Nú eru góðir tímar fyrir þá, sem báru byltingarþrána í brjósti, en höfðu lengi bælt hana með sér.  Ekki er fyrr búið að viðurkenna almennt, að bylting sameignarsinna í Rússlandi 1917 hafi verið hin verstu mistök en byltingarorðið er orðið viðurkenningarorð í munni íslenskra ráðamanna, þegar rætt er um framkvæmd Rómarsáttmála Evrópubandalagsins frá 1957 um sameiginlegan markað.  Þeir, sem höfðu vænst góðs af rússnesku byltingunni, voru flestir orðnir afhuga því þjóðskipulagi, sem hún leiddi til, en mega nú vakna upp maður eftir mann og sjá í miklum ráðagerðum sumra íslendinga ýmislegt úr byltingarboðskapnum og láta sér vel líka.  Þeir geta hugsað með sjálfum sér:  Var það ekki það sem Marx kenndi eða þetta var skoðun Trotskis og þetta sagði Lenin.

Það var almenn sannfæring byltingarsinnaðra sameignarsinna fyrir 1917, að í Þýskalandi væru bestar forsendur öreigabyltingar samkvæmt kenningum Marx, þar eð umsköpun atvinnulífsins brunaði þar fram með upphleðslu og samþjöppun fyrirtækjaauðs og fjölgaði ört í stétt iðnverkamanna.  Hins vegar væri Rússland vanþróað í atvinnuháttum til byltingar.  Þetta var þá einnig sannfæring Leníns.  Engu að síður greip hann tækifærið, með fyrirgreiðslu þýsku herstjórnarinnar til að komast austur til ættlands síns, og tókst að gera byltingu í tómarúmi valds, sem þar var orðið (og samdi svo snarlega frið við þjóðverja).  Trotski taldi, að bylting í aðeins einu landi gæti ekki leitt til árangurs, heldur yrði hún að vera víðtækari.  Nú þegar ryðja skal úr vegi ýmsum hindrunum á vegi auðmagnsins í nokkrum hinna þróuðustu ríkja heims, ætti ekki að koma á óvart, að gamlir trotskíistar vilji, að íslendingar verði þátttakendur í því, þar sem það styrkir forsendur byltingarinnar að dómi þeirra.  Minnast má skoðunar Brynjólfs Bjarnasonar á efri árum hans, að þess væri langt að bíða, að forsendur yrðu til byltingar sem undanfara sameignarskipulagsins.

Það er vitaskuld erfitt að greina áhrif kenningasmiðs eins og Marx á viðhorf síðari tíma manna, meðal annars fyrir það, að þeir, sem sótt hafa til hans pólitískan skilning, skiptust í andstæðar fylkingar lýðræðissinnaðra og byltingarsinnaðra sameignarsinna, og síðar hurfu lýðræðissinnarnir frá sameignarstefnu í atvinnumálum að mestu.  Svo eru það allmargir, en sumir nokkurs megandi, sem fluttu sig enn lengra til hægri á pólitíska ásnum.

Ég hef haft ástæður til að kynna mér afstöðu manna til landbúnaðarskipulags víða um heim og á ýmsum tímum.  Áberandi er, hvað sú tilfinning hefur verið sterk meðal sameignarsinna, að landbúnaðurinn væri vandræðagrein, og vantraust þeirra á úrræði sveitamanna.  Þess vegna þarf það ekki að koma á óvart, að talsmenn öflugrar framrásar auðmagnskerfisins meðal þessara manna hér á landi láta nú mikinn gagnvart landbúnaðarskipulaginu, og ekki heldur ofurtrú þeirra á leiðsögn markaðsins.

Við, sem lærðum með glöðu geði kenningar um það, hvernig framboð og eftirspurn á markaði leiðbeindi mönnum um hagkvæma framleiðsluhætti, þurftum líka að læra, hvernig markaðurinn væri ekki alltaf farsæl leiðsögn.  (Sumir þurftu vitaskuld að hafa dálítið fyrir því).  Það vill svo til, að það á ekki síst við um landbúnaðinn, þar sem framboðið lýtur ekki að fullu stjórn mannanna og eftirspurnin þjónar lífshagsmunum.  Önnur grein hagfræðinnar, sem er enn vandmeðfarnari, fjallar um öryggi framleiðenda og neytenda.  Þetta hvort tveggja eru veigamiklar forsendur fyrir högum íslendinga.  Nú hefði mátt ætla, að þeir, sem sáu sameignarskipulagið bregðast vonum sínum um hagkvæmt þjóðfélag, tækju öðrum betur eftir því, að markaðskerfið hefði líka sínar takmarkanir, en mér sýnist þvert á móti þeir vera sérlega óbilgjarnir að halda fram hinum einföldu lausnum markaðskerfisins sem fullkomnum, en sniðganga þá annmarkana, sem eru þó viðurkenndir í vestrænni hagfræði.  Skildu mennirnir ekki ráða við að læra meira í einu eða skyldi fyrirvaralaus kreddutilhneiging ráða skoðunum þeirra, þannig að þeir hafi aðeins skipt um kreddu?

