Í nærfellt hálfa öld hafa menn sveist við það að reikna út framleiðslukostnað sauðfjárafurða sem grundvöll verðlagningar. Við þetta hafa verið fulltrúar hagsmunaaðila, framleiðenda og fólksins í bæjunum, en með oddamanni tilnefndum af hæstarétti, þegar samkomulag hefur ekki náðst. Oddamaðurinn hefur alltaf verið neytandi í þéttbýlinu syðra, og það sæti hefur aldrei skipað maður, sem starfað hefur fyrir samtök bænda. Ég minnist í svip tveggja kennara viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem verið hafa oddamenn.

Þórólfur Matthíasson, kennari við áðurnefnda háskóladeild, fjallar um verðlagninguna í Vísbendingu  50/1990 (20. desember -[1]¸ Væri hægt að lækka verð á lambakjöti með einu pennastriki?). Hann segir fátt vitað um það, hvernig verðlagsgrundvöllurinn hafi fylgt raunverulegri kostnaðarþróun, „en vísbendingarnar ganga allar í þá átt að kostnaður sé fremur ofmetinn en vanmetinn.“ Þetta er stór dómur um niðurstöður hinna virtustu manna. Áður en ég fjalla um rök hans, vil ég rifja upp, hvaða forsendur landbúnaðurinn hefur búið við í þessum efnum.

Allt frá því um 1930 fram á nýliðinn áratug var það markmið búnaðarsamtakanna að gera sauðfjárrækt samkeppnishæfa við sjávarútveg við útflutning á frystu dilkakjöti. Það kom m. a. fram í því, að kynbætur sauðfjár voru miðaðar við mat breskra kjötkaupmanna á kjötgæðum. Eftir að ráðandi menn höfðu gefið frá sér von um, að þetta markmið næðist, hefur markmiðið verið að treysta hlut sauðfjárræktarinnar í samkeppni við afurðir, sem framleiddar eru án grasnytja, svo sem svínakjöt, fuglakjöt og dýrari fisktegundir.

Mjólkurframleiðslan hefur ekki verið talin í eins beinni samkeppni við erlenda framleiðslu né afurðir framleiddar án grasnytja. Engu að síður hafa búnaðarsamtökin haft tugi sérfræðinga að störfum til að leggja á ráðin við bændur um lækkun framleiðslukostnaðar á mjólk.

Í þeirri stöðu, sem landbúnaðurinn er nú, í gæti ekkert verið forystu bændasamtakanna og starfsmönnum þeirra meira fagnaðarefni en vitneskja um, að tekist hefði eða takast mætti að lækka framleiðslukostnað grasnytjabúgreinanna. Í þeim anda voru tveir fyrstu dagar árlegs ráðunautafundar Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1990 helgaðir lækkun búvöruverðs, og fyrsta erindið þar var um stöðu sauðfjárræktar að þessu leyti.

Í nærfellt hálfa öld hefur verið um það þjóðarsátt að verðleggja afurðir þessara grasnytja þannig, að þeir, sem framleiddu þær, hefðu afkomu eins og almenningur í bæjunum. Þetta hefur verið sá grundvöllur, sem hagsmunatogstreita bænda og neytenda hefur staðið á. Álitaefnin hafa vitaskuld verið mörg um liði grundvallarins, og hver niðurstaða, sem náðst hefur samkomulag um, hefur fljótt gengið úr sér. Það sést gleggst af því, að hlutfall vinnu af heildarkostnaðinum var í upphafi, árið 1943, yfir 90%, en er nú 40-45%. Nefndarmenn hafa búið við margs konar aðhald, svo sem það, að ofmat eða vanmat á kostnaði og tekjum grundvallarins kemur fram í kjörum bænda, sem metin eru af ýmsum, og að það mæðir á stjórnvöldum, sem vilja halda almennu verðlagi í skefjum, þegar kostnaðarliðir hækka.

ÞM heldur því fram, að hvorki landbúnaðarráðuneyti né bændasambandið né búreikningastofa landbúnaðarins hafi hagsmuni af að leita uppi sannleikann í þessu efni. Hann heldur því ennfremur fram að „reiknireglurnar" gefi „ekki svigrúm til að leiðrétta kostnaðar þróun vegna tækniþróunar nema að mjög takmörkuðu leyti." Áðurnefnd lækkun hlutdeildar vinnunnar í grundvellinum bendir til annars.

