Ég nýt þess sem leiðsögumaður og skipuleggjandi leiðangra að vera víða kunnugur í sveitum. Hvenær sem ég tek að mér ferð um landið og get einhverju ráðið um tilhögun, leita ég færist að komast í námunda við sveitafólk með heimsókn á bæi og með því að leita leiðsagnar þess, þótt í litlu sé. Þetta geri ég, af því að reynslan hefur kennt mér, að ferðafólkið metur ekkert meira.

Eftir að ég varð þess áskynja, að búfé á afrétti er nú talsvert færra en landið ber, hefur mér verið hugsað til þess, hvað það mundi lífga landið í augum þeirra sem fara um fjallvegi, að þar mætti sjá stóðhross ekki síður en sauðkindur. Því miður hefur víðast verið tekið fyrir rekstur hrossa á fjall.

Steinunn Harðardóttir birti grein um ferðir útlendinga um hálendið í Flakkaranum, blaði Félags leiðsögumanna (7. Tbl. 1991 –„Friðun hálendisins og ferðamennska – hvernig fer það saman?“). Greinin er að stofni erindi hennar á ráðstefnu um ferðamál. Þar segir hún um búfjárbeit á hálendi:

„Það er löngu orðið tímabært að friða hálendið og útiloka þar alla beit. Því þarf að semja um það við þá bændur sem nýta svæðið nú. Sauðfé hefur fækkað svo mjög á undanförnum árum, að það ætti að vera nægileg beit bæði fyrir sauðfé og hross utan þess viðkvæma og dýrmæta svæðis“.

Ég birti athugasemdir í Flakkaranum vegna orða Steinunnar og vil leyfa lesendum Freys að fylgjast með málinu.

Rétt er, sem Steinunn segir, að hálendið er dýrmætt, og rétt er, að landið er viðkvæmt. Ég var árin 1989-91 fulltrúi Náttúruverndarráðs í norrænu verkefni sem laut að því að gera grein fyrir því hvernig landbúnaður mótar landslag. Þegar ég tók það að mér, hélt ég, að svo mikill ágreiningur væri um það meðal þeirra, sem starfs síns vegna máttu gerst vita, að ég yrði í vandræðum að gera grein fyrir hvernig málið stæði hér á landi. Nú er ég ekki að tala um, hvernig landið hefur mótazt af búsetu í 1100 ár, heldur hvernig það mótast af búfjárnytjum á líðandi stund.

Ég komst að því, að ekki var sá ágreiningur um þessi mál, sem ég bjóst við. Rofabarðafræðingar telja ekki, að sauðfjárbeit valdi uppblæstri, eins og henni er nú háttað. Á afréttum er hvergi ofbeit samkvæmt rökstuddu áliti. Það sem kemur fyrir, að búfé gengur of nærri landi, er það af því, að ferð gripanna er ekki frjáls vegna girðinga eða hrossum er stefnt saman á áningastað á fjöllum. Það eru 40 sveitir sem mega reka á 20 helztu hálendisafréttina. Samkvæmt mati landbúnaðarins þola þeir beit 155 þúsund áa. Sumarið 1991 gengu þar um 56 þúsund ær.

Kjölur er sá hálendisafréttur sem leiðsögumenn sjá helzt. Ökuleiðin er um auðnir og víða blasa við rofabörð. Mér varð spurn, þegar ég ók Kjöl inn á Hveravelli um miðjan júlí í fyrrasumar, hvernig það mætti vera, eins og ég hafði fengið að vita, að þar þyldi gróðurinn þrefalt fleira fé en þar gengur. Til baka gekk ég um Þjófadali og þaðan gömlu reiðgötuna í Hvítárnes. Á þeirri leið sér gangandi maður ekki nær sér annað en gróið land. Í Þjófadölum og í Hvítárnesi er graslendi, og þar var allmargt fé, en þar á milli er þurr mói, greinilega viðkvæmur, en ekki rofinn, og þar var hvergi sauðfé að sjá nema svokallaðar hlaupakindur, þ.e.a.s. fé sem hlaupa á milli graslendissvæðanna.

Það er margt sem leiðsögumenn þurfa að kunna skil á. Þegar því er haldið fram, að utan hálendisafréttanna ætti að vera nægileg beit fyrir sauðfé og hross, þar sem sauðfé hefur fækkað svo mjög á undanförnum árum, er þess að gæta að hrossum hefur fjölgað mjög. Þó að búfé hafi fækkað verulega á einni jörð, nýtist það ekki þeim sem eru með myndarleg fjárbú á öðrum jörðum. Sauðfé og hross ganga óvíða laus í heimahögum innan sveitar, heldur eru hneppt í girðingar. Heimalönd hafa gott af sumarfriðun, og það truflar rás orma sem setjast að í innyflum búfjár að flytja það í aðra haga sumarlangt. Það getur jafnvel bætt gróður til fjalla að beita þar fé og kynni að bæta hann enn frekar, ef hross gengju þar. Trúlega yrði þá bezt fyrir gróðurinn að reka hross annað hvert ár á fjall. Það er þó ekki raunhæft, því að gripir þurfa reglusamt líferni.

Grasnytjar eru af mörgum ástæðum þjóðnytjar, ef rétt er að staðið og án tillits til þeirra ánægju sem það veitir ferðamönnum að kynnast þeim. Það er hlutverk leiðsögumanna að kynna þjóðhætti sem heilla ferðamenn, þ.á.m. grasnytjar. Til þess að gera það vel þurfa þeir að afla sér vitnesku í niðurstöðum rannsókna á gróðurfari og beit. Til þess treysti ég þeim vel eftir góð kynni af forystumönnum þeirra, þ.á.m. þeim sem átti tilefni þessara athugasemda minna.

Flakkaranum 19 (1992) 1; 13-14 (leiðrétting á baksíðu 2. tbl.); Frey 88 (1992) 336-7.