Um leið er það umhugsunarefni, hvað þeir sinna lítið þeim atvinnugreinum, sem þeim standa næst hér í Reykjavík, þar sem þjónusta er helsta atvinnugreinin.  Mikill hluti hennar, þ.e.a.s. skólar og heilsugæsla, starfar án aðhalds markaðar.  Eftirspurnin, þ.e. aðsókn að skólum og heilsugæslu, mótast af stórfelldum niðurgreiðslum ríkis og sveitarfélaga, en neytendur, nemendur og sjúklingar, greiða aðeins brot af kostnaðinum.  Í helstu atvinnugreinum höfuðborgarinnar eru markaðsöflin ennfremur trufluð með því, að haldið er uppi með samtökum lágmarksverði á veigamesta kostnaðarliðnum, launum starfsmanna.  Hvernig skyldi standa á því, að þeir, sem sjá svo mikla og alvarlega markaðsbrenglun í jafnveigalítilli atvinnugrein og landbúnaðurinn er orðinn í þjóðhagsreikningum, skuli sniðganga þá atvinnuvegi, þar sem brenglunin er þó miklu meiri og þeir ættu að vera kunnugastir í vegna starfa sinna, svo sem við Háskóla Íslands? Mér dettur stundum í hug, þegar ég sé ýkjudóma um byrðar þjóðarinnar af landbúnaði að senda þyrfti höfunda á endurmenntunarnámskeið í hlutfallareikningi grunnskólans.

Nú er vitaskuld margt að segja um hagfelldara landbúnaðarskipulag hér á landi sem annars staðar og á ýmsum tímum, en í öllum þessum ritum, sem rekja má til Marx, ber svo mikið á hliðstæðum hleypidómum (og þarf þar ekki að vera við hann að sakast), að mér finnst þessi kenningasmíði þeirra, sem tekið hafa við arfinum, vera æði mikið eins og hleypidómar gagnvart framandi fólki og ekki síst hleypidómar borgarbúa gagnvart frumstæðu fólki og þjóðfélagsgerð þess, en sveitamenn eru vitaskuld frumstæðir í vitund þeirra ýmissa.

Lenin vissi, að hann tók við vanþróuðu búi í Rússlandi og lagði kapp á að knýja áfram iðnþróun.  Eitt vígorða hans var:  Sósíalismi er rafvæðing.  Þess vegna má það hræra hjarta þeirra, sem áður voru snortnir af orðum hans, að endurvaktir byltingarsinnar tóku sig til og mæltu með orkusölu til nýs álvers, áður en þeir vissu um skilmálana.  Áhuginn á álframleiðslu minnir á mat sovétmanna á efnahagslegar framfarir.  Þeir mældu þær í stálframleiðslu.  Það varð markmið í sjálfu sér að framleiða raforku og stál, en allt aðhald vantaði til að það yrði í hófi.  Nú eru slíkar hagvaxtaraðgerðir, þegar menn skjóta yfir markið, ekkert sérkenni lenínista.  Þetta einkennir býsna margar aðgerðir íslendinga, þar sem hið opinbera hefur komið að máli, allt frá misheppnuðum tilraunum Skúla fógeta í Reykjavík til Íslandslax í Grindavík, og mikilvæg forsenda fyrir rafvæðingu handa erlendum stórkaupendum er, að Landsvirkjun er fyrirtæki með ábyrgð án takmarkana, og lánardrottnar hennar mega vita, að tap hennar á slíkri orkusölu yrði borið uppi af almennum orkukaupendum í landinu.

Byltingarsinnar hafa lítið vitað, hvernig þeir ættu að ná markmiði sínu, þegar á hólminn kemur.  Byltingin í Frakklandi 1789 í nafni frelsis, jafnréttis og bræðralags skilaði byltingarsinnanum Napóleón í einveldisstól.  Byltingarmennirnir í Rússlandi tóku við tómarúmi og voru ekki tilbúnir með mikið sem gagn var í.  Byltingarsinnar nútímans á Íslandi hafa lagt á borðið 1 038 blaðsíður af lögum og reglum Evrópubandalagsins og boðið íslendingum að gangast inn á það.  Niðurstaða Alþýðusambandsins er, að það sé í þágu almennings.  Ekki er þó þar um að ræða neitt, sem íslendingar gætu ekki samþykkt að koma á hjá sér af sjálfsdáðum, ef mönnum þætti það rétt að loknum athugunum og umræðum í stjórnmálaflokkum, kosningum til alþingis og nefndarstarfi á alþingi.  Þarna er boðin bylting, sem gerir allt þetta starf óþarft, það er bara að taka við því, sem kemur og bíða og vona, að það verði gott.