ÞM vísar til erindisins á ráðunautafundinum um stöðu sauðfjárræktarinnar, þar sem sagði, að vinnutími á ærgildisafurð á sauðfjárræktarbúum hefði ekki minnkað samkvæmt búreikningum frá 1969 til 1988. „Sú vinnutímastytting sem átti að verða kemur hins vegar ekki fram vegna slaklegs eftirrekstrar þeirra er taka á móti búreikningum," heldur hann fram. Hvernig á þá að skýra það, sem fram kemur í riti ráðunautafundarins, að vinnutími á ærgildisafurð á kúabúum minnkaði? Hefði ekki mátt búast við því, ef slaklega hefur verið staðið að búreikningum, að þess gætti ekki síður í tölum kúabúanna og jafnvel enn frekar? Hvernig gerist það, að einstakir vinnuliðir sauðfjárbúanna, svo sem við heyöflun og við hirðingu fjárins, lækka jafnt og þétt, en aðrir vega það upp? Hvernig getur slíkur mismunur á þróun kostnaðarliða stutt áfellisdóm ÞM um slaklegan eftirrekstur? Mismunur á þróun kostnaðarliðanna hefur ekki nein áhrif á þá hagsmuni, sem ÞM telur vera þjónað með illa unnum niðurstöðum. Gerir ÞM ráð fyrir því, að vinnutími hafi verið rétt færður upphafsárið 1969? Hann gerir greinilega ráð fyrir því að villan hafi vaxið ár frá ári. — Ekki kemur fram í grein ÞM, hvort niðurstöðum búreikninga hafi verið fylgt í þessu efni við samningu verðlagsgrundvallar afurðanna, en það voru reyndar verðlagsreglurnar, sem voru efni greinarinnar.

Hér hefur sem sagt verið búin til með áhlaupi samsæriskenning, þar sem þeim, sem að samsærinu standa, er ætlað það að fela staðreyndir, sem þeir kysu framar öllu öðru að geta skýrt frá. Þeir, sem eiga að hafa lagt samsærinu lið, bændurnir, sem færðu búreikningana, eiga að hafa gert það skipulega og látið suma liði lækka, en aðra hækka, þótt þar hafi vitanlega orðið nokkur mannaskipti.

Þetta verður að nægja um samsæriskenningu ÞM. Hann er hagfræðingur, en það eru helst sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar, sem gefa sig að slíkum kenningum.

Lítum þá á hagfræðileg tök hans, eins og þau koma fram í notkun hagfræðilegra heimilda, við að rökstyðja fyrrnefnda ályktun, að allt bendi til þess, að kostnaður hafi fremur verið ofmetinn en vanmetinn. Það var viðfangsefni höfunda erindisins um stöðu sauðfjárræktar á ráðunautafundinum að benda á, hversu misjafn árangur væri á sauðfjárbúum, til að gera grein fyrir, hversu mætti lækka framleiðslukostnaðinn. Þar studdust þeir við tölur búreikninga, en báru þær saman við verðlagsgrundvallartölur að því er virðist til að sannfæra áheyrendur um, að þeirra eigin tölur væru ekki fjarri lagi. Það kemur sem sagt ekki fram, að þeir telji, hvað þá heldur rökstyðji, að eitthvað sé að tölum grundvallarins að finna. Þeir benda á, að tölur verðlagsgrundvallarins um ákveðna kostnaðarliði væru 7% hærri en tölur þeirra. Þessi ábending þeirra um 7% í mun á tölum þeirra frá því, sem þeir virðast telja réttast, er eina vísbendingin, sem ÞM nefnir, fyrir ályktun sinni að ofan um ofmetinn kostnað, og hann rökstyður hana ekki. Síðan spinnur hann um það, hvað miklir hagsmunir séu í húfi og reiknar framleiðniaukningu án þess að vísa til nokkurra gagna.

Er grein ÞM samboðin kennara við Háskóla Íslands?

Vísbending  9 (1991): 3, 2-3