréttar varð ekki alltaf sanngjörn miðað við þau skilyrði sem einstakir bændur höfðu þóst mega vænta fyrir búskap sinn í náinni framtíð. Úr ýmsu hefur verið bætt, og tíminn læknar sum sár.

Með fullvirðisrétti þykjast bændur búa við nokkurt öryggi, og er mikilsvert að það haldist. Núverandi fyrirkomulag við úthlutun fullvirðisréttar er lítt sveigjanlegt að eðlilegum breytingum á aðstæðum bænda og bújarða. Gæti það smám saman leitt til þess, að allir byggju illa og enginn vel. Það hlýtur að vera vandasamt að endurúthluta fullvirðisrétti, svo að aðlögun búskapar að breyttum aðstæðum verði bæði hagkvæm og réttlát.

Ekki verður séð, að þær aðferðir við framleiðslustjórn í landbúnaði, sem notaðar hafa verið í öðrum löndum, sem búa við markaðskerfi í vöruframleiðslu, séu í grundvallaratriðum frábrugðnar núverandi framleiðslustjórn hér á landi. Nokkur sveigjanleiki fæst með heimild til að selja framleiðslurétt. Með slíkri söluheimild yrði úthlutun framleiðsluréttar í raun úthlutun á varanlegri eign, og þykir ýmsum það óréttmætt. Æskilegt er að varðveita það öryggi, sem framleiðendur búa við, en draga úr framangreindum annmarka.

 

Útboð á framleiðslurétti gegn peningum

Fræðimenn hafa mælt með því fyrirkomulagi á veitingu veiðiheimilda í sjávarútvegi, að stjórnvöld seldu þær, og hefði ríkið tekjur af. Fulltrúar sjávarútvegsins hafa andmælt slíkri tekjuöflun ríkissjóðs. Hliðstætt því væri, að stjórnvöld seldu framleiðslurétt í landbúnaði. Hér skal sýnt hvernig það má gera án þess að skattleggja atvinnugreinina.

Ef gera á framleiðslurétt að söluverðmæti, verður kaupandi að vita hversu lengi rétturinn á að gilda. Athugum þá aðferð að selja hluta framleiðsluréttar með útboði. t.d. að selja 10% á ári til 10 ára, en það gæti gerst eins og nú er komið með því að fyrna núverandi fullvirðisrétt um 10% á ári. Í stað fullvirðisréttar sýnist mega nota það ráð breta varðandi kartöflur, að framleiðendur fái hlutfallslegan rétt til ræktunar, en heildarstærðin sé ákveðin til árs í senn og þar með raunverulegur réttur hvers í það sinn.

Til þess að bændur geti stundað búskap af ráðdeild, þurfa þeir að vita rétt sinn með góðum fyrirvara. Nokkur óvissa hlýtur að verða um niðurstöður á útboði. Draga mætti úróvissunni með því að skipta árlegu magni á fleiri útboð, t.d. 10 útboð á ári, en þá yrði 1% af heildarréttinum boðið út í hvert sinn. Gætu þá þeir, sem ekki náðu því sem þeir ætluðu sér, boðið aftur síðar á árinu. Nú er hugsanlegt að einhverjir vantreysti því að niðurstaða á slíku útboði með þátttöku einstaklinga einna yrði í sam­ræmi við hagsmuni sveitarinnar eða byggðarlagsins. Gætu ýmis almannasamtök (búnaðarfélög, búnaðarsamband, sveitarfélag, héraðsnefnd, afurðasölufélag) talið sig hafa ástæðu til að hafa nokkurn framleiðslurétt til ráðstöfunar í samræmi við hugmyndir um almannahag. Handhafa réttar mætti vera frjálst að afsala sér honum til annarra með þeim takmörkunum sem honum eru búin með fyrningu réttarins.

Tekjurnar sem fengjust á útboðinu þyrftu ekki að tapast búgreininni. Þær gætu runnið til allra handhafa búmarks í hlutfalli við skiptingu þeirra 99% sem eftir verða í hvert sinn.

 

Útboð á framleiðslurétti gegn atkvæðum

Í stað þess að gefa framleiðslurétt falan fyrir fé má halda útboð gegn atkvæðum. Menn hafa átt því einu að venjast að atkvæði verður að nota í hverju máli, ella verði þau ónýt. Atkvæðagreiðslu um réttindi einstakra manna með slíku hefðbundnu móti mundi fylgja öryggisleysi, þar sem meirihlutinn getur útlátalítið ráðið hlut einstaklingsins. Það útboð gegn atkvæðum, sem hér er um að ræða, beygði einstaklinginn hins vegar ekki undir vald meirihlutans. Með því yrði atkvæðum úthlutað reglulega til ráðstöfunar og menn fá laun, t.d. mánaðarlega, en þurfa ekki að nota þau fyrr en þeim sýnist. Úthlutun atkvæða getur farið fram með ýmsu móti. Ein aðferðin væri að miða úthlutaða atkvæðatölu við framleiðslurétt líðandi stundar. Menn gætu boðið atkvæði í einstakar óskir um framleiðslurétt, t.a.m. aðeins eigin ósk, en látið annað hlutlaust, eða tengt saman fleiri óskir. Sigurinn kostar því atkvæði, svo að menn verða að fara vel með atkvæði sín. Hinir, sem ekkert fengju, héldu atkvæðum sínum og stæðu þannig sterkar, þegar þeir vildu næst beita sér í atkvæðagreiðslu. Þar eð heimilt er að framselja úthlutun, er opnuð leið til tilfærslu á milli búa, auk þess sem menn geta stutt úthlutun til annarra með atkvæðum sínum.

Hér hefur verið gert ráð fyrir að úthlutuð atkvæði giltu um aðeins eina búgrein. Tengja mætti saman umfjöllun á öllum búgreinum með því að úthluta atkvæðum í hlutfalli við vinnuvikur hvers einstaklings í landbúnaði á hverju ári, og réðu menn því á hvaða búgreinar þeir ráðstöfuðu atkvæðum sínum. Leikreglurnar eru þannig, að hver atkvæðisbær maður mundi sjá sér hag í því að greiða atkvæði í málum eigin búgreinar. Einnig mætti láta málið í hendur búnaðarfélaganna, þannig að búnaðarfélögin fengju mánaðarlega eins mörg atkvæði og vinnuvikur í landbúnaði voru á félagssvæðinu undanfarin 3, 4 eða 5 ár. Fleiri aðferðir við úthlutun koma vitaskuld til greina, svo sem að úthluta helming atkvæða til einstaklinga í hlutfalli við vinnuvikur þeirra undanfarin nokkur ár og helming til búnaðarfélaga í hlutfalli við vinnuvikur á félagssvæðinu á sama tíma.

Meðan ekki er komin reynsla á útboð gegn atkvæðum, mætti nota það sem skoðanakönnun til hliðsjónar fyrir þá sem úthlutun ráða.

Frey 84(1988) 958, 957