Þótt neytendur geti stuðst við löggjöf um sanngjarna viðskiptahætti, þurfa margir aðstoð, ef út af ber í viðskiptum. Það er mikið öryggi fyrir þá, sem þykjast misrétti beittir, að eiga greiðan aðgang að þjónustu Neytendasamtakanna, en verða ekki einn og óstuddur að sækja mál sitt gagnvart fyrirtæki, sem býr oftast yfir meiri reynslu.

Í starfi Neytendasamtakanna ber þó meira á öðru. Verðsamanburður er gott fjölmiðlaefni. Hann er oft yfirborðskenndur, líkt og menn færu að bera saman verð á nýjum bílum í ólíkum verslunum. Bættar samgöngur hafa styrkt stærri staði í verðsamkeppni, en eftir sitja verslanir minni staða með síminnkandi viðskipti. Þannig komast þær í vítahring. Verslunin verður þá enn dýrari, og það freistar héraðsbúa til enn frekari innkaupa á stærri stöðum, en þeir, sem eiga erfitt um að sækja verslun langt, gjalda með síversnandi viðskiptakjörum. Viðskiptaráðuneytið lét nýlega fjalla um, hvernig snúast mætti við þessum vanda, eins og lesa má í greinargerð, sem það gaf út um málið haustið 1989 (sbr. 3. tbl. Neytendablaðsins 1990). Ekki hefur frést af aðgerðum í samræmi við þau úrræði sem þar var mælt með.

Hverfaverslanir hér í Reykjavík hafa lent í sama vítahring ásamt þeim viðskiptavinum þeirra, sem ekki eiga auðvelt með að sækja stórverslanir. Ekki kann ég ráð til að gæta hagsmuna þessa fólks, en fyrst mætti félag okkar, Neytendafélag höfuðborgarsvæðisins, gera sér grein fyrir málinu. Enn vil ég nefna það, sem lýtur að öryggi neytenda. Ekki því öryggi, sem óbreyttur neytandi getur notið með kunnáttu starfsmanna Neytendasamtakanna, þegar á bjátar, heldur lífsöryggi neytenda almennt og þá sérstaklega okkar reykvíkinga og annarra, sem standa fjærst matvælaframleiðslu. Það eru líklega ein fimmtán ár síðan Ólafur Ólafsson landlæknir tók það mál upp í almannavarnaráði, að stjórnvöld gættu að fæðuöryggi landsmanna á þrengingatímum. Það leiddi til þess, að vorið 1985 voru felld í lög um almannavarnir ákvæði um hagvarnaráð, sem á að gæta að þeim málum og kölluð eru almannaviðbúnaður í nálægum löndum. Nú er ekki annað af því að segja eftir 6 ár en að á þeim dögum, sem herir bandamanna ætluðu að láta til skarar skríða gegn her íraks í Kúveit, fréttist svo í sömu andránni, að hagvarnaráð hefði komið saman á fyrsta fund sinn og hefði það heldur óljósa hugmynd um birgðastöðu og að ítalir hefðu hamstrað matvæli af ótta við ófrið víðar en við Persaflóa.

Ólafur landlæknir lét raunar ekki við það sitja að koma málinu af stað í almannavarnaráði fyrir 15 árum. Þegar árin liðu eftir setningu laga um hagvarnaráð, án þess að þeim væri sinnt, lágu leiðir okkar Óafs saman í þessu máli. Við reifuðum það í greinargerð og gengum á fund þriggja ráðherra vorið 1989, þeirra sem okkur fannst það helst varða, en það voru heilbrigðisráðherra, landbúnaðarráðherra og dómsmálaráðherra. Við töldum dómsmálaráðherra varða þetta sérstaklega, þar sem almannavarnir eru á ábyrgð hans, og töldum þar vel að verki staðið, en hins vegar fellur hagvarnaráð undir forsætisráðherra og er skipað öllum ráðuneytisstjórunum. Þótti okkur værð þessbenda til þess, að of mörg höfuð væru á og færi betur að fella málið undir almannavarnaráð og þar með dómsmálaráðherra. Raunar töluðum við við forsætisráðherra um málið þegar sumarið 1987, áður en við sömdum greinargerðina.

Málflutningur okkar hefur engan árangur borið. Þótt hér á landi sé gnægð matvæla, eru þau fábreytt. Í þrengingum, svo sem af völdum ófriðar, varðar mestu vegna þeirra, sem eru í vexti, kvenna í barneign og gamalmenna, að haldist sú fjölbreytni í fæðuframboði sem fylgir kúahaldi og garðyrkju, en þá er kúahald háð ríkulegri fóðuröflun á venjulegum tímum, svo að nóg verði eftir til mjólkurframleiðslu, ef aðföng til landbúnaðar takmarkast. Við reifuðum málið í trausti þess, að ráðamenn tækju við sér og fylgdu því eftir af alvöru. Það lá vitaskuld í máli okkar, að annað væri óvitaskapur. Hér er mál að vinna fyrir Neytendasamtökin að hreyfa við stjórnvöldum að fylgja eftir þeim lögum, sem Alþingi hefur samhljóða falið þeim að vinna. Mér hefur þótt forysta Neytendasamtakanna tala gáleysislega um þessi mál, þegar í húfi eru forsendur fyrir því, að hér sé ríkuleg fóðuröflun og fjölbreytt garðyrkja. Mér hefur fundist þar koma fram einfaldur og allt að því einfeldnislegur skilningur á hlutskipti okkar neytenda, ekki síst okkar reykvíkinga. Fjölbreytt fæðuöflun á Íslandi varðar lífsöryggi allra, hún er í þágu okkar reykvíkinga, á sama hátt og skólar landsins eru ekki haldnir vegna kennara, heldur nemenda. Málflutningur okkar Ólafs var hugsaður til þess að koma málinu á stig aðgerðarannsókna og aðgerða.

Neytendablaðinu 37 5 1991