Þarna eru til dæmis ákvæði um vinnu unglinga.  Þetta er eitt erfiðasta viðfangsefni hvers þjóðfélags, hvernig megi bæði vernda unglinga og gera þá hlutgenga meðal fullorðinna í starfi og öllu lífi sínu.  Ástæður eru mjög misjafnar, þannig að það, sem á einum stað má telja reglu gegn vinnuþrælkun, verður annars staðar regla til að útskúfa unglingum.  Það er sem kunnugt er eitt helsta einkenni vinnumarkaðar Evrópubandalagsins, að mikill hluti unga fólksins er atvinnulaus.

Hér á landi er regla, sem ekki er bundin lögum, sem leiðir til þess, að svo til allir launþegar eru í verkalýðsfélagi.  Þetta gerist með samkomulagi samtaka vinnuveitenda og launþega um, að vinnuveitendur taki ekki menn í vinnu nema þeir séu í verkalýðsfélagi.  Þetta þykir sumum gott og öðrum ekki, en mundi ekki standast fyrir lögum Evrópubandalagsins.  Undir lögsögu Evrópubandalagsins (eða efnahagssvæðisins?) mætti fá  spennandi mál fyrir lögmann í krossferðarhug gegn verkalýðshreyfingunni fyrir hönd litla mannsins á götunni (á hjólinu).  Eða eigum við að búast heldur við því, að þessi skipan á Íslandi yrði til eftirbreytni í Englandi, Þýskalandi og Ítalíu?

Árið 1961 greip sú tilfinning um sig meðal þeirra, sem voru í forystu efnahagsstjórnar á Íslandi, að mikið væri í húfi fyrir íslendinga að fá aðild að Evrópubandalaginu, sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu.  Má lesa ræður manna um, að sjávarútvegurinn væri kominn að mörkum þess, sem hann gæti skilað þjóðinni og að ekki gæti vaxið upp iðnaður án aðildar, og mætti þá ekki horfa í að fórna fiskveiðiréttindum.  Nú vitum við, að þetta var ástæðulaust óðagot.  Íslendingar gerðu fríverslunarsamning um iðnvarning við bandalagið.  Það er meðal annars það, sem veitir nokkra yfirburði til álframleiðslu fyrir Evrópumarkað, svo að álframleiðandi ætti að geta greitt hærra orkuverð hér en í Kanada að öðru jöfnu.

Nú hefur gripið um sig sú tilfinning, að íslendingum sé mikill vandi á höndum vegna samruna markaðar Evrópubandalagsins 1992.  Furðumargir virðast álíta, að sú nýskipan spilli viðskiptum íslendinga og ræða byltingarkenndar leiðir til úrbóta þrátt fyrir það að ekki hefur komið til greina að fella úr gildi fríverslunarsamninginn við bandalagið.  Sú samræming sem verður í Evrópubandalaginu auðveldar íslendingum viðskipti við lönd bandalagsins.  Framleiðandi, sem nú sækir á markað þar í löndum, kann að þurfa að laga afurðir sínar að mismunandi stöðlum.  Þótt hann hafi lagað framleiðslu sína að stöðlum Hollands, er ekki víst, að varan fullnægi þeim skilyrðum, sem gilda í Grikklandi.  Eftir 1992 verður einn staðall í þessum löndum og því allt greiðara.  Sem dæmi um þetta er, að allar sorptunnur bandalagsins verða að vera af sömu stærð (90 sm háar — hvað eru þær háar heima hjá þér, lesandi góður?), enda mun standa upp á dönsk sveitarfélög þegar þau hvert fyrir sig þurfa að endurnýja sorptunnur sínar á næstunni, að lækka tunnurnar talsvert og breyta allri tækni í samræmi við það.

Þetta má vera dæmi um þá stórkostlegu samræmingaráráttu, sem Brusselveldið er haldið og styrkir vissulega hleypidóma mína um skipulagsanda þjóðverja og stjórnarfar það sem frakkar hafa hlotið í arf frá Napóleóni.  Það er ekki vottur um merkilega hugkvæmni að kunna ekki betri ráð til hagfelldra atvinnuhátta og farsældar meðal Evrópumanna.  Það er líka býsna mikil niðurlæging þeirra, sem trúa á sjálfræði í viðskiptum og tækniþróun og þeirra sem hafa beitt sér fyrir sjálfsforræði sveitarfélaga, að beygja sig undir slíkt.

Það eru vitaskuld mörg álitamál í þessum efnum að bregðast við fyrir íslendinga.  Þar við bætist, að ýmsar tilfinningar, sem ekki hafa skipt máli, geta ráðið afstöðu.  Býsna margir íslendingar hrista höfuðið yfir óstjórn hér með athugasemdum um, að ástandið sé geggjað og telja íslendinga auðheyrilega ekki færa um að stjórna málum sínum borið saman við ýmsa aðra.  Þetta kemur ekki síst fram þegar skýra skal íslensk stjórnmál fyrir útlendingum.  Þetta fólk fylgir þó gjarna einhverjum stjórnmálaflokkanna.  Þegar nú býðst tækifæri til að leggja stjórn landsins að miklu leyti undir Rómar- og Brusselvald, getur það sameinast um þann málstað og lagt gömul ágreiningsmál til hliðar.

Þjóðviljanum  3. janúar 1991